Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Smyrlabjargaárvirkjun

Smyrlabjargaá rennur um Suðursveit. Hún er að meginstofni dragá en jökulsá að nokkru. Hún fær fær hluta vatns síns frá jökultungu úr Heinabergsjökli og eru örar breytingar á vatnsrennsli frá jöklinum. Heinabergsjökull hefur verið á undanhaldi undanfarna áratugi og því var fyrirhugaðri virkjun um miðjan sjötta áratug 20. aldar frestað. Nauðsynlegt þótti að mæla rennsli á lengra tímabili áður en framkvæmdir hæfust.

Árið 1956 var samið við Tékka um kaup á vélum og öðrum búnaði fyrir orkuver í Smyrlabjargaá. Útboðið var að hluta tengt undirbúningi að virkjun Grímsár, Mjólkár og Fossár í Hólshreppi við Reiðhjalla. Eftir að hætt var við virkjun var dísilrafstöð á Höfn stækkuð í því skyni að vinna markað fyrir væntanlega vatnsaflsvirkjun. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen gerði nýja frumáætlun árið 1967. Hún miðaðist við, að vélar, sem komu til landsins 10 árum fyrr, yrðu notaðar. Nokkrar breytingar voru gerðar frá fyrri áætlun. Hin veigamesta var að stækka vatnsforðalón.

Virkjunin var reist nálægt bænum Smyrlabjörgum. Vinna hófst í ágúst 1968. Norðurverk hf. sá um verkið og lauk við steypuvinnu sama haust. Framkvæmdir gengu þokkalega árið eftir og var áformað að ræsa vélar snemma í ágúst 1969. Það tókst ekki vegna mikilla rigninga, sem töfðu, en í september voru vélarnar gangsettar. Kom þá í ljós bilun í þrýstilegukransi á öxli hverfils. Var um efnisgalla að ræða og þurfti að fá nýjan krans að utan. Endanlegar prófanir á vélum fóru fram undir lok september og virkjunin var formlega ræst 3. október 1969.

Í upphafi var búizt við, að afkastageta virkjunarinnar yrði 1.000 kW, en með því að hækka stíflu auk annarra aðgerða óx afkastageta í 1.200 kW. Síðar var vatnshjóli hverfils breytt og með því komst afkastageta í 1.485 kW við beztu skilyrði.

Inntakslón er einnig miðlunarlón og stálpípa liggur úr miðlunarlóni í vélar. Árið 1974 var miðlun aukin um nær helming með því að stífla rennsli úr vötnum uppi á heiðinni fyrir ofan Smyrlabjargaá.
Heimild: RARIK

Myndasafn

Í grend

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )