Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Fólk við ferjustaði á Iðu

Iðuferja

Rætt við Ingólf Jóhannsson og Margréti Guðmundsdóttur á Iðu
Ingólfur Jóhannsson 1980 (mynd pms) viðtalið tók Geirþrúður Sighvatsdóttir og það birtist í Litla Bergþór í desember 1995

Í síðustu tveim blöðum Litla Bergþórs hefur verið rætt við aldraða ferjumenn í Biskupstungum, fyrst Jón Bjarnason í Auðsholti og síðan Þórdísi Ívarsdóttur á Króki.
Í þessu blaði er röðin komin að Ingólfi á Iðu, en segja má að hann sé upphafsmaður að þessari viðtalsröð, þar sem það barst einhverntíman í tal okkar á milli, að nauðsynlegt væri að skrá lýsingar á ferjumannsstarfinu, meðan enn vœru uppi menn, sem myndu það. Því erþað, að blaðamaður L-B er nú staddur inni áfallegu heimili Ingólfs og Margrétar á Iðu með penna og blað. Það er síðasta vika í nóvember og þegar ekið er yfir Iðubrú, sést að ána hefur lagt að mestu, en þó er vök á henni við brúna. Blaðamaður veltir fyrir sér hvar ferjan hafi verið.

En fyrsta spurning er að vanda um ætt og uppruna.

Ég er fæddur á Iðu 14. ágúst 1919 og hef verið hér alla mína ævi, ef undan eru skildar sex vertíðir og þrjú ár, sem ég var viðloðandi dráttarbraut Keflavíkur upp úr 1940. Ég vann þar við trésmíðar undir verkstjórn Egils Þorfinnssonar frá Spóastöðum. Eiginlega hef ég alltaf séð eftir því að hafa ekki lært trésmíðar, en það varð aldrei af því.

Móðurætt mín var frá Kalmanstungu í Borgarfirði. Móðurafi minn, Þórólfur Jónsson frá Kalmannstungu, byrjaði búskap sinn í Borgarfirði, en missti konu sína fljótlega. Þá var það, að sr. Jón Steingrímsson, systursonur Þórólfs, fluttist að Gaulverjabæ í Flóa og fékk Þórólf með sér til að stjórna búinu. (Þess má geta að Jón þessi var faðir Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra, sem Steingrímsstöð er kennd við.)
Nú, þar kynnist Þórólfur ömmu minni, Ingveldi Nikulásdóttur frá Hamri í Gaulverjabæ. Hann var tuttugu árum eldri en hún, og meinið var að hún vildi aldrei eiga karlinn, heldur annan mann í sveitinni. Giftust þau aldrei og bjuggu ekki alltaf saman. Samt áttu þau saman 4 börn, þrjár dætur og einn son. Móðir mín, Bríet Þórólfsdóttir var elst, fædd 1891, síðan komu Halldóra (f.1893), Ingvar (f.1896) og Vilborg (f.1899) yngst.
Halldóra og Ingvar bjuggu í Vestmannaeyjum og átti Halldóra 11 börn og Ingvar 9. Halldóra og börn hennar voru uppistaðan í Hvítasunnusöfnuðinum Betel og þær þrjár vertíðir, sem ég bjó hjá Halldóru í Vestmannaeyjum, sofnaði ég hvert kvöld við sálmasöng. Árið 1986 voru afkomendur Halldóru orðnir 136 og afkomendur Ingvars eru líka margir, þó þeir hafi dreifst víðar. Það er því mikill ættbogi kominn frá þeim Þórólfi og Ingveldi.
Ingveldur átti einn son fyrir, Einar Guðjónsson, (f.1895), með manni þeim er hún helst vildi eiga. Hann giftist aldrei og var ekki gamall þegar hann dó úr berklum. Hann bjó lengst af hjá móður sinni. Þórólfur átti einnig einn son með fyrri konunni, Halldór að nafni. Hann flutti til Winnipeg og var þar söngstjóri og dóttir hans mun hafa verið söngkona þar. Móðir mín skrifaðist á við þennan bróður sinn, en ég hef ekkert samband haft við hann eða hans afkomendur.

Föðurætt mín er úr Hrunamanna- og Gnúpverjahreppum. Langafi minn, Ámundi Guðmundsson, var fæddur í Syðra-Langholti, ættaður frá Tungufelli. Hann giftist að Sandlæk í Gnúpverjahreppi, Guðríði Guðmundsdóttur, og er ættin yfirleitt kennd við Sandlæk.
Sagt er að allir Ámundar á Íslandi séu af þessari ætt.
– Einn þeirra var Ámundi snikkari, sem fenginn var til að búa um Ögmundarbríkina frá Skálholti forðum daga, áður en senda átti hana suður í Dómkirkjuna. Sagt er að hún hafi verið mikið listaverk, en bríkur voru einskonar skáphurðir með litlum helgimyndum, svokölluðum íkonum. Því miður dagaði bríkina uppi í salthúsi á Eyrarbakka og eyðilagðist þar.
– Á Sandlæk bjó Guðmundur Ámundason afi minn og faðir minn, Jóhann Kristinn Guðmundsson var fæddur þar, næstyngstur 14 systkina. Af þeim systkinum komust einungis sex til fullorðinsára, hin létust flest á fyrsta og öðru ári, þar af þau fyrstu fimm öll. Þau sem upp komust voru: Katrín (f.1876), Guðrún (f.1880), Bjarni (f.1883), hann varð aðeins 21 árs, Ámundi (f.1886), faðir minn, Jóhann Kristinn (f.1889) og Guðríður Guðrún (f.1891).
Katrín giftist Jóni Brynjólfssyni frá Kaldbak í Hreppum og bjó m.a. á Grafarbakka. Guðrún bjó í Miðdal um tíma, gift Gunnari Þorsteinssyni frá Reykjum á Skeiðum. Ámundi bjó á Sandlæk, kvæntist Höllu Lovísu Loftsdóttur skáldkonu frá Kollabæ í Fljótshlíð og eru afkomendur hans m.a. á Kjóastöðum hér í sveit. Guðríður giftist Gísla Eiríkssyni, sjómanni frá Miðbýli á Skeiðum. Hann fórst með togaranum Max Femberton í stríðinu.

Faðir minn keypti Iðu I af Sigurði gamla í Efstadal, en á Iðu hefur alltaf verið tvíbýli. Hann og móðir mín, Bríet, byrjuðu svo búskap sinn á Iðu árið 1918. Áður hafði móðir mín verið í vinnumennsku, m.a. hjá Sigurlaugu og sr. Eiríki á Torfastöðum, en Jóhann faðir minn unnið vítt og breitt um uppsveitirnar við smíðar þó hann væri ekki lærður smiður. Til dæmis byggði hann bæinn á Kringlu í Grímsnesi. Hann renndi einnig mikið, smíðaði rokka og steypti úr kopar. Til er rokkur, sem hann gaf móður minni árið 1917. Hann smíðaði skeifur og aðra hluti til búsins og stóra 30 þráða spunavél smíðaði hann inni á baðstofugólfi. Rennibekkurinn var í eldhúsinu.

Manni verður stundum hugsað til þess hverju þessir gömlu smiðir hefðu afkastað ef þeir hefðu haft nútíma verkfæri og tækni. Þó er ekki víst að það hefði verið meira. í þá daga þurftu þeir að smíða öll sín verkfæri sjálfir og nota útsjónarsemina og brjóstvitið. Því miður hafði maður ekki hugsun á því að varðveita verkfæri föður míns, en Ingvar, bróðir mömmu, fékk þau til Vestmannaeyja og þar glötuðust þau, nema rennibekkurinn, sem hann smíðaði úr Origon Pine regaviðartré af Landeyjarsandi, skömmu áður en hann dó. Hann er hjá Ámunda bróður í Reykjavík.

– Eftir að foreldrar mínir hófu búskap hér á Iðu, vann faðir minn áfram annað slagið út um sveitir við smíðar, gegn vinnuskiptum aðallega. Aðrir menn komu þá hingað á meðan til að vinna við búskapinn, en hér var stundaður hefðbundinn búskapur með kýr og kindur. Hann kunni þó handtökin við bústörfin einnig, því árið 1918 vann hann 1. verðlaun í kappslætti á Torfastaðaengjum, eins og lesa má um í öðru bindi bókanna „Inn til fjalla“. Hann dó árið 1928, aðeins 39 ára.

Árið eftir kom til okkar Loftur Bjarnason frá Skarði í Gnúpverjahreppi. Hann var móðurbróðir Haraldar Mattíassonar og það er til mynd af honum í gömlum ferjubáti, sem tekin var í sambandi við heimildarmynd Haraldar um lestarferð úr kaupstað. Hann var hér til dánardags 1969, skýr og skemmtilegur karl. En móðir mín dó árið 1970.

Hvað eruð þið mörg systkinin?

Við erum 5 systkinin og öll á lífi.
Elstur er Ámundi, sem er tæknifræðingur, búsettur í Reykjavík, síðan ég, Gunnar, húsa- og skipasmiður í Keflavík, Sigurlaug, sem helst hefur unnið sér til frægðar að vera móðir Jóhanns Hjartarsonar skákmeistara og býr í Reykjavík og að lokum Unnur, sem er yngst og er bóndakona á Reykhól á Skeiðum.

Ingólfur er giftur Margréti Guðmundsdóttur. Áður en við sleppum ættfræðinni alveg, spyr ég hana  Margrét Guðmundsdóttir 1967 (mynd frá Hveratúni) hvaðan hún sé og hverra manna.
Ég er Skagfirðingur, ættuð frá Litla Hóli í Viðvíkursveit. Foreldrar mínir, Guðmundur Magnússon og Fanney Jónsdóttir, bjuggu þar.

Og hvernig kom það til að þú fluttist hingað suður?

Ég fór til Reykjavíkur og réðist síðan sem kaupakona til læknishjónanna hér í Laugarási, þeirra Sigurlaugar Einarsdóttur frá Brimnesi og Ólafs Einarssonar. Faðir minn var að hluta til alinn upp hjá foreldrum Sigurlaugar, þeim Margréti og Einari og ég er skírð í höfuðið á Margréti þessari. Ég var sex sumur og einn vetur í Laugarási, annars var ég í Reykjavík á veturna.

Og börn ykkar hjóna?

Við eigum fjögur börn, 13 barnaböm og eitt barnabarnabarn. Börnin eru Jóhanna Bríet fædd 1945, Guðmundur, f.1947, Hólmfríður, f.1951 og Loftur, f.1955.

En þá eru það ferjustörfin Ingólfur, þau hafa bæst við önnur störf bóndans á Iðu?

Jú, á Iðu var lögferja og áttu ábúendur á Iðu I og Iðu II að skiptast á um að sinna henni. Það sést niður á ferjustaðinn frá Iðu I en ekki frá bænum á austurpartinum, svo oft lenti það á fólkinu á Iðu I að ferja.

Það hafa verið sagnir um ferju á Hvítá við Iðu frá fyrstu tíð biskupa í Skálholti, enda heitir það  Loftur Bjarnason, ferjumaður (mynd frá Iðu) Skálholtshamar að norðanverðu, þó sé í landi Laugaráss. Hérna megin heitir Iðuhamar, þaðan sem ferjað er. Það var mikil umferð hér yfir þegar mest umsvifin voru í Skálholti.
Skálholtskirkja átti þá allar jarðir hérna megin Hvítár að Ólafsvöllum og jarðir í kringum Vörðufell nema Birnustaði. Þessar jarðir áttu þá kirkjusókn í Skálholti. Og auðvitað átti stóllinn víðar jarðir. Til dæmis var Staðarhverfi, vestast í Grindavík, útróðrarstaður Skálholts, en þar var svo aðdjúpt, að hægt var að binda skipin við klettana. Síðar var mikil umferð í sambandi við verslunina á Eyrarbakka, en þar var lengi aðal verslunarstaðurinn austan Hellisheiðar.
Mynd: Loftur Bjarnason, ferjumaður

Eftir að læknir settist að í Laugarási árið 1923 jókst umferð mikið yfir ána, þegar fólk af Skeiðum og Hreppum þurfti að komast til læknis. Eins var mikið ferjað árið 1930 í sambandi við alþingishátíðina.

Það varð mikil breyting þegar síminn var lagður úr Laugarási að Iðu. Það hefur verið milli 1930 og 1940. Áður vissi fólk aldrei hvort læknirinn var viðlátinn og var ferjumaðurinn oft látinn bíða á meðan fólk athugaði með lækninn. En mesti léttirinn var auðvitað þegar Hvítárbrúin kom árið 1957.

Var ferjan alltaf Iðu megin?

Já, ferjan hefur, eftir því sem ég best veit, alltaf tilheyrt jörðinni. Þó eru hústóftir Laugarásmegin við  Ingólfur fræðir nemendur Reykholtsskóla um ferjuna 1980 (mynd pms) ferjuna og sögusagnir um ferjumann frá Skálholti, sem Teitur hét, kallaður Roða-Teitur. Kona hans var frá Höfða. Samkvæmt Einari Elíassyni á Selfossi (í Seti) var Teitur þessi forfaðir hans og fluttist seinna austur á firði. Viðurnefnið Roða- mun hann hafa fengið af rauðu skeggi sínu segir Einar.

Þú hefur væntanlega snemma kynnst ferjunni Ingólfur?

Jú, ætli ég hafi ekki byrjað að ferja upp úr 1930, þegar ég var 10-11 ára. Þar sem þetta var lögferja þurfti alltaf einhver að vera tiltækur ef ferja þurfti yfir ána.
Ferjustarfið var því mikil kvöð og tók oft mikinn tíma. Það gat komið sér illa, sérstaklega á sumrin, þegar tefja þurfti sig frá heyskap. Við byrjuðum því snemma að ferja, krakkarnir og það kom einnig fyrir að móðir mín þurfti að ferja þegar engir aðrir voru heima við.

Það gat því verið erfitt að stunda búskap með þessu. Engjar voru á bökkum Stóru-Laxár við Eiríksbakka og einhverju sinni var bóndinn á Iðu II sóttur úr heyskap til að ferja mann. Reyndist það þá vera flakkari, Hallgrímur að nafni, kallaður Kúa-Grímur. Sagði bóndi að það ætti nú að flengja svona menn. Skipti það þá engum togum að karl bauð honum endann! En karlinn var reyndar oft í sendiferðum fyrir fólk, svo kannski átti hann erindi.

Var rukkaður ferjutollur?

Jú, þegar ég man fyrst var ferjutollurinn 1 króna á manninn. En ef maðurinn var að vitja læknis kostaði  Ingólfur segir nemendum Reykholtsskóla frá ferjunni 1980 (mynd pms) það aðeins 50 aura, og ef teymdur var hestur voru það 25 aurar í viðbót. Auk þess greiddi ríkið 250-300 kónur á ári og sýslan skaffaði einn bát. Það gengu miklar sögur um það hvað ferjustaðimir græddu mikið, til dæmis var haft eftir Guðjóni Sigfússyni frá Óseyrarnesi, að Óseyrarferjan græddi jafn mikið og næmi öllum tekjum Árnessýslu af jörðum og verslunarrekstri. En við urðum lítið vör við þann gróða. Við krakkamir vorum heldur engir harðsvíraðir rukkarar. Ég gerði það að gamni mínu eitt vorið, þegar ég kom heim af vertíð í Vestmannaeyjum, – það hefur verið á árunum 1937-1939, – að punkta niður hjá mér tímana sem fóru í ferjuna í einn mánuð, frá miðjum maí og fram í júní. Það voru 24 klukkustundir þann mánuð og afraksturinn var 5-6 krónur. Ferjutollurinn var þá nýlega kominn í 5 krónur en það breytti litlu. Menn áttu enga peninga og það var aldrei litið á ferjuna hér sem tekjustofn. Þetta var bara skylda.

Hvar var ferjan og hvernig voru aðstæður til að ferja?

Ferjan var nákvæmlega þar sem brúin er núna. Þetta var góður og öruggur ferjustaður, aðeins um 100 metrar á milli landa við klappirnar og löndin breyttu sér aldrei. Sérstaklega var auðvelt að ferja norðan frá. Það þurfti ekki að hafa áhyggjur af því þó brotnaði eða tapaðist ár, það var bara að láta reka, þar til kom að landi. En auðvitað þurfti að kunna á strauminn. Út af syðri hamrinum myndast straumkast í ánni eða hringiða, sem bærinn dregur eflaust nafn af. En hringiðan er oftast grunn og hættulaus nema í miklurm flóðum auðvitað. Þá getur myndast svelgur. Það er aðdjúpt báðum megin og gott sund fyrir hesta.

Hvernig bátar voru notaðir til að ferja?

Áður voru notaðir tvístöfnungar með háum kili. En þeir voru hættulegir að því leyti að þeir lögðust á hliðina þegar þeir komu að landi.
Seinna komu prammar, sem voru miklu stöðugri. Bátarnir entust þó illa, enda óhemju mikil umferð. Botninn rifnaði undan þeim þegar þeir voru sífellt dregnir upp á klappirnar og enn frekar á veturna þegar draga þurfti þá upp á ísskarirnar. Við urðum alltaf að hafa tvo báta, einn til vara. Það mun hafa verið Jörundur þingmaður, sem sá um að skaffa einn bát, hinn var keyptur.

En allt viðhald og viðgerðir á bátunum önnuðust ábúendur á Iðu.
Eitt árið brotnaði bátur og var farið að svipast um eftir öðrum. Við Stóru-Laxá var þá búinn að liggja lengi bátur, sem kallaður var „drottningin“ og máttum við hirða hann, ef við gætum gert hann upp. Sá bátur hafði verið keyptur þegar Kristján Danakóngur og Alexandrína drottning hans voru á ferð um Gullfoss og Geysi og fóru í bakaleiðinni um Hreppa. Kóngur reið, en drottning ók í vagni og þurfti að ferja hana yfir Stóru-Laxá. Þar sem lent var með drottningu heitir síðan Kóngsbakki, en það er nálægt Ósabakka. Var þá keyptur þessi bátur og aðeins notaður í þetta eina sinn. Síðan lá hann á hvolfi við vaðið, vestan undir svokölluðum Langholtsrana og veðraðist. Þetta var heilmikill bátur, langur og rennilegur með hringsætum aftan við þófturnar. En hann var of langur fyrir okkur og ætluðum við að stytta hann. Það fór samt svo, að hann fór aldrei á flot, enda orðinn alveg ófær.
Nú síðasta bátinn gerðu svo brúarsmiðirnir upp meðan þeir voru að vinna við brúna, en það var byrjað á henni 1953. Botninn var orðinn alveg eyddur og klæddu þeir ný borð utan á gamla bátinn.

Árið 1902 var sett dragferja á ána. Hún var líkt og stór kassi og lá strengur yfir ána og handsnúin vinda eða spil í bátnum. Sú ferja var þó ekki lengi við Iðu, því árið eftir fórst bóndinn á Iðu II, Runólfur Bjarnason, við ferjuna. Ætlaði hann ásamt þrem öðrum að róa yfir ána og sækja dragferjuna, til að geta ferjað ferðamenn yfir, sem komnir voru á Iðuhamar. Ferjan var við Skálholtshamar, vegna þess, að þann dag var verið að færa festingar á strengnum að norðanverðu, vegna sandeyra, sem hamlað höfðu notkun ferjunnar.
Ætluðu þeir að róa fyrir ofan strenginn, en straumurinn kastaði bátnum á strenginn og hvolfdi honum næstum því, með þeim afleiðingum að Runólfur drukknaði. Hinir þrír björguðust naumlega. Er nánar sagt frá þessu slysi í Árnesingi II (frá 1992).
Skömmu síðar var ferjan tekin af og flutt að Spóastöðum, enda hafði þá aukist umferð um Grímsnes upp í Tungur.

Hafa orðið fleiri slys við ferjuna?

Ekki beinlínis við ferjuna sjálfa, þó hafa orðið nokkur dauðaslys önnur nálægt ferjustaðnum. Það mun hafa verið rétt fyrir jólin árið 1955 að bræðurnir Jón og Kristinn Sæmundssynir drukknuðu í ánni. En þeir voru bræður Lýðs á Gýgjarhóli.
Þeir höfðu verið að vinna við byggingu biskupshússins í Skálholti, en Jón var múrari og Kristinn trésmiður. Þeir voru ættaðir frá Eiríksbakka og þekktu vel til á bæjunum í kring. Ætluðu þeir að eyða helgi hjá kunningjum fyrir sunnan Hvítá og lögðu af stað á laugardagskvöldi. Síðan fréttist ekki fyrr en á mánudagsmorgun, að þeir höfðu aldrei komið fram. Þykir líklegast að þeir hafi gengið beint í vök á ánni, en hún er alltaf varasöm á ferjustaðnum. Vatnið og ísinn eru jafnlit og erfitt að átta sig á aðstæðum í myrkrinu. Fundust þeir ekki fyrr en vorið eftir.

Síðan hafa tvö börn drukknað í ánni, barn frá Rauða krossinum (1957) og svo barn Konráðs læknis og Önnu (1979). Það gerðist sennilega hvoru tveggja þegar börnin voru að vaða út í ána, en hún er stórhættuleg, þverhnípi úti í ánni skammt frá landi. Þetta voru sorgleg slys og óskemmtileg lífsreynsla að þurfa að finna líkin og ná þeim úr ánni.

Leggur ána yfirleitt á veturna?

Jú, oftast meira eða minna. Ætli það sé ekki svipað og í Auðsholti. Þó voru þeir sennilega háðari samgöngum yfir ána og fóru því að fara yfir fyrr, áður en ísinn varð traustur. Það kom fyrir að áin var ófær vegna ísskriðs, sérstaklega ef hún var að brjóta af sér gamlan ís. En í ísskriði vegna frostíss var aldrei nein hætta og nær alltaf ferjað. Hún fer fyrst saman í þrengslunum við ferjustaðinn og ísinn þjappast svo saman. Það var alltaf tilhlökkunarefni að losna við ferjuna þegar kominn var góður ís á ána. Oftast var þó farið með fólki, nema það væri þeim mun kunnugra. Farið var beint yfir hjá sumarbústöðunum, yfir að læknisbústaðnum. Það gat þó verið varasamt, því það er hver undir í ánni, sem getur brætt af sér.

Oft var farið á vörubílum yfir ísinn. Þegar Einar Tómasson í Auðsholti byggði húsið sitt, keyrði hann grjót úr Vörðufelli yfir ána við Þengilseyri, upp túnið í Skálholti og þar upp á veg. Síðan var keyrt að ferjustaðnum við Auðsholt og þar aftur yfir ána á ís. Ég gerði það að gamni mínu að láta mæla ísinn þar sem vörubílabrautin var og var hann 60 cm þykkur. Það má líka til gamans segja frá því, til að sýna hve færið yfir ána gat breyst snögglega, að það mun hafa verið 1930, í maí að mamma fór með systur mínar tvær í vorpróf upp í Reykholtsskóla.
Þær voru ferjaðar yfir og hestamir sundlagðir eins og alltaf. Síðan riðu þær í Reykholt og á bakaleiðinni gisti móðir mín eina nótt á Torfastöðum hjá sr. Eiríki og frú Sigurlaugu, eins og hún var vön. En daginn eftir var áin komin á ís og þurftu þær að bíða nokkra daga áður en þær komust til baka með hestana.

Ingólfur spjallar við nemendur Reykholtsskóla um ferjuna 1980 (mynd pms)
Ingólfur fræðir nemendur Reykholtsskóla um Iðuferju 1980 (mynd pms) Ingólfur spjallar við nemendur Reykholtsskóla um ferjuna 1980 (mynd pms)

Kannt þú fleiri sögur um ferðir yfir ána?

Yfirleitt er talið að Hvítá sé ekki reið eftir að Tungufljót kemur í hana. Þó er til ein frásögn um það að hún hafi verið riðin, en það var þegar þeir Teitur í Bjarnarnesi og Þorvarður á Möðruvöllum fóru í Skálholt og drápu Jón biskup Gerreksson 1433. Sagt er að þeir hafi riðið yfir ána á Þengilseyri, sem er hólmi í ánni neðan við ferjustaðinn, á móti Skálholti. En líklegt er að áin hafi legið öðruvísi þá.

Nú, svo reið Guðjón á Eiríksbakka ána á móts við Laugarásbyggðina uppúr 1930 og var það ekkert þrekvirki. Botninn er góður þarna og Guðjón þrautþekkti ána.
Einu sinni var ég að ferja Jörund í Skálholti. Hann fór á hesti niður á Skeið í góðu veðri, en þegar hann kom til baka um kvöldið var kominn blindbylur. Hann vildi samt komast heim eins og gengur og láta vita af sér. Áin var full af snjó og í raun ekkert vit að leggja í hana. En Jörundur vildi fara svo það varð úr. Með okkur var Loftur heitinn Bjarnason, ráðsmaður hjá okkur og ætlaði hann að bíða eftir mér hérna megin.
Nú það skipti engum togum, að við Jörundur vorum ekki komnir nema 2- 3 bátslengdir frá landi, þegar ég braut árina í krapinu. Rak okkur aftur að sama landi og tókst mér að draga bátinn upp á skörina. Myrkrið og sortinn var svo mikill, að Loftur hafði ekki tekið eftir neinu og brá honum heldur betur í brún þegar við komum allt í einu aftan að honum þarna í myrkrinu.

Nú, eftirminnilegt er líka þegar ég flutti líkkistu yfir ána í miklu ísskriði. Það mun hafa verið uppúr 1950, líklega 1951. Jóhanna Þorsteinsdóttir dó í Höfða um vetur og átti að jarða hana í Reykjavík, þar sem Víglundur maður hennar var jarðaður. Það var búið að snjóa mikið og ófært um Grímsnes, svo það var tekið það ráð að ferja kistuna yfir hjá Iðu. Kistan var svo stór og þung, að það þurfti að hafa hana þversum á bátnum og var ekki pláss nema rétt fyrir ræðarann. Ef báturinn hefði hallast, hefði kistan farið í ána. Auðvitað var þetta glannaskapur og hálfgerð flónska. En skarir voru góðar og ég fór af stað nokkru fyrir ofan ferjustaðinn. Þegar ísskrið var, barst báturinn með straumi og þurfti bara að stjaka sér á milli jakanna. Síðan var krækt í bátinn frá hinum bakkanum. Þarna hugsaði maður ekki um annað en að koma þessu á leiðarenda og allt fór þetta vel.

Tvisvar hef ég líka synt yfir ána þegar vantaði bát. Þá hef ég líklega verið svona 17-18 ára. Ekki man ég að mér hafi fundist það neitt mál, enda stutt yfir. En áin er köld og hættulegt ef menn fá krampa.

Eitt sinn ætlaði maður einn að sundríða ána, en hesturinn drapst undir honum þegar hann kom sveittur út í kalt vatnið.

Þú sagðir að sandeyrar hefðu truflað dragferjuna á sínum tíma. Er mikil hreyfing á sandinum í ánni?

Jú, sérstaklega hér áðurfyrr. Þá var meira í ánni og oftar flóð í henni. Nú er hún mun minni, hvort sem það er vegna þess að jöklarnir hafa hopað, eða að vatnið hefur farvegi inní alla þá skurði, sem grafnir hafa verið á síðustu áratugum. Ég tók um árabil sýni úr ánni fyrir Sigurjón Rist vatnamælingamann. Eitt haustið mældi ég 11 feta dýpi undir brúnni, en um vorið var það orðið 33 fet. Sandur safnast í gjána á milli klappanna á sumrin, en hreinsast fram í flóðum, sem oftast eru seinnipart vetrar.

Hér áður fyrr endurnýjaðist eyrin fyrir neðan brúna alltaf, því hringiðan í flóðunum bar sandinn úr gjánni að landi.

Nú verða ekki flóð, enda endurnýjar eyrin sig ekki. Rofið í árbökkunum nú er vindrof, ekki vegna árinnar. Og sandfokið af Skálholtseyrunum er að drepa gróður í Skálholtstungunni. Þegar flóðin urðu mest hér áður fyrr, varð áin al-ófær. Öldugangurinn og staumkastið var svo mikið þar sem hún beljaði á milli klappanna.

Þann 2. febrúar 1930 varð eitthvað það mesta flóð, sem ég man eftir. Þá var Vörðufell eyja og vatnið var komið inn yfir túngarðinn hjá okkur. Eins varð Eiríksbakki oft umflotinn vatni í flóði. Í gömlum annálum er líka sagt frá því, að öll veiði hafi lagst af á Iðu vegna sandburðar.

Já laxveiðin. Er góð veiði í ánni?

Laxveiðinni hefur hrakað með ólíkindum. Þetta voru mikil hlunnindi hér áður fyrr og ég man eftir að það  Iða við Laugarás komu milli 1300 og 1400 laxar á land á sumri. Þá var veitt í lagnet, sem lagt var á ferjustaðnum. Smá stubbi var fleygt út og það brást aldrei að veiðin var góð. Oft allt að 20 laxar og það þurfti að reiða veiðina heim.

Eftir 1956 hefur eingöngu verið veitt á stengur og er veiðin nú  aðeins milli 500 og 600 laxar á sumri.
Það er til lýsing á veiðisvæðinu við Iðu í bókinni „Af fiskum og flugum“ eftir Kristján Gíslason.Kristjáns Gíslasonar, frá Sellátrum við Tálknafjörð. Fluguveiði hófust upp úr 1960. Stuttu síðar hitti hann norskan fluguhnýtingarmann, Analíus Hagvag, er hann kom hingað til lands og sýndi og kenndi fluguhnýtingar. Eftir þau kynni varð ekki aftur snúið.

Nú er ekki rekinn hefðbundinn búskapur lengur á Iðu. Hvenær hættuð þið búskap?

Æ, ég man það ekki, það er svo langt síðan! Jú, það var þegar brann hjá SS á Skúlagötunni. Þá var stórgripaslátrunin flutt hingað í Laugarás, enda sláturhúsið þá nýlegt. Við notuðum þá tækifærið og löbbuðum okkur með það sem óselt var af kúnum yfir brúna. Kindurnar höfðum við um 10 ár til viðbótar. Nú er bústofninn tveir hestar, sem Margrét á.

En þú hefur væntanlega haft nóg fyrir stafni fyrir því?

Jú, jú. Ég var töluvert í vörubílaakstri, meðal annars við brúarsmíðina hér. Keyrði meira að segja fyrsta bílinn, sem ók yfir brúna. Það er til heimildarmynd af því.
Nú annars hef ég verið mest í smíðavinnu hingað og þangað, við viðgerðir og þess háttar. Sá líka lengi um Sumarbúðirnar í Skálholti. Svo víbraði ég alla steypuna í Skálholtskirkju þegar hún var steypt! – svo eitthvað sé nefnt.

Núna, þegar ég er kominn með aðra löppina í gröfina, er ég að dunda mér við að renna og skera út segir Ingólfur og bendir á fagurlega útskorinn ask, sem stendur á sófaborðinu við hliðina á mér. Síðan sýnir hann mér skálar og veggklukkur sem hann hefur skorið út og bera með sér að hér er listamaður á tré á ferðinni.

Er ekki markaður fyrir svona muni?

Jú, eflaust er það, en það er erfitt að verðleggja þá eftir vinnunni, sem í þá fer. Best er að gefa þá bara,

klukka Ingólfur

fyrst maður hefur gaman af að dunda við þetta. Ég hef reynt að fá eldra fólkið hér í sveitinni til að mæta í Bergholt á fimmtudögum og föndra, til dæmis við svona útskurð. En þátttakan hefur verið heldur dræm.
Það eru í gangi tvær aðferðir við útskurðinn, í fyrsta lagi „Bólu-Hjálmarsaðferðin“, sem Hinrik Þórðarson á Selfossi kennir, en hann lærði hjá Ríkharði Jónssyni á sínum tíma. Þá sitja menn með hlutinn í kjöltu sér og tálga. Hinsvegar er aðferð, sem Hannes Flosason kenndi og þá er hluturinn festur í skrúfstykki og slegið á áhöldin. Ragnheiður Vilmundardóttir í Bergholti lærði hjá Hannesi og er mjög fær í útskurði. Best er að skera út í birki, en sá hængur er á, að það er nær ógerlegt að fá rétt meðhöndlað birki til útskurðar. Ef nota á birki úr
garðinum þarf helst að taka börkinn af, nema gjörð rétt út til beggja enda. Síðan þarf að líma fyrir endana og láta viðinn bíða þannig í 3 ár. Ef þetta er ekki gert, springur tréð. Eftir að búið er að renna gripinn gróflega, þarf helst að láta hann bíða í að minnsta kosti eitt ár áður enn lokið er við að renna hann, svo hægt sé að laga hann til ef hann verpist. Þetta á við um aska með loki og aðra hluti, sem ekki mega hreyfast. En auðvitað fer þetta nokkuð eftir því hvað verið er að smíða. íslenskt birki er mjög gott. Erlendis vex það of hratt, nema helst upp til fjalla eins og í Noregi.

Að lokum Ingólfur, kannt þú einhverjar sögur af ferjumönnum hér áður fyrr?

Það væru þá helst sögur af Páli Jónssyni vegfræðingi, þeim er setti dragferjuna hér á ána. Hann hafði  Páll Jónsson, vegfræðingur (1853-1939) (Mynd af vef Ljósmyndasafns Austurlands)áður sett dragferju á Héraðsvötn í Skagafirði. Mörgum þótti Páll undarlegur og einþykkur með afbrigðum. Þegar Runólfur bóndi drukknaði, kenndi hann sjálfum sér um það og réðist kauplaust til ekkjunnar á Iðu. Þar var hann í 9 ár, til ársins 1913, og sinnti auk bústarfa ferjumannsstörfum.
Þótti hann harður tollheimtumaður fyrir hönd ekkjunnar og var svo nákvæmur að ekki fékk hundur að fljóta með yfir, án þess að gjald kæmi fyrir. Endaði það með því að hreppsnefndin sagði honum upp, þó aldrei rukkaði hann meira en honum var heimilt.
Tveimur árum síðar var hann þó beðinn um að taka aftur að sér ferjumannsstaríið, og lét hann til leiðast að gera það, en ekki fyrr en hann var búinn að gera skriflegan samning við hreppsnefndina, áritaðan og staðfestan af sýslumanninum.

Það voru líka sagðar margar sögur af samskiptum Páls og sr. Brynjólfs á Ólafsvöllum þegar hann var á ferðinni.
Sr. Brynjólfur messaði á annexíu sinni Skálholti og átti meri eina einþykka sem hann reið. Fór merin nokkuð sínu fram og beitti sér undir honum ef henni sýndist svo. Eitt sinn kom sr. Brynjólfur á ferjustaðinn og sagði upp úr eins manns hljóði: „Ég vil ekki merina, hún bítur gras“. Síðar sagði hann um Pál: „Það er undarlegt með Pál, hann er eins og merin“!
En annars segir nánar frá Páli þessum í bók Jóns Helgasonar um hann, „Orð skulu standa“.

Það væri hægt að sitja lengi enn hjá Ingólfi og hlusta á skemmtilegar og fróðlegar frásagnir af lífinu við ferjuna. En dagurinn er liðinn og frásögn af fjárrekstri til Reykjavíkur og fleiri viðburðum verður að bíða betri tíma.
Blaðamaður þakkar þeim hjónum fyrir ljúfmannlegar móttökur og góðar veitingar og vonar að lesendur Litla-Bergþórs séu fróðari um lífið við gömlu ferjustaðina hér í Biskupstungum, eftir lestur þessa árgangs af blaðinu. G.S.

Heimild vefur: Litli Berþór

Innskot
Birgir Sumarliðason www.is.nat.is

Ingólfur stundaði nám við Barnaskólann í Reykholti árin 1929-1933 og við Héraðsskólann á Laugarvatni 1941-1942. Árið 1935, þá 16 ára gamall, fór Ingólfur fyrst á vertíð til Vestmannaeyja og var þar til húsa hjá móðurfólki sínu. Hann fór í samtals fimm vertíðir til Vestmannaeyja og síðan í eina vertíð til Grindavíkur.

Ingólfur varð fyrsti skólabílstjórinn í Biskupstungum árið 1965. Hann vann alla tíð mikið við smíðar, bæði nýsmíði og viðhald. Síðustu árin, eftir að búskap lauk, sneri hann sér að útskurði og rennismíði og vann marga gripi úr tré.

Ingólfur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í áraraðir, sat í stjórn Veiðifélags Árnesinga, byggingarnefnd Biskupstunga og sóknarnefnd Skálholtskirkju. Hann var félagi í ýmsum kórum, var m.a. einn af stofnendum Skálholtskórsins.
Ingólfur var síðasti ferjumaðurinn á Iðuhamri.

Ingólfur Jóhannsson fæddist að Iðu í Biskupstungum 14. ágúst 1919. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi 20. júní 2005 . Foreldrar Ingólfs voru Jóhann Kristinn Guðmundsson, bóndi að Iðu, f. 25. september 1889, d. 9. mars 1928, og kona hans, Bríet Þórólfsdóttir, f. 5. október 1891, d. 28. febrúar 1970. Systkini Ingólfs eru: Ámundi, látinn, Gunnar látin, Sigurlaug og Unnur, látin. Eftir að faðir þeirra lést aðeins 39 ára að aldri, kom á heimilið Loftur Bjarnason frá Glóru í Gnúpverjahreppi, f. 12.september 1891, og var hann ekkjunni og börnunum ungu stoð og stytta. Loftur bjó á Iðu til dauðadags, en hann lést 19. september 1969.
Ingólfur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í áraraðir, sat í stjórn Veiðifélags Árnesinga, byggingarnefnd Biskupstunga og sóknarnefnd Skálholtskirkju. Hann var félagi í ýmsum kórum, var m.a. einn af stofnendum Skálholtskórsins.

Hvað er betra enn að Ferðast og Fræðast !!!

Myndasafn

Í grennd

Fólkið frá Iðu
Ámundi Jóhannsson var elstur 5, systkina. Grein frá 1994 Ámundi Jóhannsson fæddist á Iðu í Biskupstungum 3. maí 1918. Hann lést á heimili sínu, …
Hvítárbrú hjá Iðu
Hvítárbrú hjá Iðu, eða Iðubrúin, eins og hún er kölluð alla jafna, skipti. í ýmsu tilliti, sköpum fyrir  Laugarás og reyndar flesta íbúa uppsveitanna…
Iða Hvítá, Veiði
Ármót Stóru og Litlu Laxár annars vegar og Hvítár hins vegar. Stórveiðistaður og einn þekktasti  stórlaxastaður landsins. Oft á Hvítá við Iðu veiðast …
Laugarás
Þéttbýli hefur myndazt í Laugarási. Þar er mikill jarðhiti og fjöldi gróðurhúsa og góð þjónusta við ferðamenn og húsdýragarðurinn Slakki. Í Laugarási …
Skálholt kirkja
Skálholt var miðja kirkjulegs- og veraldlegs valds um aldir auk þess að vera mennta- og meinnigarsetur.   biskup landsins, Ísleifur Gissurarson, setti…
Skógar Þorskafjarðarheiði
Skógar eru eyðibýli uppi í austurhlíðum Þorskafjarðar við rætur Vaðalfjalla. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson (1835-1920) fæddist þar og ólst upp til …
Slakki
Dýragarðurinn Slakki er lítill húsdýragarður í Laugarási, Biskupstungum. Þar er boðið uppá Veitingar og minigolf of fl. Opnunartími: Apríl og Maí…
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )