Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Húsey

Húsey er yzti bærinn í Hróarstungu á samnefndu eylendi skammt frá mótum Jökulsár á Dal og   Lagarfljóts. Húseyjan er u.þ.b. 30 km² en heildarland jarðarinnar u.þ.b. 40 km². Svæðið er mjög flatlent og rís hæst 13 m yfir sjó. Húsey er bezta selveiðijörð við Héraðsflóa og er nýtt sem slík í smáum stíl. Árið 1946 var Geirastaðakvísl, sem fell úr Jöklu í Lagarfljót, stífluð. Hún var orðin skaðræðisfljót, sem braut land til beggja hliða, og einangraði Húseyna frá Hróarstungu.

Núna liggur vegurinn niður að Húsey á þessari uppfyllingu. Einmitt á þeim slóðum, þar sem vegurinn liggur næst ánni er upplagt að stanza og huga að selnum, sem er oftast eru tugum eða hundruðum saman í ánni eða mókandi á eyrunum andspænis. Húsey er gósenland fyrir náttúruunnendur. Þarna er hægt að una sér dögum saman við fuglaskoðun (30 teg. varpfugla). Þótt gróðurinn virðist ekki áhugaverður við fyrstu sýn, er þarna u.þ.b. 170 tegundir plantna. Ferfætlingum bregður fyrir af og til, s.s. hreindýrum, refum og minkum.

Silungur og lax er veiddur í net í ánni og dvalargestum í Húsey er geta farið með í vitjanir, ef þeir óska. Farfuglaheimilið í Húsey býður alls konar náttúruskoðun og reiðtúra, stutta og langa. Dvalargestir fá sína eigin hesta, læra að umgangast þá og geta riðið út daglega. Gjarnan er farið niður á sandana meðfram ströndinni, þar sem hvali rekur oft á land, og alla leið til Borgarfjarðar eystri í lengri ferðum. Alls heldur gestgjafinn á Húsey u.þ.b. 50 hesta.

Bóndinn á Húsey, Örn Þorleifsson, tekur oft að sér undanvillingskópa og elur þá heima í tjörn rétt við bæinn. Þeir elta hann eins og hundar, þegar að fóðrun kemur. Hann hefur líka laðað að sér grágæsir, sem vappa um eins og heimalningar við bæinn. Örn er orðinn að þjóðsagnapersónu í lifanda lífi og unir sér hið bezta með láðs- og lagardýrunum í þessu sérstaka umhverfi. Það er óhætt að segja, að Húsey sé engu öðru lík og dvöl þar er ógleymanleg lífsreynsla. Vegalengdin frá Egilsstöðum er u.þ.b. 60 km, eða u.þ.b. klukkutíma akstur.
Örn Þorleifsson lést 30 október 2017.

Myndasafn

Í grennd

Borgarfjörður eystra
Borgarfjörður eystra er nyrstur fjarða, sem ganga inn í Austfjarðahálendið. Borgarfjörður liggur á mótum blágrýtissvæðis og líparítsvæðis og má þar fi…
Egilsstaðir og Fellabær
Egilsstaðir og Fellabær eru á Fljótsdalshéraði, en þar er eitthvert veðursælasta svæði landsins, minnir helzt á meginlandsloftslag. Egilsstaðahrepp…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )