Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hrafnkelsdalur

hrafnkeldalur

Hrafnkelsdalur er 18 km langur, þar til hann skiptist í tvo dali, Glúmstaðadal og Þuríðarstaðadal, og  liggur suður úr Jökuldal frá Brú. Dalurinn er tiltölulega sléttur og í u.þ.b. 400 m hæð yfir sjó. Þrátt fyrir hæðina, er hann allvelgróinn.

Jarðhiti finnst á nokkrum stöðum. Dalurinn ber nafn Hrafnkels Freysgoða, sem bjó á Aðalbóli, sem er annar tveggja byggðra bóla þar. Fornar byggðarleifar finnast víða, þannig að byggð mun hafa verið mun meiri fyrrum.

Rústir Laugarhúsa eru í dalnum austanverðum, gegnt Aðalbóli. Þar sér enn til húsatófta og túngarðsleifa. Laugarhús drógu nafn sitt af heitri laug eða lind, sem á uppsprettu sína fyrir ofan bæinn og rennur lækur frá henni um tætturnar. Einhvern tíma í búskaparsögu Laugarhúsa hefur laugin verið hlaðin upp og lögð grjóti í botninn. Í máldaga Valþjófsstaðakirkju frá 1397 kemur fram að hún átti selland að Laugarhúsum. Árið 1902 gerði Daniel Bruun uppdrátt af rústunum. Taldi hann að hluti þeirra væri eftir fornbýli en aðrar tóftir væru leifar selsins frá Valþjófsstað. Mannvistarleifarnar á Laugarhúsum eru í allmikilli rústabungu um 20 metra í þvermál.

Borað var í rústirnar á nokkrum stöðum tilað kanna aldur þeirra út frá jarðvegslögum. Þær rannsóknir leiddu í ljós, að byggð var á staðnum á ýmsum tímum á miðöldum, en flestar virtust rústirnar vera frá því um 1400. Í Hrafnkelssögu Freysgoða er sagt að Bjarni, faðir þeirra Sáms og Eyvindar, hafi búið á Laugarhúsum. Þeir feðgar elduðu löngum grátt silfur við Hrafnkel, nágranna sinn á Aðalbóli. Sóknarlýsing Þorvaldar Ásgeirssonar í Hofteigi frá 1874 nefnir skóga í sókninni, sem nú séu „alveg eyðilagðir“. Þar er getið Laugarhúsaskógar, sem var rauðvíðisskógur.

Jeppaleið liggur upp úr dalnum inn á Vesturöræfi að Snæfelli og Eyjabökkum.

Myndasafn

Í grennd

Aðalból. Jökuldal
Aðalból í er innsti bær í Jökuldalshreppi og meðal þeirra bæja, sem eru lengst frá sjó á landinu, 100 km í  og 60 km í botn Berufjarðar. Bærinn er þek…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )