Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Vatnajökull

Vatnajökull

Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu

Vatnajökull (2110m) er stærsti jökull Evrópu, 8100 km². Heildarísmagn jökulsins er talið vera í nánd við 4000 km³. Jökullinn er því nærri 400 m þykkur að meðaltali, en mesta þykkt er nálægt 950 m. Landslagið undir jöklinum er bungótt háslétta (600-800m) með dölum og gljúfrum. Hæstu fjöll undir honum eru 1800-2000 m. Aðeins 10% af botni hans rísa yfir 1100 m. Jökulhvelið er að mestu í 1400-1800 m hæð yfir sjó. Snælína jökulsins eru um 1100 m að sunnan, 1200 m að vestan og 1300 m að norðan. U.þ.b.. 60% jökulsins liggja ofan snælínu og þar er safnsvæði hans. Hann lifir því á eigin hæð yfir sjó. Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og Landsvirkun hafa mælt afkomu Vatnajökuls frá 1992 og hún hefur sveiflast verulega á þeim tíma. Fyrstu þrjú árin bætti jökullinn á sig sem svarar 2,4 m af vatni jafndreifðu yfir hann allann.

Næstu sex árin rýrnaði hann samanlagt um 3,1 m (0,5 m á ári). Þetta samsvarar 6 km³ rýrnun á árunum 1992 til 2001, sem eru 0,15% af heildarrúmmáli jökulsins. Á þessum árum sveiflaðist snælínan úr u.þ.b. 1000 m upp í 1400 m. Helztu skriðjöklar Vatnajökuls eru Köldukvíslarjökull, Tungnárjökull, Skaftárjökull, Síðujökull, Skeiðarárjökull, Breiðamerkurjökull, Skálafellsjökull, Fláajökull, Eyjabakkajökull, Brúarjökull og Dyngjujökull. Enginn jökull á landinu hefur verið rannsakaður betur en Vatnajökull. Rannsóknir hófust fyrir alvöru árið 1934, þegar gaus í Grímsvötnum, og óslitið eftir að Jöklarannsóknarfélagið var stofnað 1950. Helgi Björnsson, jarðeðlisfræðingur ók um jökulinn þveran og endilangan með íssjá sína í eftirdragi, þannig að ljóst er að mestu, hvernig landslagið er undir ísnum.

Talið er að vatnsmagnið, sem rennur frá jöklinum, sé í nánd við 5000 m³/sek. Jöklarannsóknarfélagið á skála á Eystri-Svíahnjúk við Grímsvötn, í Esjufjöllum, í Kverkfjöllum og við Goðaborg austast á jöklinum. Fyrsta ferð yfir Vatnajökul, sem staðfest er, var farin 1875. Þar var á ferðinni Englendingur, W.L. Watts, ásamt fimm Íslendingum. Þeir urðu fyrstir til að sjá Öskjugosið og tilkynna um það í Mývatnssveit. Gos í grennd við og í Grímsvötnum sjálfum urðu 1996 og 1998 og oft áður. Skálinn Jöklasel við jaðar Skálafellsjökuls í u.þ.b. 830 m hæð yfir sjó. Þaðan bjóðast snjósleða-, snjóbíla- og jeppaferðir inn á jökulinn (Jöklajeppar – Ís og ævintýri). Frá þjóðvegi er ævintýralegur vegur upp að skálanum.

Goðaborg (1425m) er hnjúkur uppi af Hoffellsfjöllum í Hornafirði. Hún líkist húsi úr fjarska. Þangað flúðu hin heiðnu goð, þegar kristni var lögtekin. Goðaborg er efst á Goðahrygg vestan Lambatungajökuls. Goðahnjúkar (1460-1500m), fjórir alls, eru hærra uppi í jöklinum. JÖRFI reisti sæluhúsið Goðheima við nyrzta hnjúkinn árið 1979.

Gönguleiðir á jöklinum liggja í allar áttir. Þær byggjast á ferðaáætlunum viðkomandi göngumanna, sem eru vitaskuld búnir að skipuleggja þær í þaula áður en haldið er af stað. Auk nauðsynlegs útbúnaðar verður að kanna sprungusvæði á leiðunum með því að fá örugg hnit hjá kunnugum (4×4; Fjallaleiðsögumenn; JÖRFI o.fl.). Þá ber að hafa í huga, að veðurfar á þessum stóra jökli er frábrugðið öllum öðrum landshlutum. Vatnajökull er sérstakt veðursvæði, þar sem búast má við vondum skilyrðum í sjö daga af hverjum átta.

Sérstakur þjóðgarður hefur verið mótaður um Vatnajökul og nágrenni, Vatnajökulsþjóðgarður.

Glögt er gest auga!!
ÍSLANDSFERÐ 1973

JOACHIM DORENBECK
MEÐFRAM VATNAJÖKLI

Næsti dagur var föstudagur og það var liðinn hálfur mánuður síðan við Jean lögðum af stað að norðan. Við höfðum ráðgert að vera komnir langt suðureftir um þetta leyti, helzt einhvers staðar í grennd við skála JÖRFÍ í Jökulheimum.

Við borðuðum vel úti látinn morgunverð í þeirri vissu, að betra væri að bera matinn í maganum en á bakinu.

Gaumlisti fyrir göngufólk
Innskot Birgir Sumarliðason 2021

Það var enn þá skýjað, en okkur leizt vel á horfurnar. Við lögðum af stað klukkan hálfsex.Árnar voru enn þá dreifðar en grunnar, þegar við óðum þær án nokkurra erfiðleika. Við lærðum fljótlega að forðast lygnur, þar sem hætta var á sandbleytum. Þar sem drílin mynduðust var grynnra og oftast möl í botni. Það tók okkur u.þ.b. klukkutíma að komast alla leið yfir.

Við lékum við hvern fingur, þegar við gengum upp hæðirnar vestan við flæðurnar og hlupum niður skriðurnar hinum megin. Þar tók við þurr slétta, miklu minni en sú, sem við höfðum að baki og við stefndum í vestnorðvestur

Froggy tók eftir ljósum punkti við rætur hæðanna framundan. Við sáum, þegar nær dró, að það var gul málning á steini. Við vorum búnir að finna slóðina aftur. Líklega hefðum við ekki lent í neinum hremmingum, ef ég hefði ekki fengið á heilann að komast sem næst jökli til að fara yfir árnar, heldur reynt að halda okkur við slóðina. Glíman við vatnið hafði að öllum líkindum verið ónauðsynleg.
Svo lengi lærir, sem lifir.

Við eltum málningarsletturnar yfir þéttan árfarveg undir heiðum himni. Ég fann varla fyrir bakpokanum og kerran var næstum tóm. Léttara gat það tæpast verið þar til við komum að nokkrum sprænum.

Við hröðuðum okkur upp brekkurnar á hægri hönd, áleiðis upp á Urðarháls. Frá kambi miðleiðis upp höfðum við gott útsýni yfir sandana og jökulöldurnar fyrir neðan. Það var kominn sandstormur aftur. Efst uppi kíktum við niður í risagíginn, sem varð til við sprengigos. Við gættum þess, að vera ekki á yztu nöf, því að vindkviðurnar voru kraftmiklar.

Að nokkrum mínútum liðnum hafði vindurinn snúizt til vesturs og magnaðist ótrúlega á stuttum tíma. Rétt sunnan við slóðina var veðurbarið klettabelti, þar sem við leituðum skjóls. Brátt var komið ofsaveður og mér leið illa undir lausu stórgrýtinu ofan á klettabeltinu. Núna, þegar ég er að skrifa um þetta, finnst mér ótti minn kjánalegur. Auðvitað vorum við á öruggasta staðnum í skjóli við klettana, en þetta gerðist allt svo snögglega og öskrið í vindinum svipti mig allri skynsemi.

„Komum okkur í burtu héðan!”, hrópaði ég og stökk af stað í áttina að slóðinni.

Ég var næstum fokinn um koll en staulaðist áfram. Froggy var að koma fyrir klettsnefið. Þetta var líkast því, að ýta á undan sér ósýnilegum vegg. Niðursuðudós í innkaupaneti dinglaði niður úr bambusstöng á kerrunni og vindurinn skellti henni stöðugt í hjólabúnaðinn. Loks rifnaði netið og dósin þeyttist út í buskann. Froggy náði henni. Kinnar mínar þöndust út, ef ég opnaði munninn. Það var heilmikill barningur að komast vestur fyrir Urðarháls. Ég hafði aldrei fengið á tilfinninguna, að ég væri að klífa fjall verandi á niðurleið á móti vindi. Mér hafði ekki dottið í hug að draga kerruna með aktygjunum, því að hún var svo létt, og nú var það of seint. Ég varð að halda dauðahaldi í hana til að vindurinn feykti henni ekki eins og pappírssnifsi upp hlíðina.

Þegar niður var komið var ekki eins hvasst. Við fleygðum okkur úrvinda niður á bak við nokkra stóra steina. Tveimur kílómetrum sunnar sáust brattar hlíðar Kistufells greinilega og enduðu í u.þ.b. 1500 m hæð. Klettabeltið efst minnti á öflugt virki Ása hátt yfir jökulröndinni. Ský dró upp úr vestri og í skugga þeirra kólnaði meira en okkur þótti þægilegt.

Það hafði lægt verulega, svo að ástandið var orðið eðlilegt aftur. Við héldum áfram að hæðunum í vestri, þar sem við settumst niður og fengum okkur hressingu. Skammt undan var snjóskafl í norðurhlíðunum og pollur neðan hans. Ég fyllti brúsann minn og notaði til þess fantinn minn og eldhústrektina að heiman. Það kom sér vel að hafa tekið hana með, því að rokið feykti vatninu til og frá, þegar ég hellti úr fantinum.

Síðan ég skildi teketilinn eftir við Mývatn hafði ég notað einn pottanna, sem fylgdu prímusnum. Það var ekki erfitt að hella vatninu úr pottinum í fantinn, þegar ekki blés of mikið. Núna var hvasst og ég hellti vænum skammti af sjóðheitu vatni á höndina á Froggy. Hann lét sem ekkert væri og sagði ekki orð.

Teið yljaði okkur vel og við fundum til hungurs. Við ákváðum að fórna afganginum af mjólkurduftinu í heita súpu með Vitareal og sandkrydduðu smjörlíki. Í hvert skipti, sem ég lyfti pottlokinu til að hræra í, bættist sandur í súpuna. Hún varð dökknaði í hvert skipti. Við drukkum hana úr föntunum okkar og gættum þess, að halda höndum yfir þeim á milli sopa.

Við styrktumst við næringuna og héldum tvíefldir áfram á móti vindi. Við vildum ekki fylgja greinilegri slóðinni en fórum upp á topp á hæðinni fyrir norðan okkur, þar sem við rákumst strax aftur á hraun og vissum ekki hvert halda skildi. Það var engin leið að átta sig á kortinu. Við ráfuðum í ýmsar áttir og Froggy fór á undan til að finna slóðina.

Við fylgdum henni lengi. Hún hlykkjaðist fram hjá krapasköflum og leysingarpollum. Klukkustundum saman nutum við útsýnisins til formfegurstu íslenzku dyngjunnar, Trölladyngju, sem hafði skrautlega snjókápu á herðum. Fyrst virtist þessi stóra dyngja vera smáhæð í tveggja km fjarlægð, en samkvæmt kortinu var toppgígurinn í 1460 m hæð og u.þ.b. 9 km fjarlægð frá okkur. Síðar um daginn gengum við eftir þéttum og sléttum sandi. Þar fann ég það bara á kerrunni, að örlítið var undan fæti að sækja, því að hún rann eiginlega sjálf. Þetta var of gott færi til að endast. Eftir að við fórum upp brekku og inn í hraun, hvarf slóðin af yfirborðinu.

Þegar landslag er eins einkennalaust og nánasta umhverfi okkar var á þessum slóðum, eru landakort alveg gagnslaus. Við vissum nokkurn veginn hvar við vorum og töldum víst að finna Gæsavötn, ef við hefðum jökulinn á vinstri hönd. Á kortinu voru þau eini græni punkturinn á milli okkar og Nýjadals. Dick Phillips hafði skrifað mér og sagt, að hægt væri að tjalda í Gæsavötnum, þótt lítið væri um skjól. Samkvæmt kortinu yrðu hraunin að baki, þegar þangað væri komið, og þaðan var rúmlega dagleið að skálanum í Nýjadal.

Snjósköflunum fjölgaði og þeir urðu stærri. Við reyndum að fara yfir einn þeirra. Froggy fór á undan og þreifaði fyrir sér með bambusstönginni. Ég kom á eftir og bar fyrst bakpokann minn yfir og sótti síðan kerruna. Snjórinn var nægilega þéttur og fastur fyrir. Það var auðvelt og þægilegt að ganga yfir hann beint upp brekkurnar, en pollarnir og drullan neðan skaflanna neyddi okkur oft til að leggja stórar lykkjur á leið okkar.

Við höfðum verið á rölti í sextán klukkustundir og vorum orðnir allþreyttir. Ekki höfðum við hugmynd um, hve langt væri eftir til Gæsavatna. Það var orðið áliðið og kalt. Okkur óaði við að þurfa að eyða annarri nótt upprúllaðir í tjöldunum okkar. Það var rigningarlegt í rökkrinu framundan. Við vorum í u.þ.b. 1000 m hæð yfir sjó undir blýlituðum, alskýjuðum himni. Sólin sendi geisla sína undir skýjabakkann langt í norðvestri og sló einkennilegum bjarma á jökulinn og hraunið. Eina lífsmarkið í hrauninu voru vindkviður, sem renndu sér í gegnum lífvana og draugalegt landslagið. Það var eitthvað ójarðneskt við þennan stað, líklega bætti þreytan ekki úr skák. Jörðin hlýtur að hafa litið eitthvað svipað út á degi sköpunarinnar.

Þá sagðist Froggy sjá rútu.

Aumingja Froggy. Eitthvað var honum farið að förlast. Hann hefði alveg eins getað sagzt hafa séð kafbát í Sahara. En hann benti mér á hann. Viti menn, það var eitthvað við jökulröndina, sem leit fyrst út fyrir að vera sporvagn í mínum augum. Hann var blámálaður að neðan en hvítur að ofan eins og sporvagnarnir í Munchen. Ja hérna! Var ég orðinn galinn líka?

Gegnum kíkinn sá ég það, sem ég hafði ekki tekið eftir áður: Farartækið var með vélarhlíf, sem teygðist út úr öðrum endanum. Það var enginn vafi, þetta var lítil og stutt rúta á stórum og sterklegum hjólbörðum. Þrír menn voru á leið niður jökulinn.

Klukkan var sjö mínútur gengin í ellefu.

Við flýttum okkur á móts við mennina, stukkum yfir stokka og steina og óðum yfir pollana.

Það mátti ekki á milli sjá hverjir urðu meira undrandi, Íslendingarnir þrír eða göngugarparnir tveir. Baldur Sigurðsson frá Akureyri og aðstoðarmenn hans, Einar Benediktsson og Þröstur voru að koma frá snjókettinum, sem þeir skildu eftir á jökli yfir nóttina. Þeir voru á leiðinni í Gæsavötn, þar sem þeir höfðu reist skála fyrir viku. Þangað voru 8 km, sögðu þeir.

Kerran var bundin föst á þakið á bílnum. Einar gangsetti hann og við rúlluðum af stað, hoppuðum og skoppuðum í ójöfnunum í fyrsta gír. Nokkrum sinnum varð Einar að nota rúðuþurrkurnar, þegar hann hafði ekið greitt í polla.

Ég er smeykur um, að ég hafi alls ekki munað eftir heitinu, sem við Jean unnum í upphafi ferðar að nota ekki vélknúin ökutæki. Ég var of feginn að komast út úr þessu skrítna umhverfi. Þetta var reyndar ekkert neyðarástand, en það eru takmörk fyrir öllu.

Þessir nýju vinir okkar sögðu okkur, að það væri erlendur göngugarpur í skálanum í Nýjadal. Hann hafði fengið einhverja slæmsku í hnén og kom þangað með bíl. Þetta gat enginn annar verið en Jean. Hvernig vissu þeir um hann? Jú, fiskisagan flýgur líka uppi á öræfum. Þeir höfðu heyrt talað um hann í talstöðinni.

Þegar við komum til Gæsavatna, bauð Baldur okkur kaffisopa. Það þarf ekki að fjölyrða um svar okkar.

Það var ljós og hiti í skálanum. Þar voru líka dóttir Baldurs, Sigrún, og vinkona hennar Sólveig Jóhannsdóttir og Hanna Lisbeth Jónmundsdóttir. Innan skamms fengum við heitt vatn til að þvo okkur.

„Nú, þú lítur þá venjulega svona út”, sagði Froggy glottandi, þegar ég var búinn að ná af mér svörtu rykinu.

„Svona nokkurn veginn”, svaraði ég hlæjandi, „nema skeggið. Ég ætla að fara með það heim með mér fyrir konuna.”

Á meðan Hanna Lisbeth lagði á borð, settist Froggy sjóliði á bekkinn og fór að laga buxurnar sínar með nál og tvinna. Þetta var virðuleg flík, sem hafði verið notuð í rússnesk-finnska stríðinu árin 1939 – 1940, þegar faðir hans hafði gerzt sjálfboðaliði til að stöðva Rauða herinn.

Þvílíkur munaður að setjast niður á alvörubekk við alvöruborð og njóta þess að drekka sjóðandi heitt kaffi. Hanna Lisbeth hafði eldað frábæra máltíð, lambakjöt og uppáhaldið mitt, skyr. Froggy og ég gleymdum öllum mannasiðum og tróðum í okkur eins og við ættum lífið að leysa. Þetta kemur þeim, sem þekkja mig ekki spánskt fyrir sjónir, en þeim, sem hafa kynnzt borðsiðum í matsölum sænska sjóhersins yrði illa brugðið.

Veizlunni lauk með fjöldanum öllum af kaffibollum og heitu toddýi. Við vöktum frameftir og spjölluðum í léttum tón og létum ljós okkar skína á ensku, dönsku, sænsku og þýzku, sem Sigrún hafði náð nokkurri leikni í, þegar hún ferðaðist um Austurríki og Þýzkaland. Enska Sólveigar var mjög góð og ég var hissa að heyra, að hún hefði aldrei verið erlendis. Hún hafði lært tungumálið í skóla, lesið bækur, hlustað á útvarpið og æft sig með pennavinum sínum. (Nokkrum dögum síðar komst ég í tæri við 11 ára dreng, son Ernst Gíslasonar, Hann hafði aldrei lært ensku í skóla en pælt í kennslubókum bróður síns og gat gert sig vel skiljanlegan). Þegar Sólveig heyrði, að ég byggi í Belgíu, bað hún mig að skila kveðju til pennavinar í grennd við Antwerpen, sem ég lofaði að skila (síðan á fjölskylda mín góða vini í Mortsel).

Á laugardagsmorguninn urðu Sigrún og Sólveig að fara aftur til Akureyrar, fyrst með jeppa að skálanum í Nýjadal og þaðan með rútu norður. Þar sem plássið var nóg í jeppanum, stakk Baldur upp á því, að við ækjum með til að stytta þeim stundir.

Þetta var einstakt tækifæri. Jean var e.t.v. enn þá í skálanum og Froggy var á leið þangað. Spurningin var bara sú, hvort ég ætti að halda mér við upphaflega áætlun og ganga suður Vonarskarð og yfir Tröllahraun. Við gátum gengið í Nýjadal, annaðhvort norðan eða sunnan Tungnafellsjökuls, en hvort tveggja var útúrdúr. Hvor leiðin sem var kostaði næturdvöl á leiðinni og u.þ.b. 40 km hefðu bætzt við upphaflega áætlun. Var útúrdúrinn þess virði?

Við sögðum Baldri, að við þægjum boð hans með þökkum. Þegar við spurðum, hve mikið við skulduðum honum fyrir flutning, mat og húsaskjól, leit hann svolítið undrandi á okkur.

„Þið voruð gestir mínir!”, sagði hann, eins og við hefðum bara þegið hjá honum kaffibolla.

Þessir Íslendingar eru merkilegt fólk. Þeir eru seinteknir, en þegar það er yfirstaðið, eru þeir örugglega tryggustu vinir, sem hægt er að hugsa sér.

Núna var Þröstur við stýrið. Ef hann væri eins góður bílstjóri og Einar, gæti ekkert farið úrskeiðis. Það voru engin hraun á leiðinni, svo að hún gæti ekki verið erfið yfirferðar. Sennilega gæti ég ekið hana sjálfur, hugsaði ég með mér. Ég hafði fyrst ekið jeppa þrjátíu árum áður, þegar Þröstur var ekki fæddur. Við höfðum náð jeppanum frá Ameríkönunum, áður en þeir tóku mig höndum, og vorum hrifnir af farartækinu.

Ég hafði ekki tekið árnar með í reikninginn. Klukkutíma síðar komst ég að raun um, að ég hefði ekki getað ekið jeppanum yfir árnar eins og Þröstur gerði. Mig hefði hreinlega brostið kjark til þess. Áður en hann ók út í stöðvaði hann bílinn, kveikti á talstöðinni og tilkynnti hvað stæði fyrir dyrum. Síðan setti hann í fjórhjóladrifið og ók hægt og rólega yfir. Straumurinn var þyngri en mér fannst góðu hófi gegna. Mig grunaði, að Froggy hafi ekki liðið of vel heldur. Þegar jeppinn var kominn út í, beindi Þröstur honum skáhallt undan straumi og lét hann létta undir yfirferðinni.

„Lyftið fótum!”, sagði hann.

Vatnið spýttist inn með bílhurðunum og við skildum núna, hvers vegna Íslendingarnir þrír voru í vaðstígvélum.

Jeppinn ók upp á hinn bakkann og það lak úr honum eins og úr sjónturni kafbáts, sem kemur upp á yfirborðið. Þröstur tilkynnti í talstöðina, að við værum komin yfir heilu og höldnu. Ég var feginn, að þurfa ekki að vaða þessar ár.

Við dáðumst að aksturslagi Þrastar. Stúlkurnar sögðu, þetta væru smámunir miðað við björgunarleiðangurinn, sem hann tók þátt í, þegar bandarískri áhöfn flugvélar, sem nauðlenti á Vatnajökli, var bjargað.

Að undanskildum ánum var þessi ferð ánægjuleg. Þröstur og stúlkurnar sungu íslenzk þjóðlög og við hrifumst af raunarlegu yfirbragði laganna, sem átti mjög vel við landslagið. Sigrún og ég reyndum líflegri nótur og sungum „O, alte Burschenherrlichkeit” og Sólveig sönglaði með. Svo sungum við öll „It’s a long way to Tipperary”. Þetta minnti stúlkurnar á ferð frá Akureyri að Nýjadal með nokkrum ungum Bretum í rútu, sem Baldur átti, en þá hét lagið „It’s a long way to Akureyri”. Það hlýtur að hafa verið skemmtilegur félagskapur, því að þær minntust þeirra, sem mjög vingjarnlegra enskra heiðursmanna. Þetta voru skólastrákar, en þær mundu ekki hvað skólinn þeirra hét. Þeir höfðu skilið eftir tvær kistur af vistum í skálanum. Þegar þær lýstu þeim, fór ekki á milli mála, að þetta voru strákarnir úr Brentwood skólanum. Þeir höfðu ekki svikið okkur um að skila vistunum á sinn stað, blessaðir.

Sólin skein skært þennan dag síðla í júlí og það var sjóðheitt í jeppanum. Samt voru lopapeysur félaga okkar nærtækar. Þær voru í náttúrulitunum með íslenzkum bekk í bak og fyrir. Efnið í þeim virtist fremur gróft en var mjög mjúkt og létt.

„Við höfum þær alltaf meðferðis”, sagði Sigrún. „Það er varla hægt að komast af án fatnaðar úr þessari fyrsta flokks ull.

Ég verð að muna að fá mér eina svona áður en ég fer heim, hugsaði ég og mundi eftir því, að Erica skrúfaði alltaf meira frá heita vatninu, þegar hitinn fór niður fyrir 19 gráður.

Það var fjöldinn allur af áhugaverðum fjallabílum við skálann og einn þeirra var græni Chevroletinn, sem við höfðum hitt fyrir sunnan Öskju. Friðrik Haraldsson heilsaði okkur eins og gömlum vinum. Þarna var Jean, kominn úr annarri heimsókninni að Mývatni. Hann sagðist hafa reiknað með okkur einhvers staðar í grenndinni, en ekki búizt við okkur fyrr en daginn eftir. Hann hafði talað við verkstjórann við húsasmíðina og falast eftir fari fyrir okkur til Reykjavíkur í rútunni þeirra.

„Já”, sögðum við stoltir, „en við vissum að þú værir hérna!”

Við sögðum honum, hvernig á því stæði, og hann var upp með sér af allri frægðinni, sem hann hafði áunnið sér án þess að vita það.

„Vistirnar okkar eru komnar”, sagði hann.

„Það vissum við líka”, sögðum við og vorum heldur betur upp með okkur.

Jean varð klumsa.

Hann jafnaði sig brátt og sagði glottandi, að hann væri með svolítið óvænt fyrir mig. Hann hvarf inn í skálann. Þegar hann kom aftur, var hann með seglpokann, sem ég hafði skilið eftir fyrir vestan Öskju, í höndunum.„Þú hefur betur”, sagði ég hlæjandi.Minnismerki leiðangurs okkar hafði ekki fengið að standa lengi. Það var skammlífara en atburðurinn, sem ég hafði stungið upp á í gríni, að það stæði fyrir.

Myndasafn

Í grend

Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Fagurhólsmýri
Fagurhólsmýri er bær í Öræfum. Það er fallegt til allra átta frá staðnum og neðan klettanna er flugvöllur   sveitarinnar, sem leysti hana úr mestu ein…
Grímsvötn
Eldgos í Grímsvötnum Undir Vatnajökli austur af Grímsfjalli eru Grímsvötn virkasta eldstöð landsins. Talið er að þar hafi gosið oftar en hundrað sinn…
Jöklar
Jöklar Íslands Jöklar landsins þekja rúmlega 11% af heildarfleti þess. Hinir stærstu eru á sunnanverðu landinu eða í miðju þess. Helzta ástæðan er sú…
Öræfajökull
Öræfajökull, hæsta fjall Íslands Öræfajökull er hæsta fjall landsins, 2110 m, sem teygist suður úr Vatnajökli. Hæð landsins sunnan þess     er u.þ.b.…
Skaftá
Skaftá - Skaftárhlaup Skaftá er blönduð jökulsá og lindá. Meginhluti jökulvatnsins kemur undan Skaftárjökli og nokkuð jökul-  og lindavatn úr Langasj…
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Suðursveit
Suðursveit er ævintýraland sem fleiri mættu gefa gaum að en hingað til. Óvíða finnst á svæði sem aka má   gegnum á þjóðvegi á um hálftíma slík fjölbre…
Vatnajökull kort
Kort af Vatnajökli Hér má sjá alla jökla sem saman mynda Vatnajökul og ýmsa staði sem tengjast Vatnajökli. On this map you can see the Glaciers how …
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967, stækkaður 1984 og stækkaður enn 2004) og nágrenni geymir mestu náttúruperlur Íslands. Íslenskir og erlendir ferðal…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )