Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Vatnajökull

Vatnajökull

Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu

Vatnajökull (2110m) er stærsti jökull Evrópu, 8100 km². Heildarísmagn jökulsins er talið vera í nánd við   4000 km³. Jökullinn er því nærri 400 m þykkur að meðaltali, en mesta þykkt er nálægt 950 m. Landslagið undir jöklinum er bungótt háslétta (600-800m) með dölum og gljúfrum. Hæstu fjöll undir honum eru 1800-2000 m. Aðeins 10% af botni hans rísa yfir 1100 m. Jökulhvelið er að mestu í 1400-1800 m hæð yfir sjó. Snælína jökulsins eru um 1100 m að sunnan, 1200 m að vestan og 1300 m að norðan. U.þ.b.. 60% jökulsins liggja ofan snælínu og þar er safnsvæði hans. Hann lifir því á eigin hæð yfir sjó. Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og Landsvirkun hafa mælt afkomu Vatnajökuls frá 1992 og hún hefur sveiflast verulega á þeim tíma. Fyrstu þrjú árin bætti jökullinn á sig sem svarar 2,4 m af vatni jafndreifðu yfir hann allarn.

Næstu sex árin rýrnaði hann samanlagt um 3,1 m (0,5 m á ári). Þetta samsvarar 6 km³ rýrnun á árunum 1992 til 2001, sem eru 0,15% af heildarrúmmáli jökulsins. Á þessum árum sveiflaðist snælínan úr u.þ.b. 1000 m upp í 1400 m. Helztu skriðjöklar Vatnajökuls eru Köldukvíslarjökull, Tungnárjökull, Skaftárjökull, Síðujökull, Skeiðarárjökull, Breiðamerkurjökull, Skálafellsjökull, Fláajökull, Eyjabakkajökull, Brúarjökull og Dyngjujökull. Enginn jökull á landinu hefur verið rannsakaður betur en Vatnajökull. Rannsóknir hófust fyrir alvöru árið 1934, þegar gaus í Grímsvötnum, og óslitið eftir að Jöklarannsóknarfélagið var stofnað 1950. Helgi Björnsson, jarðeðlisfræðingur ók um jökulinn þveran og endilangan með íssjá sína í eftirdragi, þannig að ljóst er að mestu, hvernig landslagið er undir ísnum.

Talið er að vatnsmagnið, sem rennur frá jöklinum, sé í nánd við 5000 m³/sek. Jöklarannsóknarfélagið á skála á Eystri-Svíahnjúk við Grímsvötn, í Esjufjöllum, í Kverkfjöllum og við Goðaborg austast á jöklinum. Fyrsta ferð yfir Vatnajökul, sem staðfest er, var farin 1875. Þar var á ferðinni Englendingur, W.L. Watts, ásamt fimm Íslendingum. Þeir urðu fyrstir til að sjá Öskjugosið og tilkynna um það í Mývatnssveit. Gos í grennd við og í Grímsvötnum sjálfum urðu 1996 og 1998 og oft áður. Skálinn Jöklasel við jaðar Skálafellsjökuls í u.þ.b. 830 m hæð yfir sjó. Þaðan bjóðast snjósleða-, snjóbíla- og jeppaferðir inn á jökulinn (Jöklajeppar – Ís og ævintýri). Frá þjóðvegi er ævintýralegur vegur upp að skálanum.

Goðaborg (1425m) er hnjúkur uppi af Hoffellsfjöllum í Hornafirði. Hún líkist húsi úr fjarska. Þangað flúðu hin heiðnu goð, þegar kristni var lögtekin. Goðaborg er efst á Goðahrygg vestan Lambatungajökuls. Goðahnjúkar (1460-1500m), fjórir alls, eru hærra uppi í jöklinum. JÖRFI reisti sæluhúsið Goðheima við nyrzta hnjúkinn árið 1979.

Gönguleiðir á jöklinum liggja í allar áttir. Þær byggjast á ferðaáætlunum viðkomandi göngumanna, sem eru vitaskuld búnir að skipuleggja þær í þaula áður en haldið er af stað. Auk nauðsynlegs útbúnaðar verður að kanna sprungusvæði á leiðunum með því að fá örugg hnit hjá kunnugum (4×4; Fjallaleiðsögumenn; JÖRFI o.fl.). Þá ber að hafa í huga, að veðurfar á þessum stóra jökli er frábrugðið öllum öðrum landshlutum. Vatnajökull er sérstakt veðursvæði, þar sem búast má við vondum skilyrðum í sjö daga af hverjum átta.

Myndasafn

Í grend

Jöklar
Jöklar ÍslandsJöklar landsins þekja rúmlega 11% af heildarfleti þess. Hinir stærstu eru á sunnanverðu landinu eða í miðju þess. Helzta á ...
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar. Álftavatn Arnardalur ...
Sögustaðir Suðurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið ...
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967, stækkaður 1984 og stækkaður enn 2004) og nágrenni geymir mestu náttúruperlur Íslands. Íslenskir og e ...

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )