Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Reiðleiðir og götur Árnessýsla

Hestar

Inngangur:
Fornar götur geyma á margan hátt merka sögu. Á Beitivöllum skammt frá Reyðarmúla hittust t.d. Flosi og Hallur af Síðu á leið til Alþingis vorið eftir Njálsbrennu.

Á Hofmannaflöt undir Ármannsfellimættust suðurferðamenn úr öllum landsfjórðungum og glímdu þá gjarnan þar á völlunum. Um Kjalveg fór Gissur Þorvaldsson með yfir þúsund manna styrjaldarflokk á leið á Örlygsstaði skammt frá Miklabæ í Blönduhlíð að jafna um við Sturlunga. Það heitir Örlygsstaðabardagi. Svona mætti lengi telja.
Í þessari grein verður leitast við að lýsa stuttlega reiðleiðum í Árnessýslu. Það verður farið fljótt yfir sögu því ef kafað er um of er hætta á að afvegaleiðast og sprengja utan af sér ramma stuttrar greinar.

Frá Þingvöllum til Reykjavíkur.
Ef við hefjum ferð okkar á Þingvöllum þá liggja þaðan fjölmargar leiðir enda sóttu menn eftir að Alþingi var stofnað þangað hvaðanæva að af landinu. Alls lágu fjórtán aðalleiðir frá Þingvöllum.

Hefðbundin leið til Reykjavíkur liggur um Norðlingaveg hjá tóftum eyðibýlisins Bárukots og yfir Öxará á Norðlingavaði en það er gegnt túninu á Brúsastöðum. Síðan hjá réttinni fyrir norðan Brúsastaði og svo áfram hjá Kárastaðahlíð og Einiberjaflöt um Lögmannskeldu eða Jakobskeldu eins og hún hét áður en hestar ölkærs lögfræðings lágu þar í.

Áfram liggur leiðin svo í Selkot og hjá Stíflisdalsvatni og Fellsendaflóa um Stardalsveg að bænum Stardal og svo áfram niður hjá Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Leiðin hjá eyðibýlinu Selkoti hefur verið nefnd Selkotsvegur. Í Selkoti var áður sel frá Stíflisdal en árið 1830 var reistur þar bær.

Um Fellsendaflóa eða Sauðafellsflóa eins og hann heitir réttu nafni er þess að geta, að hann var afar blautur yfirferðar áður en hann var þurrkaður upp og reiðvegur lagður þar um. Oft mátti heyra þar hróp og köll þegar hestamenn voru að hvetja hesta sína yfir fen og keldur. Þar sem leiðin liggur niður að Þingvallaveginum skammt frá Bugðu hafa nýverið verið gerðar verulega endurbætur á reiðgötunum. Þarna í Fellsendaflóa er allmikið fuglalíf, en aldrei hef ég heyrt alvöru hestamann minnast á fuglatíst. Í þeim hópi þykir slíkt tal bera vott um linku og ekki lotið að neinu lágværara en hófaskellum eða hnegg í hrossum og frísi.

Um Leggjabrjót sem var forn þjóðleið og enn vel sýnileg vegna umferðar hestamanna nú á tímum, Upp Öxarárdalinn liggur leið um Leggjabrjót hjá Sandvatni og ýmist ofan í Brynjudal eða um Hrísháls niður í Botnsdal. Að fornu lögðu kaupmenn skipum sínum í Maríuhöfn.
Vísu um Leggjabrjót orti séra Jón Þorláksson. Hún er svona:

Tunnan valt og úr henni allt
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

Keldan sem hér er átt við er Biskupskelda en þar hefst hinn eiginlegri Leggjabrjótur.

Leggjabrjótsleið er ágætlega vörðuð enda eins gott. Í fyrra sumar lenti undirritaður í svo blindri þoku í hestaferð með Borgfirðingum og dönsku fólki þar að rétt grillti í næstu vörðu. Ef leiðin hefði ekki verið vörðuð hefðum við hæglega getað villst illilega. Sandvatn rann svo að segja saman við þokuna og við sáum það ekki fyrr en við vorum nánast komin út í það.

Reiðgötur á Þingvöllum Prestagata eða Prestastígur lá um Lyngdalsheiði norður um Hrafnabjargarháls að Ármannsfelli. Skálholtsbiskupar fóru þessa leið er þeir héldu til sveita norðan Bláskógaheiðar eða til Maríuhafnar í Hvalfirði, sem var aðal höfnin á 14. öld. Götur þessar voru líka nefndar Biskupavegur eða Hrafnabjargarvegur. Til Maríuhafnar hafa menn farið fyrir norðan Stíflisdalsvatn og síðan Þrengslaleið niður með Laxá í Kjós en Maríuhöfn var nokkuð fyrir vestan þar sem Laxá rennur til sjávar.

Norðaustan í Hrafnabjörgum var eyðibýlið Hrafnabjörg. Það á fyrir svartadauða að hafa verið í miðri sveit en þá voru að sögn 50 býli í Þingvallasveit. Seinna taldi einhver ferðalangur leggja þar reyk upp frá 18 bæjum þarna. Um Þingvallasveit hefur verið sagt að þar sé afdalabyggð í alfaraleið.

Leið liggur hjá eyðibýlinu Hrauntúni á Þingvöllum og þaðan yfir akveginn skammt frá Þjónustumiðstöðinni og eftir fornum götum í Skógarkot. Úr Skógarkoti niður að Þingvallavatni þar sem heitir Öfugsnáði lá svonefnd Veiðigata. Við Ögugsnáða er í dag vinsæll veiðistaður, veiðist þar bæði murta og bleikja. Gamla þjóðleiðin um Langastíg inn af Stekkjargjá er einnig notuð af hestamönnum. Frá Skógarhólum má því fara ágætan 3ja tíma hring. Hraðinn á bílum á vegunum í gegnum þjóðgarðinn er orðinn það mikill að sá sem ætlar að fara ríðandi meðfram vegum er í stórum háska. Þarna eru blindbeygjur og blindhæðir sem auka enn á hættuna. Mikið starf hefur verið unnið við það að merkja reiðleiðir í þjóðgarðinum og ættum við að sýna þakklæti okkur með því að nota þessar leiðir.

Óskar Hallgrímsson fyrrverandi bankastjóri og meðlimur í Borgarstjórn Reykjavíkur var snúningastrákur í sveit í Hrauntúni. Hann hafði þann starfa m.a. að sækja kýrnar. Það var langt frá því að vera auðvelt þarna í marglitum skóginum að finna beljurnar. Ofan á allt annað þurftu þær svo endilega að vera skjöldóttar. Hann gafst fljótt upp á því að leita að þeim, en þess í stað tók hann það til bragðs að rölta niður að vatni sem þær voru vanar að koma að fyrr eða seinna, lagði sig þar í makindum og beið. Þegar svo kýrnar komu rak hann þær heim. Þetta heitir að vinna af viti en ekki striti.

Um Gagnheiði Um Gagnheiði liggur leið upp hjá Svartagili Í Þingvallasveit yfir að Gilstreymi í Lundarreykjadal. Farið er fyrir vestan Kvígindisfell og hjá Eiríksvatni. Girðing liggur þvert á þessa leið og getur reynst erfitt að ramba á hliðið á henni. Girðing þessi liggur niður í Hvalvatn.

Gagnheiðar er getið í Sturlungu. Þar segir: „Þeir Órækja fóru úr Reykjaholti sjötta dag jóla, fyrst ofan til Bæjar og léði Böðvar þeim vopn. Sjöunda dag fóru þeir suður Gagnheiði og höfðu fimm hundruð manna. Þeir Órækja og Sturla fóru með sínar sveitir á Þingvöll en annað liðið fór á Kárastaði og Brúsastaði. Þeir höfðu engar fréttir sannlegar sunnan frá Gissuri.”

Þetta var í þá daga. Nú fara fáir Gagnheiðina eins og menn hafi misst móðinn varðandi þá leið enda öruggara að fara nálægt bílvegi um Uxahryggi upp í Borgarfjörð. Leiðina um Gagnheiði þyrfti að endurvekja og þá helst stika hana út. Sjálfur hef ég oft farið ríðandi upp í Borgarfjörð en aðeins einu sinni farið Gagnheiði. Ég var þá að koma ásamt Valdimar kvótabana frá Arnþórsholti í Lundarreykjadal á leið til Reykjavíkur með viðkomu í Skógarhólum. Leiðina um Gagnheiði skyldi helst ekki fara nema í björtu veðri og í fylgd með kunnugum.

Sá hryggilegi atburður gerðist á Gagnheiði árið 1629 að tveir menn fóru að vetrarlagi upp úr Skorradal. Þeir ætluðu í Þingvallasveit og fóru um ís yfir Eiríksvatn. Þar misstu þeir annan hesta sinna ofan í. Seint og um síðir tókst þeim að ná hestinum upp. Þeir blotnuðu mikið á höndum og fótum. Til að reyna að halda á sér hita drukku þeir brennivín. Seinna lentu þeir í mikilli ófærð gáfust upp og sofnuðu. Þegar þeir vöknuðu aftur gátu þeir ekki gengið heldur nánast skriðu á fjórum fótum niður að Svartagili í Þingvallasveit. Séra Engilbert Nikulásson var þá prestur á Þingvöllum. Hann var sagður heppinn læknir og sagaði hann af þeim fæturna. Þeir bræður lifðu síðan við örkuml langa ævi.

Hellisskarðsleið og leið um Klukkuskarð Frá Hofmannaflöt liggur Eyfirðingavegur um Goðaskarð og áfram fyrir sunnan Skjaldbreið og hjá Hlöðuvöllum og um Hellisskarð niður að Úthlíð í Biskupstungum. Þetta hefur verið nefnt Hellisskarðsleið. Önnur leið liggur frá Hlöðuvöllum og niður Brúarárskörð að austanverðu og að Úthlíð. Þarna er þröngt og erfitt að fara með mikinn rekstur.

Upp af Hofmannaflöt vestan undir Mjóafelli rétt áður en göturnar liggja um Goðaskarð heitir Biskupsflöt. Á þessum blöðum er oft minnst á biskupa þetta eða hitt eða t.d. Prestagötur. Þetta minnir á að eitt sinn var þjóðin kristin að kalla þó að hún væri á stundum blendin í trúnni eins og gengur.

Þegar ég var strákur í sveit uppi í Borgarfirði þótti það ágæt skemmtun að ríða til kirkju á sunnudögum. Farið var um Brennistaðagötur yfir í Reykholt í Reykholtsdal. Enn stendur þar gamla kirkjan sem afabróðir minn söng í. Um tíma stóð til að rífa þessa litlu sveitakirkju. Það er komin ný kirkja í Reykholti og ýmsum þótti hún ekki nógu fín til að standa við hlið hennar. Samt komu menn um langan veg til að hlýða á messu í gömlu kirkjunni árum saman. Ég man enn eftir svörtu, teinóttu fötunum sem karlarnir voru í og konurnar í peysufötum. Áður en lagt var af stað tók það afabróður minn minnst tvo klukkutíma bara að laga flibbann á skyrtunni sinni. Það var ekki hrapað að neinu. Þetta var áður en við stigum það athyglisverða framfaraskref að endursendast um háloftin hraðara en hljóðið. Oft verður manni hugsað til þess hvert þetta fólk sé eiginlega að fara því að afabróðir minn fór helst ekki lengra að heiman en í kirkjuna í Reykholti. Hann skyldi heiminn út frá þeirri hundaþúfu sem hann var alinn upp á, en enginn heimshornaflakkari stóð honum á sporði hvað varðaði skarpskyggni.

Nú er búið að leggja niður prestssetrið á Þingvöllum að undirlagi stjórnvalda. Þetta finnst mér mjög athyglisvert. Helst þyrfti að rífa kirkjuna líka eins og einhvern tímann stóð til. Ef Hótel Valhöll (Brann til kaldra kola í júlí 2009) verður kannski sumarhús erlends auðjöfurs þá kemur kirkjan til með að skyggja á útsýnið. Kannski mætti gera 18 holu golfvöll á völlunum fyrir neðan Lögberg. Golfarar gætu þá innréttað kaffistofu og búningsherbergi í gamla Þingvallabænum. Kirkja hefur verið á Þingvöllum síðan 1017. Það er skammarlega langur tími.

En svo við hverfum aftur á Eyfirðingaveg þá liggur frá Karli og Kerlingu undir Skjaldbreið leið inn Langadal um Klukkuskarð og þaðan innan við Hrossabrún og um Fagradal niður að Hjálmsstöðum í Laugardal. Þetta er í fornsögum nefnd Skarðaleið og er hennar getið í Sturlungu en Þórður kakali fer hana síðla hausts 1242 úr Borgarfirði suður um heiði til Laugardals.

Vitað er að Sturla Þórðarson og Sighvatur Böðvarsson fara 1262 frá Hallbjarnarvörðum til Laugardalsskarða. Þeir hafa sennilega farið Skessubásaveg og um Klukkuskarð en Skessubásavegur liggur af leiðinni um Kaldadal og fyrir norðan Skjaldbreið að Hlöðuvöllum. Ekki er þó með öllu útilokað að þeir hafi farið um Kluftir og Eyfirðingaveg í Karl og Kerlingu og þaðan um Klukkuskarð.

Ég hef tvisvar farið um Klukkuskarð og er þetta ágæt leið nema hvað snemmsumars getur verið skafl í brekku norður af skarðinu. Þar hafa menn og hestar þurft að húrra sér á rassinum niður, gangtegund sem er að öðru leyti sjaldan brugðið fyrir sig í hestaferðum.

Um Kluftir að Brunnum Rétt áður en Jón biskup Vídalín andaðist í Biskupsbrekku skammt frá Brunnum á hann að hafa kveðið þessa vísu:

Herra Guð í himnasal
haltu mér við trúna;
Kvíði ég fyrir Kaldadal
kvölda tekur núna.

Kannski grunaði hann að hverju stefndi.

Jón var á leið að Staðarstað eða Stað á Ölduhrygg eins og áður hét að jarðsyngja mág sinn og fornvin séra Þórð Jónsson sem lá á líkbörunum, en þeir höfðu lofað hvor öðrum að sá sem lifði lengur skyldi flytja líkræðu yfir hinum. Orðheldinn var meistari Jón nema hvað maðurinn með ljáinn kom í veg fyrir að hann gæti staðið við orð sín í þetta sinn.

Frá Hofmannaflöt liggur leið um Kluftir og Tröllháls og þaðan um Uxahryggi ýmist niður í Lundarreykjadal hjá Brunnum eða Okveg niður að Giljum eða Rauðsgili í Hálsasveit eða leiðina um Kaldadal.

Hér má geta þess að álitið er að kveikjan að ljóði Jónasar Hallgrímssonar Fjallið Skjaldbreiður hafi orðið til er hann lá við í tjaldi hjá Brunnum eftir rannsóknarferð að Skjaldbreið. Hann hafði orðið viðskila við ferðafélaga sína og var þarna einn. Kvæðið byrjar svona:

Fanna skautar faldi háum,
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógnaskjöldinn bungubreiður
ber með sóma réttnefnið.

Stundum finnst mér að í nútímanum höfum við spillst svo mjög að við bregðumst ekki við öðru en því æsilega. Okkur væri hollt að muna að hið einfalda og fölskvalausa sigrar alltaf að lokum. Löngu eftir að stríðsbumburnar eru þagnaðar hjalar kornabarnið og leikur við hvern sinn fingur. Í þeim heimi er Jónas sigurvegarinn.

Frá Þingvöllum austur um Lyngdalsheiði Frá Skógarhólum á Þingvöllum liggur leið um Skógarkot og síðan Gjábakkastíg yfir Hrafnagjá. Þetta er gamli Kóngsvegurinn sem lagður var vegna konungskomunar 1907 og lá hann alla leið að Geysi í Haukadal. Frá Gjábakka er farið meðfram vegi yfir það sem í daglegu tali er nefnd Lyngdalsheiði og á Laugardalsvelli og þaðan á Laugarvatn. Þarna er víða hægt að þræða gamlar götur rétt við veginn.

Rétt fyrir austan hliðið á Þjóðgarðsgirðingunni er nýbúið að stika leið í Kringlumýri um gamla götu sem áður var farin en er nú víða orðin ógreinileg. Þetta er þarft framtak.

Áður en komið er að Reyðarmúla liggur önnur leið í Kringlumýri en þar er leitarmannakofi. Þaðan svo Biskupagötur að Mosfelli í Grímsnesi og að brúnni á Brúará. Úr Kringlumýri liggur einnig leið um Driftir sem skilja Þingvallasveit frá Grímsnesinu og að Efrafalli og þar um Dráttarhlíð að Villingavatni.

Undir Dráttarhlíð voru geymsluskemmur Skálholtsstóls og aðrar við Þingvallavatn skammt frá upptökum Sogsins. Þarna voru búvörur og skreið flutt yfir. Mikið sog var þarna og flutningur þessi því ekki með öllu hættulaus. Eitt sinn barst í Sogið hluti af líkfylgd og líkið að auki.

Á 17. júní árið 1959 gerðist sá atburður við Efrafall að Þingvallavatn reis óvenju hátt í miklu roki þannig að stífla brast og mikið vatn streymdi í gegnum jarðgöng sem verið var að vinna við og hálfbyggt stöðvarhús. Miklar skemmdir urðu þarna og hreinasta mildi að þetta var á Þjóðhátíðardaginn og enginn við vinnu. Annars hefði eitthvað farið meira en líkfylgdin forðum, enda fjöldi manns starfandi bæði í göngum og stöðvarhúsinu virka daga. Fleiri vikur tók að týna saman spýtnabrak niður með öllu Soginu. Ég dáist enn að þolgæði verkfræðinganna sem þarna voru við stjórn, enda þeim kennt um að stíflan skyldi ekki vera nógu rammgerð. Í sigri og ósigri reynir mest á manninn. Allir með tölu stóðust þeir þessa mannraun.

Minnst var á Reyðarmúla en hans er getið í Njáls sögu er þeir Gissur og Hjalti komu á skipi sínu til Eyra. Þeir útveguðu sér strax hesta og riðu þrjátíu saman á Þingvöll. Hjalti varð hins vegar eftir við Reyðarmúla þar sem hann hafði gerst sekur um goðgá þ.e. guðlast. Hinir riðu hjá Gjábakka og komu um Gjábakkastíg niður að Þingvallavatni hjá Vellankötlu. Ekki vildi Hjalti þó sætta sig við að bíða hjá Reyðarmúla og reið á eftir félögum sínum, kvaðst ekki vilja láta heiðna menn sjá á sér hræðslumerki. Ekki voru þeir mikið fyrir að takast á við biðraunina þessir karlar, kusu heldur að þeysa fram og láta drepa sig ef verkast vildi. Enn eru þessi sömu framsæknisgen í okkur flestum, þannig að það er ekki nema von, að sumir verði stressaðir að puða í því að sitja kyrrir allan guðslangan daginn.

Úr Kringlumýri liggur leið hjá Þrasaborgum að Efri-Brú. Eins liggur þaðan svonefnd Rjúpnabraut suður um Lyngdalsheiði í Grímsnesið.

Leitir á þessum slóðum fara þannig fram að smalað er austur að Tindaskaga og niður á Hrafnabjargarvelli. Þar hittast leitarmenn. Þeir smala svo meðfram nýju Þjóðgarðsgirðingunni, sem liggur frá Ármannsfelli að Hrafnabjörgum . Féð er rekið yfir Hrafnabjargarháls og niður í Kringlumýri. Síðustu nóttina er gist í Kringlumýrarskála. Daginn eftir smala leitarmenn svo Lyngdalsheiðina heim með sér.

Nokkurn veginn þar sem Biskupagata mætir veginum að Laugarvatni liggja Bakkagötur yfir að bænum Björk í Grímsnesi og síðan áfram að Hæðarenda, sem er bær ekki langt frá Klausturhólum. Frá Hæðarenda liggja svo götur upp að Búrfelli og að Efri-Brú í Grímsnesi. Einnig hygg ég að leið hafi legið hjá bænum Miðengi að Álftavaði á Soginu.

Á gömlu korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 sést teiknuð leið frá Búrfelli og að Gjábakka í Þingvallasveit. Fyrir austan þá leið er svonefnt Gálgagil ekki langt frá Bauluvatni. Þar hafa sakamenn sjálfsagt verið hengdir, menn ekki nennt með þá á Þingvöll kannski önnum kafnir við bústörfin.

Leiðir um Skálholt En svo við hverfum að brúnni á Brúará þá er farið þaðan hjá Skálholti meðfram vegi og síðan hjá Laugarási og yfir Iðubrú og að Skeiðarrétt. Þaðan er svo upplagt að fara á Þjórsárbakka og niður þá, vildisgötur nema hvað mörg hlið eru á leiðinni sem þarf að opna og loka.

Hjá Skálholti er svonefndur Fornistöðull norðan við veginn. Þar tjölduðu Jón biskup Arason og menn hans árið 1548 og 1550 er þeir gerðu aðför að staðnum. Þaðan liggja Biskupatraðir heim að Skálholtsstað norðan við kirkjugarðinn.

Tíðfarin leið var um Iðuferju framhjá Skálholti og yfir Brúará á Spóastaðaferju. Þó að hér væru tvö sundvötn þá var þetta ágæt leið. Síðan var farið fyrir norðan Mosfell og milli Neðra-Apavatns og Þóroddsstaða og um Biskupsbrekku á Lyngdalsheiði og út yfir Gjábakkahraun. Niður að Þingvallavatni var komið um Gjábakkastíg yfir Hrafnagjá hjá Vellankötlu.

Um vetur eitt sinn flutti ferjumaður hjá Iðu 10 förumenn á leið í Skálholt. Ísskrið var í ánni og bátinn fyllti og sökk með mús og manni. Þarna drukknuðu allir nema ferjumaðurinn sem hét á heilagan Þorlák í neyð sinni.

Úr því minnst er á Mosfell í Grímsnesi má geta þess að þar bjó Ketilbjörn hinn gamli Ketilsson. Hann átti mikið silfur og bað sonu sína um að gera þverslá úr silfri á hofið í bænum. Þeir þvertóku fyrir það. Hann lét þá tvö naut draga silfrið upp í fjallið. Ambátt og þræl lét hann grafa silfrið. Til að þau yrðu ekki til frásagnar um felustaðinn drap hann þau bæði.

Um Kóngsveg Leiðin sem í daglegu tali hefur verið nefnd Kóngsvegur liggur frá Miðdal í Laugardal og að Miðhúsum í Biskupstungum. Bændur hafa amast við ferðum hestamanna um þessa fornu alfaraleið þannig að nú er hún ekki fær nema frá Efstadal að Miðhúsum. Þarna eru rjómagötur og ógleymanleg þeim sem farið hafa. Á einum stað er farið yfir Brúará um gamla trébrú. Þar var áður steinbogi yfir.

Árið 1602 var steinboginn brotinn niður. Uppflosnað fólk á verðgangi um landið steðjaði í Skálholt í von um ölmusugjafir. Kona Odds Einarssonar biskups í Skálholti Helga Jónsdóttir fékk bryta sinn til að fara með mannafla og brjóta brúna niður þannig að förufólk kæmist ekki í Skálholt. Um þetta fólk á kannski vel við hending úr ljóði Stefáns Harðar Grímssonar Bifreiðin hemlar í rjóðrinu.

Vina mín með spékoppana og málmbjöllurnar.

Einu sinni var enginn vegur
hér hafa tærðir menn og bleikar konur
reikað torfærar móagötur
í skini og skugga
dökkar sjalrýjur á herðum
hendur luktar um kvistótt prik.

Þess má geta að árið 1793 var Sveinn Pálsson sá mikli náttúruskoðandi á ferð frá Geysi í Laugardal. Hann fór yfir Brúará á vaði milli Efri-Reykja og Neðri-Reykja.

Frá Geysi á Hveravelli Svolítið austar er Geysir og liggur leið þaðan upp að Fremstaveri undir Bláfelli en þar er leitarmannakofi og síðan austan við Bláfell meðfram Hvítá eftir gömlum slóðum og þaðan yfir brúna á Hvítá og að Hvítárvatni og svo áfram með Fúlukvísl og um Þjófadali á Hveravelli. Ekki er leyfilegt að fara með rekstur um Þjófadali og verða menn að vera einhesta þar en fara með reksturinn fyrir austan Þjófafell.

Sagt er að eitt sinn hafi 9 skólapiltar frá Hólum sest að í Þjófadölum eftir að hafa drepið einhverja kerlingu þar nyrðra.

Eitthvað fram á nítjándu öld var hægt að komast milli Hvítárvatns og skriðjökulsins sem gengur framúr Langjökli. Þannig var það líka á Sturlungaöld. Það hefur verið tignarleg sjón að sjá 1250 manns þoka sér þarna á hestbaki á leið að Örlygsstöðum.

Frá Þingvöllum um Mosfellsheiði Og svo aftur á Þingvöll þangað sem leiðir allra lágu. Þaðan og á Nesjavelli í Grafningi er farið meðfram vegi. Þaðan liggur svo leið yfir Dyrfjöll á Dyraveg og hjá Lyklafelli og áfram niður að Gunnarshólma. Fleiri leiðir liggja úr Grafningi m.a. Klóarvegur yfir í Hveragerði. Hann liggur fyrir vestan Klóarfjall og um Laxárdal.

Um Jórukleif og fyrir vestan Sköflung liggur svonefnd Bringnaleið yfir Mosfellsheiði niður hjá Helgufossi í Köldukvísl og hjá Gljúfrasteini. Jórukleif heitir svo vegna þess að þar settist Jóra nokkur að eða svo segir þjóðsagan. Hún var bóndadóttir neðan úr Flóa sem ærðist þegar graðhestur föður hennar beið lægri hlut í hestaati. Eftir það varð hún hin versta tröllkona og sat fyrir ferðamönnum í Jórukleif, rændi þá og drap. Loks tókst fyrir atbeina Noregskonungs að koma henni fyrir kattarnef.

Hér má einnig nefna Frakkastíg sem liggur úr Grafningi að Miðdal. Vegur þessi var lagður þegar háspennulína var lögð yfir Mosfellsheiði að Búrfellsvirkjun af frönskum mönnum.

Á Mosfellsheiði fyrir vestan Heiðarbæ er Vilborgarkelda, vinsæll áningarstaður á fyrri tíð. Þarna eru sýslumörk Kjalarnesþings og Árnessýslu. Þaðan ræður svo Laufdælingastígur sem lá vestur eftir heiðinni allt að Lyklafelli.

Um Lyklafell fjallar þekkt þjóðsaga. Hún er um Ólaf nokkurn bryta í Skálholti. Upp úr sauð milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Fjallabaksleið syðri. Við Brytalæki á Fjallabaksleið austanverðri datt hann dauður niður.

Úr Vilborgarkeldu lágu leiðir í allar áttir. Ein leiðin í átt að Hengli og þar um Jórukleif í Grafning. Önnur leið lá úr Vilborgarkeldu vestur yfir Moldbrekkur. Þaðan svo hjá Leirvogsvatni um Klifið og niður hjá bænum Bringum í Mosfellssveit. Á þessari leið varð það slys veturinn 1857 er 14 vermenn úr Laugardal og Biskupstungum voru þar á ferð að sex létust úr vosbúð á leiðinni en átta komust við íllan leik niður að Bringum kalnir og urðu sumir ílla bæklaðir til æviloka. Álitið er að það hafi ráðið úrslitum hverjir gátu þurrkað fötin sín kvöldið áður og hverjir ekki. Þeir sem fóru í blaut föt um morguninn fórust allir.

Enn önnur leið lá úr Vilborgarkeldu um Kjósarskarð og niður með Laxá Þrengslaleið svonefnda.

Úr Hveragerði á Kolviðarhól Upp Kamba hlykkjast gamli vegurinn og honum er hægt að fylgja yfir Hellisheiði og niður að Skíðaskálanum í Hveradölum og þaðan að réttinni við Kolviðarhól. Um Kambana hefur Björn Pálsson forstöðumaður Héraðsskjalsafnsins á Selfsossi sagt að þar sé vegaminjasafn þjóðarinnar enda þar sýnishorn af vegum og troðningum frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar. Á Kolviðarhóli var byggt sæluhús árið 1844 og síðan gistihús fyrir ferðamenn. Árið 1938 keypti Íþróttafélag Reykjavíkur svo Kolviðarhól af Valgerði Þórðardóttur. Eftir það var þarna skíðaskáli. Ég man enn þegar Ragnar Thorvaldsen hesta- og skíðamaður flaug þar fram af stökkpallinum.

“Kemur Gregesen,” var kallað í brekkunni, “kemur Gregesen.” Seinna átti ég leið í bíl um Mosfellsheiði og sá þá Ragnar í Fáksreið á leið á Þingvöll. Hann var með tvo jarpa hesta til reiðar og þeir voru fínkembdir frá ennistoppi aftur í tagl. Ég man ég hugsaði hvað hárið á honum var ungt þar sem það bærðist í andvaranum. Eftir þetta held ég að hann hafi ekki lifað nema eitt eða tvö ár. Ragnar var lærifaðir margra þeirra hestamanna, sem eru að gera það gott í dag. “Alltaf spretta af þegar best lætur,” sagði hann eitt sinn við mig. Við hann er kenndur bikar sem veittur er fyrir fegurð í reið. Og drottinn minn dýri sumarkvöldið árið 1986 á Landsmóti hestamanna á Hellu. Farin var hópreið með Sigurði frá Kirkjubæ um Rangárvellina. Ég reið við hliðina á Ragnari og allt í einu opnaði jarpi klárinn hans sig á hraðatölti. Sjaldan hef ég séð annan eins sælusvip á andliti nokkurs manns. Hann hafði verið að þjálfa hægatöltið allan veturinn og aldrei komið klárnum nema upp á milliferð. Hraðabrokkið hafði hann líka þjálfað en hraðatöltið lét á sér standa.

Þetta var útúrdúr en upp frá Kolviðarhóli liggur leið um Hellisskarð líka nefnt Yxnaskarð eða Nautaskarð á leið sem kölluð hefur verið Vegur milli hrauns og hlíða og síðan í Hveragerði eða ofan í Grafning. Af þessari leið liggur vörðuð leið hjá Biskupsvörðu yfir að skýli Slysavarnarfélagsins á Hellisheiði og síðan áfram Skógarveg sem líka hefur verið nefndur Skógarmannagata eða Suðurferðagata. Hún liggur milli Núpafjalls og Skálafells niður í Ölfus og er þar komið milli bæjanna Þurá og Þóroddsstaða. Skógarvegur hét svo vegna þess að um hann var farið í Grafning að sækja skógarvið.

Um Ólafsskarð, Þrengsli og Lágaskarð Leið liggur upp úr Jósefsdal um Ólafsskarð eins og áður hefur verið sagt og síðan um Hrossaflatir sem eru fyrir sunnan Fjallið eina. Önnur leið liggur frá Skíðaskálanum í Hveradölum svonefnd Lágaskarðsleið milli Stóra-Sandfells og Stóra-Meitils og niður með Lönguhlíð. Ýmist var komið niður hjá Hjalla í Ölfusi eða Hrauni.

Um Þrengsli liggur leið meðfram hlíðum fyrir norðan akveginn, ágætar götur víða. Þetta hygg ég að sé sjaldan farið. Um tíma höfðu menn áhuga á að leggja járnbraut um Þrengslin. Frá Þrengslavegi og í Hveragerði er farið meðfram vegi. Þeim sem vanist hefur gömlum reiðleiðum fjarri alfaraleið finnst önugt að vera með bílaumferð alveg oní sér, en að öðru leyti eru þarna þolanlegar götur. Flestum tömdum hestum er nokkuð sama um bílaumferð, en þeim er hins vegar mörgum ílla við barnavagna og reiðhjól og skærlita plastpoka á fjúki. Barnfóstrur og hestamenn ættu því að halda sér í nokkurri fjarlægð hvort frá öðru og eins reiðhjólafólk og hestamenn. Nóg er plássið hér á landi og óþarfi að menn séu að þvælast um í einni kös.

Götur í Ölfusi Upp úr Ölfusinu liggja m.a. þessar leiðir: Bjarnastaðastígur, en hann liggur upp á brúnina vestan við túnið á Bjarnastöðum, einnig Króksstígur. Jókustígur er í Hjallasókn og einnig Jóreiðarstígur og Hestastígur, Steinkustígur, Kúastígur og Krikastígur, Borgarstígur og Blautugötur.

Alfaravegur lá fyrrum frá Kotferju ferjustað á Ölfusá, framhjá Kirkjuferju, Bakkárholti, Gljúfurárholti, Krossi og á Torfeyri við Varmá.

Um Grafningsháls Úr Hveragerði liggur leið inn að bænum Gjúfri en rétt áður en komið er að bænum Hvammi er sveigt til vinstri og er þar komið á Grafningsháls yfir í Grafning. Þegar komið er af Hvammsmelum er sveigt til vinstri og farið með lækjarfarvegi um gil þarna.

Leið lá af Grafningshálsi að Álftavaði (Álftavatn) á Soginu, fjölfarin fyrrum áður en brýrnar komu en Sogið var slæmur farartálmi.

Nokkurn veginn miðja vegu á Álftavaði heitir Vaðeyri. Nú mun Álftavað lítið vera farið. Ég veit þó til þess að Bergur heitinn fyrrverandi framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Fáks fór um Álftavað stundum í sleppitúrum á vorin á leið austur í Biskupstungur. Það var hann sem sagði þegar hann var hvattur til að láta gera við hjartað í sér: “Æ, þetta er orðið alveg nóg,” sagði hann.

Þegar Bergur var framkvæmdastjóri Fáks var viðskiptabókhaldið í einni stílabók og alltaf hafði Dúna   tíma til að spjalla við mann þegar komið var að greiða hesthúsaleiguna. Ef menn skulduðu leigu var ekki verið að senda harðorð rukkunarbréf í lögfræðingastíl, en ef Bergur kom auga á viðkomandi kannski niðri á Lækjartorgi kallaði hann yfir þvert torgið: “Reyndu að hundskast til að borga hesthúsaleiguna.” Svona var nálægðin í mannlífinu í þá daga, en nú er kominn símsvari á skrifstofu Fáks og enginn nennir að tala við mann lengur. Þetta stafar af því að félagið hefur allt of mikið umleikis og stjórnarmenn í of mörg horn að líta. Þeir eru að reyna að þóknast þessum eða hinum og enda með því að gera engum til geðs. Aldrei þreytist ég á að dást að þeim ofurhugum sem sækja launalaust ár eftir ár í þennan slag og fá svo kannski ekkert nema skammir fyrir.

Guðmundur Ólafsson var seinna framkvæmdastjóri Fáks, eins og Bergur gekk hann beint til verks.
Til merks um hanns verk var Guðmundarstofa formlega vígð.
Guðmundi formanni Ólafssyni og fjölskyldu var boðið og komu þau og færðu Fáki glæsilegt málverk af Guðmundi og “Formanns-Grána” að gjöf. Málverkið sómir sér einkar vel í Guðmundarstofu.

Í kjallara Nýja bíós, í svokölluðum efri sal kaffihúss Rosenbergs, komu 40 hestamenn saman þann 24. apríl árið 1922. Tilefnið var stofnun landsins fyrstu félagasamtaka hestamanna, nefnilega hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík.

Þetta var enn einn út úr dúr en Álftavaðs er getið í Sturlungu. Eftir að Sturla Sighvatsson hafði handtekið Gissur Þorvaldsson í Apavatnsför árið 1238 reið hann um Álftavað. Hann hafði ætlað að drepa þennan erkióvin sinn en hætti við það og gaf honum líf.

Leiðir yfir Hvítá En svo við hverfum yfir að Hvítá þá má nefna á henni nokkur vöð svo sem Hólmavað sem hét áður Skagfirðingavað. Það er rétt fyrir neðan brúna fyrir austan Bláfell. Sömuleiðis Ísabakkavað eða Hvítárholtsvað. Það er fyrir ofan Hvítárholt. Kópsvatnsvað er hjá Kópsvatnseyrum. Það var talið nokkuð gott vað. Aðkoma var hins vegar erfið hjá Steypuvaði. Skammt frá Bræðratungu í Biskupstungum er Vaðhólmi. Ætli júnkærinn í Bræðratungu sem fjallað er um í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness hafi ekki farið þar um þegar hann var að koma af fyllirístúrunum niður á Eyrarbakka og velktist um með hrossin sín í fúafenum fyrir neðan bæinn. Honum hefur sjálfsagt ekki fundist það neitt áhlaupaverk að koma heim til Snæfríðar Íslandssól ílla verkaður eins og hann var.

Ferjur á Hvítá voru Auðsholtsferja, Iðuferja og ferja hjá Oddgeirshólum. Sagnir herma að við Brúarhlöð hafi fyrrum verið steinbogi yfir Hvítá. Bændurnir í Haukholtum og á Gýgjarhóli handan Hvítár áttu í illdeilum, sem enduðu með því að þeir brutu niður steinbogann.

Ásgrímur Elliða-Grímsson er þekktur úr Njálu. Hann bjó í Bræðratungu. Á leið sinni á Þingvöll eftir Njálsbrennu kom Flosi á Svínafelli við í Bræðratungu til að klekkja á Ásgrími. Hann fór á gömlu vaði yfir Hvítá á móts við Kópsvatn. Því næst reið hann Flosatraðir.

Grimmd sú sem birtist víða t.d. í fornsögum er nútíma Íslendingi lítt skiljanleg, okkur sem búum við lýðræði og félagslegt öryggi að kalla. En kannski er þetta aðeins smá þíða í annars blóði drifinni mannkynssögunni.

Svo er líka til annars konar grimmd. Hún er m.a. fólgin í einelti í skólum og á vinnustöðum mjög víða, útskúfun fólks sem kann ekki eða vill ekki bíta frá sér. Eða eins og einhvers staðar stendur skrifað: Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Vöð á Tungufljóti eru m.a. Fossavað og Réttarvað.

Leiðir yfir Þjórsá Nokkurn veginn á móts við Skarð í Landssveit er Nautavað á Þjórsá. Fleiri vöð má nefna eins og Hagavað, Eyjavað og Gaukshöfðavað en það er neðst í Þjórsárdal.

Í mai 1916 kom að Skriðufelli í Þjórsárdal Sturla Jónsson frá Fljótshólum í Flóa. Hann var þá 28 ára gamall. Hafði hann gengið suður Sprengisand frá Mýri í Bárðardal og verið þrjá sólarhringa á leiðinni. Þetta þótti þrekvirki enda hin versta færð og ár allar í vexti.

Áður en brýrnar komu var farið yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Pörtunum eins og kallað var og á Hrosshyl fyrir ofan Nautavað var ferjað frá Þjórsárholti. Áin þarna var straumþung og erfitt að ferja. Þarna er örnefnið Ferjuklettur. Hjá Nautavaði er áin um tveggja km breið. Það tekur um 40 mínútur að ríða þar yfir. Einnig má nefna Egilsstaðaferju á Þjórsá og Nesferju.

Leið liggur vestan Þjórsár frá Bólstað upp í Nauthaga með Arnarfellsmúlum inn undir Arnarfell hið mikla sem er austanvert í Hofsjökli og þaðan á vaðið á Þjórsá hjá Sóleyjarhöfða. Þarna hefur verið nefndur Arnarfellsvegur. Handan Þjórsár er komið á Sprengisandsleið. Árið 1950 var fyrst farinn Arnarfellsvegur á bíl.

Ferjur á Ölfusá voru m.a. þessar: Kaldaðarnesferja, Óseyrarferja og Arnarbælisferja. Slys varð á Óseyrarferju á 16. öld er 10 menn voru að flytja skreið inn á Óseyri. Ferjumenn urðu sundurorða úti á ánni og lentu í handarlögmálum þannig að bátnum hvolfdi. Allir sem í bátnum voru drukknuðu.

Úr ferjumáldaga frá því um 1200 er Kaldaðarness getið. Með honum fékk Kaldaðarnes einkarétt á ferju yfir Ölfusá, aðra hjá Kotferju yfir að Kirkjuferju og svo Kaldaðarnesferju yfir að Arnarbæli.

Á Kaldaðarnesferju gerðist það slys árið 1518 að 40-50 manns flykktust út á ferjuna. Ferjan sökk í miðri á og fórust allir m.a. séra Böðvar Jónsson frá Görðum á Álftanesi og dóttir hans en lík hennar fundu fiskimenn frá Þorlákshöfn í öllum klæðum úti á rúmsjó.

Mikill átrúnaður fylgdi krossi í kirkjunni í Kaldaðarnesi. Stundum nægði að sjá t.d. af Kambabrún heim að bænum. Það huggaði dapra og sjúkir náðu bata.

Niðurlag Svo erum við aftur komin á Þingvöll. Þar í kirkjunni hélt Jón biskup Vídalín fræga umvöndunarræðu á spilltri öld. Þá logaði allt í ágirnd og átökum um jarðeignir. Án átaka verður engin framvinda, en þegar þau keyra um þverbak er það hlutverk kirkjunnar að milda þau.

Kannski eru stjórnvöld hrædd um að einn góðan veðurdag muni annar Jón Vídalín hefja upp raust sína í Mýri í Bárðardal. Þess vegna er hyggilegast að leggja niður prestssetrið þar. Samt er engin ágirnd í gangi í þjóðfélaginu í dag, allir svo tillitssamir og lýðræðislegir en allur er varinn góður.

Best að enda á Þingvöllum þar sem byrjað var. Hestagjá þar sem menn geymdu löngum hesta sína á meðan þeir brugðu sér í Valhöll að fá sér hressingu hefur verið lokuð hestafólki um árabil (Hótel Valhöll Brann til kaldra kola í júlí 2009). Í dag er hinni óheftu frjálshyggju innan Þjóðgarðsins nú endanlega lokið. Hestafólki eru ætlaðar ákveðnar reiðgötur þar og ekki nema gott eitt um það að segja. Við þurfum aðhald eins og annað fólk og höfum skyldur við náttúru þessa lands. Sá tími er menn komu ríðandi nánast inn á barinn í Valhöll er sem betur fer liðinn.

Tilgangur þessara skrifa er ekki að vera með einhverja vandlætingu eða umvöndun enda fer flestum það betur en mér. Ég er einungis að reyna að benda mönnum á hvar skemmtilegustu reiðgöturnar liggja. Forfeður okkar kunnu að velja bestu leiðirnar. Förum í fótspor þeirra og þá munu hollvættir þessa lands geyma okkur.

Eftir Örn H. Bjarnason (2004)
Innskot: Birgir Sumarliðason is.nat.is

Myndasafn

Í grennd

Ásavegur
Ásavegur, hin forna þjóðleið. Ásavegur er hin forna þjóðleið fólks um Suðurland og áttu margir leið þar um með verslunarvarning og ýmsar vistir. Þá f…
Íslenski hesturinn
Íslenski hesturinn er að mestu kominn frá Vestur-Noregi og líklega Norður-Bretlandi og Hebrideseyjum. Allir, sem lögðu leið sína til Íslands til landn…
Kóngsvegurinn
Kóngsvegurinn er ein stærsta einstaka framkvæmd Íslendinga. Hann var gerður til að taka á móti Friðrik áttunda konungi sumarið 1907. Föruneyti konungs…
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Akrafjall Akrakirkja Akranes Akraneskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )