Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Mývatn ferðast og fræðast

Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn landsins. Í því er góð silungsveiði, sem bændur við vatnið stunda allt árið. Mývatn er heimsfrægt fyrir fjölbreytt náttúrufar og fuglalíf en talið er að þar megi finna varpstöðvar fleiri andategunda en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Vatnið sjálft og svæðið umhverfis það er þekkt fyrir einstaka náttúrufegurð og sérstakar andstæður í landslagi. Jarðmyndanir eru mjög fjölbreytilegar og víðast hiti í jörðu, enda er svæðið innan hins virka eldgosabeltis og eru eldgos tíð, hið síðasta árið 1984. Þéttbýliskjarnar eru við Reykjahlíð og Skútustaði og þar er góð og fjölbreytt þjónusta við ferðamenn, hótel og önnur gistiaðstaða og velskipulögð og notaleg tjaldsvæði. Kísilgúrvinnsla var í nágrenni. Reykjahlíðar og gufuaflsvirkjanir eru við Kröflu í og í Bjarnarflagi.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 480 km í Reykjahlíð.

Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls hinn 7. júní 2008 var opnuð gestastofa við Mývatn.

Vængir:
Flugfélagið Vængir starfaði á árunum 1970 til 1979. Það stundaði áætlunar- og leiguflug aðallega til staða á vesturlandi (Búðardals, Stykkishólms, Rifs og Reykhóla), vestfjörðum (Tálknafjarðar, Bíldudals, Þingeyrar, Flateyrar, Hólmavíkur og Gjögurs) og á norðurlandi (Hvammstanga, Blönduóss, Siglufjarðar og Mývatns). Í flugflota Vængja voru flugvélar af ýmsum gerðum m.a. Beechcraft 18 og Piper PA-23 Apache. Vængir varð fyrsta flugfélagið hérlendis til að taka í notkun flugvél af gerðinni BN-2a Islander (1971) og fyrsta félagið hérlendis til að taka í notkun DHC-6 Twin Otter (1973).

Innskot Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma flugrekstarstjóri Vængja og ferðavefinn nat.is. 

ÍSLANDSFERÐ 1973
JOACHIM DORENBECK
Glaugst er gest auga!!

Fyrsta verkefnið virtist vera allerfið byrjun næsta dags, en það var að koma öllu dótinu okkar yfir stórgrýtið upp úr lægðinni. Þegar á hólminn var komið, vannst okkur þar auðveldar en kvöldið áður og síðan tóku við sléttur og auðveldur vegur í suðurátt, þótt hann væri mjór. Daginn áður höfðum við ekki orðið varir við neina bílaumferð, en fimm komu úr gagnstæðri átt áður en við komum suður á aðalveginn til Mývatns. Við hittum fjóra göngumenn með byrðar sínar á bakinu u.þ.b. klukkutíma eftir að við lögðum af stað. Þeir voru hinir fyrstu, sem við höfðum séð síðan við lögðum upp í gönguna. Ég sá þá nálgast lága hæð, sem ég var nýkominn upp á. Jean, sem var nokkur hundruð metrum á undan mér, hlýtur að hafa hitt þá fáeinum mínútum áður. Þetta voru tveir piltar með stúlkurnar sínar. Þau héldust í hendur og komu mér fyrir augu eins og ástfangin og áhyggjulaus pör í skemmtigöngu úti á götu. Ég varð vægast sagt steinhissa og mislíkaði þessi sjón verulega. Þau rugluðu þeirri ímynd um þá svellköldu ofurhuga, sem við héldum, að við værum.

Mér fannst það jafnvel ókurteist af þeim að spyrja mig – á þýzku – hve langt væri að Dettifossi. Þau hljóta að hafa spurt Jean hins sama. Ég var enn þá að leita að nákvæmu en stuttu svari við spurningu þeirra, þegar eitt þeirra sagði, að ég ætti sennilega erfitt með að skilja málið – þýzkuna, sem er móðurmál mitt.

„Ungefähr ‘ne Stunde”, hreytti ég út út mér og þaut af stað með látum. „Ég skal sýna þessum pelabörnum, hver getur betur”, hugsaði ég bálvondur. „Er verið að breyta þessum slóðum í barnaheimili, eða hvað?” Því meira, sem ég velti þessu fyrir mér, varð ég ergilegri vegna eigin viðbragða.

Nokkrum mánuðum síðar sá ég í Brussel skemmtilega kvikmynd, sem hópur nemenda frá meginlandi Evrópu hafði gert á Íslandi u.þ.b. tveimur vikum eftir að við voru þar. Þau höfðu leigt sér rútu til að sjá sem mest af landinu og gengið til áhugaverðustu staðanna. Í myndinni var upptaka frá göngunni að Dettifossi og ég var viss um að ég kannaðist við veginn, sem við fórum um í gagnstæða átt. Þarna sást hópur pilta, sem virtust vera alvarlega niðursokknir í landakort og áttavita og þulurinn lagði mikla áherzlu á nauðsyn þess að halda nákvæmri stefnu í þessari afskekktu eyðimörk!?

Auðvitað er það lofsvert, að kennari noti hvert tækifæri til að kynna nemendum sínum notkun korta og áttavita, en ég gat á engan hátt skilið, að nokkrir erfiðleikar gætu komið upp á þessari leið. Sumir virðast hafa ofurtrú á áttavitum og halda að þeir komist ekki á klósettið án þeirra. Við þurftum aldrei að grípa til þeirra á Íslandi. Það voru alltaf næg kennileiti til að við gerðum okkur grein fyrir því, hvar við værum, jafnvel í auðninni fimm dögum síðar. Þar sem við lentum í smáerfiðleikum enn þá síðar við norðurjaðar Vatnajökuls, hefði áttavitinn heldur ekki komið að miklu gagni. Þar eru kennileiti ruglingsleg og landslagið í litlu samræmi við kortin.

Hvað, sem því líður, spretti ég svo vel úr spori eftir að hafa hitt unglingana, að ég fór fram úr félaga mínum á aðalveginum að Mývatni, þótt ekki sé auðvelt að hafa við honum.

Enskur vinur minn, John Fish, áleit, að gönguhraði færi eftir sálarástandi hverju sinni og þarna varð ég honum hjartanlega sammála. Tveimur árum áður höfðum við gengið saman yfir Exmoor. Mér hafði fundizt erfitt að hafa við honum, þegar hann gekk á undan en einn daginn vildi svo til, að ég var á undan og John kvartaði yfir því, að ég gengi of hratt. Hann kom fram með þessa sálarástandskenningu, þegar við tókum okkur hvíld næst. Það eitt að vera fremstur í flokki, kemur fólki e.t.v. til að hugsa með sjálfu sér, að það sé í góðu formi og skrefin lengjast ósjálfrátt. Þeir, sem á eftir koma hafa ekki þessa ómeðvituðu hvatningu en leggja meira á sig til að dragast ekki afturúr og geta orðið allþreyttir af því.

Klukkan tíu um kvöldið skein sólin enn þá skært. Skuggarnir okkar voru orðnir langir. Við gengum 37 km þennan dag og tjölduðum við litla tjörn hægra megin þjóðvegarins.

Þótt orðið væri áliðið kvölds, fóru nokkrir bílar um veginn, bæði fólksbílar og vörubílar, og allir með fullum ökuljósum í dagsbirtunni.

„Sjáðu þá”, sagði Jean kankvís á svip, „þeir vilja ekki viðurkenna að hér sé engin nótt.”

Ég fékk mér sígarettu eftir kvöldmatinn og rölti í áttina til vegarins til að liðka mig fyrir svefninn. Nokkrum metrum frá tjaldinu snarstanzaði ég. Þar var kominn lækur, sem enginn var fyrir, þegar við komum. Hann var a.m.k. hálfsannars metra breiður og átti greinilega upptök sín í tjörninni. Sem betur fer stóðu tjöldin okkar hærra, svo að við skriðum óhræddir í svefnpokana og steinsofnuðum strax.

Morguninn eftir sást ekki deigur dropi í lækjarfarveginum. Fyrir brottför varð ég að lagfæra kerruna svolítið. Það hafði losnað hjólkoppur, sem þurfti að festa aftur og í leiðinni hreinsaði ég öxlana, herti rærnar og smurði vel. Síðan yfirfór ég öll 56 samskeytin.

Á leiðinni til Mývatns stönzuðum við lengi við háhitasvæðið á Hverarönd austan Námaskarðs. Þaðan höfðum við séð margar myndir, þegar við vorum að undirbúa ferðina. Hvæsandi gufan spýttist upp úr brennisteinslituðum grjótsprungum og barst burtu með vindinum. Í dökkleitum leirhverunum sprungu gasfylltar bólur hver af annarri. Jean eyddi heilli filmu til að ná áhrifum þessa litauðuga og órólega landslags. Hann harmaði það mest, að hann næði ekki lyktinni með á filmuna.

Að nokkrum tíma liðnum birtust rútur með manngrúa mikinn meðferðis. Ferðamennirnir skulfu af kulda og dúðuðu sig vel áður en út var farið og skutu í allar áttir með myndavélum sínum. Einn þeirra kom til okkar til að skoða kerruna betur.

„Zat iss interesting”, sagði hann, glotti við og miðaði kvikmyndatökuvélinni á okkur.

Við snérum baki við honum án þess að segja orð og gengum í burtu í áttina til vegarins um Námaskarð. Hann virtist allbrattur séður neðan frá, en ég ýtti kerrunni öruggum skrefum alla leið án þess að stanza. Þegar upp var komið, var ég hissa á þvi, að það hefði ekki verið erfiðara, en vegurinn var mjög sléttur og þægilegur yfirferðar.

Þar sem skarðið opnaðist hinum megin blasti við okkur eitthvert fegursta útsýnið í allri ferðinni. Til vinstri sáum við hrjóstrugar hlíðar sprengigígsins Hverfjalls, sem er u.þ.b. 1000 m í þvermál. Fjærst til hægri var dökkblár, snjókrýndur fjallgarður og framundan, handan gufubólstra, sem bylgjuðust upp frá borholu við fjallsræturnar, lá kyrrlátt Mývatn fyrir fótum okkar. Það var eins og stór spegill í síðdegissólinni.

Við létum bakpokana síga og settumst á jörðina, mauluðum nokkrar Vitareal-stangir og nutum útsýnisins. Svo fengum við okkur sígarettur og horfðum meira. Við sátum þarna í hálftíma, en urðum þá að brjótast undan álögunum til að halda áfram að hótelinu, þar sem við fyndum vonandi birgðirnar okkar. Við stóðum upp með erfiðismunum, tókum byrðar okkar og stikuðum niður hlíðina. Þetta var í eina skiptið, sem ég saknaði þess, að hafa ekki búið kerruna einhvers konar bremsu.

Í Reykjahlíð skildum við kerruna að gamni okkar eftir á milli bílanna og rútnanna á bílastæðinu fyrir framan hótelið. Gönguhrólfar fyllast stundum slíkum hroka gagnvart akandi fólki. Við gleymdum því, hve áríðandi var fyrir okkur, þessi farartæki stuðluðu að því, að birgðir okkar kæmust á rétta staði. Við vissum heldur ekki þá, að við yrðum þiggjendur hjálpar akandi fólks, þegar illa stóð á hjá okkur

Okkur var vel tekið í gestamóttökunni, þótt við værum þaktir ryki og órakaðir, klæddir þykkum ullarskyrtum og með skítuga trefla um hálsinn. „Já”, sagði unga stúlkan, „birgðirnar ykkar eru komnar”. Við höfðum svosem búizt við því, en það kom okkur á óvart, að hún átti tvö laus einsmannsherbergi um háannatímann.

Við fórum í sturtu, skiptum um föt, hringdum til Brussel til að láta vita, að allt væri í bezta gengi og fengum okkur síðan konunglegan kvöldverð með flösku af freyðandi Mateus frá sólskinslandinu Portúgal til að halda upp á fyrsta áfanga ferðarinnar.

Áður en við gengum til náða urðum við að sinna farangrinum. Allt var tekið upp og endurpakkað, nema það, sem viðálitum ónauðsynlegt og skildum eftir í ferðatöskunum. Þess á meðal var smáraútvarpið, nokkur pör af sokkum, leiðsögubók í jarðfræði, teketillinn, landakort, þvottabali úr samanbrjótanlegu plasti borðhnífur og gaffall, áteknar filmur, allir vasaklútarnir, tannbursti o.fl. Það er merkilegt, hvað er hægt að neita sér um. Það var skipt á stóru og litlu handklæði. Sápustykkið var of stórt, þannig að túpa af Rei var látin duga. Eftir smáhik skildi ég líka eftir málmskeið. Spaugfuglinn Jean stakk meira segja upp á því að við tálguðum eldspýturnar niður í flísar. Ferðatöskurnar bárum við síðan niður í gestamóttökuna, sem tók að sér að koma þeim með fyrstu rútu til Reykjavíkur.

Morgunverðurinn, þ.á.m. skyr, var vel úti látinn og góð byrjun nýs dags þar til reikningurinn kom. Það var ekki af því, að hann væri of hár heldur vegna gleymsku minnar. Við höfðum gleymt að kaupa sykur í Húsavík og það hafði valdið okkur vandræðum. Þegar ég sá sykurskálarnar á morgunverðarborðinu, sneisafullar af innpökkuðum molasykri, stóðst ég ekki freistinguna. Ég leit í kringum mig og tróð síðan handfylli af þessum orkugjafa í vinstri buxnavasann. Þjónustustúlkan kom skömmu síðar með reikninginn og ég stakk hendinni í vasann til að ná í skiptimynt, sem ég lagði á borðið fyrir framan hana. Þar fór í verra. Það voru fleiri sykurmolar en peningar á borðinu. Þótt ég væri orðinn 49 ára, eldroðnaði ég fyrir framan þessa 18 ára stúlku. En hún lét sem ekkert væri og brosti bara út í annað að óförum mínum.

Við skoðuðum landakortið á meðan við drukkum síðasta kaffibollann og komumst að þeirri niðurstöðu, að betra væri að fá einhvern til að flytja okkur suður fyrir vatnið en að eyða morgninum í göngu þangað. Stúlkan í gestamóttökunni var mjög hjálpleg og hringdi nokkur símtöl. Hún fann bónda, sem var fús til að fleyta okkur á bát yfir vatnið.

Farangrinum var komið fyrir í bátnum og kerran lögð þvert ofan á hrúguna og við liðum eftir vatnsfletinum í hálfa aðra klukkustund. Mývatn er verndarsvæði fyrir fjöldan allan af fuglategundum, þ.á.m. 15 andategundir. Við notuðum tækifærið að ráði hótelfólksins og lögðum lykkju á leið okkar að lítilli vík við Þorlákshöfða og skoðuðum vel gosefnin hátt yfir yfirborði vatnsins. Þegar báturinn kom aftur út úr varinu, hafði hvesst og vatnið var orðið hvítfyssandi. Bógur bátsins reis og hneig og það pusaði yfir okkur. Farangurinn varð brátt rennvotur. Jean hélt myndavélunum sínum undir anúraknum og þrýsti þeim að barmi sínum eins og móðir heldur á barni. Þetta er kostuleg samlíking, því að Jean er piparsveinn. Hvað, sem öllu leið, var gaman að þessari bátsferð, þrátt fyrir bleytu og heldur ótraustlegan gamlan mótor. Traust okkar á gamla víkingnum í skuti brást ekki.

Við spurðum gamla víkinginn, hve mikið við skulduðum honum, þegar fast land var aftur undir fæti. Hann talaði bara móðurmálið en við gátum skrifað og hann lesið. Með erfiðismunum skrifaði hann töluna 1.400.- nettum stöfum á blaðið, sem var alls ekki of mikið fyrir að spara okkur tíma og erfiði.

Hann fjarlægðist ströndina, snéri stefninu út á vatn, veifaði í kveðjuskyni og hrópaði eitthvað, sem hljómaði eins og „Blessi, blessi!” Líklega voru þetta kveðjuorð á íslenzku, en Jean var ekki jafnviss.

„Það er aldrei að vita”, sagði Jean spotzkur. „Þetta gæti alveg eins þýtt: Farið þið til fjandans.”

Við bárum farangurinn upp á veginn. Þegar ég var að hlaða kerruna, stanzaði lítill Skoda og dökkhærð stúlka kom til mín.

„Good morning. Do you speak English?”

+„Yes.”

„Are you English?”

„No.”

„Are you from here?”

„No.”

Venjulega er ég ekki mjög málgefinn, sízt á morgnana, og mér finnst óþolandi að ókunnugt fólk yfirheyri mig, hvenær dags sem er. Unga stúlkan virtist vera í einhverjum vandræðum. Hún brosti afsakandi til mín og var, eftir á að hyggja, anzi lagleg. Svo að ég bætti því við, að ég væri ferðamaður. Jean bar þá að með meiri farangur af ströndinni og ég kynnti hann. Hún sagði til nafns, sem ég greip ekki, og samræðurnar urðu vinalegri. Hún var ítölsk eins og einn vina hennar en hinir voru svissneskir. Þau höfðu séð bátinn sigla brott og voru að velta fyrir sér, hvernig við hefðum komizt yfir hann, þar sem þau langaði líka til að skoða klettamyndanir Þorlákshöfða.

Þau virtust hafa gaman að því, að skoða kerruna með öllu því, sem á henni hékk. Stúlkan, sem var málsvari þeirra, bað okkur afsökunar á öllum spurningunum. Við svöruðum af beztu getu og leyfðum þeim meira að segja að taka myndir af okkur, bæði kyrrar og kvikar. Að því loknu sögðum við „Arrivederci”, sem framkallaði „Auf Wiedersehen” og héldum af stað.

Svona fór um ferðina þá!!

Myndasafn

Í grend

Baldursheimur
Baldursheimur er syðsti bærinn í Mývatnssveit nú á dögum, en enn þá sést fyrir rúsum bæja, sem stóðu   sunnar í heiðinni. Árið 1860 fannst þar kuml…
Dimmuborgir
Dimmuborgir eru eitthvert vinsælasta og merkilegasta náttúruundrið við Mývatn. Mývetningar hafa gert  það að bústað Grýlu, leppalúða og jólasveinanna.…
Ferðavísir
Ferðavísirinn nýtist við undirbúning góðrar ferðar. Hann sýnir gistingu, tjaldstæði, skoðunarverða staði, ferðir um hálendið, ferðaáætlanir, veiði, go…
Fremrinámur
Fremrinámur eru háhitasvæði í Ketildyngju austan Bláfjalls í Ódáðahrauni. Vegalengdin þangað frá   Reykjahlíð er u.þ.b. 25 km. Dyngjan hét öll Fremrin…
Gönguleiðir við Mývatn
Göngluleiðir eru margar og fjölbreyttar við Mývatn. Hér fylgja stuttar lýsingar á helzt leiðum, sem eru merktar. Upplýsingarnar hér eru byggðar á bækl…
Grísatungufjöll
Grísatungufjöll (736m) er fjallgarður í Suður-Þingeyjarsýslu, norðan vegarins um Reykjaheiði og   Höskuldsvatns. Þrír atgeirar fundust þar í gili hau…
Jarðbaðshólar
JARÐBAÐSHÓLAR Jarðbaðshólar eru fornir gígar rétt sunnan við þjóðveg #1, milli Námaskarðs og Reykjahlíðarþorps. Gígaröðin, sem myndaðist í Mývatnse…
Kirkjur á hringveginum
Kirkjur á Hringveginum á 6 Dögum Fyrstu árin eftir að hringvegurinn var opnaður (1974) kepptist fólk um að setja hraðamet eða aka aftur á bak allan h…
Kirkjur á Norðurlandi
Listi yfir flestar kirkjur í landshlutanum Akureyrarkirkja …
Krafla
Nafnið á fjallinu, sem heitir Krafla, hefur teygzt út yfir háhitasvæðið suðvestan þess eftir tilkomu  virkjunarinnar frá 1974. Leirhnjúkur er á syðsta…
Kúluskítur
Kúluskítur er grænn, loðinn og hnöttóttur grænþörungur, sem lifir á þriggja metra dýpi í Mývatni.  stafar af því að þessi gróður kemur oft í net bænda…
Mývatn, Silungsveiði
Mývatn er 36,5 km². Það er í 277 m.y.s., mjög vogskorið og með rúmlega 40 eyjum og hólmum. Mesta náttúrulegt dýpi er 4,5 m og víða er mun grynnra. Mun…
Söguferð á eigin vegum
Á eigin vegum  Söguferð á eigin vegum um HRINGVEGINN á 7 dögum (eða þar um bil) Fyrstu árin eftir að hringvegurinn var opnaður (1974) kepptist fólk …
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…
Tjaldstæðið Hlíð Myvatn
Mývatn er heimsfrægt fyrir fjölbreytt náttúrufar og fuglalíf en talið er að þar megi finna varpstöðvar fleiri andategunda en á nokkrum öðrum stað á jö…
Veiði Norðurland
Stangveiði á Norðurlandi. Hér er listi yfir flestar laxveiðiár og silungsár og -vötn.  Laxveiði Norðurlandi vestra …
Vogafjós Gistihús Mývatn
Árið 1999 var nýtt fjós byggt og eru nú um 40 kýr og nautgripir í fjósinu. Kaffihúsið Vogafjós var svo byggt innan við fjósið en þá fengust þar ljúffe…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )