Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins (mynnið 70 km breitt). Innan til, þar sem hann er grynnri, eru óteljandi eyjar (u.þ.b. 2700 með einhverjum gróðri), sker og boðar. Margar þessara eyja voru byggðar fyrrum en eru nú flestar í eyði. Sagt er, að fólk, sem bjó við Breiðafjörð og á eyjunum hafi sjaldan eða aldrei liðið matarskort, því eyjarnar, sem iðuðu af fuglalífi, voru forðabúr og gnægð fisks var í flóanum. Sjávarfallastraumar eru víða miklir og sigling milli eyja er því víða hættuleg. Víða standa enn þá hús á hinum yfirgefnum eyjum. Mörgum þeirra er haldið við og notuð til sumardvalar og eyjarnar jafnframt nytjaðar mismikið.
Breiðafjörður kemur mjög við í Íslandssögum, s.s. í Gíslasögu, Eyrbyggju, Laxdælu og Sturlungu og þar er víða að finna rætur íslenzkrar menningar.
Flóinn var mjög fisksæll og er enn þá, þótt fiskurinn hafi víða færzt utar. Þar eru góð hörpudisksmið og selalátur víða.
Breiðafjarðareyjar og mörg strandsvæði flóans eru meðal mikilvægustu sjófuglabyggða landsins. Fuglalífið í eyjunum er mjög fjölbreytt. Varpfuglatal eyjanna nálgast helming þeirra tegunda, sem verpa á landinu, þótt sumar þeirra séu ekki algengar. Sjófuglar eru mest áberandi og hafa verið nytjaðir um aldir. Mest ber á u.þ.b. 10 tegundum sjófugla: Fýl, dílaskarfi, toppskarfi, æðarfugli, svartbak, hvítmávi, ritu, kríu, teistu og lunda. Meðal annarra algengra varptegunda eru: Grágæs, stokkönd, tjaldur, sandlóa, stelkur, hrossagaukur, þúfutittlingur, maríuerla og snjótittlingur. Meðal sjaldgæfra tegunda eru: Helsingi, haförn og þórshani.
Skarfategundirnar tvær eru einkennisfuglar Breiðafjarðar, því að hvergi eru stærri skarfabyggðir við landið. Þær eru einkum á gróðurlitlum eyðiskerjum. Dílaskarfar kjósa fremur slík sker en toppskarfar verpa fremur utan í þeim. Nytjar æðarfugls voru og eru samofin lífsháttum og lífsbjörg íbúa eyjanna og strandlengjunnar. Árið 1914 var framtalinn æðardúnn frá Breiðafjarðarsvæðinu alls 1200 kg, sem samsvaraði 30% af allri framleiðslu dúns í landinu. Helztu óvinir æðarfuglsins voru og eru refir, minkar og ránfuglar. Svartbakur verpir í eyðiskerjum og grasi vöxnum hólmum um allan fjörðinn og mikið var steypt undan honum fyrrum eða egg tekin til neyzlu. Aðalheimkynni hvítmávsins eru við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Stærstu byggðir hans eru í fjöllunum í kringum flóann. Fargestir eru allmargir og má þar nefna margæs, tildru og rauðbrysting.
Selveiðar hafa verið stundaðar við Breiðafjörð um aldir. Um 1855 voru selveiðar bannaðar um allan flóann. Árið 1925 var bannsvæðið minnkað. Helztu rökin fyrir því voru m.a. þau, að selir í látrum fældust byssuskot, en raunverulega var um að ræða baráttu um yfirráðarétt. Hringormanefnd olli því, að skotbannið var þverbrotið. Selkjöt og spik var nýtt til matar, ljósmetis, refa- og minkafóðurs og í hákarlabeitu. Skinn útsels þóttu endingarbetri í fatnað en landsels.
Refarækt hófst í Elliðaey árið 1913 og 1940 voru refir komnir á flestar eyjajarðir. Allmargir sluppu og ollu miklum búsifjum í fuglalífi eyjanna. Villtir refir voru fyrrum í eyjunum, enda komust þeir oft þangað á ís. Minkurinn hefur gert sig heimakominn í eyjunum og ekki reynzt auðvelt að losna við hann. Hans varð fyrst vart árið 1948 í Brokey. Á sjöunda áratug 20. aldar var hann fáséður í Barðastrandarsýslu. Flestir minkar eru veiddir í eyjum Hvammsfjarðar. Mýs og rottur bárust til eyjanna með ýmiss konar varningi og mikil áherzla var lögð á að losna við þær, oftast með góðum árangri.
Bænhús voru í Purkey (Svíney), Hrappsey, Fagurey, Efri-Langey og Fremri-Langey. Sungnar voru 25 messur í Svíney, Hrappsey og Langey. Sex messur voru sungnar í Fagurey. Þeim var þá þjónað frá Skarði.
Allur innri hluti Breiðafjarðar er á náttúruminjaskrá síðan 1978: Melrakkaey á Grundarfirði (1971), hluti Flateyjar og nálægir smáhólmar (1975) og Hrísey á Berufirði eru friðlönd. Ellefu eyjar eða eyjaklasar eru næstar á óskalistanum: Elliðaey við Stykkishólm, Hrappsey og Klakkseyjar á Hvammsfirði, Ásmóðarey og Rauðseyjar undan Skarðsströnd, Klofningur, Diskæðarsker og Langey í Flateyjarlöndum, Hergilsey og Oddbjarnarsker í Hergisleyjarlöndum og Sauðeyjar. Einstakt lífríki Breiðafjarðar, víddir hafsins, aragrúi eyja og saga þeirra veldur óskýranlegum og ógleymanlegum hughrifum. Fyrir neðan bæinn á Fremri-Langey er örnefnið kirkjuflöt
(Sjá árbók Ferðafélags Íslands)