Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Mývatnsöræfi

Mývatn - jarðböðin

Mývatnsöræfi. Vesturmörkin eru Mývatnssveit, austurmörkin Jökulsá á Fjöllum, suður- og vesturmörkin eru Ódáðahraun og norðurmörkin heiðar Kelduhverfis. Austan Jöklu eru Möðrudalsöræfi og hluti Brúaröræfa lík í landslagsdráttum, þótt þar séu engin hraun. Hæð Mývatnsöræfa yfir sjó eru á bilinu 350-355 m. Víða eru fell, fjöll, stakir gígar og þó aðallega gígaraðir. Þarna eu Búrfell, Skógarmannafjöll, Jörundur, Eilífur, Herðubreið og Herðubreiðarfjöll. Hraun öræfanna eru annaðhvort ungleg og gróf eða sendin og sum þakin jarðvegi að hluta, einkum norðan til. Opnu hraunin eru áberandi sprungin með gjám, misgengjum og sigdældum, s.s. Austari- og Vestari-Brekkum, Sveinagjá og Fjallagjá. Grágrýti er víða norðan- og austantil. Kunnasta eldstöð svæðisins er Sveinagjá. Úrkoma á þessu svæði er í minna lagi vegna þess, að það er í regnskugga Vatnajökuls og vatn geymist ekki á yfirborði hraunfláka. Því á gróður erfitt uppdráttar og hætt er við uppblæstri, sé landið ofnýtt. Eiginlegar uppsprettur norðan Grafarlanda eystir eru tæpast fleiri en Hrossaborgarlindir og lækur við Austarasel. Þjóðvegur nr. 1 liggur austur frá Námaskarði að Jökulsárbrú (1947).

Fjallagjá er sigdæld sunnan frá Herðubreiðarfjöllum að Hrossaborg, sem er á sömu sprungu. Hún er austar, en samhliða Sveinagjá. Vesturbrún hennar er geysilöng, samfelld og heitir Langiveggur. Í henni eru óteljandi sprungur og misgengi og nokkrir gígar. Breidd hennar er víðast u.þ.b. 1 km. Sums staðar er nokkur gróður en ella sandur og sandskaflar. Meðfram Fjallagjá eru melalönd, sem voru nýtt til beitar. Norðvestan hennar er Melstykki en suðastan Glæður. Oft létu Mývetningar fé sitt ganga þarna allt fram til jóla. Hross voru einnig látin ganga þarna fyrrum.

Heilagsdalur er grunnur dalur á Mývatnsöræfum austan Bláfjalls. Þar er nokkur gróður, valllendi og víðir með lækjum og við lindir. Helluhraun liggur austan að dalnum.. Þarna var líklega áningastaður ferðamanna um Ódáðahraunsveg og ekki laust við að enn þá mói fyrir tjaldhringum. Austan dalsins eru forn vörðubrot. Meðan brennisteinn var sóttur í Fremrinámum var hann fluttur um Heilagsdal á leið til Húsavíkur.

Hrossaborg

Nýjahraun er á Mývatnsöræfum austanverðum. Það rann úr gígaröð, sem er kennd við Sveinagjá, árið 1875. Það er 16-18 km langt og 1-3 km á breidd, úfið apalhraun, sem er mjög ógreitt yfirferðar. Nyrztu angar þess teygjast alla leið að þjóðveginum og þar er Péturskirkja.

Péturskirkja er leitamannaskáli við jaðar Nýjahrauns. Skálinn er góður en vatnsbólið er slæmt. Nafnið er komið frá Pétri Jónssyni, bónda í Reynihlíð. Hann reisti fyrsta kofann þarna árið 1925. Benedikt Sigurjónsson (Fjalla-Bensi) gisti í honum á jólanótt eftir mikla hrakninga í eftirleitum. Þessi frásögn af honum varð hryggjarstykkið í „Aðventu” Gunnars Gunnarssonar.

Rauðuborgir eru gígaröð í Sveinagjá, sunnan við Sveina, en í sömu röð. Þær eru gjall- og vikurbungur, sumar óreglulegar. Kofaborg syðst, austur af norðanverðum Skógamannafjöllum. Þar eru líka Stóra- og Litla-Rauðka, sem eru mikil eldvörp.

Skógarmannafjöll (681m og 599m) eru tveir samhliða móbergshryggir norðaustan Búrfells á Mývatnsöræfum. Þeir eru brattir og gróðurlitlir. Í eystri hryggnum finnast gróðurtorfum með birkikjarri í u.þ.b. 400 m.y.s.

Sveinagjá og Sveinar.

Myndasafn

Í grennd

Jökulsá á Fjöllum
Jökulsá á Fjöllum er mesta á Norðurlands. Vatnasvið hennar, 7380 km², er hið stærsta á landinu og hluti þess, u.þ.b. 1700 km², eru undir jökli. Áin er…
Mývatn
Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn landsins. Í því er góð silungsveiði, sem bændur við vatnið stunda allt árið. Mývatn er heimsfrægt fyrir fjölbreytt …
Ódáðahraun
Ódáðahraun er stærsta samfellda hraunbreiða landsins. Mörk þess eru Vatnajökull og Vonarskarð að     sunnan, Skjálfandafljót að vestan, Jökulsá á Fjöl…
Sveinagjá
Sveinagjá er misgengi og gossprunga á Mývatnsöræfum austanverðum. Hún er 2-3 km breið á köflum, veggir hennar eru 10-15 km langir og 20-40 m háir. Hún…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )