Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Lakagígar

Frá þjóðvegi (#1)  40 km <Laki> Klaustur 51 km.

Lakagígar urðu til í einhverju mesta hraungosi á jörðunni á sögulegum tímum. Það hófst 8. júní 1783 á  suðvesturhluta gossprungunnar, þar sem hét Varmárdalur. Hann og Skaftárgljúfur, sem voru allt að 200 m djúp, fylltust af hrauni, sem breiddist síðan út á láglendinu á Síðu yfir marga bæi. Hraunið stöðvaðist við Eldmessutanga 20 júlí. Á, sem rennur um hrauntraðir, þar sem Varmárdalur var áður, heitir enn þá Varmá. Norðausturhluti sprungunnar tók að gjósa 29. júlí 1783. Hraun fyllti gljúfur Hverfisfljóts og breiddist út niðri í Fljótshverfi. Þetta gos hélzt óslitið fram í október, þegar fór að draga úr því, en því lauk ekki fyrr en í febrúar 1784.

Talið er að 53% nautgripa (11.500), 82% sauðfjár (190.000) og 77% hrossa (28.000) hafi fallið. Gígaröðin er u.þ.b. 25 km löng, allt frá móbergsfjallinu Hnútu í suðvestri upp að Síðujökli. Laki stendur nokkurn veginn í miðri gígaröðinn. Heildarflötur Skaftáreldahrauna er 565 km² og áætlað rúmmál gosefna rúmlega 12 km³. Aska frá gosinu barst alla leið til Evrópu. Móðuharðindin komu í kjölfar gossins vegna þess, hve eitrað það var. Talið er að 53% nautgripa (11.500), 82% sauðfjár (190.000) og 77% hrossa hafi drepizt vegna eitrunar og hagleysis. Íbúafjöldinn minnkaði um 20% (10.000) vegna hungursneyðar á árunum 1783 til 1786.

Uppskerubrestur, pestir og hörmungar í Evrópu í kjölfar gossins eru raktar til þess, þannig að leiða má líkur að því, að það hafi verið meðal orsaka frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789. Þetta eldgos olli samt ekki eins miklum hörmungum og Eldgjárgosið árið 934, sem olli mun víðtækari loftslagsbreytingum í Evrópu og Miðausturlöndum samkvæmt nýuppgötvuðum heimildum (2005).

Á danska þinginu var rætt um að flytja hina eftirlifandi 40.000 Íslendinga til Jótlandsheiða en úr því varð ekki. Flestir gíganna eru nú huldir grámosa og óvíða á landinu er stórfenglegra og fegurra landslag að sjá en uppi á Síðuafrétti. Gígaröðin var friðlýst 1971.

Samkvæmt frétt í Mbl (Davíð Logi Sigurðsson) 28. ágúst 2007 kynnti samvinnunefnd miðhálendisins tillögur um breytingar svæðisskipulags miðhálendisins í Skaftafellsþjóðgarði. Þær gera ráð fyrir að aðgengi ferðamanna verði aukið með betri vegum, merktum gönguleiðum, áningarstöðum og upplýsingamiðlun, sem leiði af sér, að auðveldara verði að stjórna ferðum fólks um svæðið. Gert er ráð fyrir nýju skálasvæði á Galta og upplýsingamiðstöð með móttöku og snyrtiaðstöðu. Núverandi skálasvæði í Blágili verði breytt í fjallasel, þar sem verður aðstaða landvarða og tjaldstæði. Þá verður gönguleið, sem þverar Skaftá færð frá kláfi sunnan Sveinstinds suður fyrir Uxatinda með göngubrú, sem tengist betur gönguleiðum vestan skaftár. Þannig er ætlunin að færa gönguleiðina frá viðkvæmu svæði við Kamba. Komið verði á hringakstri um svæðið, þannig að fólk geti ekið upp vestan Kirkjubæjarklausturs við Hunkubakka og niður austan Klausturs, Miklafellsveg, en hann færist upp um einn flokk og verður fjallvegur auk þess sem lega hans breytist. Hann tengist inn á Lakaveg við Galta. Núverandi vegarslóði, sem liggur upp á öxl Blængs um þröng og torfarin gil, sem eru að hluta innan friðlýsts svæðis, verður lagður af. Nýjum hluta fjallvegarins er ætlað að liggja um jökulgarð á tiltölulega sléttu landi. Miðað er við að gera fólki kleift að skoða Lakasvæðið á einum degi og draga úr gistingu á svæðinu eins og kostur er á.

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 7. júní 2008 og Lakasvæðið er hluti hans.

Lagagígar meira:

SKAFTÁRELDAR
ÁHRIF Á BRETLANDSEYJUM

Tugþúsundir manna í Bretlandi létu lífið af völdum eldgossins í Lakagígum árið 1783. Þetta kom fram í sjónvarpsþætti á Discovery World Channel, í þáttaröð sem ber heitið „There is a Killer out there“ og fjallar um helstu ógnir sem mannkyni stafar af náttúruhamförum.
Fjallað var um það hvernig eiturský frá Skaftáreldum barst yfir Evrópu fyrir rúmum 200 árum. Þykk móða lagðist þá yfir fjölda landa. Á Íslandi olli hún hörmungum sem hérlendis eru þekkt sem Móðuharðindin en áætlað er að fjórðungur íslensku þjóðarinnar hafi þá látist.
Eldgosið hófst þann 8. júní þegar gríðarleg eldsprunga opnaðist við fjallið Laka. Heimildir í Bretlandi greina frá því að þann 22. júní hafi þykk móða skyggt á sólina. Hún varð bæði dauf og svo rauð að það var rétt eins og hún hefði verið vætt blóði. Móðan lá yfir sveitum Bretlands allt sumarið og höfðu menn þar í landi aldrei kynnst öðru eins. Ekki kunnu þeir þó skýringar á móðunni, og engar fregnir höfðu þeir af eldgosi á Íslandi, en mikið var skrifað um þessa óvenjulegu móðu. Samtímaheimildir greina frá því að bændur áttu erfitt með að afla uppskeru, verkamenn urðu ófærir um að vinna og margir dóu.
Dr. John Grattan, við Aberystwyth-háskólann í Wales, hefur undanfarinn áratug rannsakað dánarskýrslur í mörghundruð kirkjusóknum í Bretlandi til að leita vísbendinga um banvæn áhrif Lakagíga. Hann tekur sem dæmi að í Maulden í Bedfordskíri hafi sautján manns látist sumarið 1783, þar sem eðlilegur fjöldi dauðsfalla hefði verið fjögur eða fimm. Í nágrannasókninni Cranfield létust 23 um sumarið en venjulega hefðu þeir átt að vera um sex. Og í Ampthill létust ellefu manns þegar venjulega dóu í kringum fimm manns á sama tíma. Þannig hafi ástandið verið í kirkjusóknum um allt Bretland, en verst í Austur- og Mið-Englandi.
Dr. Grattan áætlar út frá rannsóknum sínum að eldgosið í Laka hafi á tveimur mánuðum yfir hásumrið 1783, í júlí og ágúst, kostað 23.000 Breta lífið, sem geri þetta að mestu náttúruhamförum í nútímasögu Bretlands. Þetta mannfall fyrir rúmum 200 árum jafngildi því að 100.000 manns færust í dag. Frakkland og önnur lönd í Vestur-Evrópu hafi orðið fyrir álíka höggi.
Milljónir tonna af eitruðum gastegundum bárust frá Lakagígum yfir Norðurlönd, Bretlandseyjar og meginland Evrópu. Í móðunni voru brennisteinsdíoxíð og brennisteinssýra sem réðust á lungu fórnarlamba sinna, kæfðu og drápu jafnt karla sem konur, ríka jafnt sem fátæka.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Óvenju mikið var um þrumur og eldingar og haglél í Bretlandi sumarið 1783 og um haustið skall á fimbulkuldi. Veturinn sem í hönd fór reyndist bæði mjög kaldur og langur og er áætlað að kuldinn hafi kostað 8.000 Breta lífið til viðbótar. Þá hafi í Þýskalandi um vorið orðið einhver mestu flóð í sögu landsins.
Sjónvarpsþætti Discovery World um þessar hörmungar af völdum eldgoss á Íslandi lauk með því að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær svona atburðir endurtækju sig.
Heimild: Frétt í netblaði Vísis 2. maí 2011.

Rútuferð til Lakagígar

Local kort

Myndasafn

Í grennd

Dverghamrar
Dverghamrar eru brimsorfnir blágrýtisstuðlar skammt austan Foss á Síðu. Þar eru tvær fallegar     klettaborgir, sem eru skoðunarverðar. Dverghamrar he…
Eldgjá
Eldgjá er u.þ.b. 40 km löng gossprunga norður frá Mýrdalsjökli að Gjátindi og norðan hans má rekja hana að Uxatindum. Hún er einstakt náttúrufyrirbæri…
Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Foss á Síðu
Foss á Síðu er stórbrotið bæjarstæði um 10 km fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Fallegur foss fellur ofan af klettunum ofan við bæinn, úr vatni sem ne…
Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Hörgsá
Hörgsá er í Skaftárhreppi í Vestur - Skaftafellssýslu. Hörgsá er tær bergvatnsá, langt komin, sem fellur  lengi í þrengslum og gljúfrum í fögru og hr…
Kapella sr. Jóns Steingrímssonar
Kapellan er í Kirkjubæjarklaustursprestakalli í Skaftafellsprófastsdæmi. Hún var vígð 17. júní 1974 í   tilefni 1100 ára Íslandsbyggðar. Ákveðið var …
Kirkjubæjarklaustur
Kirkjubæjarklaustur á Síðu hét áður Kirkjubær og var þar löngum stórbýlt og má segja að svo sé enn. Kauptún hefur myndazt þar og nefnt í daglegu tali …
Langisjór
Langisjór er 20 km langt og mest 2 km breitt stöðuvatn suðvestan Vatnajökuls milli Tungnárfjalla og    Fögrufjalla. Flatarmál þess er 27 km², mesta d…
Mesta eldgos Jarðar
Mesta eldgos, sem sögur fara af á jörðinni, varð á eyjunni Sumabawa, þegar eldfjallið Tambora sprakk í loft upp. Aska og brennisteinsgas þeyttist upp …
Orrustuhóll, Skaftáreldahrauni
Orrustuhóll er óbrynnishólmi, sem stendur upp úr Skaftáreldahrauni austast á Síðu við Þverá, rétt sunnan þjóðvegarins. Munnmæli herma, að Hámundur hal…
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Sögustaðir. Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar eru meðal þess sem finna má á sö…
Þórutjörn
Þórutjörn er vatn í Skaftárhreppi í V.-Skaftafellssýslu. Það er 0,2 km², alldjúpt og í 162 m hæð yfir  . Frárennslið liggur til Fossála. Ganga verður …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )