Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Galdrar og galdrabrennur á Íslandi

Galdrafárið í Evrópu hófst um 1480 og stóð fram undir 1700. Til Íslands bárust áhrifin frá Danmörku og Þýskalandi. Þeirra tók þó ekki að gæta hér að ráði fyrr en galdraofsóknirnar þar voru í rénum, um miðja 17. öld. Galdrafárið hér var að mörgu leyti ólíkt því sem erlendis var, hér snerust flest galdramálin um meðferð galdrastafa og rúnablaða sem áttu að hafa valdið fólki eða búfénaði skaða.

Djöfullinn kom lítið við sögu í íslenskum galdramálum og galdramessur og pyndingar ekki neitt, auk þess sem konur voru í miklum minnihluta þeirra sem brenndir voru hér á landi.

Um 1660 var galdrafárið víðast hvar í rénum í Evrópu. Árið 1654 er álitið að galdrafárið á Íslandi hafi hafist með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi. Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson sem var brenndur árið 1625 í Svarfaðardal í Eyjafirði.

Umfram neðangreindar galdrabrennur er getið fimm galdrabrenna, sem er ekki einhugur um að teljist með: Ónefnd norn 1580, Guðrún Þorsteinsdóttir 1608, Sveinn Skotti Axlar-Bjarnarson 1648, Jón ríðumaður (Jónsson Sýjuson) 1650, Halldór Finnbogason 1685.

Galdrabækur og skræður voru vafalítið nokkuð margar, en aðallega er getið sjö slíkra, sem eru enn þá til. Erfitt er að fullyrða um nokkuð um hvaða fræði liggja að baki galdrastöfum. Sumir virðast eiga rætur að rekja til dulspeki miðalda og fornfræði endurreisnarmanna, en aðrir bera með sér tengsl við Ásatrú og heiðna rúnamenningu. Marga galdra, sem bar á góma við réttarhöld á sautjándu öld, er að finna í galdrabókum sem eru geymdar á handritasöfnum. Tilgangurinn með galdrastöfum getur sagt nokkuð til um amstur, áhyggjur og erfiði alþýðufólks.

Grös af ýmsu tagi eru einn þáttur í þjóðtrú Íslendinga og eru talin koma að haldi við margvíslegar aðstæður, aðallega til lækninga.
Fyrr á öldum var skammt á milli þess sem í dag er nefnt galdur, hjátrú og kreddur annars vegar og læknisfræði og náttúrufræði nútímans. Mikið af galdri sem dæmt var fyrir voru frumstæðar lækningaaðferðir og menn trúðu á mátt ýmissa náttúrufyrirbæra, sérstaklega jurta og steina.
Dæmi um jurtir: Brenninetla, burnirót, draumagras, fjandafæla, freyjugras, grídusgras, hjónagras, lásagras, lækjasóley, maríuvöndur, mjaðurt, selja, sæhvönn, reynir, þrjófarót.

Galdra- og náttúrusteinar. Náttúrusteinar voru taldir gæddir töframagni og til margra hluta nytsamir. Trúin á steina er forn og er þeirra m.a. annars getið í Grágás þar sem lagt er bann við að fara með þá eða magna.

Fyrr á öldum var skammt á milli þess sem í dag er nefnt galdur, hjátrú og kreddur annars vegar og læknisfræði og náttúrufræði nútímans. Mikið af galdri sem dæmt var fyrir voru frumstæðar lækningaaðferðir og menn trúðu á mátt ýmissa náttúrufyrirbæra, sérstaklega jurta og steina.

Á síðari tímum eru slíkir steinar einkum sagðir fyrirfinnast á ákveðnum stöðum eins og Drápuhlíðarfjalli, Tindastóli, tindinum Kofra, Eyjafjalli á Bölum á Ströndum og víðar.
Dæmi um steina: Fésteinn, hulinhjálmsteinn, lausnarsteinn, lífsteinn, óskasteinn, segulsteinn, sögusteinn, surtarbrandur.

Galdrasögur. Í íslenskum þjóðsagnasöfnum er varðveittur aragrúi af sögum af göldrum og galdramönnum.

Skammstafanir hér að neðan. N= Norðurland, SV= Suðvesturland og V= Vestfirðir.

N. Jón Rögnvaldsson 1625. Sigurður á Urðum í Svarfaðardal varð fyrir mikilli ásókn sendingar, sem Jóni Eyfirðigi var kennt um. Hann átti að hafa vakið upp draug til að gera Sigurði mein. Draugsa tókst þó ekki að skaða Sigurð, en olli öðrum óskunda og drap nokkra hesta. Magnús Björnsson, sýslumaður í Vaðlaþingi, á Munkaþverá, fékk málið í hendur. Jón þverneitaði galdrasökum. Heima hjá honum fundust rúnablöð og grunsamlegum teikningum. Það var talið duga til að dæma hann á bálið. Hann var brenndur á Melaeyrum í Svarfaðardal. Mál hans kom aldrei fyrir þing og níu ár liðu til næstu galdrabrennu.

V. Þórður Guðbrandsson 1654. Veikindi og óáran fóru að gera vart við sig í Trékyllisvík árið 1652, einkum meðal kvenna. Konur fóru að veikjast eftir manntalsþing 1651. Á þinginu ákvað Þorleifur Kortsson, sýslumaður, að Guðrún Hróbjartsdóttir, skyldi yfirgefa vist hjá Þórði Guðbrandssyni að kröfu bræðra hennar og móður. Hún varð fárveik, þegar bræðurnir komu að sækja hana, en henni batnaði strax eftir brottförina. Hún veiktist aftur eftir brottförina frá kirkjunni en var heil heilsu, þegar hún kom í Munaðarnes. Talið var, að Þórður hefði valdið þessu með göldrum. Þórður viðurkenndi að hafa séð djöfulinn í tófulíki og sært hann með góðum og illum orðum sem frekast hann mátti. Hann var brenndur í Kistu í Trékyllisvík.

V. Egill Bjarnason 1654. Grunur um fleiri galdramenn í sveitinni kom upp við rannsókn máls Þórðar Guðbrandssonar. Einkum beindust sjónir að Agli Bjarnasyni, sem var handtekinn og settur í járn. Hann játaði samneyti við djöfulinn með ristingum, blóðvökum og naglaskurði. Hann sagðist hafa gert samning við djöfulinn um að vinna þau verk, sem Egill lagði fyrir hann, og þannig hefði hann drepið fé frá bændum í Hlíðarhúsum og í Kjörvogi. Hann var dæmdur og brenndur með Þórði í Kistu í Trékyllisvík.

V. Grímur Jónsson 1654. Rétt áður en kveikt var í Þórði Guðbrandssyni, sagði hann, að Grímur væri mestur galdramanna í Trékyllisvík. Orð hans leiddu til rannsóknar og í ljós kom, að mikið galdraorð hvíldi á honum. Hann viðurkenndi að hafa notað rúnaspjald frá Þórði til varnar dýrbiti og hafa banað tófu með því að henda í hana rúnakefli. Hann lofaði að láta af öllum fordæðuskap, ef hann yrði losaður úr járnum, en það kom fyrir ekki. Hann játaði síðan á sig alls konar kukl, galdravers og særingar. Hann var dæmdur og brenndur á Kistu í Trékyllisvík („Undrin í Trékyllisvík”).

V. Jón Jónsson eldri 1656. Feðgarnir frá Kirkjubóli, báðir Jón að nafni, fengu ákæru vegna veikinda og djöfullegra ásókna, sem séra Jón Magnússon á Eyri í Skutulsfirði varð fyrir. Þeir játuðu eftir nokkurra mánaða varðhald og eldri Jón viðurkenndi að eiga tvær skræður, hafa skemmt kú, farið með tóustefnu, aðstoðað soninn við kukl og valdið veikindum prestsins með særingum. Feðgarnir voru dæmdir og brenndir að Kirkjubóli í Skutulsfirði.

V. Jón Jónsson yngri 1656 viðurkenndi á sig ýmislegt fleira en faðir hans áður en þeir voru brenndir. Hann sagði frá misheppnuðum lækningatilraunum og kukli og að hafa upplifað djöfulinn í svefni. Þá sagðist hann hafa rist dóttur prests fretrúnir og galdrastafi til að ná ástum hennar. Einnig notaði hann glímu- og kveisustafi til að valda veikindum séra Jóns.

SV. Þórarinn Halldórsson 1667. Hann bjó á Birnustöðum og stundaði lækningar á fólki og skepnum í Ögursveit. Hann notaði eikarspjald við tilraunir til að lækna unga stúlku á Laugabóli. Hún dó og Sigurður Jónsson, sóknarprestur í Ögri komst yfir spjaldið. Skoðun á vorþingi leiddi ekkert í ljós. Skömmu síðar dó þessi prestur og það nægði til þess, að þórarni var kennt um bæði dauðsföllin. Hann flúði, rakaði hár og skegg, en fannst engu að síður í Staðarsveit á Snæfellsnesi og var sendur heim. Næst strauk hann alla leið í Rangárvallasýslu. Vísi-Gísli sendi hann heim þaðan. Réttarhöldin leiddu ýmislegt jákvætt og neikvætt í ljós. Fjallað var um málið á vorþingi 1667 án þess að nokkur fengist til að sverja með Þórarni. Þar var hann dæmdur sekur. Á Þingvöllum var ákveðið að brenna hann fyrir að rista rúnir og brúka þær til óleyfilegra lækninga. Þá kvað Þórarinn refsinguna við hæfi. Hann var hinn fyrsti, sem var brenndur á Þingvöllum.

SV. Jón Leifsson 1669. Helga Halldórsdóttir í Selárdal í Arnafirði veiktist um áramótin 1668-1669og varð fyrir mikilli ásókn ills anda fram á sumar. Skæður draugagangur varð í dalnum eftir að hún lagðist í kör, svo að allir flúðu brott um tíma. Jón Leifsson hafði viljað kvænast einni þjónustunni á staðnum, en Helga lagðist gegn því. Hún kenndi því Jóni um veikindi sín. Yfirheyrslur leiddu í ljós, aðhann hafði stundað eitthvert kukl og um skeið var tvísýnt um, hvernig skyldi taka á máli hans. Eggert sýslumaður gekk skörulega fram og ákvað að láta brenna Jón fyrir vestan rétt áður en átti að ríða til þings. Hann fékk staðfestingu á dómnum eftirá á Þingvöllum.

N. Erlendur Eyjólfsson 1669. Jón Leifsson hélt því fram fyrir dauða sinn, að Erlendur hefði kennt honum galdur. Því mun séra Páll prófastur hafa sent Þorleifi Kortssyni lögmanni og Sigurði Jónssyni bréf, þar sem hann kennir Jóni um alla mæðuna, sem gekk yfir fjölskyldu hans í Selárdalnum, og vissulega væri Erlendur meðsekur. Þetta dugði til þess, að Erlendur var brenndur í Vesturhópi í Húnavatnssýslu sama ár. Hann viðurkenndi að hafa framið galdra og kennt öðrum.

SV. Siguðrur Jónsson 1671. Hann var úr Ögurhreppi og var ákærður fyrir veikindi húsfreyju nokkurrar í Ísafjarðardjúpi. Hann játaði galdur og sagðist fyrst hafa notað gráurt án árangurs. Vallhumall, kvikasilfur úr fjöðurstaf, sæði sitt, stafur, sem hann risti á eikarfjöl og vers eftir hann sjálfan hefði virkað. Hann sagðist líka hafa varizt sendingu með særingum og formælingum. Þegar það dugði ekki til, lagðist hann niður og greip græðisvepp og lét drjúpa í hann tvo blóðdropa. Þessu tróð hann í trantinn á fjandanum, sem sótti á hann. Sigurður náðist í Vigur og var brenndur á Þingvöllum.

SV. Páll Oddsson 1674. Frá Ánastaðakoti á Vatnsnesi, þar sem hann hafði búið u.þ.b. tvo áratugi og var aldrei orðaður við galdra. Séra Þorvarður Ólafsson á Breiðabólstað bar á hann veikindi konu sinnar, Valgerðar Ísleifsdóttur, vegna rúnaspjalda, sem fundust. Páll kom ekki til þings, þegar málið var tekið fyrir og fannst hvergi. Fjarvera hans var honum í óhag. Þorleifur Kortsson fékk málið og Páll var í haldi hjá Guðbrandi Arngrímssyni, sýslumanni í Ási í Vatnsdal. Sagt var, að samband Páls og eiginkonu sýslumannsins hafi valdið því, að Guðbrandur sótti málið fastar. Páll fékk á sig fleiri kærur vegna veikinda og málinu var vísað til þings. Þar var Páli gefið tækifæri til að frelsa sig með tylftareiði, en þegar að því kom kom upp ágreiningur milli eiðsvotta og sumir báðust undan eiði. Engu að síður tókst að ná öllum saman nema einum. Fjórir vottar vildu sverja hann saklausan en sjö ekki. Páll játaði aldrei sök og tiltók mann, sem hafði rist eða látið rista spjöldin, sem málið var bygg á. Þessi maður sór sakargiftir Páls, svo að hann var dæmdur sekur gegn vitnisburði margra góðra manna. Sagnir segja, að hann hafi stungið höfðinu út úr eldinum og sagt: „Sjáið þar sakleysi mitt.” Hann var brenndur á Þingvöllum.

SV. Böðvar Þorsteinsson 1674. Margkenndur við galdra. Hann var frá Snæfellsnesi og var brenndur sama dag og Páll Oddson frá Ánastaðakoti. Hann gaspraði um kukl sitt á vertíð á Gufuskálum á vetrarvertíð. Hann var spurður, hvort hann hefði valdið aflabresti á skipi séra Björns Snæbjörnssonar prófasts, og hann játaði. Séra Björn kærði hann. Böðvar dró játningu sína til baka síðar, en enginn tók mark á honum. Hann var brenndur á Þingvöllum.

N. Magnús Bjarnason 1675. Ekkert lát varð á galdraofsóknum í Selárdal, þótt búið væri að brenna tvo menn. Húsfrúin varð aftur fárveik auk tveggja sona þeirra hjóna. Nú voru veikindi hennar af völdum Magnúsar í Arnarfirði í Barðastrandarsýslu. Hjá honum fannst að minnsta kosti einn galdrastafur og dómabók Þorleifs Kortssonar segir frá lostugri meðkenningu. Hann lét flytja Magnús til sín að Þingeyrum, dæmdi hann á bálið og brenndi hann í Húnavatssýslu.

SV. Lassi Diðriksson 1675. Hann var talinn valdur að veikindum sona séra Páls prófasts og Helgu í Selárdal, þá sjötugur. Veikindum Egils Helgasonar, eins manna Eggerts sýslumanns á Skarði, var líka klínt á hann. Eggert var bróðir prófastsins. Lassi harðneitaði að vera viðriðin galdra. Þorleifur Kortsson fann ekki sannanir og sendi málið til þings, þar sem hann var dæmdur sekur og brenndur fyrir orð Eggerts. Mikil rigning gerði brennuna erfiða og eldurinn slökknaði þrisvar. Á leiðinni heim af þingi fótbrotnaði Eggert sýslumaður og sögðu margir að honum hefndist fyrir rangar sakagiftir.

SV. Bjarni Bjarnason 1677. Hann var ættaður úr Breiðdal í Önundarfirði. Eiginkona Bjarna Jónssonar á Hafurshesti í Önundarfirði, Ingibjörg Pálsdóttir, áleit hann valdan að sjö ára veikindum sínum. Eftir að Bjarni var ákærður elnaði Ingibjörgu sóttin og hún dó áður en dómur féll. Hann viðurkenndi að hafa átt galdrastafi og engir fengust til að sverja hann saklausan. Þorleifur Kortsson fékk málið. Hann kom því til þings. Þar var hann dæmdur og brenndur 4. júlí að viðstöddum ásjáandi.

SV. Þorbjörn Sveinsson 1677. Hann var ættaður úr Mýrarsýslu og kallaður Grenjadals-Tobbi. Þrjú Galdrakver og skinnþvengir með pári og galdrastöfum fundust á honum. Hann játaði að hafa ritað mest af þessu og reynt galdur til að gera fé spakara. Þess er ekki getið, að hann hafi gert öðrum mein. Áður hafði hann verið brennimerktur og hýddur fyrir þjófnað. Hann og Bjarni Bjarnason voru brenndir sama daginn á Þingvöllum.

N. Stefán Grímsson drengmenni 1678. Hann var líklega ættaður úr Borgarfirði. Honum var meðal annars kennt um nytmissi átta kúa. Hann játaði margs konar brot eftir að dómur var upp kveðinn, s.s. hórdómsbrot og að hafa verið með glímustaf í skó sínum. Hann játaði ekki sakargiftir. Tengsl hans við mál séra Árna Jónssonar, sem strauk frá landinu áður en prestastefna tók mál hans fyrir, voru nefnd við málaferlin gegn Stefáni. Hann var brenndur í Húnavatnssýslu eftir dómsuppkvaðningu.

V. Þuríður Ólafsdóttir og Jón Helgason 1678. Heimildir eru óljósar um brennu Þuríðar Ólafsdóttur og sonar hennar Jóns. Líklega sakaði séra Páll í Selárdal þau um veikindi konu hans. Þau komu úr Skagafirði sumarið áður og voru sveitarmönnum ókunn. Í skagfirzkum annál er haft eftir Jóni, að þau hefðu farið yfir vatnsföll án hesta og ferja, sem sýni kunnáttu móður hans. Þau voru bæði brennd í Barðastrandarsýslu.

SV. Ari Pálsson 1681. Þorkatla Snæbjörnsdóttir, systir Björns á Staðarstað, sem átti þátt í að koma Böðvari Þorsteinssyni á bálið fáum árum áður, átti upptökin að máli Ara.
Hún kærði Ara vegna galdraspjalds, sem talið var að Ari hefði skilið eftir á heimili hennar. Vitnisburður var Ara mjög í óhag, því marga grunaði, að hann hefði valdið veikingum fólks.
Eftir uppkvaðningu dóms játaði hann fjölkynngi, að hafa farið með kotruvers og athugað, hvort konur væru óspjallaðar.
Hann var kallaður „hreppstjórinn prúðbúni” og því voru föt hans seld, þegar hann var brenndur á Þingvöllum
Árni Magnússon og Páll vídalín sendu skýrslu til stjórnarinnar í Kaupmannahöfn um réttarfar á Íslandi og röktu þetta mál. Þeir töldu augljót, að dómsmorð hefði verið framið, því allur málatilbúnaður var meingallaður.

V. Sveinn Árnason 1683. Hann var brenndur á Nauteyri fyrir tilstuðlan Magnúss Jónssonar lögsögumanns vegna galdraáburðar prófastsins séra Sigurðar Jónssonar, sem ritaði um efnið í annála, en sakarefni Sveins var að hafa valdið veikindum prófastfrúarinnar, Helgu, dóttur Páls í Selárdal.
Helga var drykkjumaður, en fátt er vitað um gang þessa máls. Líklega mun réttara, að Sveinn var dæmdur á Nauteyri, en brenndur í Arngerðareyrarskógi.
Samkvæmt munnmælum átti að flytja hann á Alþingi, en flytjendur nenntu ekki lengra en í skóginn.

Heimildir: Ólína Þorvarðardóttir: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000.

Myndasafn

Í grennd

Galdrar og galdrabrennur Norðurlandi
Galdrabrennur á Norðurlandi Jón Rögnvaldsson 1625. Sigurður á Urðum í Svarfaðardal varð fyrir mikilli ásókn sendingar, sem Jóni Eyfirðingi var ken…
Galdrar og galdrabrennur Suðurland
Galdrabrennur á Suðurlandi Þórarinn Halldórsson 1667. Hann bjó á Birnustöðum og stundaði lækningar á fólki og skepnum í Ögursveit. Hann notaði eikar…
Galdrar og galdrabrennur Þingvellir
GALDRAR OG GALDRABRENNUR Á ÞINGVÖLLUM Þórarinn Halldórsson 1667. Hann bjó á Birnustöðum og stundaði lækningar á fólki og skepnum í Ögursveit. Hann no…
Galdrar, galdrabrennur á Vestfjörðum og Ströndum
Galdrabrennur á Vestfjörðum og Ströndum Þórður Guðbrandsson 1654. Veikindi og óáran fóru að gera vart við sig í Trékyllisvík árið 1652, einkum meðal …
Hringvegurinn á 6-10 dögum
Á eigin vegum hringvegurinn á 6-10 dögum. Fyrstu árin eftir að hringvegurinn var opnaður (1974) kepptist fólk um að setja hraðamet eða aka aftur á ba…
Illdeilur og morð á Íslandi
Smáorrustur, illdeilur, morð og aftökur á miðöldum á Íslandi  Austurland Svínafell Hvalnes Aðalból Njarðví…
Kirkjur á Íslandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli. Á þessum vef fer skiptingin ekki eftir prófastsd…
Klaustur á Íslandi
Heimildir um einsetulifnað á Íslandi fyrir kristnitökuna árið 1000 og áður en klaustur voru stofnuð, eru til. Meðal þeirra er frásögn af Ásólfi Konáls…
Söguferð á eigin vegum
Á eigin vegum  Söguferð á eigin vegum um HRINGVEGINN á 7 dögum (eða þar um bil) Fyrstu árin eftir að hringvegurinn var opnaður (1974) kepptist fólk …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )