Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ódáðahraun

Ódáðahraun er stærsta samfellda hraunbreiða landsins. Mörk þess eru Vatnajökull og Vonarskarð að     sunnan, Skjálfandafljót að vestan, Jökulsá á Fjöllum að austan og líklega Mývatnsfjöll að norðan, þótt þau mörk séu óskýr. Þetta hraun- og landflæmi nær frá 400 m hæð nyrzt til 800 m hæðar syðst og upp úr því rísa mörg fjöll og fjallagarðar, s.s. Herðubreið og Dyngjufjöll. Að jafnaði er þetta svæði tiltölulega greiðfært, þótt gróður- og vatnsleysi geti valdið ferðalöngum erfiðleikum.

Talið er að nafnið Ódáðahraun komi fyrst fram í riti Gísla Oddsonar biskups, Undur Íslands árið 1638. Svæðið var að mestu ókannað þar til Öskjugosið 1875 beindi för manna til Dyngjufjalla. Fyrstur til að sjá það var Englendingurinn William Lord Watts og fylgdarmenn hans, sem voru á ferð norður yfir Vatnajökul. Árið 1885 fór Þorvaldur Thoroddsen víða um Ódáðahraun með fylgdarmanni sínum, Ögmundi Sigurðssyni. Ólafur Jónsson frá Akureyri kannaði svæðið í 20 ferðum á árunum 1933-1945 og gaf síðan út þriggja binda ritsafn um ferðir sínar, Ódáðahraun I-III.

Sagnir frá fyrri öldum geta um Ódáðahraun sem alfaraleið í tengslum við Sprengisandsleið. Stytzt er að vitna í Hrafnkelssögu um ferðir Sáms á Leikskálum um Vatnajökulsveg. Oddur biskup Einarsson er sagður hafa lent í villum og útilegumannabyggð. Gömlu leiðarinnar um Ódáðahraun hefur verið leitað og hún er talin fundin.

Frambruni er hraunflæmi frá Trölladyngju vestantil í Ódáðahrauni. Hraunið rann fram allan Bárðardal og norður fyrir Þingey. Frambruninn er helluhraun, sem er að hluta þakinn yngri apalhraunum frá öðrum eldstöðvum. Skammt norðan Trölladyngju húslaga hnjúkur, Þríhyrningur.

Króksdalur liggur að Skjálfandafljóti milli Krossár og Öxnadalsár (12 km langur). Vestan fljóts er uppblásin hlíð, sem heitir Smiðjuskógur, og gjallhaugar tengdir rauðablæstri auk rústa fornra bygginga er þar að finna. Þarna hafa fundizt kvarnarsteinar og fleiri munir. Árið 1884 segir Þorvaldur Thoroddsen, að nokkrum áratugum fyrr hafi enn þá verið þar skógarleifar. Austan fljótsins er hlíðin sæmilega gróin. Bálabrekka er neðan mynnis Öxnadals. Fleiri minjar um byggð finnast í dalnum en í Smiðjuskógi. Þarna voru e.t.v. Helgastaðir, bær Helga króks, sem dalurinn er kenndur við, eins og segir í Hrana sögu hrings. Tvær bæjarústir eru milli Krossár og Öxnadals, þar sem hafa fundizt ýmsir smámunir. Einnig fannst beinagrind af manni undir Bálabrekku. Grösugt valllendi er nú við Helgastaði auk fjalldrapa og þó meira af loðvíði.

Laufrönd heitir gróðurlendi meðfram lækjum og lindum í Ódáðahrauni vestanverðu. Þarna vex m.a. víðir, aðallega loðvíðir, og eru snapir fyrir nokkrar skjátur. Heiðargæsir halda til við lítið vatn sunnar. Lindarvatnið frá Laufrönd fellur til Hraunár, sem kemur upp í hrauninu skammt frá rótum Trölladyngju. Laufrandarhraun er gróðurlaust og úfið og fær nafnið Hitulaugarhraun sunnar. Talsvert er um refi í þessum hraunum. Þarna eru einu kunnu varpstaðir Snæuglunnar hérlendis. Fyrsta hreiðrið fundu feðgar frá Víðikeri árið 1932. Milli Bárðardals og Gæsavatnaleiðar liggur jeppaslóð um Laufrönd.

Stóraflæða er suðvestan Hitulaugar ytri. Þarna er gisinn gróður, stinnastör, víðir og hálmgresi. Talsvert vex af hvítstör, sem er sjaldgæf. Skammt norðar eru miklar uppsprettur, 30°-40°C heitar, sem renna út í Skjálfandafljót.

Surtluflæða er lítið eitt gróið lindasvæði undir vestanverður Ódáðahrauni, austan Efri-Hraunárbotna við efstu upptök Öxnadalsár. Þennan hagablett fundu landleitarmenn árið 1880. Þarna lá þá ræfill af svartri lambgimbur, sem olli nafngiftinni Surtlulækur, sem breyttist síðar.

Útbruni er hraunflæmi í Ódáðahrauni á milli Suðurárbotna, Bláfells, Kollóttudyngju og Dyngjufjalla. Hraunin í Útbruna eru í eldri kantinum, aðallega helluhraun, og tiltölulega greiðfær.

Vaðalda er grágrýtisdyngja með gígskál suðaustan Dyngjufjalla, 7-8 km í þvermál og u.þ.b. 250 m hærri en umhverfið. Syðstu mörk vikurfallsins 1875 liggja um Vaðöldu.

Vikraborgir í Öskjuopi eru gígaröð, sem myndaðist í gosinu 1961. Fyrst myndaðist apalhraun en síðan helluhraun, sem heitir Vikrahraun. Þetta gos var hið fyrsta af þessu tagi, sem jarðvísindamenn gátu fylgzt með frá upphafi til enda.

Vikrafell (840m; móberg) er á vikrunum milli suðurenda Herðubreiðartagla og Dyngjufjalla. Þarna liggja norðurmörk vikurfallsins 1875 og úfið apalhraun varð að sléttlendi á eftir. Líkt og inni í Öskju og víðar, er vikurþakið víða svikult og heldur sums staðar ekki gangandi manni.

Stefán Máni rithöfundur vitnar í nat.is í skáldsögu sinni Ódáðahraun !!

Myndasafn

Í grennd

Askja Dyngjufjöll
Dyngjufjöll eru mikið fjallabákn (600 km²) í sunnanverðu Ódáðahrauni. Þetta fjalllendi umlykur 50 km² stóra sigdæld (öskju), sem heitir Askja. Fjöllin…
Grafarlönd eystri
Grafarlönd eystri eru í austanverðu Ódáðahrauni, norðan Herðubreiðar við veginn í Herðubreiðarlindir. Gróðurræmur eru meðfram Grafarlandaá, þar sem er…
Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Hrossaborg
Hrossaborg er annar tveggja þekktra, samkynja gjóskugíga á Norðausturlandi. Hinn er Hverfjall í   Mývatnssveit. Báðir eru myndaðir í tengslum við þeyt…
Jökuldalsheiði
Jökuldalsheiði er víðast í nánd við 500 m yfir sjó og er u.þ.b. 60 km löng á milli Þríhyrningsfjallgarðar, Þjóðfells og Súlendna að vestan og hábrúna …
Jökulsá á Fjöllum
Jökulsá á Fjöllum er mesta á Norðurlands. Vatnasvið hennar, 7380 km², er hið stærsta á landinu og hluti þess, u.þ.b. 1700 km², eru undir jökli. Áin er…
Mývatnsöræfi
Mývatnsöræfi. Vesturmörkin eru Mývatnssveit, austurmörkin Jökulsá á Fjöllum, suður- og vesturmörkin eru Ódáðahraun og norðurmörkin heiðar Kelduhverfis…
Ódáðahraun Íslandsferð 1973
Glögt er gest auga !!! ÍSLANDSFERÐ 1973 JOACHIM DORENBECK Ódáðahraun Innskot Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma flugrekstarstjóri Vængja …
Skjálfandafljót
Það er drjúgmikið af laxi í Fljótinu, en oft er það mjög litað af jökulleir og fer veiðiskapur nokkuð eftir     því. Áin hefur á góðu sumri gefið um …
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Sögustaðir. Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar eru meðal þess sem finna má á sö…
Sprengisandur
Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns og vera staður, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komas…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )