Brunnar eru mýrlend gróðursvæði við tvö smávötn á Kaldadalsleið í grennd við sæluhúsið og vesturenda línuvegarins. Hann liggur meðfram Skjaldbreið að Laugarvatni, í Haukadal og út á Kjalveg norðan Gullfoss. Við Brunna eru efstu hagar, þegar lagt er á Kaldadal að sunnan, þótt nokkrir gróðurteygingar séu í Egilsáfanga. Þarna áðu flestir, sem fóru um Kaldadal, og þar ætlaði Jónas Hallgrímsson eitt sinn að hafa tjaldstað. Hann dvaldi þar aðfararnótt 15. júlí 1841 á leið sinni úr rannsóknarleiðangri á Skjaldbreið, þegar hann hafði orðið viðskila við fólkið, sem hann var í slagtogi við. Sumir telja, að kvæði hans, „Skjaldbreiður“, hafi orðið til þá.
Egilsáfangi er sagður vera kenndur við kenndur við Egil nokkurn, sem áði þar alltaf í ferðum sínum og missti ævinlega einn hest í tröllahendur þaðan. Hann þrjózkaðist við og vildi ekki gefast upp fyrir þessum forynjum og á endanum var hann búinn að missa 18 hesta. Nítjánda sumarið, sem hann átti leið þarna um, linnti látunum og eftir það slapp hann án skaða.
Frá Brunnum er hægt að ganga í ýmsar áttir. Til austurs liggur leiðin norðan Skjaldbreiðar um Haukadalsheiði niður í Haukadal eða áfram austur á Kjalveg ofan Gullfoss. Þá má einnig ganga að Hagavatni og þaðan upp á Bláfellsháls.