Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Glaumbær Byggðsafn Skagfirðinga

Sögu húsanna að Glaumbæ má rekja til nokkurra tímabila á 18. og 19. öld en þau voru öll reist í ríkjandi  stíl í sveitum landsins fram til aldamótanna 1900, þegar járnbundin steinsteypa tók við og varð ríkjandi í eftir það um land allt. Norrænir forfeður Íslendinga höfðu að mestu notað timbur í byggingar sínar en á Íslandi þróaðist notkun torfs og grjóts til hleðslu vegna mikils skorts á því byggingarefni.

Húsin í Glaumbæ eru öll þiljuð með innfluttu timbri, aðskilin og einangruð með þykkum veggjum úr torfi og þakin grasþökum. Grasið á Íslandi er þykkvaxið og rótamikið, þannig að torfið og þökurnar eru sterkar og endingargóðar. Á landsvæðum með takmarkaða úrkomu má búast við því, að slíkar byggingar geti staðið heila öld án mikils viðhalds. Þökin verður að reisa í réttu horni. Séu þau of flöt, smýgur vatn í gegnum þökurnar og of brött þök þorna og sprungur, sem myndast, hleypa líka vatni í gegn auk þess að grasið visnar.

Erfitt er að reisa stórar byggingar úr torfi, þökum og grjóti. Því voru íslenzkir bóndabæir samsafn lítilla húsa, sem voru flest tengd mislöngum göngum eftir fjölda þeirra. Verkfærageymslur og önnur afhýsi höfðu sérinngang. Göngin í Glaumbæ eru u.þ.b. 21 m löng, svo löng, að margir höfðu orð á því, að þeir héldu að þau næðu til næsta bæjar. Þau veita aðgang að níu húsum bæjarins. Tvær hurðir í þeim komu í veg fyrir að kalt loft kæmist inn í vistarverur bæjarins.

Fyrstu íbúar Glaumbæjar, sem getið er, bjuggu þar á 11. öld. Nöfn þeirra koma fram í Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða, sem segja m.a. frá könnunarleiðöngrum Leifs heppan Eiríkssonar rauða og bróður hans Þorsteini. Þessir fyrstu íbúar Glaumbæjar, sem getið var, voru Þorfinnur Karlsefni og kona hans Guðríður Þorbjarardóttir. Samkvæmt framangreindum tveim fyrstnefndu sögunum reyndu þau ásamt fleirum að setjast að í nýja heiminum fyrst Evrvópubúa og þar fæddist þeim sonurinn Snorri, fyrsta barnið af evrópsku kyni, sem kom í heiminn þar áður en indíánar hröktu landnemana brott.

Þorfinnur var annar eiginmaður Guðríðar, sem var barnabarn írsks leysingja, fæddist á 10. öld að Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Hún fluttist til Íslendingabyggðarinnar á Grænlandi, sem Eiríkur rauði stofnaði og giftist syni hans Þorsteini, sem lézt skömmu síðar. Þá giftist hin unga ekkja Þorfinni karlsefni, kaupmanni og bónda frá Stað á Reynisnesi (Reynistað) í Skagafirði. Þau könnuðu Vínland, sem Leifur Eiríksson fann. Þar dvöldust þau heilan vetur. Þau snéru til Íslands og bjuggu í fyrstu að Reynistað en komu sé síðan fyrir að Glaumbæ. Að Þorfinni látnum tók Snorri við búsforráðum og Guðríður ákvað að fara í suðurgöngu til að leita fyrirgefningar og blessuna páfans í Róm. Hún hét því að byggja kirkju guði til dýrðar, ef henni auðnaðist að snúa heim með heilli há. Snorri lét reisa kirkju í fjarveru móður sinnar og hún var tilbúin, þegar hún kom heim. Þessi kirkja er hin fyrsta, sem heimildir eru um í Glaumbæ. Eftir heimkomuna lifði Guðríður einsetulífi og sinnti bænum og helgihaldi. Guðríður var ein víðförulasta kona sins tíma. Hún gekk tvisvar suður alla Evrópu og fór í 8 sjóferðir. Hún tók þátt í landkönnun norrænna manna og upplifði krisnitökuna. Í kirkjugarðinum framan við kirkjuna að Glaumbæ er lítil stytta (1939) eftir Ásmund Sveinsson, sem sýnir Guðríði standandi í skipi með Snorra á annarri öxlinni.

ÁSHÚS
Áshúsið var byggt á árunum 1883-1886 í Ási á Hegranesi og flutt til Glaumbæjar 1991. Það sómir sér einkar vel sunnan í bæjarhólnum í næsta nágrenni við gamla bæinn sem fulltrúi þeirrar húsagerðar, sem tók við af torfbæjunum á 19. öld.

Húsið var byggt í því markmiði að setja þar á fót kvennaskóla. Af því varð þó ekki. Er síðasti íbúinn flutti úr húsinu árið 1977, höfðu búið í því fjórar kynslóðir sömu fjölskyldu. Hjónin Sigurlaug Gunnarsdóttir (1828-1905) og Ólafur Sigurðsson (1822-1908), sem byggðu húsið á sínum tíma voru miklir framfarasinnar og beittu sér mjög fyrir ungmennauppfræðslu. Oft stóðu þau fyrir námsskeiðahaldi á heimili sínu, bæði fyrir stúlkur og drengi. Á tímabilinu 1870-1900 mátti rekja margs konar búbætur í héraðinu til heimilisins í Ási.

Frú Sigurlaug var snjöll hannyrðakona og saumaði meðal annars fyrsta íslenzka skautbúninginn af þeirri gerð, sem nú tíðkast. Hún stofnaði fyrstu kvennasamtök á Íslandi árið 1869 og stjórnaði fyrsta kvennaskólanum, sem settur var á fót í héraðinu, í Ási árið 1877.

Margar nýjungar voru kynntar á Ási, sem menn höfðu aldrei fyrr séð í Skagafirði. Sumt var innflutt og annað endurbætt eða fundið upp á staðnum. Fyrsta fótstigna saumavélin í Skagafirði kom í Ás 1870, fyrsta prjónavélin 1874, fyrsta eldavélin kom skömmu síðar og fyrsta spunavélin 1882. Þar var hraðskyttuvefstóll og ýmsar nýjar vélar notaðar við vefnað og ullarvinnu. Einn sonurinn, Sigurður, fann upp handtöng til að klippa ullarkambatennur. Sú töng ein sparaði svo dagsverkin, að það, sem áður tók yfir þrjá mánuði, tók nú 12 daga. Þar var vindmylla til að mala korn og fótstiginn hverfisteinn til að brýna á ljái og önnur eggjárn. Í ási fengu menn ýmsar gagnlegar leiðbeiningar, s.s. um að nota aktygi í stað reiðtygja til dráttar, trékjálka í stað dráttartauga á íssleða og að nota rakstrarkonu, vírgrind, sem fest var á ljái, þannig að rakaðist úrljáfarinu jafnóðum og slegið var.

GILSSTOFA
Fyrirmynd Gilsstofunnar er timburstofa frá miðri 19. öld. Stofur af þessu tagi voru byggðar á stöku stað við torfbæina og voru eins konar fyrirboðar timburhúsanna, sem risu seinna, um og fyrir aldamótin 1900. Stofan var færð milli bæja fjórum sinnum á árunum 1861-1891 og gera bæði ferðalögin og nýtingin sögu hennar einstaka. Eftir því sem stofan var reist oftar fækkaði upprunalegum viðum hennar og innra skipulag breyttist eftir hlutverkum.

Ólafur Briem, timburmeistari á Grund í Eyjafirði, byggði stofu þessa á Espihóli árið 1849 fyrir Eggert bróður sinn. Árið 1861 varð Eggert sýslumaður í Skagafirði og tók stofuna með sér þangað.

Húsviðir voru dýrir og því fyrirhafnarinnar virði að taka stofuna niður og draga á ísum til Akureyrar, þar sem henni var skipað um borð í flutningaskip, sem kom þeim sjóveg til Skagafjarðar. Vegna þess, hve erfitt var að landa svo miklum viðum og illt í sjó, er til Hofsóss kom, voru þeir fluttir beina leið þaðan á opnum bátum í örugga höfn á Kolkuósi. Frá kolkuósi voru þeir dregnir á sleðum fram að Hjaltastöðum, þar sem Eggert bjó til 1872. Stofan var aftur tekin niður og enn voru húsviðirnir dregnir á ísum, nú yfir um héraðsvötn að Reynistað, þar sem hún stóð til 1884.

Það ár tók Jóhannes Ólafsson á Gili við sýslunni. Hann fékk stofuna til sín og stóð hún þar til 1891, þegar hún var flutt út á Sauðárkrók. Upprisin í sjötta sinn fékk hún nýtt hlutverk. Farið var að kalla hana Gilsstofu. Hún stóð á Sauðárkróki frá 1891-1985 og var notuð þar sem verzlunar- (Verzlun KG) og íbúðarhúsnæði. Árið 1986 fékk hún bílfar að Kringlumýri, sem er stutt frá Hjaltastöðum og var þá lokið hringferð hennar um héraðið. Stofan var endursmíðuð á safnsvæðinu við Glaumbæ 1996-1997 og fékk kontórhlutverk eins og forðum, þegar húns tóð á Reynistað og gegndi sýslukontórshlutverkinu með sóma, en í henni er skrifstofa Byggðasafns Skagfirðinga.

Myndasafn

Í grennd

Sauðárkrókur
Sauðárkrókur er kaupstaður innst í Skagafirði vestanverðum. Þar er blómleg útgerð og fiskvinnsla og öflug þjónusta við nágrannasveitir. Ferðaþjónusta …
Torfbæir og torfkirkjur
Nokkrir torfbæir á landinu Íslenski torfbærinn á sér sögu sem einstæð er í heiminum og er ekki rannsökuð til fulls. Torfbærinn er í raun þyrping húsa…
Varmahlíð, Skagafjörður
Þegar ekið er niður þjóðveg 1 til austurs um Stóra-Vatnsskarð er komið í Varmahlíð í hlíðum Reykjarhóls. Þar er upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn. Ja…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )