Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Flóra Íslands

Ísland Flóra

Íslenska flóran er fátækari en tilefni er til. Loftslag og lega landsins eru hagstæð fleiri tegundum. Talið  er, að tegundafjöldi háplantna sé í nánd við 470. Þessar plöntur eru flestar norrænar, 97% þeirra finnast í Noregi, 66% á Grænlandi og 85% á Bretlandseyjum. Fátt er um plöntur af vestrænum uppruna, en mun fleiri af austrænum. Flestar eiga heima á norrænum- og heimsskautssvæðum. Í grófum dráttum telst þriðjungur íslenzkra tegunda til heimsskautssvæða- og Alpaplantna og afgangurinn til norrænna. Rekja má tegundafátækt íslenzku flórunnar til ísaldanna og einangrunar landsins, sem drógu úr möguleikum ýmissa tegunda til landnáms. Íslenzkir grasafræðingar álíta, að u.þ.b. helmingur núverandi tegunda hafi lifað ísaldirnar af.

Mikið er af ýmsum gras- og starartegundum auk blómjurta. Meðal athyglisverðustu tegunda af vestrænum uppruna er eyrarrósin (Chamaenerion latifolium), sem breiðir úr sér á hrjóstrugum áreyrum og malarsvæðum um land allt; grávíðir (Salix callicarpaea), sem er fjölbreytt jurt um allt land; friggjargras (Platanthera hyperborean), sem vex í grösugum hlíðum á láglendi; gulstör (Carex lyngyei), falleg og hávaxin jurt, sem vex víða þétt á vatnsbökkum. Blástjarna (Lomatogonium rotatum) ber falleg, blá blóm og vex í votlendi með ströndum fram norðanlands. Hún hefur hvergi fundizt annars staðar í Evrópu en á heimsskautssvæðum Rússlands. Flestar tegundir grasa og stara vaxa um land allt, en sumar er aðeins að finna á takmörkuðum svæðum og geta sums staðar talizt til einkennisjurta viðkomandi landshluta, þótt erfitt sé að skipta landinu á þann hátt.

Mosaflóran nær til u.þ.b. 500 tegunda, sem eru í fæstum tilfellum tegundir, sem eiga heima meðal jurta heimsskautasvæðisins. Þær flokkast fremur með flóru tempruðu beltanna. Fléttutegundir eru lítið eitt færri og eiga miklu meira skylt við sams konar flóru á hinum Norðurlöndunum.

Á landnámsöld var landið vaxið viði milli fjalls og fjöru. Skógar voru beittir og höggnir langt umfram endurnýjun og hurfu því smám saman. Stærstu skógaleifarnar eru í Hallormsstað og að Vöglum. Útbreiddasta og veigamesta tegund tjráa á Íslandi var og er birki (Betula pubescens og Betula tortuosa). Reynitré (Sorbus aucuparia) og ýmsar víðitegundir (Salix) uxu og vaxa víða um landið. Víðast eru trjámörk á milli 300 og 400 m yfir sjó en dæmi eru um trjágróður 550-600 m y. s.

Víðast á láglendi einkennisgróðurinn grös og dvergrunnar með blómstrandi plöntum. Algengustu tegundir eru: gulmaðra (Galium verum), gullmura (Potentilla crantzii), blágresi (Geranium silvaticum), fjalldalafífill (Geum rivale), geithvönn (Angelica silvestris), nokkrar smávaxnar tegundir döggblaðkna (Alchemilla Vulgaris), fíflum (Taraxacum) og undafíflum (Hieracium). Sums staðar á hálendinu eru svæði lík túndrum með samsvarandi gróðri, s.s. holtasóley (Dryas octopetala), lambagras (Silene acaulis), blóðberg (Thymus arcticus), gullintoppa (Armeria maritima) og músareyra (Cerastium alpinum).

Hálendið er að mestu gróðursnautt ofan 700 m, en þar þrífast aðeins harðgerðustu heimsskautategundir. Gróðurvana láglendissvæði eru líka algeng, s.s. sandar suðurstrandarinnar og ungar hraunbreiður. Eldri hraun eiga sér víða sérstök gróðursamfélög, sem vaxa upp úr grámosabreiðum. Við taka víðir og síðar birki, grös, burknar og blómjurtir.

Víða á og við jarðhitasvæði hefur þróast sérstakur gróður, s.s. naðurtunga (Ophioglossum vulgatum), flóajurt (Polygonum persicaria), laugadepla (Veronica anagallis-aquatica), grámygla (Gnaphalium uliginosum) og laugasef (Juncus articulatus).

Myndasafn

Í grennd

Fuglar Íslands
Ísland státar ekki af fjölskrúðugri varpfuglafánu. Hér hafa sézt u.þ.b. 330 tegundir fugla, u.þ.b. 85 þeirra eru varpfuglar eða hafa reynt varp og u.þ…
Íslensku Húsdýrin
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…
Stangveiði
Það er alveg heillaráð að eyða að minnsta kosti hluta sumarleyfisins til ferðalaga innanlands. Meðal þess, sem er spennandi og til heilsubótar, er að …
Villt spendýr
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )