Þegar ekið er niður þjóðveg 1 til austurs um Stóra-Vatnsskarð er komið í Varmahlíð í hlíðum Reykjarhóls. Þar er upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn. Jarðhiti er mikill á þessu svæði. Hann er nýttur til ylræktar, húshitunar og sundlaugar. Skógrækt er stunduð í vaxandi mæli (Reykjarhólsskógur).
Árið 1931 hófst þar gisti- og veitingaþjónusta, sem hefur aukizt með árunum. Varmahlíð er skólasetur með aðsetri náttúrgripasafns Skagafjarðar. Stutt er í byggðasafnið að Glaumbæ. Það er upplagt að nýta Varmahlíð sem miðstöð skoðunarferða um nágrennið. Ferð í kringum Skaga tekur lungann úr deginum. Þá er farið um Laxárdal að Ketubjörgum , fram hjá Hrauni á Skaga, um Kálfshamarsvík og Skagaströnd (Kántríbæ). Þá er hægt að taka stefnuna austur á bóginn um Hóla í Hjaltadal, Hofsós (Vesturfarasetrið og pakkhúsið), líta inn á Sölvabar að Lónkoti og skoða tjald galdramannsins og snúa við á Siglufirði, sem státar af Síldarminjasafninu.
» Lesa meira
Sunnar í Skagafirði er Austurdalur með Merkigili og Ábæjarkirkju. Sumir vilja halda til fjalla og aka suður úr Skagafirði að Ingólfsskála við rætur Hofsjökuls eða að Laugafelli og baða sig þar í heitri laug nærri skálanum.
Aðrir áhugaverðir staðir í nágrenninu eru Víðimýri, Glaumbær, Arnarstapi og Hegranes. Reiðtúrar, flúðasiglingar og ferðir í Drangey eru sívinsælar.
Stangveiði er víða stunduð í héraðinu, bæði í ám og vötnum, og sumir bregða sér til Sauðárkróks eða norður að Skagafirði til að stunda strandveiði.
Á veturna nýtur útivistarfólk góðs skíðasvæðis og fer síðan í afslappandi bað í sundlauginni í Varmahlíð og geta fengið nudd þar, ef þeir óska. Rjúpna- og gæsaveiðisvæði eru vinsæl meðal skotveiðimanna. Stangveiðimenn finna fjölda veiðivatna og áa til að sinna hugðarefnum sínum.
Kaupfélag Skagfirðinga (Olis) rekur verzlun og veitingastað í Varmahlíð.
Tjaldstæði er í Reykjarhólnum suðvestanverðum og ofar í hlíðum hans eru sumarhús með heitum pottum og öllum hugsanlegum þægindum. Austan Varmahlíðar eru sumarhús með rúmstæði fyrir 6 manns hvert og svefnlofti fyrir 10-12 manns.
Einhverjir örlagaríkustu atburðir Íslandssögunnar áttu sér stað í Skagafirði auk mestu bardaga Sturlungaaldarinnar, og þar með Íslandssögunnar, sem leiddu til loka þjóðveldisins. Hinn mannskæðasti var Hauganesbardagi og síðan Örlygsstaðabardagi, sem háður var 1238. Að honum afstöðnum lauk valdatíð Sturlunga en þeir voru ein valdamesta ætt landsins.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 290 km.