Víðimýrarkirkja (1834), sem er í eigu Þjóðminjasafns, er „einn stílhreinasti og fegursti minjagripur gamallar byggingalistar, sem til er” að sögn Kristjáns Eldjárns heitins, fyrrum þjóðminjavarðar og forseta Íslands. Timbrið í kirkjunni er rekaviður af Skaga og torfið úr landi Víðimýrar. Innviðirnir eru að mestu upprunalegir en torfið hefur verið endurnýjað.
Sáluhliðið með kirkjuklukkunum er á upprunalegum stað. Í kirkjunni er að finna marga gamla muni úr eldri kirkjum, s.s. predikunarstólinn, sem er mjög gamall. Altaristaflan er dönsk frá árinu 1616.
Fyrrum sátu konur norðan megin og karlar sunnan megin í kirkjum landsins, hinir ríkustu innst og hinir fátækustu fremst.
Húsbændur að Víðimýri sátu inni við kór að norðanverðu.
Víðimýri kemur við sögu í Sturlungu, því að ein mesta höfðingjaætt landsins, Ásbirningar bjó þar (Kolbeinn Tumason ; Kolbeinn Arnórsson ungi).Guðmundur biskup Arason þjónaði þar um tíma áður en hann varð biskup með stuðningi Kolbeins Tumasonar, sem síðar varð mesti andstæðingur hans og hrakti hann oft frá Hólum.