Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Galdrar, galdrabrennur á Vestfjörðum og Ströndum

Skjaldbjarnarvík

Galdrabrennur á Vestfjörðum og Ströndum

Þórður Guðbrandsson 1654. Veikindi og óáran fóru að gera vart við sig í Trékyllisvík árið 1652, einkum meðal kvenna. Konur fóru að veikjast eftir manntalsþing 1651. Á þinginu ákvað Þorleifur Kortsson, sýslumaður, að Guðrún Hróbjartsdóttir, skyldi yfirgefa vist hjá Þórði Guðbrandssyni að kröfu bræðra hennar og móður. Hún varð fárveik, þegar bræðurnir komu að sækja hana, en henni batnaði strax eftir brottförina. Hún veiktist aftur eftir brottförina frá kirkjunni en var heil heilsu, þegar hún kom í Munaðarnes. Talið var, að Þórður hefði valdið þessu með göldrum. Þórður viðurkenndi að hafa séð djöfulinn í tófulíki og sært hann með góðum og illum orðum sem frekast hann mátti. Hann var brenndur í Kistu í Trékyllisvík, Trékyllisvík og er kölluð Kista

Egill Bjarnason 1654. Grunur um fleiri galdramenn í sveitinni kom upp við rannsókn máls Þórðar Guðbrandssonar. Einkum beindust sjónir að Agli Bjarnasyni, sem var handtekinn og settur í járn. Hann játaði samneyti við djöfulinn með ristingum, blóðvökum og naglaskurði. Hann sagðist hafa gert samning við djöfulinn um að vinna þau verk, sem Egill lagði fyrir hann, og þannig hefði hann drepið fé frá bændum í Hlíðarhúsum og í Kjörvogi. Hann var dæmdur og brenndur með Þórði í Kistu í Trékyllisvík. Trékyllisvík og er kölluð Kista

Grímur Jónsson 1654. Rétt áður en kveikt var í Þórði Guðbrandssyni, sagði hann, að Grímur væri mestur galdramanna í Trékyllisvík. Orð hans leiddu til rannsóknar og í ljós kom, að mikið galdraorð hvíldi á honum. Hann viðurkenndi að hafa notað rúnaspjald frá Þórði til varnar dýrbiti og hafa banað tófu með því að henda í hana rúnakefli. Hann lofaði að láta af öllum fordæðuskap, ef hann yrði losaður úr járnum, en það kom fyrir ekki. Hann játaði síðan á sig alls konar kukl, galdravers og særingar. Hann var dæmdur og brenndur á Kistu í Trékyllisvík („Undrin í Trékyllisvík”). Trékyllisvík og er kölluð Kista

Jón Jónsson eldri 1656. Feðgarnir frá Kirkjubóli, báðir Jón að nafni, fengu ákæru vegna veikinda og djöfullegra ásókna, sem séra Jón Magnússon á Eyri í Skutulsfirði varð fyrir. Þeir játuðu eftir nokkurra mánaða varðhald og eldri Jón viðurkenndi að eiga tvær skræður, hafa skemmt kú, farið með tóustefnu, aðstoðað soninn við kukl og valdið veikindum prestsins með særingum. Feðgarnir voru dæmdir og brenndir að Kirkjubóli í Skutulsfirði.

Jón Jónsson yngri 1656 viðurkenndi á sig ýmislegt fleira en faðir hans áður en þeir voru brenndir. Hann sagði frá misheppnuðum lækningatilraunum og kukli og að hafa upplifað djöfulinn í svefni. Þá sagðist hann hafa rist dóttur prests fretrúnir og galdrastafi til að ná ástum hennar. Einnig notaði hann glímu- og kveisustafi til að valda veikindum séra Jóns.

Þuríður Ólafsdóttir og Jón Helgason 1678. Heimildir eru óljósar um brennu Þuríðar Ólafsdóttur og sonar hennar Jóns. Líklega sakaði séra Páll í Selárdal þau um veikindi konu hans. Þau komu úr Skagafirði sumarið áður og voru sveitarmönnum ókunn. Í skagfirzkum annál er haft eftir Jóni, að þau hefðu farið yfir vatnsföll án hesta og ferja, sem sýni kunnáttu móður hans. Þau voru bæði brennd í Barðastrandarsýslu.

Sveinn Árnason 1683. Hann var brenndur á Nauteyri fyrir tilstuðlan Magnúss Jónssonar lögsögumanns vegna galdraáburðar prófastsins séra Sigurðar Jónssonar, sem ritaði um efnið í annála, en sakarefni Sveins var að hafa valdið veikindum prófastfrúarinnar, Helgu, dóttur Páls í Selárdal.
Helga var drykkjumaður, en fátt er vitað um gang þessa máls. Líklega mun réttara, að Sveinn var dæmdur á Nauteyri, en brenndur í Arngerðareyrarskógi.
Samkvæmt munnmælum átti að flytja hann á Alþingi, en flytjendur nenntu ekki lengra en í skóginn.

Heimildir: Ólína Þorvarðardóttir: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000.

Myndasafn

Í grennd

Galdrar og galdrabrennur á Íslandi
Galdrafárið í Evrópu hófst um 1480 og stóð fram undir 1700. Til Íslands bárust áhrifin frá Danmörku og Þýskalandi. Þeirra tók þó ekki að gæta hér að r…
Strandir, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Húnaflóa til Jökulfirða. Þéttbýlis- og merkisstaða innan svæðisins er sérstaklega getið hér að neðan. Strandir er…
Vestfirðir, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Reykhólum til Jökulfirða. Þéttbýlis- og merkisstaða innan svæðis er sérstaklega getið að neðan. Vestfirðir eru ti…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )