Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Sveinagjá

Sveinagjá

Sveinagjá er misgengi og gossprunga á Mývatnsöræfum austanverðum. Hún er 2-3 km breið á köflum, veggir hennar eru 10-15 km langir og 20-40 m háir. Hún verður með góðu móti rakin suður fyrir Kerlingardyngju, jafnvel til Dyngjufjalla, og norðaustur fyrir Hafragilsfoss. Vestari gígaröðin á henni er eldri en hin austari og þar heita norðurgígarnir Sveinar en suðurgígarnir Rauðuborgir. Á Hólssandi er framhald gígaraðarinnar og þar er meðal annarra áberandi gíga Kvensöðull í grennd við veginn austan Jökulsár á Fjöllum. Í vesturvegg Jökulsárgljúfurs við Hafragilsfoss er hægt að sjá þversnið eins gíganna. Sveinagjá er lengsta gígaröð landsins, 70-80 km löng, og talið að hún sé u.þ.b. 8000 ára.

Víðast hefur runnið helluhraun frá gjánni í gosum og samhliða henni er ein yngri gígaraða landsins, sem myndaðist í gosi árið 1875, þegar Nýjahraun rann. Þetta gos hófst 18. febrúar og stóð slitrótt fram í apríllok. Nokkurra daga gos hófst á svipuðum slóðum 15. ágúst. Gosið hófst, þar sem miðþyrping gíganna stendur, norðurþyrpingin myndaðist í marz og hin syðsta í apríl. Samtímis þessari eldvirkni gaus á sama sprungukerfi austan Ketildyngju í Ódáðahrauni. Þetta sama ár varð gífurlegt gos í Dyngjufjöllum, þegar gígurinn Víti og Öskjuvatn mynduðust. Meðal sjónarvotta að þessum eldum voru Þorvaldur Thoroddsen og Englendingurinn William Lord Watts, sem var kominn norður yfir Vatnajökul, og þeir urðu hinir fyrstu til að lýsa eldgosum á prenti hérlendis.

Sveinar eru gígarnir í gjánni, sem hún er skírð eftir. Þeir eur talsvert háir og brattir. Vegarsveinn er sunnan þjóðvegar og Stórisveinn norðan hans. Ytri-Sveinar eða Sveinar í Norðmelsgjá eru talsvert norðar á öræfunum.

Myndasafn

Í grennd

Mývatn
Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn landsins. Í því er góð silungsveiði, sem bændur við vatnið stunda allt árið. Mývatn er heimsfrægt fyrir fjölbreytt …
Mývatnsöræfi
Mývatnsöræfi. Vesturmörkin eru Mývatnssveit, austurmörkin Jökulsá á Fjöllum, suður- og vesturmörkin eru Ódáðahraun og norðurmörkin heiðar Kelduhverfis…
Ódáðahraun
Ódáðahraun er stærsta samfellda hraunbreiða landsins. Mörk þess eru Vatnajökull og Vonarskarð að     sunnan, Skjálfandafljót að vestan, Jökulsá á Fjöl…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )