Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Skáleyjar

Skáleyjar (u.þ.b. 160) eru innsti hluti Inneyja Hvalláturs og næstar landi. Þær eru ekki eins þéttar og Látra- og Svefneyjalönd, þannig að ekki fjarar á milli þeirra allra. Í stórstraumsfjöru er gengt úr Látralöndum í Skáldsey, eina Skáleyja. Þá verður einnig gengt milli byggðu eyjanna þriggja í Inneyjum. Heimaeyja Skáleyja er u.þ.b. 1½ km löng og 200-400 m breið og óregluleg í lögun. Stöðuley og Litla-Lyngey eru við innri enda hennar og losna frá henni í mestu flóðum. Séu þær taldar með er heimaeyjan rúmlega 2 km löng. Mikið er af hólmum og skerjum umhverfis hana og víða grunnsævi. Eyjan er því vel varin gegn brimi og haföldu en Hróvaldsey tekur á móti þessum náttúruöflum. Engar heimilidir eru til um upphaf byggðar í Skáleyjum.

Örskammt austan heimaeyjar er Stóra-Lyngey og örmjótt sund á milli. Þangað er vætt á öllum fjörum, svo og til Lyngeyjarhólma sunnan hennar. Einnig er vætt til Framhólma, sem eru í röð meðfram endilangri heimaeynni norðvestanverðri (Strákar, Kríuhólmi, Þríklakkar, Grænhólmi, Tréeyjarsker o.fl.). Þá er gegnt út í Suðurlönd inn af Stöðuley (Hamarshólmi, Stórhólmi, Klakkaflögur, Straumakolla o.fl.) og Norðurlönd norðan Suðurlandsvogs. Þar er Grísaból, sem er innstur Vestureyja. Norðurlöndin voru helztu kúahagar Skáleyja og mikil dúntekja. Norðurey og Hellisey eru hluti þeirra og allgott vatnsból er í hinni síðarnefndu.

Fagurey er meðal stærstu eyja Vestureyja (800x250m). Þar var búið fyrrum eins og tóttir, garður, naust og brunnur bera með sér. Getum hefur verið leitt að því, að upphaf byggðar í Skáleyjum hafi verið í Fagurey, en það er ólíklegt vegna áberandi meiri landkosta á heimaeynni og miklu meiri mannvistarleifa þar. Munnmæli herma, að byggð hafi eyðzt þar vegna draugagangs eða svartadauða.

Í Sturlungu er þess getið, að Sturla Þórðarson hafi tekið við Bjarneyjum og Skáleyjum. Þar er ekki getið byggðar, þannig að þær hafa líklega byggzt mun fyrr en sagan er rituð. Þjóðsögur, einkum um huldufólk, eru margar. Sóknarkirkja þeirra var talin vera í Lyngeyjarkletti. Lítið er um álagabletti og ýfingar milli manna og álfa, þannig að þeir hafa líklega verið ágætlega friðsamir.

Hlunnindi voru aðallega dún- og eggjatekja, vorkópa- og fuglaveiði. Árin 1967-77 var mannlaust í Skáleyjum á veturna en síðan föst búseta fram á okkar daga. Vegalengdin frá Haugsnesi á Skálmarnesi í lendinguna í Skáleyjum er u.þ.b. 7 km, en þaðan eru 10 km í Skálanes og 12-13 km upp á Reykjanes.

Myndasafn

Í grennd

Breiðafjarðareyjar, Þúsund Eyja Flói.
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins (mynnið 70 km breitt). Innan til, þar sem hann er grynnri, eru óteljandi eyjar (u.þ.b. 2700 með einhverju…
Hvallátur
Þrír aflangir, samhliða eyjaklasar mynda Hvallátur. Sundin tvö, sem aðskilja þá voru alfararleiðir fyrrum og annað þornar á kafla um fjöru en hitt, þe…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )