Egilsstaðir og Fellabær eru á Fljótsdalshéraði, en þar er eitthvert veðursælasta svæði landsins, minnir helzt á meginlandsloftslag.
Egilsstaðahreppur fékk kaupstaðaréttindi árið 1987 og heitir nú Egilsstaðabær. Atvinnulíf staðanna byggist á þjónustu við byggðirnar í kring og við Egilsstaði er einn af fullkomnustu flugvöllum landsins, sem notaður er sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Egilsstaðir eru samgöngumiðstöð Austurlands og fjöldi ferðamanna vex með ári hverju. Íslenzkir ferðalangar sækja og mjög til Fljótsdalshéraðs að sumri til, enda er náttúrufegurð einstök sem og veðurblíðan. Ferðamenn finna margt að skoða á Héraði. Afar fjölbreytt þjónusta er í boði fyrir þá og er gisti- og veitingaaðstaða eins og best verður á kosið.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 690 Km. um Suðurland, og um Norðurland 650 km.