Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Arnarfell hið mikla

Hofsjökull

Arnarfell hið mikla (1143m) er skriðjöklum girt í Hofsjökli suðaustanverðum. Það sést víða að, hömrótt efst og skriður neðst. Suðurbrekka fjallsins heitir Arnarfellsbrekka, sem er ótrúlega vel gróin miðað við hæð hennar yfir sjó, en ofar 800 metranna hverfur hágróður með öllu og mosi tekur við. Neðst í brekkunni eru loð- og gulvíðir, blágresi, burnirót, hvönn o.fl., grasbrekkur og bláberjalyng. Taldar hafa verið 97 tegundir blómplantna í Arnarfellsbrekku, sem er mikið fyrir svona lítið svæði svona hátt yfir sjó. Útsýni af Arnarfelli er stórkostlegt yfir sunnanvert hálendið og til suðausturs. Litlu ofar í jöklinum er Arnarfell hið litla (1140), sem ber mun minna á. Arnarfellsalda er í Þjórsárverum á móts við Arnarfellsmúla og vestan hennar er lítið stöðuvatn.

Þar eru rústir af kofa, sem eru minjar um síðustu útilegumenn á landinu. Þar höfðust við vinnumenn frá Laugardælum í Flóa haustið 1848 til að komast hjá refsingu vegna þjófnaðardóms.

Þeir hurfu úr byggð 20. oktober og byggðu sér kofaskrifli til að skýla sér þar til þeir fengju tækifæri til að komast alveg undan klóm réttvísinna. Þeir fundust fjórum dögum síðar og voru dæmdir í 10 og 8 ára þrælkun. Annar þeirra, Jón Jónsson, fór síðar til Ameríku, gerðist mormóni og kom aftur til Íslands til að boða trú sína. Norðan öldunnar eru miklir troðningar, sem gætu verið leifar af gömlu Arnarfellsleiðinni. Þessi leið var hluti af Sprengisandsleið hinni fornu vestan Þjórsár, frá Bólstað í Nauthaga og þaðan með Múlunum inn að Arnarfelli og áfram með jökuljaðrinum norður fyrir Háumýrar. Þar var yfirleitt greiðfært vað á Þjórsá fyrir menn og hesta yfir á Sprengisand. Þetta var nok kurs konar varaleið, þegar Sóleyjarhöfðavað var ófært.

Þarna var fyrst ekið árið 1950 Arnarfellsmúlar eru jökulöldur suðaustan Hofsjökuls, vestan Arnarfells hins mikla. Múlajökull liggur fram að þeim. Hann hefur verið iðinn við að ýta upp mörgum röðum af slíkum jökulöldum, en hefur hopað verulega síðan. Gróðurfar er áberandi mismunandi á öldunum. Næst jökli er sáralítill gróður en hann verður jafnvel meiri en í Arnarfellsbrekku, þegar fjær dregur. Burnirótin vex í miklum breiðum og er mjög stórvaxin og alls konar steinbrjótar og hvannir eru í miklum blóma.

Leitt hefur verið líkum að því, að eitt hreysa Fjalla-Eyvindar hafi verið í Múlunum en engin merki hafa fundizt um það. Samkvæmt skýrslu, sem gerð var eftir ferð Árnesinga á þessar slóðir 1762, fundu þeir híbýli í holum hól, matarforða og tæki og tól. Þeir þóttust sjá merki um, að útilegumennirnir hafi flúið upp á jökul og röktu slóðir eftir fimm hesta. Leitarmenn eyðilögðu híbýlin.

Myndasafn

Í grennd

Hofsjökull
Hofsjökull (1760m) er 925 km² hveljökull á miðhálendinu miðju, kenndur við Hof í Vesturdal í Skagafirði. Fyrrum var hann nefndur eftir Arnarfelli hin…
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Sögustaðir. Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar eru meðal þess sem finna má á sö…
Sprengisandur
Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns og vera staður, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komas…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )