Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Veiðivötn

Veiðivotn

Veiðivatnasvæðið:
Það er ungt að árum í núverandi mynd, því að það varð til í stórkostlegum náttúruhamförum árið 1477, gaus á Veiðivatnasprungunni, allt frá Landmannalaugum norðaustur um Heljargjá norðvestan Jökulheima. Vötnin eru u.þ.b. 50 af öllum stærðum og gerðum og flest svokölluð gígvötn.

Veiðivatnasvæðið er u.þ.b. 20 km langt og 5 km breitt frá suðvestri til norðausturs. Vötnin liggja í tveimur röðum. Helstu vötnin í hinni austari eru: Snjóölduvatn (21m), Ónýtavatn, Grænavatn (13m) og Litlisjór. Í vestari röðinni eru vötnin fleiri og yfirleitt smærri: Nýjavatn, Breiðavatn, Eskivatn (36m; dýpst), Langavatn, Skálavatn, Tjaldvatn og Litla- og Stóra-Fossvatn (15 og 18m). Það er ekið yfir Fossvatnskvísl á milli Fossvatnanna. Mörg vatnanna hafa af- og aðrennsli neðanjarðar, því berggrunnurinn á þessu svæði er mjög gropinn. Nyrst og austast eru Hraunvötn.

Við sum vötnin eru gróðurvinjar og gróðurinn er mjög viðkvæmur. Það finnst silungur í 20-30 þessara vatna. Yfirleitt er urriðinn í Vötnunum mjög stór, 2-6 pund, og stundum koma menn með 10 punda fiska úr veiðiferðinni og 20 punda fiskar hafa veiðzt. Fyrrum veiddist einungis urriði í vötnunum, en eftir að bleikju var sleppt annars staðar á vatnasvæðinu verður hennar víða vart. Eigendur veiðiréttar stunda netaveiðar í vötnunum á haustin eftir stangaveiðitímann. Fyrir 1920 gat aðgætinn maður oftast skorið úr, eftir lit og lögun, úr hvaða vatni fullvaxinn urriði var veiddur.

Árið 1918 spjó Katla svo mikilli ösku yfir vatnasvæðið, að nærri kæfði allan gróður. Þá þvarr veiði svo í vötnunum, að eigi fékkst nema einn og einn gamall horslápur en beinagrindur lágu með löndum. Eftir 4-5 ár fór að votta fyrir ungviði og fór svo vaxandi næsta áratug. Vatnakarlar töldu fiskinn ekki hafa náð sér fyllilega í kringum 1940.

Þrjár tegunda fiska eru í vötnunum, urriði, bleikja og hornsíli. Hornsílin eru líklega í flestum vötnum á svæðinu og sjást víða í torfum við bakka eða rekur dauð á land í ölduróti. Þau eru mikilvæg fæða fyrir urriðann.Veiðivötn eru hrein urriðavötn frá náttúrunnar hendi. Urriði er nú í flestum vatnanna og í pollum. Fiskurinn hefur borizt með fuglum eða mönnum í lokuð vötn. Sennilega hafa menn flutt fisk milli vatnanna í aldanna rás og sleppt seiðum skipulega á síðari hluta 20. aldar. Fiskur var settur í Hraunvötnin 1965 en þau voru líklega fisklaus fyrir. Litla Breiðavatn og Skálavatnspollur voru talin fisklaus til 1971 og Litlisjór til 1973.

Urriðinn í Veiðivötnum er einstakur. hann er óvíða stórvaxnari og feitari. Erfðafræðirannsóknir hafa leitt í ljós, að Veiðivatnaurriðinn hefur einangrast ofan ófiskgengra fossa fljótlega eftir lok ísaldar. Svona hreinn stofn ísaldarurriða finnst óvíða annars staðar í heiminum. Urriðinn í Þingvallavatni er af sama stofni, en hann er sérstaklega hraðvaxta og verður seinna kynþroska en sjógöngustofnar og stofnar í láglendisvötnum. Fiskurinn vex 4 – 7 sm á ári, þrátt fyrir stuttan vaxtartíma. Þar sem rúmt er um fiskinn og fæða nóg eins og í Grænavatni, er vöxturinn allt að 11 sm á ári. Svona hraður vöxtur er óalgengur í vötnum og svipar einna helzt til vaxtarhraða sjóbirtings.

Nokkur vötn hafa verið rannsökuð og minnsti vöxturinn er í Litla-Fossvatni og Skálavötnum. Veiðivatnaurriðinn verður venjulega kynþroska 7 ö 9 ára, þegar hann er orðinn u.þ.b. 40 sm langur og eitt kíló á þyngd. Eftir kynþroska hægir lítið á vexti, en það er mismunandi milli vatna. Allt að 20 punda fiskar hafa veiðst í Veiðivötnum og árlega veiðast 10 – 15 punda fiskar. Stærstu fiskarnir eru oft 9 – 16 ára. Bleikju varð fyrst vart í Snjóölduvatni árið 1972 og í Skyggnisvatni, Breiðavatni, Nýjavatni og Langavatni árið 1983. Bleikjan hefur gengið úr Tungnaá eftir kvíslunum í Veiðivötnin. Á 7. áratugnum var bleikju sleppt í vötn á Skaftártunguafrétti og barst þaðan út í Tungnaá. Talið er að bleikja sé nú í 11 vötnum á vatnasvæðinu. Nánast öll vötnin hafa samgang við Tungnaá nema Fossvötnin. Þar er fossinn neðan Litla-Fossvatns hindrun en óvíst er, hversu lengi hann dugar. Bleikja hefur fundizt í Snjóölduvatni, Nýjavatni, Austurbjallavatni, Krókspolli, Skyggnisvatni, Kvíslarvatni, Eskivatni, Langavatni, Tjaldvatni, Skálavatni og Hamrafellsvatni.

Urriðaseiðum hefur verið sleppt í vötn á Veiðivatnasvæðinu síðan 1965. Framan af var lögð áherzla á sleppingar í fisklaus vötn, s.s. Hraunvötn og Litlasjó, en síðar í vötn með léleg náttúruleg hrygningarskilyrði. Allt frá upphafi hefur einungis urriðaseiðum verið sleppt í vötnin og þess gætt að nota fisk af Veiðivatnastofni. Árangur seiðasleppinganna er augljós. Vötn, sem voru áður fisklaus, eru nú full af fiski og aflaaukning kemur fram í rannsóknaveiðum og stanga- og netaveiði í Litlasjó, Grænavatni, Ónýtavatni og Snjóölduvatni. Veiði hefur verið skráð reglulega síðan 1965. Aflatölur fyrir þann tíma eru mjög óljósar en oft var góð veiði og veiðisögurnar tröllslegar.

Veiðin hefur ævinlega verið sveiflukennd. Árið 1988 var bleikja um 40% heildaraflans. Eftir 1990 hefur veiðin verið mjög góð, 10 – 11 þúsund fiskar á ári. Uppistaðan í veiðinni (35-40%) hin síðari ár er stór og fallegur urriði úr Litlasjó og 60% veiðinnar voru veidd á stöng og u.þ.b.40% í net. Árið 1988 veiddist meira í net en á stöng og 1993 var heildarþyngd netafisks meiri en fiska veiddra á stöng, þótt fleiri fiskar hafi veiðzt á stöng en í net.

Silungsveiði hefur vafalaust verið stunduð í Veiðivötnum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Yfir veiðisögunni hvílir hula á fyrri öldum, en þeirra er fyrst getið í Njálu, þar sem þau eru nefnd Fiskivötn. Nálægt aldamótunum 1700 gat Árni Magnússon Veiðivatna í riti sínu og segir, að þar sé nægur silungur. Rangvellingar og Skaftártungumenn stunduðu veiðarnar aðallega á fyrri öldum en síðustu tvær aldirnar hafa Rangvellingar aðallega stundað þær og nokkrir Árnesingar líka. Í Ferðabók Sveins Pálssonar er minnst á veiðiferðir til Fiskivatna á haustin og að þær hafi lagzt niður að nokkru eftir 1740. Veiði var mjög lítið stunduð á 18. öld, sennilega vegna tíðra eldgosa.

Það voru einkum Landmenn, sem nýttu vötnin á 19. öld og lengst framan af hinni tuttugustu. Víða eru minjar um útgerð vatnakarlanna“ og mörg örnefni eru tengd þessum athöfnum. Arnbjörn Guðbrandsson frá Króktúni og kona hans bjuggu veturlangt í Veiðivötnum árið 1880 og minjar frá þeirri búsetu eru friðlýstar. Til eru ýmsar sagnir og þjóðsögur um viðburðaríkar ferðir og mannraunir í Veiðivatnaferðum. Silungsveiðin var mikil búbót og var stundum jafnað við heila vertíð í Vestmannaeyjum. Góð veiði var 30 hestburðir (3 tonn) á vertíð. Veiðitækin voru net og lóðir. Mest veiddist í Fossvötnum, Skálavatni, Langavatni, Eskivatni og Kvíslarvatni en minna í Nýjavatni, Breiðuvötnum og Snjóölduvatni. Oft var aflinn sendur til byggða, ef vel veiddist áður en veiðiferðinni lauk, en annars var hann saltaður eða hertur innfrá.

Tungnaá var ævinlega mikil hindrun á leiðinni til Veiðivatna, svo að þar var oftast fáförult. Menn fóru ríðandi inn eftir og aflinn var fluttur á hestum. Hófsvað fannst árið 1950 og fjallabílar óku inn í Veiðivötn. Þá var flugbátur notaður um svipað leyti til að flytja veiðimenn frá Vestmannaeyjum til Veiðivatna og þar var lent á einhverju vatnanna. Netaveiði var stunduð stíft í kringum 1960 og oft veiddist ævintýralega mikið. Samtímis slæddust stangveiðimenn inn eftir og veiddu mikið. Þegar kláfferjan var sett á Tungnaá 1964 opnaðist jeppaleið til Veiðivatna og umferðin jókst við byggingu brúar við Sigöldu 1968.

Veiðifélag Landmannaafréttar var stofnað um Veiðivötn 1965. Þá fengu stangaveiðimenn að kaupa veiðileyfi í tvo mánuði, 20. júní til 20. ágúst, og netaveiðin tók við að því tímabili loknu 15. september. Stangveiðimönnum hefur fjölgað stöðugt frá 1965. Fjöldi stanga var takmarkaður við 20 á dag 1965 – 1985, en þá var þeim fjölgað upp í 70. Nú er stangveiði leyfð í flestum vötnum á svæðinu og í Pyttlum.

Helztu gróðurlendin eru við Kvíslar milli Grænavatns og Ónýtavatns og í Breiðaveri við Breiðuvötn og á skjólsælum, rökum stöðum eins og við Tjaldvatn, í Slýdrætti, við Skálavatn og í Snjóölduveri. þá er allgróðursælt í Fossvatnahraununum. Á þessum stöðum er fjölbreytt blómlendi, hvannastóð, fífusund eða stararflóar, allt eftir aðstæðum á hverjum stað.

Veðurfar hefur mikil áhrif á ástand gróðurs. Séu sumur köld, ná plönturnar ekki að blómstra og mynda fræ. Þurr og grófur jarðvegur er aðalástæðan fyrir gróðurleysi á öldum og sandflákum við Veiðivötn. Þar ríkja veðurfræðilegar- og landfræðilegar aðstæður, sem koma í veg fyrir að spjöll, sem menn valda þar verði varanleg og aukist jafnvel og náttúran megni ekki að bæta skaðann. Því er brýnt, að ferðamenn traðki ekki á mosaþembum og öðrum gróðri og aki ekki utan vega.

Á Veiðivatnasvæðinu finnast þrjár tegundir villtra spendýra, refurinn, minkurinn og hagamúsin. Minkurinn er algengastur en hans varð fyrst vart 1964. Refur sést á hverju ári en honum er illa vært á greni. Hagamýsnar eru býsna sjaldgæfar. Þær eru helzt í Slýdrætti og við gömlu veiðikofana.

Fuglalíf er fjölbreytt. Nítján tegundir varpfuga hafa fundizt og talið er að 7 tegundir í viðbót séu líklegir varpfuglar. Þar að auki hafa a.m.k. 17 aðrar tegundir fugla sést við vötnin.
Himbrimi og álft eru stærstu fuglarnir og mest áberandi. Himbriminn er fiskiæta, sem sést á flestum vötnum, en hann verpir aðeins við nokkur þeirra. Varpstofninn er tæpast fleiri en 10-15 pör og auk þeirra er alltaf nokkuð um geldfugla ásvæðinu. Álftir hafa ævinlega verið margar og hún var nytjuð fyrr á öldum.

Heiðagæsin verpir víða um svæðið og hefur fjölgað. Varpi hennar er oftast lokið fyrir byrjun veiðitímans og hún heldur sig fjarri helztu veiðisvæðunum með unga sína, t.d. við Vatnakvísl. Hávellan er algengust andategunda, en stokkendur, duggendur, grafendur og urtendur eru á mýrarpollum í Breiðaveri og við Ampapoll. Straumendurnar eru einkum á Fossvatnakvísl og hafa orpið þar. Óðinshanar eru mjög algengir og verpa víða við vatnsbakka. Snjótittlingar eru algengastir spörfugla um allt svæðið í hraunum og klettum. Þúfutittlingar, maríuerlur og steindeplar eru strjálir varpfuglar. Heiðlóa, sendlingur, lóuþræll, sandlóa og stelkur eru líklega árvissir varpfuglar auk rjúpna, þótt þær séu sjaldséðar. Nokkur kríuvörp eru líka á Veiðivatnasvæðinu.

Svartbakar sjást stöku sinnum og hafa orpið á svæðinu. Sílamávur er algengur en óvíst er um varp.

Fálkinn er varpfugl og sagnir eru um hrafnavarp í Arnarsetri við Skálavatn til ársins 1902.
Sílamávur sækir talsvert í beitu og afla veiðimanna. Hann étur innyfli úr fiskum og viðheldur þannig hringrás sníkjuorma í fiskinum. Það er því áríðandi, að veiðimenn skilji ekki eftir fiskúrgang á vatnsbökkum. Mikil áraskipti eru í afkomu fugla eftir veðurlagi. Umferð manna hefur líka áhrif á varphætti. Umhverfi Tjaldvatns og hólmar Skálavatns voru fyrrum algengustu varpstaðirnir en nú eru þar sárafá hreiður. Aðalvarpsvæðin eru nú í Breiðaveri og víðar við Vatnakvísl, þar sem umferð er lítil.

Lífríki Veiðivatna er sérstætt. Svifdýraflóran er víðast fábreytt, einkum vegna hraðrar endurnýjunar vatnsins. Botndýralíf er ríkulegt og hefur mesta þýðingu fyrir afkomu silungsins. Þar er einkum um að ræða lirfur rykmýs (toppflugan) og vorflugu, skötuormar og vatnabobbar, sem eru mest áberandi og mikilvægasta fæðan fyrir silung. Lirfur bitmýsins eru algengar í straumvatni með föstum botni. Bitmý er oft mikið við Fossvötn, Tjaldvatn, Langavatn og Eskivatn og angrar menn mest í júlí.

Heimildir:
Landið þitt, Vatnamælingar (kort), Gunnar Bjarni Guðmundsson frá Heiðabrún og handrit frá Guttormi Einarssyni.

Veiðivötn:
Stóra-Fossvatn
Tjaldvatn
Langavatn
Breiðavatn
Nýjavatn
Arnarpollur
Snjóölduvatn
Ónýtavatn
Ónefndavatn
Grænavatn
Litlisjór
Hraunvötn

Hrauneyjar-svæðið:
Sporðöldulón
Kaldakvísl
Kvíslaveita
Þórisvatn
Fellsendavatn

Vötn að Fjallabaki:
Blautaver
Dómadalsvatn
Eskihlíarvatn
Frostastaðavatn
Herbjarnarfellsvatn
Hnausapollur
Hrafnarbjargavatn
Kirkjufellsvatn
Kýlingavatn
Lifrarfjallavatn
Ljótipollur
Löðmundarvatn
Sauðleysuvatn

Myndasafn

Í grennd

Arnarpollur
Arnarpollur er í 563,6 m hæð yfir sjó, 0,19 km², dýpst 21 m, 1,1 Gl, meðaldýpi 5,8 m, lengst 0,9 km og breiðast 0,4 km. Vatnið er frekar lítið og fall…
Breiðavatn
Breiðavatn er í rauninni tvö vötn, tengdum með læk, sem liðast um mýrlendið Breiðaver. Þau eru í 564m yfir sjó 0,36 km², og dýpst 15 m. Heildarvatnsm…
Fossvötn
Fossvötn, Skálavatn, Langavatn og vötn, sem tengjast því um Vatnakvíslina, voru aðalveiðivötnin á fyrri . Upphaflegi ísaldarurriðinn er í Fossvötnum, …
Gænavatn
Þetta er allstórt vatn, umvafið ævintýraljóma og sögum um stóra fiska. Þar var náttúrulegur stofn í við Ónýtavatn um Kvíslarnar, þar sem er aðalhrygn…
Hálendisveiði
Hálendisveiði skiptist í 5 veiðisvæði. Þannig er best að velja svæði og síðan hvernig farið er þangað hér að neðan. Þessi svæði eru Arnarvatnsheiði…
Hraunvötn – Skeifan
Hraunvatnasvæðið er fegurst allra svæða í Veiðivötnum og þar er fiskur af öllum stærðum. Ótal tjarnir og eru samtengdar fyrir austan og sunnan aðalvö…
Langavatn – Eskivatn – Kvíslarvatn
Langavatn er í 565 m hæð yfir sjó, 0,11 km², mest 19 m djúpt, 2,8 Gl, meðaldýpi 7,2 m, mesta lengd 1,4 km og breidd 0,4 km. Öldurnar umhverfis vatnið …
Litlisjór
Þetta stóra vatn var fisklaust frá náttúrunnar hendi og mikil ætisframleiðsla þess nýttist ekki fyrr en urriðaklak var sett í það upp úr 1965. Talið v…
Nýjavatn
Nýjavatn er í 564,3 m hæð yfir sjó, 0,56 km², dýpst 30 m, 3,7 Gl, meðaldýpi 6,6 m, lengst 1,4 km og 0,8 km. Veiðin hefur aukizt síðan 1994 (313 1998)…
Ónefndavatn
Ónefndavatn er í 565 m hæð yfir sjó, 0,22 km², dýpst 19 m, 1,3 Gl,meðaldýpi 5,9 m, lengst 0,8 km og 0,4 km. Veiðin hefur verið sveiflukennd.…
Ónýtavatn
Ónýtavatn er í 573,4 m hæð yfir sjó, 1,09 km², dýpst 23 m, 8,7 Gl, meðaldýpi 8 m, lengst 1,9 km og 0,9 km. Vatnið hefur verið næstgjöfulast Veiðivatn…
Snjóölduvatn
Snjóölduvatn er syðsta vatnið og hið stærsta í 562 m hæð yfir sjó, 1,62 km² og dýpst 22 m. Rúmmál þess er 12,7 Gl, mesta lengd 2,1 km og mesta breidd …
Tjaldvatn
Tjaldvatn og umhverfi þess er mjög fagurt og þar er að finna eitt stærsta samfellda gróðursvæði við . Það er í 577 m hæð yfir sjó, 0,1 km², dýpst 9,7 …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )