Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Grímsvötn

Eldgos í Grímsvötnum

Eldgos í Grímsvötnum

Undir Vatnajökli austur af Grímsfjalli eru Grímsvötn virkasta eldstöð landsins. Talið er að þar hafi gosið oftar en hundrað sinnum frá landnámi og þar af eru skráð 13 eldgos síðan um aldamótin 1900. Eldstöðin er um 100km löng og 15 km breið. Stöðuvatn er í öskju Grím­s­vatna und­ir jökl­in­um, sem end­ur­nýj­ast stöðugt vegna hit­ans og eld­gosa. Vatnið er bráðnar úr jöklinum sprett­ur síðan fram í jök­ul­hlaup­um sem kennd eru við Grím­svötn eða Skeiðará, og valda oft miklum ham­förum og skemmdum á vegakerfinu um sandana undir jökli.

1996
Gos milli Grímsvatna og Bárðarbungu 30. sept. – 14. okt. 1996 bræddi 3,5 km langa, allt að 500 m breiða  grimsvotn og 600 m djúpa sprungu í jökulinn, sem fékk nafnið Gjálp. Vatn streymdi til Grímsvatnaöskunnar allan og fram að og eftir Skeiðarárhlaup 5. nóv. Rennsli frá eldstöðvunum til Grímsvatna eftir gosið var áætlað milli 300 og 400 m³/sek. Áætlað er að askjan hafi innihaldið 3,2 km³ vatns, þegar hlaupið hófst. Hlaupið var mun meira og óx hraðar en gert var ráð fyrir. Kl. 13:00 skolaðist brúin yfir Gígju burtu og Skeiðarárbrúin var farin að gefa sig á sama tíma, þegar veginum hafði skolað í burtu frá báðum sporðum hennar. Hún er talin munu gefa sig innan tíðar, þar eð flóðið er talið munu vaxa mikið enn þá (kl. 14:30, viðtal við Stefán Benediktsson og Helga Hallvarðsson í ríkisútvarpinu).

Strax í upphafi hlaupsins flæddi yfir Sæluhúsavatn. Verðmæti brúarmannvirkjanna á sandinum er áætlað 1,3 milljarðar króna (Gígja 0,3, Skeiðará 0,7, Núpsvötn 0,3 og Sæluhúsavatn 0,05 milljarðar). Heildarverðmæti vega og brúa er u.þ.b. 2 milljarðar.

Grímsvötn voru tiltölulega nýhlaupin (apríl, 1996), þannig að lægðin var að mestu tóm, þegar gosið hóf að fylla þau á ný. Búið var að rjúfa veginn yfir Skeiðarársand á nokkrum stöðum til að opna framrás fyrir hlaupvatnið fram hjá brúnum til að létta á þeim. Ljósleiðari Pósts og síma ásamt rafmagnsleiðslum rofnuðu strax í hllaupbyrjun og síma-sambandi var beint um kerfið norður um land. Sýndar voru fyrstu myndir af náttúruhamförunum í ríkissjónvarpinu kl. 15:30 5/11 1996.

Jarðfræðingar telja líkur á öðru eldgosi í Grímsvötnum, þegar þau hafa tæmt sig og þrýstingnum léttir af gosstöðvum. Hlaupið náði hámarki kl. 22:30 5/11. Þá var talið að það hefði náð 50.000 m³/sek. Hafrannsóknarskip var sent á Skeiðarárgrunn til að fylgjast með þróun í hafinu og kanna hvort eðjustraumar verða til á sjávarbotni á landgrunninu. Þeir geta náð margra tuga km hraða á klst. Skipstjórar voru varaðir við að vera með botnveiðitæki þar af þessum sökum. Skeiðarárbrúin stóð að mestu af sér hlaupið en brúin yfir Gígju (Sandgígjukvísl) fór veg allrar veraldar. Hlaupið kom líka fram í Núpsvötnum fyrir myrkur (17:00) 5/11. Heildartjón í hlaupinu varð nálægt einum milljarði.

Smágos varð norðan Grímsvatna, en sunnan syðsta gígs í sprungunni, sem gaus 6.11. Gosmökk lagði til suðurs yfir Vatnajökul. Jarðskjálftafræðingum tókst að aðgreina skjálftavirkni þessa goss frá því, sem olli hlaupvatni. Skjálftavirkni vegna hlaupsins hófst kl. 21:30 4/11 og jókst stöðugt þar til kl. 22:30 (hlauphámark) 5/11. Virknin minnkaði síðan smám saman og varð stöðug á meðan askjan tæmdist.

7. nóv. var lýst yfir, að hlaupinu væri lokið. Talið er taka muni allt að tvö ár að gera við allar skemmdir á vegamannvirkjum en 6-8 vikur að opna leiðina fyrir bílaumferð.

Geysimikið jökulsig kom fram 7. nóv. yfir útfalli Grímsvatna og langt suður eftir. Vatnið í Grímsvötnum hefur líklega verið mun heitara en venjulega gerist í slíkum hlaupum og göngin undir ísnum því mun stærri, þannig að þekjan brast eftir að hamförunum linnti.

Eldfjalla- og jöklafræðingar sögðu að hamförunum loknum, að kenningar þeirra um íslyftingu vegna flots til að opna útfallið frá Grímsvötnum dygðu ekki einar sér og töldu, að vatnsþrýstingurinn og líklega vatnshiti að einhverju leyti (8°C) réði úrslitum, þegar vatnið brýzt fram undir jöklinum alla leið frá Grímsvötnum að jaðri Skeiðarárjökuls.

Gjáin Gjálp, sem myndaðist við gosið hefur lokazt og ummerkin á jöklinum líkjast helzt langri hvilft með miklum sprungum báðum megin. Þær fylltust af snjó, en svæðið er talið mjög hættulegt yfirferðar.

Nútíma þjóðsaga?
Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjamanni á Keflavíkurvelli voru 4 landar hans á Skeiðarárbrú, þegar hluti hennar skolaðist burtu og þeir með. Þeir voru í Volkswagen bjöllu, sem hvarf líka. Þessum upplýsingum var haldið frá fjölmiðlum af einhverjum ástæðum.

Allt frá goslokum hefur jökulísinn haldið áfram að bráðna og rennsli til Grímsvatna hefur haldið áfram (skrifað 19. maí 97). Búizt var við því, að Grímsvötn fylltust smám saman á ný og vænta mætti fljótlega annars hlaups. Slíkt er ekki yfirvofandi, því að jafnt rennsli hefur verið frá Grímsvötnum í gegnum opin ísgöngin, þannig að engin uppsöfnun vatns á sér stað í Vötnunum.

Stefnt er að fullnaðarviðgerð brúa og vegar yfir Skeiðarársand nú í sumar.

Mikill straumur ferðamanna, einkum íslenzkra, hefur verið að ísgjánni , þar sem Gígja átti upptök sín. Þaðan barst mestur ís niður á sandinn og breytti þar landslaginu gífurlega. Ísjakarnir á sandinum bráðna tiltölulega hratt og stöðugar breytingar eiga sér stað í gjánni. Þangað er u.þ.b. 20 mín. gangur frá bílastæði.

Aðalhættan á sandinum stafar af jökulhverum (kviksyndi) og hruni úr ísveggjum.

Lokið við brú yfir Gigju sumarið 1998.

1998
18. des. 1998. Gos hófst í syðsta hluta Grímsvatnalægðarinnar kl. 09:21 og sást fyrst úr flugvélum, annarri á leið til Siglufjarðar kl. 09:32 og hinni frá FÍ á leið frá Egilsstöðum (Sigríður Einarsdóttir) skömmu síðar.
Veður var gott og skyggni frábært. Gosbólsturinn náði u.þ.b. 10 km hæð um hádegi og sást vel frá Reykjavík yfir Mosfellsheiði að sjá.
Gosið hófst undir hömrum á u.þ.b. 1 km langri sprungu. Öskufall var lítið í byrjun og náði 5-6 km suðaustur á jökulinn um hádegið. Áttin var norðlæg og mjög hægur vindur.

Ekki er óttast að Grímsvatnahlaup verði úr því að gosið er í sjálfri lægðinni.

19. des. 1998 Sprengivirkni gossins hefur dvínað og álitið er að meginhluti gosefnanna verði eftir í Grímsvatnaöskjunni, þar sem sé að hlaðast upp gígur. Gosmökkurinn náði u.þ.b. 8 km hæð í dag og öskufall var til norðurs. Búizt er við suðaustanátt á morgun, þannig að aska gæti fallið á Norðurlandi.

28. des. 1998. Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum eru mælitæki hætt að sýna gosvirkni, enda hefur gosið verið að dvína undanfarna daga.

2004
Gos hófst í suðvestanverðum Grímsvötnum um tíuleytið 1. nóvember og talið er í upphafi, að gosmökkurinn hafi náð allt að 13 km hæð og gosið sé líklega kröftugra en hið næsta á undan. Íshellan í Grímsvötnum yfir gossvæðinu er nokkuð þykkari en austar og talið, að gosið hafi brotizt í gegnum hana undir morgun. Strax í birtingu fóru nokkrir náttúruvísindamenn fljúgandi að gosstöðvunum og hið fyrsta, sem barst frá þeim var, að gosmökkurinn næði u.þ.b. 10 km hæð. Um ellefuleytið tilkynnti bóndinn á Möðrudal, sem sá gosmökkinn snemma í morgun, að öskufalls væri farið að gæta á hans slóðum.

Gosið var kröftugast í upphafi en næstu daga fór að draga úr því þar til því lauk líklega föstudagskvöldið 5. eða aðfararnótt laugardagsins 6. nóv. Það bræddi kringlótt gat í gegnum ísinn í Grímsvatnalægðinni og í miðjunni myndaðist gígur. Smágusa kom upp í suðausturhorni lægðarinnar en ekki varð framhald þar. Gosmökkurinn reis hæst í u.þ.b. 13 km hæð og olli breytingum á flugáætlunum innanlands og alþjóðlegri flugumferð var beint suður fyrir landið. Öskugeirinn lagðist aðallega til norðurs og norðausturs.

Skeiðarárhlaup var þegar hafið áður en gosið hófst og þar þóttust vísindamenn hafa séð kenningar Sigurðar heitins Þórarinssonar um auknar goslíkur í Grímsvötnum við lækkun vatnsborðs þar. Viðbótarvatnið vegna gossins jók á hlaupið, sem náði hámarki í u.þ.b. 4.900 rúmmetrum áður en fór að draga úr því. Vatn í Gígju og Núpsvötnum jóksts einnig.

2010
Hlaup hófst 31. október. Það fann sér farveg um Gígjukvísl til sjávar. Brúin þar var byggð úr steinsteypu árið 1997-98 og er talin mjög traust.
Hinn 1. nóvember mældist vatnsmagnið á sjöunda hundrað m³/sek, sem var talsvert meira en búizt var við svo fljótt. Fræðingar álitu, að þetta Grímsvatnahlaup yrði líkt hinu síðasta árið 2004 og útilokuðu ekki eldgos í kjölfarið.
Hinn 3. nóvember, kl. 10:00, mældist vatnsmagnið við nýju brúna 2.600 m³/sek og flóðtoppsins, 4.000 m³/sek, er vænzt síðdegis. Skjálftaórói í Grímsvatnaöskju var talsverður um hálfþrjúleytið í nótt, en flokkaðist fremur undir rennslisbreytingar en viðvörun um eldgos.
Flóðtoppurinn 3. nóv. varð 3.500 m³/sek. Síðan dvínaði hlaupið og því lauk opinberlega 9. nóv. án nokkurrar eldvirkni í Grímsvötum.

2011
21. maí. Fyrsta mynd af gosinu. Veðurstofan tilkynnti um gosóróa kl. 17:30 og undirbjó flug yfir Grímsvötn í kjölfarið. Talið er, að gosið hafi byrjað skömmu fyrir kl. 19:00. Mökkur sást frá Lómagnúpi kl. 19:15 (Örlygur Sigurjónsson, leiðsögumaður) og samtímis frá Hellu á Rangárvöllum.
Norðvestanvindur bar öskuskýið austur yfir Jökulsárlón, þar sem aska fór að falla kl. 22:00. Klukkan 22:07 var gosmökkurinn sýnilegur frá Reykjavík hafði náð 15 km hæð.
Klukkan 22:45 var almyrkvað við Jökulsárlón.
Öskufall var orðið svo mikið á Skeiðarársandi, að lögreglan lokaði þjóðveginum vegna slæms skyggnis fyrir fáum mínútum. Gjóskuframleiðsla gossins í upphafi var talin nema 20.000 m3/sek.
Klukkan 23:16 var gosmökkurinn kominn upp í 20 km hæð. Þetta kom fram eftir flug að gosstöðvunum og ekki var hægt að spá um framhaldið. Engu að síður er búizt við hlaupi úr Grímsvötnum í kjölfarið. Það yrði líklega lítið vegna lítils vatnsforða í sigdældinni. Þetta gos er álitið mun kröftugra en árið 2004.
Fín aska hefur þegar fallið á Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri.
22. maí. Um morguninn var farið að gæta fíns öskufalls vestur að Þjórsá. Öskuskýið náði upp í 3 km hæð og ofan þess var hægt að fljúga austurum að sögn Ómars Ragnarssonar. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði að þetta Grímsvatnagos væri líklega hið mesta í heila öld eða síðan 1873. Gosstrókurinn stendur upp úr gígum undir ísfríu svæði í suðvestanverðri öskjunni og ekki er að vænta mikilla vatnavaxta, færist gosið ekki inn undir íshelluna.
Öllu millilandaflugi var aflýst eftir kl 08:00, innanlandsflugi var aflýst í dag og þjóðvegurinn milli Kirkjubæjarklausturs og Freysness er lokaður vegna lítils eða einskis skyggnis.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, flaug yfir eldstöðvarnar í dag og sagðist telja gosið í rénun, en það gæti haldið áfram í nokkra daga. Margir óttast, að veðurstofan (Metoffice – London VAAC) í Englandi muni endurtaka hið umdeilda flugbann og valda með því miklum búsifjum.
Öskustrókurinn lækkaði niður í 10 km síðdegis og er á milli 10-15 km að kvöldi. Fé á beit í heimahögum hefur ekki orðið eins illa úti og búast mátti við, aðeins fáar ær og lömb hafa fundizt dauð nú um hásauðburðinn.
Askan úr þessu gosi er brúnleitari og inniheldur líklega minni flúor en úr Eyjafjallajökli í fyrra.
Öskuskýið lagðist yfir höfuðborgarsvæðið með kvöldinu.
23. maí. Gosið hefur verið stöðugt og smáminnkandi í dag. Mökkurinn var í 8 km hæð mestan hluta dags og öskufalls gætti mest milli Víkur og Kvískerja í Öræfum. Um tíma var alblint á Kirkjubæjarklaustri og þjóðvegurinn var lokaður á milli framangreindra staða allan daginn. Það bætti verulega í vindinn, svo þakplötur fóru að fjúka á Klaustri. Búizt er við að öskuský nái annars vegar til norðurstrandar Rússlands og hins vegar til Írlands og Skotlands í fyrramálið.
24. maí. Öskustrókurinn er í u.þ.b. fimm km hæð í dag. Framvinda gossins er í samræmi við spár, hvað snertir magn gosefna, sem er komið niður í 100 m3/sek, en var 2000-3000 í gær og enn meira í upphafi gossins. Aska hefur fallið víða um land án þess að hafa áhrif á innanlandsflug, en það var fellt niður annan gosdaginn án sjáanlegs tilefnis. Millilandaflug er í tiltölulega eðlilegum farvegi, nema í Bretlandi og Noregi, þar sem það var fellt niður. Ryan-Air ætlaði að halda áætlunum sínum óbreyttum en heyktist á því, þegar flugfélagið felldi niður flug til Skotlands og Írlands. Æ fleiri eru ósammála niðurstöðum „Metoffice (London VAAC), og láta eigin dómgreind ráða. Norðmenn breyttu ákvörðun sinni og ákváðu að hefja flug aftur í dag. Þessi afstaða kann að ráða úrslitum fyrir íslenzka ferðaþjónustu nú í sumar. Ekki sjást merki um yfirvofandi flóð úr Grímsvötnum. Hringvegurinn var opnaður fyrir umferð á ný kl. 19:00 í dag. Hópur jarðvísindamanna undirbjó för sína að eldstöðvunum. Ferðinni er heitið upp að Jöklaseli við Skálafellsjökul og þaðan á jökli að Grímsvötnum. Undir kvöld var sagt frá síminnkandi gjóskugosi, aðeins u.þ.b. 50 m3/sek, og líkindum á lokum öskugossins. Gjóskuframleiðslan þessa rúmlega þjá gosdaga er margföld miðað við gosið í Eyjafjallajökli (14. apríl – 23. maí) í fyrra.
Aðalflugvöllum landsins var lokað frá kl. 23:00 og síðan átti að ákveða framhaldið kl. 08:00 daginn eftir.
25. maí. Keflavíkurflugvöllur var opnaður fyrir kl. 08:00 í morgun. Engin merki um eldgosið sáust í morgun önnur en gufustrókar tengdir minni háttar öskusprengingum að sögn fólks, sem er við eldstöðvarnar. Aska fellur aðeins í nágrenni gígsins. Annaðhvort er goshlé eða gosinu er lokið. Keflavíkurflugvöllur var opnaður fyrir umferð kl. 08:00. Nokkrir þýzkir flugvellir voru lokaðir til hádegis. Yfirvöld búast ekki við frekari truflunum á loftsins vegum vegna þessa eldgoss.
26. maí. Eldgosinu er ekki lokið. Stöðugar smásprengingar urðu í eldstöðinni í dag og um tuttugu mínútna skeið urður þær svo kröftugar, að strókurinn náði allt að 8 km hæð áður en dró úr kraftinum á ný.
28. maí. Flugvél landhelgisgæzlunnar flaug yfir gosstöðvarnar í dag og mældi 1,5 km háan gufustrók úr gígnum. Jarðvísindamenn telja enn þá möguleika á virkni, sem veldur öskustrókum, svo gosinu er ekki lokið enn þá.
30. maí. Goslokum lýst yfir opinberlega.

2012
27. janúar. Vatnsborð Gígjukvísl fór hækkandi frá hádegi. Talsverð brennisteinslykt fannst síðdegis og líklega gróf áin sig samtímis. Lögreglan taldi, að vatn í ánni hafi hækkað frá kl. 17:00 fram á kvöld. Nokkuð var um ís í ánni. Talið er að Grímsvötn hafi hlaupið.
Asahláka, sem varð samtímis hlaupinu, olli vegaskemmdum milli Gígju og Núpsvatna án þess að vegurinn lokaðist, en Vegagerðin hóf viðgerðir strax.
Vatnsborð Gígjukvíslar hélzt óbreytt aðfararnótt hins 29. janúar.

2018 var hlaup í Grímsvötnum ?

2021
4. september. Hlaup er hafið í Grímsvötnum.
Þegar vatn hleypur úr Skaftárkötlunum rennur það fyrst um 40 km leið undir jöklinum og síðan um 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmælinum við Sveinstind

Lesa má einnig meira um Grímsvötn á vef Vatnajökulsþjóðgarðar.

Heimildir: fjölmiðlar, vísindamenn og nat.is

Myndasafn

Í grennd

Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Grímsfjallarskálar
Grímsfjallar Skálar Fyrsti skálinn var byggður á Grímsfjalli árið 1957. Þá var komið fyrir ýmsum mælitækjum auk þess, að  var virkjaður. Næsti skál…
Mesta eldgos Jarðar
Mesta eldgos, sem sögur fara af á jörðinni, varð á eyjunni Sumabawa, þegar eldfjallið Tambora sprakk í loft upp. Aska og brennisteinsgas þeyttist upp …
Skaftá
Skaftá - Skaftárhlaup Skaftá er blönduð jökulsá og lindá. Meginhluti jökulvatnsins kemur undan Skaftárjökli og nokkuð jökul-  og lindavatn úr Langasj…
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Sögustaðir. Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar eru meðal þess sem finna má á sö…
Vatnajökull
Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu Vatnajökull (2110m) er stærsti jökull Evrópu, 8100 km². Heildarísmagn jökulsins er talið vera í nánd við 4000 km…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )