Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Flatey í Breiðafirði

Flatey

Flatey er stærst Vestureyja. Alls heyra undir hana tæplega 40 eyjar og hólmar. Í Flatey var verslunarstaður frá miðöldum og löggiltur verslunarstaður frá 1777.

Klaustur var reist á eyjunni árið 1172. Þá var Flatey helsta miðstöð menningar og lista á Íslandi um miðja 19. öld. Kirkjunni í Flatey er þjónað frá Reykhólum en hún var reist árið 1926. Að innan er kirkjan skreytt með myndum eftir Baltasar. Hluti eyjarinnar er friðland síðan 1975. Vegna fuglaverndunar og er óheimilt að fara um svæðið frá 15. apríl til 15. ágúst. Fjölbreytt þjónusta við ferðamenn og margt áhugavert er að skoða. Breiðafjarðarferjan Baldur heldur uppi samgöngum við eyjuna í ferðum sínum milli Stykkishólms og Brjánslækjar.

Flatey er af ýmsum sökum einstök meðal Breiðafjarðareyja. Hún er landnámsjörð, höfuðból, menningarstaður, verzlunar- og samgöngumiðstöð, útgerðarbær og þar var Flateyjarbók til. Skáldin Matthías Jochumson, Sigurður Breiðfjörð, Vatnsenda-Rósa, Halldór Kiljan Laxnes, Þórbergur Þórðarson, Jökull Jakobsson o.fl. hafa gert hana ódauðlega.

Flatey er u.þ.b. 2 km löng og ½ km á breidd. Hún er örlitlu stærri en heimaeyja Svefneyja og stefnir í vestsuðvestur og austnorðaustur. Austan við miðjan háhrygg eyjarinnar, þar sem heitir Lundaberg, var byggð flugbraut árið 1960. Austasti endinn, Eyjarendinn, liggur í suðaustur og þar voru ræktuð tún árið 1970. Svokölluð Heimalönd, sem gengt er í um fjöru, taka þar við. Þar eru m.a. Akurey, Langey, Máfeyjar og ýmsir hólmar. Milli Flateyjar og þessara eyja og hólma myndast vogur til vesturs, Hólsbúðarvogur, fyrrum Flateyjarvogur. Hjallasker dregur úr sjógangi í honum, þar sem hann opnast til vesturs. Tröllendi er vestasti hluti eyjarinnar og suðurhluti hans snýr að vognum. Þar er hafskipabryggja og frystihús. Þar eru Þrísker og Svartbakssker, sem skipta voginum í tvennt. Þar eru nokkrar varir og uppsátur.

Vesturbúðir eru við Teinæringsvog. Þar eru rústir talsverðrar byggðar og eitt íbúðarhús með geymsluhúsum, gömlum görðum og þurrkreitum. Austur frá Bryggjuskeri, austan Vesturbúða og Vesturbúðavarar, er Grýluvogur, sem er lokað með Silfurgarði. Þar er Plássið, gamla kauptorgið, verzlunarstaðurinn í Flatey. Þar standa gömul hús frá gullöld Flateyjar. Þau hafa verið endurbætt og færð til upprunalegs útlits líkt og flest önnur hús eyjarinnar, þannig að hvergi annars staðar á landinu er hægt að ganga um eins skemmtilegt þorp frá fyrri tíð og þar með inn í fortíðina. Sumarið 1987 varð Plássið að kvikmyndaveri, þegar kvikmyndin um Nonna og Manna var tekin þar og þorpið átti að tákna Akureyri skömmu eftir miðja 19. öldina.

Beint á móti Plássinu er há og skeifulaga klettaeyja, Höfnin, sem var aðalskipalægið við Flatey á fyrri tíð og án hennar hefði hún tæpast orðið aðalverzlunarstaður Breiðafjarðareyja. Sundið milli Hafnar og Flateyjar heitir Hafnarsund.

Fyrsta byggðin í eyjunni hefur verið á henni miðri, þar sem eru talsverðir safnhaugar og mannvistaleifar. Kirkjugarðurinn er á Hólnum vestanverðum. Kirkjan stóð í honum fram til 1926. Hún var rifin og ný byggð í austar í túninu. Á bak við kirkjuna er gamla bókasafnshúsið, sem er eitt fárra minja um forystuþátt Flateyjar í menningarmálum landsmanna. Það er elzta hókhlaða landsins, byggð árið 1864. Áður var bókasafnið geymt á kirkjuloftinu.

Flateyjarbók var fyrrum ættargripur, sem Jón bóndi Björnsson í Flatey eignaðist á 16. öld. Flateyjarbók var í eigu Jóns Finnssonar, sonarsonar Jóns Björnssonar, til 15. sept. 1647, þegar Brynjólfur biskup fékk hana. Samkvæmt Biskupasögum var Flateyjarbók rituð á pergament með munkaletri og fjallaði um sögur Noregskonunga og margt fleira. Brynjólfur biskup vildi kaupa bókina og bauð hátt verð, fyrst í peningum og síðan 500 í jörðum en fékk ekki. Jón Finnson fylgdi honum til skips úr eyjunni og gaf honum bókina. Síðar sendi Brynjólfur biskup Danakonungi bókina sem gjöf (I. s. 280). Flateyjarbók var skrifuð í Víðidalstungu í lok 14. aldar.

Talið er að verzlun hafi lagzt niður í Flatey skömmu eftir að einokunarverzlunin tók við 1602. Þó eru til heimildir um verzlun við erlend skip í Flatey allt að 60 árum síðar, þegar hollenzkst, 14 fallstykkja far, sökk í Höfninni og tvær skútur komu komu ári síðar. Verzlun hófst ekki aftur í eyjunni fyrr en árið 1777, þegar byggðin varð að kauptúni að lögum. Kaupfélagið var stofnað árið 1920 og Flóabáturinn Konráð hóf áætlunarferðir 1927 milli staða á svæði verzlunarinnar, sem náði yfir Vestureyjar og tvo hreppa í landi. Kaupfélagið starfaði fram yfir 1950 og nokkru síðar lögðust ferðir Konráðs niður. Á árunum 1940-50 voru stofnuð félög um útgerð og frystihús. Bryggjan og frystihúsið voru byggð á Tröllenda. Þessi rekstur varð ekki langlífur vegna aflatregðu og fleiri erfiðleika. Meðal mannvirkja og hið elzta, sem tengd eru atvinnusögu Flateyjar, er Silfurgarðurinn. Guðmundur Scheving lét reisa hann fyrir mynni Grýluvogs árið 1830. Nafngiftin kemur til af verklaununum, sem Guðmundur greiddi ævinlega í silfri. Nokkru austar er Stórigarður, sem Björn Sigurðsson, kaupmaður, lét hlaða um aldamótin 1900 til skjóls í Þýzkuvör. Það er hreint ótrúlegt, hve stórir steinar eru í þeim garði miðað við, að einungis var unnið með höndum. Þrátt fyrir það hefur garðurinn látið á sjá í glímu sinni við Ægi konung.

Úteyjar jarðarinnar Flateyjar að norðanverðu eru Flateyjarlönd, Hergilsey með heimalöndum sínum og Sauðeyjar. Seint á 18. öld var Flatey og Hergilsey skipt í tvær jafnstórar jarðir og eftir skiptinguna eru aðalúteyjarnar þessar: Höfnin, Klofningur (vitinn), Hrólfsklettur, Sýrey (mikið lundavarp) og Sýreyjarhólmi, Selsker, Feitsey, Langey og Langeyjarhólmi, Skeley, Diskæðarsker, Sandeyjar og Stykkiseyjar. Hér eru ekki talin öll sker og gróðurlausar eyjar.

Sjá frekari fróðleik í Árbók Ferðafélags Íslands 1989, bls. 136.

Myndasafn

Í grennd

Baldur Ferja
Ferjan Baldur siglir yfir fjörðinn allt árið um kring Ferjan Baldur er oft kölluð brúin yfir til Vestfjarða. Ferjan siglir yfir fjörðinn allt árið …
Bjarneyjar
Bjarneyjar eru syðstar Vestureyja á Breiðafirði. Þær eru 10 og voru ásamt Stagley í byggð. Þar var margbýlt áður en þær fóru í eyði og þar var elzta v…
Breiðafjarðareyjar, Þúsund Eyja Flói.
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins (mynnið 70 km breitt). Innan til, þar sem hann er grynnri, eru óteljandi eyjar (u.þ.b. 2700 með einhverju…
Brjánslækur
Fornt höfuðból, kirkjustaður og löngum prestsetur við mynni Vatnsfjarðar á Barðaströnd. Þar var kirkja   helguð heilögum Gregoríusi í katólskum sið. B…
Flateyjarkirkja
Flateyjarkirkja er í Reykhólaprestakalli í prófastsdæmi Barðastrandar. Klaustur var reist á eyjunni árið  1172. Þá var Flatey helsta miðstöð menningar…
Flateyjarkirkja Flateyjarklaustur
Flateyjarkirkja er í Reykhólaprestakalli í prófastsdæmi Barðastrandar. Klaustur var reist á eyjunni árið 1172. Þá var Flatey helsta miðstöð menningar…
Hergilsey
Fyrstu skráðar heimildir um Hergilsey er að finna í Landnámu. Sonur Þrándar í Flatey, Hergils hnapprass, settist þar að og síðan Ingjaldur sonur hans.…
Hvallátur
Þrír aflangir, samhliða eyjaklasar mynda Hvallátur. Sundin tvö, sem aðskilja þá voru alfararleiðir fyrrum og annað þornar á kafla um fjöru en hitt, þe…
Klaustur á Íslandi
Heimildir um einsetulifnað á Íslandi fyrir kristnitökuna árið 1000 og áður en klaustur voru stofnuð, eru til. Meðal þeirra er frásögn af Ásólfi Konáls…
Oddbjarnarsker
Oddbjarnarsker er melgresisvaxin skeljasandshrúga (80x100m) á skerjaklasa yzt í minni Breiðafjarðar, 16 km sunnan Barðastrandar og 40 km norðan Snæfel…
Sauðeyjar
Sauðeyjar, í norðvesturhluta Vestureyja, eru hinar einu þeirra, sem heyrðu ekki til Flateyjarhreppi. Ingjaldur Sauðeyjargoði er nefndur í Laxdælu. Síð…
Skáleyjar
Skáleyjar (u.þ.b. 160) eru innsti hluti Inneyja Hvalláturs og næstar landi. Þær eru ekki eins þéttar og Látra- og Svefneyjalönd, þannig að ekki fjarar…
Stykkishólmur
Stykkishólmur er oft kallaður höfuðstaður Snæfellsness. Bærinn stendur á innanverðu Snæfellsnesi, yzt á Þórsnesi. Byggðin stendur á klettaborgum með f…
Sviðnur
Sviðnur tilheyra Vestureyjum í Breiðafirði norðvestanverðum. Þær liggja í hásuður frá Bæjarey í Skáleyjum og eru u.þ.b. 23 talsins. Þær eru kunnar fyr…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )