Kirkjubæjarklaustur á Síðu hét áður Kirkjubær og var þar löngum stórbýlt og má segja að svo sé enn. Kauptún hefur myndazt þar og nefnt í daglegu tali „Klaustur”.
Nunnuklaustur af Benediktsreglu var stofnað í Kirkjubæ árið 1186 og hélzt klausturhald óslitið fram að siðaskiptum 1550. Fjöldi örnefna á Klaustri og Skaftárhreppi tengjast klausturhaldinu. Systrastapi, rétt vestur af Klaustri, er klettastapi þar sem talinn er vera legstaður tveggja nunna, sem voru brenndar á báli fyrir ýmsar syndir. Svæðið telst til merkustu sögustaða landsins og segja má að Klaustur og nágrenni geymi margar mestu náttúruperlur Íslands.
Boðið er upp á flest það sem ferðamaðurinn leitar að, hvort sem það er vatnaveiði, veiði í ám, gönguferðir og/eða ökuferðir á fallega, sögufræga staði. Af þessu hefur leitt að þjónusta við ferðamenn er eins og bezt verður á kosið, hvort sem er góð hótel, veitingar, vel skipulögð tjaldsvæði o.fl. Skipulagðar ferðir eru og til margra þekktra staða í hreppnum og sýslunni. Vegalengdin frá Reykjavík er um 255 km.
Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls hinn 7. júní 2008 var gestastofan í Skaftafelli tileinkuð öllum þjóðgarðinum. Gestastofa Þjóðgarðsins er líka á Kirkjubæjarklaustri.
Hvað er betra enn að Ferðast og Fræðast !!!