Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Heykollsstaðir

KRAKALÆKJARÞINGSTAÐUR
á ÞINGHÖFÐA

Heykollsstaðir í Hróarstungu voru upphaflega hjáleiga frá Vífilsstöðum. Jörðin þótti heldur rýr og hlunnindalítil, en þó ágætlega fallin til ræktunar. Búsetu á Heykollsstöðum lauk árið 1965 en jörðin hefur síðan þá verið nytjuð frá Vífilsstöðum.

Á landamerkjum Heykollsstaða og Vífilsstaða, skammt frá þjóðveginum út sveitina að austanverðu er svokallaður Þinghöfði sem teygir sig út í Lagarfljótið. Í fallegri dæld sunnan undir þessum höfða eru tættur sem taldar eru vera þingbúðatættur hins forna Krakalækjar-þingstaðar. Tætturnar eru um 20 talsins, mjög fornlegar en flestar nokkuð greinilegar. Í kringum þingstaðinn eru garðar sem ná neðan frá fljóti og upp á ásinn fyrir ofan þingstaðinn.

Krakalækjarþings er víða getið í fornum heimildum. Í Droplaugarsonasögu er m.a. sagt frá fundi þeirra Helga og Gríms Droplaugarsona, Þorkels Geitissonar og Helga Ásbjarnarsonar á Krakalækjarvorþingi þar sem þeir sættust á víg Þorgríms tordýfils. Skammt frá þingstaðnum eru leifar fornbýlisins Krakalækjar þar sem Kraki bjó. Kraki þessi var auðugur maður en hans dóttir var Helga Krakadóttir sem þótti allra kvenna fríðust og bestur kvenkostur á Fljótsdalshéraði.

Í miklum vatnavöxtum flæðir upp að þeim tóftum sem standa næst fljótinu. Gert er ráð fyrir að eðlileg vatnshæð fljótsins hækki umtalsvert vegna virkjunarframkvæmda. Því má reikna með að tætturnar verði í aukinni hættu vegna vatnaágangs í framtíðinni.

Heimildir: Droplaugarsona saga. Íslendinga sögur XI, Rvk. 1950 bls. 147
Sigurður Vigfússon. Rannsókn í Austfirðingafjórðungi 1890. Árbók Fornleifafélagsins. RvÍk. 1893, bls. 48-9.

Myndasafn

Í grennd

Egilsstaðir og Fellabær
Egilsstaðir og Fellabær eru á Fljótsdalshéraði, en þar er eitthvert veðursælasta svæði landsins, minnir helzt á meginlandsloftslag. Egilsstaðahrepp…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )