Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Suðursveit

Suðursveit er ævintýraland sem fleiri mættu gefa gaum að en hingað til. Óvíða finnst á svæði sem aka má   gegnum á þjóðvegi á um hálftíma slík fjölbreytni í náttúru, hvort sem litið er á jarðfræði, landmótun eða lífríki. Ef sögu og amstri mannfólksins er bætt við svo langt heimildir ná verður heimsókn í Suðursveit ógleymanleg og þetta landshorn kallar þig aftur og aftur á vettvang. Að nógu er að hverfa fyrir ferðafólk sem hafa vill þak yfir höfuð, bæði í bændagistingu innansveitar og í grenndinni. Í fyrra kom út sérstakur bæklingur um Suðursveit gefinn út af áhugamönnum heima fyrir með uppdrætti og lýsingum á gönguleiðum og mörgum myndum. Er það fyrsta kortið í útgáfuröð um gönguleiðir í Austur-Skaftafellssýslu og mikill fengur fyrir þá sem ferðast ætla um þennan landshluta.

Margbrotin jarðfræði. Miklir skriðjöklar eru á mörkum Suðursveitar, Breiðamerkurjökull að vestan og Heinabergsjökull ásamt Skálafellsjökli að austan. Á milli þessara stríðu jökulstrauma halda Suðursveitarfjöll Vatnajökli í skefjum þannig að rétt grillir í hann inn af dalbotnum, Brókarjökul í stafni Kálfafellsdals og Sultartungnajökul inn af Staðardal. Í grófum dráttum má skipta Suðursveitarfjöllum í þrennt: Vestast er bálkurinn milli Breiðamerkurjökuls og Kálfafellsdals norður af Sunnansandabæjum, fyrir miðri sveit eru Kálfafellsfjöll afmörkuð af Kálfafellsdal og Staðardal norðaustur af Miðþorpi og austast Borgarhafnarfjall og Skálafellshnúta upp af Borgarhöfn og Mörk. Hvert þessara fjalllenda hefur sín sérkenni og skiptist í minni einingar með dölum og tindum. Hæst ber Þverártindsegg (1554 m) vestan Kálfafellsdals en þaðan lækka fjöllin smám saman til austurs.

Á þessu svæði er að finna leifar fornra megineldstöðva, sem voru virk eldfjöll fyrir nokkrum miljónum ára líkt og Öræfajökull nú og af sömu rót runnar. Þær eru nú tálgaðar niður í grunn af endurteknum áhlaupum ísaldar. Fornt eldfjall undir Þverártindi og grennd mætti kenna við Hvannadal en ummerki þess sjáum við meðal annars sem djúpberg inn af Þverárbrík við Fellsárjökul og við mynni Hvannadals. Önnur eldstöð eldri liggur austar og henni tilheyrir gabbróhleifur í Þormóðarhnútu og líparít í Miðfellsegg og víðar.

Jarðlög við innanverðan Kálfafellsdal eru mjög fjölbreytileg og litrík, þykkar móbergsmyndanir með þéttriðnu neti bergganga og innskota. Efst í Borgarhafnarfjalli og Hestgerðishnútu er einnig margbrotin móbergsmyndun ofan á gömlu blágrýti. Hluti af þessum jarðlögum sést frá þjóðvegi, meðal annars Fallastakkanöf, eitt stórfenglegasta stuðlaberg á landinu, allt að 90 metra háar súlur og við hlið þeirra eru fagurskapaðir bólstrar. Nöfin freistar áhugamanna um fjallaklifur sem segja Fallastakkanöf eitt af erfiðustu viðfangsefnum í klifri hérlendis. Nafnið er náttúruheiti sótt í samlíkingu við fallastakk á hval.

Veðurárdalir. Við austanverðan Breiðamerkurjökul skerast hliðardalir austur í fjöllin og lokar skriðjökullinn fyrir mynni þeirra. Verða þannig til jaðarlón inn með jöklinum og hlaupa þau fram og tæmast við vissar aðstæður. Áður fyrr skiluðu þau sér í Veðurá sem kemur undan jökli í kverkinni vestan undir Fellsfjalli en rennur nú eins og Stemma vestur í Jökulsárlón. Breiðamerkurjökull hefur bæði hörfað mikið og þynnst á síðustu 75 árum og því hafa lón í Veðurárdölum minnkað að sama skapi. Syðri dalurinn, kallaður aðeins Veðurárdalur, er skammt inn af Þröng, en svo nefnist kverkin inn með Fellsfjalli að vestan. Þar er nú lítið sem ekkert lón lengur þar eð vatnið hefur greiða framrás undir þunnum jöklinum. Í Veðurárdal má komast með því að ganga inn með austurjaðri Breiðamerkurjökuls eða á jökli uns komið er að Hellrafjalli sunnan við dalinn.

Þar er gengið upp kletta eftir svonefndu Einstigi og þræddir hjallar inn í Miðfell fyrir miðjum dal. Norðan við Miðfellstind liggur grunnt skarð yfir Veðurárdalsegg í um 900 m hæð. Þegar norður úr því er komið mætir manni nær samfelld fönn og fláandi skriðjökull vestan við Þverártindsegg. Til norðvesturs hallar niður í Innri-Veðurárdal sem liggur í krók milli litskrúðugra fjalla. Allstórt jökullón er í dalnum með meira og minna ísreki sem losnar frá jökultungu í dalsmynninu. Háir fossar dynja þar niður úr kvosum og litskrúðugt líparít setur svip sinn á umhverfið. Vestur undan falla straumar Breiðamerkujökuls suður milli Esjufjalla sem virðast aðeins í seilingarfjarlægð og handan frerans breiða rís Öræfajökull með skerjum og tindum og inn af honum Mávabyggðir þar sem skil eru milli Suðursveitar og Öræfa.

Allhátt í brattri norðurhlíð Innri-Veðurárdals er gróskuleg gróðurvin sem kallast Mávatorfa og hafa þar og litlu neðar í brekku fundist 55 tegundir blómplantna. Í torfunni er allhávaxinn víðir en einnig grös og blómskrúð. Elstu heimildir um afdal þennan eru frá 1850 en þá sendi Þorsteinn Einarsson prestur á Kálfafellstað fjóra menn til landkönnunar inn með austanverðum Breiðamerkurjökli. Hingað til hafa aðeins fáir séð þennan leynidal enda þarf talsvert á sig að leggja til að komast þangað og vart nema nema á færi fólks með reynslu af fjallaferðum eða undir traustri leiðsögn. Norðan við Innri-Veðurárdal taka við Veðurárdalsfjöll og hár kambur til austurs. Bak við hann er víð háfjallasveif með jökli mót norðvestri kölluð Svöludalur og fyrir mynni hans jökulsker sem heitir Eyjólfsfjall.

Fara má auðveldari leið en hér var lýst í Innri-Veðurárdal með því að ganga norður frá Reynivöllum inn með Fellsgljúfri og inn Aura, upp Fellsárjökul (Bríkurjökul) þar sem komið er á fannbreiðuna austur af Innri-Veðurárdal. Þetta er jafnframt auðveldasta leiðin fyrir þá sem nálgast vilja Þverártindsegg en klifrarar munu kjósa að spreyta sig á henni að austanverðu upp úr botni svonefnds Eggjardals (nýnefni) sunnan Miðfells á Kálfafellsdal. Þessar leiðir báðar má tengja í einskonar hringferil en óráð að leggja í slíka göngu nema í einsýnu veðri.

Steinar, Staðarfjall og Hvannadalur. Steinar hét bær suðaustan undir Steinafjalli en var yfirgefinn í júlí 1829 eftir gífurlegt vatnsveður og fylgdi því flóð í Köldukvísl og grjóthrun úr fjallinu. Sigurður langafi Sigurðar á Kvískerjum fæddist í þann mund að ósköpin dundu yfir, en foreldrar sveinsins Ingimundur og Helga byggðu sumarið eftir upp á Sléttaleiti vestar í brekkum og standa þar enn rústir bæjarins, sem fór í eyði 1951.
Mörg örnefni tengjast Steinum, fjall, sandur, vötn og Steinadalur mikil sveif norðan undir Steinafjalli en til norðausturs er Breiðabólsstaðarfjall, betur þekkt sem Staðarfjall og stundum kennt við Papbýli fornsagnanna. Úr sveifinni rennur Kaldakvísl í miklu gljúfri, Klukkugili, niður á sandinn. Þar inn af er mikill og forvitnilegur afdalur sem kallast Hvannadalur og gengur hann eina 7 km norður í fjöllin. Eftir honum rennur Dalsá en skiptir um nafn í Klukkugili.

Enginn sem dvelur í Suðursveit getur látið hjá líða að ganga þó ekki væri nema inn í mynni Hvannadals með tignarlegan Þverártind í fangið. Velja má eftir hentugleikum leið sunnan Klukkugils inn á Bröttubrekku eða um klettahöfða og hnausa norðan þess inn að Garði þar sem hlaðið var fyrir nautin sem hér voru í áheldi áður fyrr. Til að rugla nautin í ríminu voru þau rekin “Inn með austan” í Staðarfjalli og vestur yfir skarð til Hvannadals þar sem heitir Nautastígur. Þessa leið er tilvalið að ganga og rétt að ætla heilan dag í ferðina. Í leiðinni kynnast menn Staðarfjalli með fögrum birkiklæddum hlíðum, hellum og sögustöðum og jafnframt fá menn Kálfafellsdal og fjöllin austan hans í kaupbæti. Miðvötn heitir sá hluti Steinavatna sem kemur frá Brókarjökli og taka þau til sín margar hliðarár úr óteljandi giljum í leiðinni.

Borgarhafnarfjall og jöklaferð. Ef ekinn er Jöklavegur frá Smyrlabjörgum að bækistöð Jöklaferða við upptök Skálafellsjökuls fæst yfirsýn um Borgarhafnarfjall með vötnum og forvitnilegum jarðmyndunum. Vegurinn liggur skammt frá sporði Sultartungnajökuls sem fyrir einni öld lá niður í botn Staðardals þar sem Sultartungnaá fellur nú um gljúfur í mörgum fossum. Á þessu svæði liggur landið sem opin bók í jöklafræðum þar sem við blasa jaðarurðir og hvalbök sem skriðjökullinn hefur heflað til og skilið eftir rákir til marks um skriðstefnu. Stórkostlegur jökulgarður er á löngum kafla í hlíðinni vestan við Sultartungnaá, meðal annars hlaðinn upp af gabbróbjörgum sem jökullinn hefur flutt með sér ofan frá Þormóðarhnútu. Líklegt er að einmitt á þessum slóðum hafi Norðlendingar fyrr á öldum komið af jökli á leið í verið við Hálsahöfn.

Frá Jöklaseli gefst mönnum kostur á að kynnast smáhorni af Vatnajökli í skyndiferð á jökli norður á brún Kálfafellsdals. Óvíða nýtur Þverártindsegg vestan dalsins sín betur en úr skarðinu milli Birnudalstinds og Kaldárnúps. Frá Miðfellsegg vestur af Jöklaseli er hægt að leggja í stranga göngu á Birnudalstind og þaðan suður eggjar í átt að Kálfafellstindum og niður um Hrossadal að Hrollaugsstöðum.

Með Þórbergi í Suðursveit. “Sú byggð er rík sem fóstrað hefur sinn á hvorum sveitarenda þvílíka stólpa sem Þórberg Þórðarson á Hala og Jón Eiríksson frá Skálafelli” sagði Einar Bragi rithöfundur er Skaftfellingar minntust aldarafmælis meistara Þórbergs. Hann fæddist á Hala 1888 og mótaðist á æskuárum af síbreytilegu og stórkostlegu umhverfi Suðursveitar. Rökkuróperan, Um lönd og lýði og Steinarnir tala endurkasta minningum frá bernsku- og unglingsárum hans, en með tungutaki og kunnáttu þroskaðs rithöfundar. Þessi verk og fleiri voru gefin út í ritsafninu Í Suðursveit 1975 og á betra ítarefni verður ekki kosið. “Kannski er Steinafjall fegursta fjall í heimi. Það er svo reglulega skapað, að það er erfitt að hugsa órökrétt, þegar maður er nálægt því”, segir Þórbergur í Fjórðu bók. Það er að vonum að á kreik er komin hugmynd um að veita gestum og gangandi aðgang að brunnum Þórbergs heima fyrir á Hala í sérstakri stofnun til minningar um meistarann.

Suðursveitarfjöll eru hluti af umgjörð Vatnajökuls, sem er efniviður í stærsta og merkasta verndarsvæði í Evrópu. Barátta og líf genginna kynslóða hlýtur að verða hluti af þeirri sögu sem miðla ber til framtíðar og um leið þarf viðfangsefnið að gagnast því fólki sem lifir og hrærist við rætur jökulsins.
Hjörleifur Guttormsson

Heimildir:
Einar Bragi: Þá var öldin önnur II. Darraðardansinn í Suðursveit. 1974.
Hjörleifur Guttormsson: Við rætur Vatnajökuls. Árbók Ferðafélagsins 1993
Þórbergur Þórðarson: Í Suðursveit. 1975.
Gönguleiðir í Suðursveit. Kort frá átaki í merkingu gönguleiða.
Meira um Suðursveit: Friðrik Haraldsson leiðsögumaður og Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma flugrekstarstjóri Vængja. og eigandi nat.is

Myndasafn

Í grennd

Borgarhöfn
Borgarhöfn er þyrping nokkurra bæja í Suðursveit. Bændur þar stunduðu allmikla sjósókn á árum áður   og sagnir segja frá Norðlendingum, sem komu suður…
Breiðamerkurjökull
Breiðamerkurjökull er meðal stærstu skriðjökla Vatnajökuls. Ísskrið hans liggur til suðurs frá meginjökli  og mótar stöðugt landslagið á leið sinni. …
Fagurhólsmýri
Fagurhólsmýri er bær í Öræfum. Það er fallegt til allra átta frá staðnum og neðan klettanna er flugvöllur   sveitarinnar, sem leysti hana úr mestu ein…
Hali, Suðursveit
Hali er einn Breiðabólstaðarbæjanna í Suðursveit. Þar fæddist Þórbergur Þórðarson (1889-1974),  rithöfundur. Meðal verka þessa fræga höfundar eru „Bré…
Höfn í Hornafirði
Höfn er eini bærinn á landinu, sem er í skipgengdum árósi. Þar byggist lífið á fiski, verzlun og ferðaþjónustu. Hornafjarðarbær er á nesi milli Horna…
Sel í Skaftafelli
Sel er lítill torfbær af sunnlenskri gerð, reistur af Þorsteini Guðmundssyni bónda árið 1912 og er ágætt sýnishorn af bæjum eins og þeir gerðust í Öræ…
Smyrlabjargaárvirkjun
Smyrlabjargaá rennur um Suðursveit. Hún er að meginstofni dragá en jökulsá að nokkru. Hún fær fær  hluta vatns síns frá jökultungu úr Heinabergsjökli …
Suðurland, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Hveragerði til Hafnar í Hornafirði. Suðurland er bæði fjöl- og strjálbýlt. Milli Hafnar og Markarfljóts er landrý…
Tjaldstæðið Höfn í Hornafirði
Höfn hefur verið miðstöð verzlunar í Austur-Skaftafellssýslu um langt árabil, eða síðan Ottó Tuliníus flutti verzlun sína frá Papósi. Innan marka stað…
Vatnajökull kort
Kort af Vatnajökli Hér má sjá alla jökla sem saman mynda Vatnajökul og ýmsa staði sem tengjast Vatnajökli. On this map you can see the Glaciers how …
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967, stækkaður 1984 og stækkaður enn 2004) og nágrenni geymir mestu náttúruperlur Íslands. Íslenskir og erlendir ferðal…
Þorbergsetur
Þórbergssetur á Hala í Suðursveit. Menningarsetur reist til minningar um Þórberg Þórðarson rithöfund. Þórbergssetur var opnað 1. júlí 2006 Þar er nú…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )