Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja
  • Homepage
  • >
  • Strandir, ferðast og fræðast

Strandir, ferðast og fræðast

Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Húnaflóa til Jökulfirða. Þéttbýlis- og merkisstaða innan svæðisins er sérstaklega getið hér að neðan. Strandir er strábýlt svæði, mörg bændabýli farin í eyði, en nokkrir þéttbýlisstaðir.  Atvinnulífið byggist á  fiskveiðum og -verkun og ferðaþjónustu. Þetta landssvæði á sína þætti í Íslendingasögunum, s.s. Landnámu, Finnbogasögu ramma, Biskupasögum og Grettissögu. Samgöngur innan svæðis eru misgóðar eftir árstíðum. Vegakerfið á Ströndum endar við bæina Fell, Munaðarnes og niðri í Ingólfsfirði, þótt hægt sé að brölta vegleysu, víða í fjöruborðinu, inn í Ófeigsfjörð. Nyrzti hluti  Stranda er Hornstrandafriðlandið, sem  nær yfir nyrzta hluta Vestfjarðakjálkans. Auk hinna eiginlegu Hornstranda nær friðlandið yfir Aðalvík og norðurhluta Jökulfjarða. Landið á Ströndum er mótað af miklum sjávarágangi sem og ísaldarjöklum. Djúpir firðir, dalir og víkur einkenna svæðið. Þar er mikil náttúrufegurð víða og mikið um fuglalíf, enda gjöfular fæðustöðvar fyrir þá undan ströndinni. 

Strandasýsla liggur að vestanverðum Húnaflóa, nær frá Geirólfsgnúpi að norðan að Hrútafjarðará og Holtavörðuheiði að sunnan. Sýslan er 2630 km². Strönd sýslunnar er vogskorin, með fjölda fjarða og víkna. Flestir fjarðanna eru stuttir, einkum þó norðan til. Stærstir eru Steingrímsfjörður og Reykjarfjörður. Meðfram ströndinni er aragrúi eyja og skerja og sigling óhrein. Stærst eyja er Grímsey í mynni Steingrímsfjarðar. Fram milli fjarða ganga brött fjöll og múlar en fremur lágt hálendi og heiðar að baki, einkum innan til. Undirlendi er mest upp frá Steingrímsfirði. Veðrátta er hráslagaleg á Norður-Ströndum og hafís oft við land. Bergtegund er blágrýti. Eldstöðvar eru engar. Surtarbrandur og plöntusteingervingar eru víða, einkum við Steingrímsfjörð.

Jarðhiti er allvíða, mestur í Reykjanesi milli Reykjaneshyrnu (316m) og Trékyllisvíkur og í Bjarnarfirði syðri. Norðan til er yfirleitt fremur lítill gróður og með nokkrum fjallablæ en á Inn-Ströndum er gróður meiri, jarðvegur þykkari og betra til ræktunar. Skógur er ekki teljandi en kjarrlendi töluvert. Byggð er strjál í sýslunni og nú komin í eyði norðan Ingólfsfjarðar. Hólmavík er eina kauptúnið en auk þess eru þorp á Drangsnesi og Borðeyri og þorpsvísar á Gjögri og í Djúpuvík, sem nú er þó nær í eyði. Verzlunarstaðir eru, auk Hólmavíkur og Drangsness, á Óspakseyri og í Norðufirði í Árneshreppi.

Úr þorpunum er sóttur sjór en annars er landbúnaður aðalatvinnuvegur og er bústofn bænda sauðfé, sem er þar mjög afurðamikið. Aðalsveitirnar eru sunnan Steingrímsfjarðar. Rekar eru víða miklir, æðarvarp og selveiði víða. Samgöngur eru allgóðar norður í Bjarnarfjörð en lengra norður lokast vegurinn í fyrstu snjóum og er ekki ruddur fyrr en seint á vorin. Strandasýsla er lögsagnarumdæmi og situr sýslumaður á Hólmavík.

Hreppar sýslunnar eru nú þrír: Strandabyggð, Kaldrananeshreppur og Árneshreppur. Áður voru þeir átta: Árneshreppur, Kaldranahreppur, Hrófbergshreppur, Hólmavíkurhreppur, Kirkjubólshreppur, Fellshreppur, Óspakseyrarhreppur og Bæjarhreppur. Prestaköll eru: Árnesprestakall (kirkjustaður Árnes), Hólmavíkurprestakall (kirkjustaðir Kaldrananes, Drangsnes (kapella), Staður, Hólmavík og Kollafjarðarnes) og Prestbakkaprestakall (kirljustaðir Prestbakki, Óspakseyri og Staður í Staðarhreppi í V-Húnavatnssýslu). Síðan 1970 er Strandasýsla hluti af Húnavatnsprófastsdæmi.

Þéttbýlisstaðir á Ströndum

Bær Hrútafjörður
Arndís auðuga Steinólfsdóttir nam land út frá Borðeyri og settist að á Bæ. Landnámabók segir, að Bálki Blængsson, sem var fyrstur landnámsmanna við Hr…
Djúpavík
Djúpavík er í landi Kjósar, gamals eyðibýlis, sem er í hálfhringlaga dalkvos í Reykjarfirði. Árið 1917 var Guðjón Jónsson, fyrsti íbúinn, skráður t…
Drangsnes
Drangsnes er sjávarútvegsþorp á Selströnd, yst við norðanverðan Steingrímsfjörð, sem tók að myndast á þriðja tug þessarar aldar. Drangsnes fær nafn si…
Hólmavík
Hólmavík er kauptún við Steingrímsfjörð en þar er verzlunar- og þjónustumiðstöð fyrir Hornstrandir og hefur verið frá síðari hluta 19. aldar. Elzta hú…
Norðurfjörður
Norðurfjörður er vík norðan Trékyllisvíkur með samnefndu þorpi, þar sem standa mörg hús auð og   yfirgefin. Þarna er rekin lítil verzlun fyrir hina fá…

Landshlutar Ferðavísir

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )