Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Oddbjarnarsker

Oddbjarnarsker er melgresisvaxin skeljasandshrúga (80x100m) á skerjaklasa yzt í minni Breiðafjarðar, 16 km sunnan Barðastrandar og 40 km norðan Snæfellsness. Hólminn er útgrafinn lundaholum en margar aðrar fuglategundir eiga þar athvarf.

Líklega hefur engum dottið í hug að reisa sér frambúðarbú þarna en öldum saman var þarna fjölmenni bæði vor og haust. Í lýsingu Ólafs Sívertsens á Flateyjarsókn telur hann, að útgerð frá Skerinu hafi hafizt á 14. öld eða jafnvel fyrr. Einkum réru þaðan menn úr Austur-Barðastrandarsýslu en líka af Ströndum og úr Dölum.

Þegar landi Flateyjar var skipt, fylgdi Oddbjarnarsker Hergilsey, en Flateyingar áttu þó nokkur ítök þar áfram. Árið 1703 voru taldar 27 verbúðir í Skerinu, u.þ.b. 167 vermenn, sem réru á 4, 5 og 6 manna bátum. Stundum réru þaðan 30-40 skip á vorin og fjöldi vermanna fór upp í u.þ.b. 200. Þarna voru þurrkreitir og fiskihjallar og helzt var gert að fiski í lægðinni á miðju skerinu. Skötu- og flyðruafli var oft mikill. Þegar leið fram á 19. öld, fór smám saman að draga úr útgerð frá Skerinu og verbúðunum fækkaði. Þar stóðu líklega 9 hrörlegar búðir um aldamótin og jafnmörg skip voru gerð út.

Í móðuharðindunum (1783-84) söfnuðust margir öreigar út í Oddbjarnarsker til að hafa ofan í sig. Eggert Ólafsson, merkismaður, sem bjó stórbúi í Hergilsey, flutti tugi manna úr landi út í skerið (e.t.v. 70 manns), sem hann kom fyrir í verbúðum meðan húsrými entist. Síðan hvolfdi hann bát sínum, Hring, til að fá skjól fyrir fleiri og Hergilseyingar hjúkruðu og sinntu þessu flóttafólki til heilsu með matargjöfum að heiman eða beint úr sjó. Hann kom því síðan á sjó til að afla sér viðurværis. Að þessu loknu kom hann því í land aftur með óskertan aflahlut í vertíðarlok.

Það er fátt nú, sem bendir til iðandi mannlífs og starfsemi í Skerinu á fyrri öldum, því að tóttir eru að mestu vallgrónar en þéttbýlið er samt líklega meira nú en áður vegna þess að fuglinn er þar ótruflaður, s.s. æðarfugl, rita, fýll og skarfur. Það úir og grúir af landsel á skerjunum í kring og útselurinn fylgist með, haus við haus lengra frá landi. Skammt utar, í mynni Breiðafjarðar eru helztu skoðunarmið stærstu lífverunnar á jörðinni, steypireyðarinnar.

Myndasafn

Í grennd

Breiðafjarðareyjar, Þúsund Eyja Flói.
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins (mynnið 70 km breitt). Innan til, þar sem hann er grynnri, eru óteljandi eyjar (u.þ.b. 2700 með einhverju…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )