Skaftá – Skaftárhlaup
Skaftá er blönduð jökulsá og lindá. Meginhluti jökulvatnsins kemur undan Skaftárjökli og nokkuð jökul- og lindavatn úr Langasjó um Útfall. Mest er vatnsmagnið þaðan á heitum sumardögum. Meðal fjölmargra þveráa Skaftár í óbyggðum eru Nyrðri- og Syðri-Ófæra, Grjótá og Hellisá. Vatnssvið Skaftár hjá Skaftárdal er í kringum 1400m2 og meðalrennsli í kringum 122 m3/sek (87 l/sek af km2; afrennsli Skjálfandafljóts er 24 l/sek af km2).
Hlaup í Skaftá eru algeng og fylgir þeim stækur brennisteinsþefur. Þau eiga upptök sín í sigkötlum norðvestan Grímsvatna í Vatnajökli. Sigkatlarnir eru tveir, eystri og vestari í vestanverðum Vatnajökli. Í Skaftáreldum fylltust gljúfur Skaftár af hrauni frá Lakagígum vestari og síðan hefur áin flæmst ofan á hrauninu án raunverulegs farvegar. Hlaup úr Eystri-Skaftárkatli eru að jafnaði stærri en hlaupin úr Vestari katlinum. Skaftárhlaup eins og þau koma fram í dag hófust árið 1955 en síðan þá er vitað um yfir 50 jökulhlaup í Skaftá. Að jafnaði hleypur úr hvorum katli fyrir sig á tveggja ára fresti. Ofan Skaftárdals fellur hún í 9 m háum fossi, Hundafossi, fram af hraunbrún. Áin breiðir mikið úr sér fyrir framan Skaftárdal og rennur þar í mörgum kvíslum (Skaftárdalsvatn) en greinist siðan neðar í þrjár kvíslar, Eldvatn (mest; rennur til Kúðafljóts), Árkvíslar, sem renna um Eldhraunið og hverfa í það að hluta og sumpart hefur framrás þess verið hindruð, og Skaftá, sem fellur austur með Síðu, en þverr stundum í miklum vetrarhörkum.
5 september 2021. Hlaup er hafið í Eystri-Skaftárkatli.
Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst 2018 og miðað við vatnsstöðuna í katlinum fyrir hlaup er líklegt að þetta hlaup verði ámóta stórt.
Þegar vatn hleypur úr Skaftárkötlunum rennur það fyrst um 40 km leið undir jöklinum og síðan um 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmælinum við Sveinstind.