Norðurland Vestra
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Hrútafirði til Siglufjarðar. Þéttbýlis- og merkisstaða og afþreyingar innan svæðisins er sérstaklega getið hér að neðan. Norðurland vestra er allþéttbýlt, mörg bændabýli og nokkrir þéttbýlisstaðir. Landslag er fjölbreytt, misstór fjalllendi skilja láglendissvæðin að. Norðurland vestra er hluti vestara blágrýtissvæðisins með greinilegum jökulurðum, ótal vötnum, ljósgrýtisinnskotum og nokkrum jarðhita. Atvinnulífið byggist á landbúnaði, fiskveiðum og -verkun og ferðaþjónustu. Þetta landssvæði á sína þætti í Íslendingasögunum, s.s. Sturlungu, Heiðarvígasögu og Grettissögu. Samgöngur innan svæðis eru misgóðar eftir árstíðum og þjóðvegur 1 liggur í gegnum það. Afþreying er fjölbreytt og færist stöðugt í aukana.
Bæir og þéttbýliskjarnar á Norðurlandi vestra
Blönduós
Hofsós
Hvammstangi
Laugarbakki
Sauðárkrókur
Siglufjörður
Skagaströnd. Höfðakaupsstaður
Varmahlíð, Skagafjörður
Víðigerði Víðidalur
Norðurland Eystra
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Siglufirði til Raufarhafnar. Þéttbýlis- og merkisstaða og afþreyingar innan svæðisins er sérstaklega getið hér að neðan. Norðurland eystra er þéttbýlt vestan til en byggð verður æ strjálli er austar dregur. Landslag er fjölbreytt, misstór fjalllendi skilja láglendissvæðin að. Stór hluti þessa svæðis nær yfir eldvirka gosbeltið, þar sem háhitasvæði og móbergsfjöll ráða ríkjum. Þarna eru margar áhugaverðustu náttúruperlurnar, stærsta hraunsvæðið og annað hinna tveggja hættulegu jarðskjálftasvæða landsins. Í gosbeltinu eru stór háhitasvæði og lághitasvæði á jöðrum þess. Atvinnulífið er allfjölbreytt, iðnaður, fiskveiðar og -verkun, landbúnaður og mikil ferðaþjónusta.
Víða er að finna staði tengda sögunum, s.s. Sturlungu og Grettis-sögu. Samgöngur innan svæðis eru misgóðar eftir árstíðum og þjóðvegur 1 liggur í gegnum það. Afþreying er fjölbreytt. Líklega hefur byggð haldizt lengur víða norðanlands, þar sem nú eru eyðibyggðir með ströndum fram, vegna reka og fleiri hlunninda.