Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Klaustur á Íslandi

Þingeyrarkirkja

Heimildir um einsetulifnað á Íslandi fyrir kristnitökuna árið 1000 og áður en klaustur voru stofnuð, eru til. Meðal þeirra er frásögn af Ásólfi Konálssyni frá Írlandi. Hann vildi ekki eiga samneyti við heiðna menn. Þá er Jörundur hinn kristni nefndur til sögunnar. Máni hinn kristni er talinn hafa byggt kirkju að Holti á Kólgumýrum í Húnavatssýslu og þjónað þar nótt sem nýtan dag. Einsetukonur voru helztar: Guðrún Ósvífursdóttir, sem var ung, þegar kristni var lögtekin (Laxdæla), Hildur, sem gerðist einsetukona við Hólakirkju í tíð Jóns Ögmundssonar biskups, Gróa Gissurardóttir (Ísleifssonar biskups), sem gerðist einsetukona í Skálholti á efri árum, Ketilbjörg, sem var einsetukona í Skálholti á dögum Páls Jónssonar biskups (†1202) og Katrín, fyrsta abbadís Reynisstaðarklausturs, sem lifði einsetulífi að Munkaþverá áður en klaustrið var stofnað.

Af heimildum má ráða, að Hrólfur (Rudolf) hafi stofnað klaustur að Bæ í Borgarfirði í kringum 1030. Hann fór af landi brott árið 1049. Fleiri reyndu að stofna klaustur á fyrstu árum kirkjunnar. Magnús biskup Einarsson í Skálholti reyndi að stofna klaustur í Vestmannaeyjum, sem hann keypti að hluta. Hann brann inni 1148 og hugmyndin með honum. Jón Loftsson í Odda lét reisa klaustur og kirkju að Keldum á Rangárvöllum í kringum 1190. Þar hugðist hann eyða síðusta æviskeiðinu. Líklega hefur það liðið undir lok eftir dauða hans árið 1197.

Á 12. öld var kirkjan orðin föst í sessi og sjö klaustur voru stofnuð. Þau voru afsprengi mikillar fjölgunar klaustra á meginlandi Evrópu, þar sem nokkrir frumkvöðlar kirkjunnar höfðu verið við nám.

Fáar beinar heimildir eru til um störf klausturbræðra og systra, en líklega munu fornleifafræðingar geta brugðið einhverju ljósi á þau, fái þeir tækifæri til að sinna fleiri verkefnum en Skriðuklaustri. Við leiðumst til að tengja klaustrin við menntir og menningu og ekki sízt varðveizlu fornbókmenntanna. Máldagar klaustra geta um stór bókasöfn sumra klaustranna. Þingeyrarklaustur er mest áberandi á þessu sviði, bæði varðandi bókagerð og sagnritun. Sögur um konunga og biskupa voru ritaðar í klaustrum í kringum aldamótin 1200 og síðar.

Full vissa er fyrir ritun Odds Ólafssonar að Þingeyrum á Ólafs sögu Tryggvasonar á latínu árið 1190. Gunnlaugur munkur Leifsson gerði það líka nokkrum árum síðar auk ritunar sögu Jóns biskups Ögmundarsonar. Helgisagnir á 14. öld eru raktar til Benediktsskólans norðlenzka, sem Þingeyrar- og Munkaþverárklaustur áttu nemendur. Bergi Sokkasonar, ábóta á Munkaþverá, eru eignaðar sögurnar um Mikjál og Nikulás og Lárentíusarsaga lætur að liggja, að hann eigi mestan þátt í ritun helgisagna á 14. öld. Hann varð príor að Munkaþverá 1322 og ábóti 1325. Aðrir kunnir bókamenn þessa tíma voru Árni Lárentíusson, munkur að Þingeyrum, og Arngrímur Brandsson, sem var einnig munkur þar. Príorinn í Viðey, Styrmir fróði Kárason, var virtur sagnaritari.

Helgafellsklaustur 1172 var mikilvæg miðstöð ritstarfa og lærdóms. Talið er að munkar þar hafi ritað Skarðsbók, sem er í tveimur stórum skinnhandritum og inniheldur m.a. postulasögur. Ætla má, að mikið hafi verið ritað um trúarleg efni.

Máldagar klaustranna, sem hafa varðveitzt, eru beztu heimildinar um efnahag þeirra. Einnig hafa allmargir viðskiptasamningar klaustra varðveitzt. Próventa var mikilvæg tekjulind frá aldurhnignu fólki, sem fékk samastað í klaustrunum gegn því að gefa þeim veraldlegar eigur sínar. Oftast komu ekkjur sér fyrir í klaustrunum á þennan hátt, en þó eru dæmi um hjón, sem gerðu slíkt. Próventa þurfti samþykki biskups.

Íbúar meginlands Evrópu miða siðaskiptin við árið 1517, þegar Lúter hengdi mótmæli sín á hurð hallarkirkjunnar í Wittenberg. Kristján konungur III komst til valda í Danmörku árið 1536. Hann kom á fót lúterskri ríkiskirkju skömmu eftir valdatökuna og varð þar með valdamesti maður kirkjunnar. Hann tók þar með til sín auðæfi klaustra og kirkna.

Fyrsti lúterski biskupinn á Íslandi, Gissur Einarsson, gerði skrá yfir fjölda reglufólks í klaustrum Skálholtsbiskupsdæmis. Samkvæmt þessari skrá voru þau ekki mjög fjölmenn. Kirkjuskipan Kristjáns konungs kom til landsins 1537. Gissur þýddi hana á íslenzku 1541 og hún var samþykkt á prestastefnu í Miðdal sama ár. Samkvæmt henni bauðst munkum og nunnum að dvelja áfram í klaustrunum til æviloka, kysu þau að gera svo, ella fengu þau farareyri til annarra starfa. Eignir klaustranna runnu til konungs.

Þingeyraklaustur. Jón Ögmundsson, biskup á Hólum stofnaði klaustur að Þingeyrum árið 1112 en engar heimildir eru til um klausturlíf þar fyrr en 1133, þegar Vilmundur Þórólfsson var vígður fyrsti ábóti þess. Klaustrið starfaði í anda heilags Benedikts til siðaskipta.

Munkaþverárklaustur. Björn Gilsson, Hólabiskup, kom Munkaþverárklaustri á fót árið 1155. Það starfaði í anda heilags Benedikts og fyrsti ábótinn hét Höskuldur, sem engar frekari heimildir eru til um.

Hítardalsklaustur var stofnað árið 1166, líklega að hluta til minningar um brunann mikla í Hítardal árið 1148, þegar Magnús Einarsson, Skálholtsbiskup, fórst ásamt fjölda annarra. Þorleifur Þorláksson, bóndi og höfðingi í Hítardal, gaf jörðina til stofnunar klaustursins. Engar heimildir hafa fundizt um klausturlíf þar, þannig að óvíst er um tilvist þess. Engu að síður eru tveir ábótar tilgreindir þar, Hreinn Styrmisson, sem var vígður 1166 (†1177), og Hafliði (†1201 skv. annálum. Líklega var þarna Benediktsklaustur.

Þykkvabæjarklaustur. Klængur Þorsteinsson Skálholtsbiskup kom þar á fót Águstusarklaustri árið 1168 (kanokaklaustur). Flestir munkar þessarar reglu munu hafa verið prestvígðir. Hún lagði áherzlu á aga og skírlífi presta og barst um Noreg eftir 1161 frá Frakklandi. Þorlákur Þórhallsson, sem varð Skálholtsbiskup, varð fyrsti ábóti þessarar reglu á Íslandi. Eyjólfur Sæmundarson (hins fróða) annaðist menntun Þorláks, sem tók prestvígslu á ungum aldri. Hann var einnig við nám í París og Lincoln í Englandi. Hann hefur því vafalítið kynnst Ágústusarreglunni í Frakklandi. Hann varð fyrst príor og síðar ábóti. Klaustrið varð víðfrægt fyrir fagurt helgihald og skírlífi bræðranna. Páll Jónsson, Skálholtsbiskup, leyfði landsmönnum að heita á Þorlák árið 1198 og árið eftir staðfesti Alþingi helgi hans. Jóhannes Páll páfi II lýsti Þorlák verndardýrling Íslands 14. janúar 1984. Þorlákur var kjörinn Skálholtsbiskup árið 1174, þannig að klausturdvöl hans varð einungis 7 ár.

Flateyjarklaustur. Klængur Þorsteinsson Skálholtsbiskup vígði Águstusarklaustur í Flatey á Breiðafirði árið 1172. Af ókunnum ástæðum var það flutt til Helgafells 1184 eða 1185. Leiddar hafa verið líkur að því, að það hefði verið betur í sveit sett á meginlandinu, þar sem Helgafell var í alfaraleið. Ögmundur Kálfsson varð fyrst ábóti þess og það starfaði til siðaskipta.

Á miðöldum voru aðeins tvö nunnuklaustur starfrækt á landinu. Þau störfuðu bæði í anda heilags Benedikts.

Kirkjubæjarklaustur var stofnað að Kirkjubæ á Síðu árið 1186. Árið 1189 var Halldóra vígð fyrsta abbadís þess. Líklega var Þorlákur Þórhallsson Skálholtsbiskup frumkvöðull stofnunar klaustursins. Klaustrið starfaði til siðaskipta.

Reynisstaðarklaustur var stofnað að frumkvæði Jörundar Hólabiskups og Hallberu, sem síðar varð abbadís, árið 1295. Jörundur hafði gefið nokkrar jarðir til væntanlegs klausturs, sem var valinn staður að Stað í Reynisnesi. Hann fékk Hallberu og aðrar mektarkonur í héraðinu til að gefa ríkulega til þess. Jarðirnar skyldu vera í eigu klaustursins um alla framtíð og eftirmenn Jörundar á biskupsstóli skyldu vera verndarar þess. Klaustrið starfaði til siðaskipta.

Hraunþúfuklaustur Ýmsar sagnir segja frá munkaklaustri á staðnum, aðrar frá nunnuklaustri. Papar eru einnig kenndir við staðinn. Þá er sagt, að þar hafi funcizt kirkjuklukka með áletrun á latínu, sem var flutt til Goðdala. Einnig er til saga um mikinn fjársjóð á þessum stað.

Möðruvallaklaustur. Jörundur Hólabiskup stofnaði munkaklaustur Ágústusarreglu að Möðruvöllum árið 1296. Fyrsti príorinn hét Teitur, sem engar heimildir eru um.

Viðeyjarklaustur. Ágústusarklaustrið var líklega stofnað fyrir tilstuðlan Þorvaldar Gissurarsonar og Snorra Sturlusonar árið 1225. Magnús Skálholtsbiskup var bróðir Þorvaldar. Hann vígði það og gaf því allar tekjur sínar af svæðinu milli Botnsár og Hafnarfjarðar. Þorvaldur stjórnaði klaustrinu til dauðadags 1235. Um tíma var það aðsetur Benediktsmunka (1344-1352). Klaustrið starfaði til siðaskipta.

Skriðuklaustur. Skarðsannáll getur um stofnun Ágústusarklausturs að Skriðu árið 1494 að frumkvæði Stefáns Skálholtsbiskups. Þetta var príorklaustur í upphafi. Fyrsti ábóti þess hét Narfi. Hann var vígður árið 1497. Sagt er, að klaustrið hafi aldrei verið mannmargt og aðeins einn munkur hafi verið þar árið 1198. Forleifauppgröftur árið 2006 gefur allt aðra mynd af starfsemi klaustursins. Klaustrið starfaði til siðaskipta.

Myndasafn

Í grennd

Kirkjur á hringveginum
Kirkjur á Hringveginum á 6 Dögum Fyrstu árin eftir að hringvegurinn var opnaður (1974) kepptist fólk um að setja hraðamet eða aka aftur á bak allan h…
Kirkjur á Íslandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli. Á þessum vef fer skiptingin ekki eftir prófastsd…
Trúfélög á Íslandi
Kirkjan og þjóðin í 1000 ár Árið 1000, þegar kristni var lögtekin, bjó ein þjóð í landinu. Landnámsmenn voru mismunandi að uppruna, en flestir komu f…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )