Mýrdalsjökull (1480m) er fjórði stærsti jökull landsins, u.þ.b. 590 km². Hann hvílir á mjög eldvirku svæði, Kötlu, sem gaus kröftuglega 1918. Talið er að Katla hafi verið gríðarstór eldkeila, sem hefur sigið í miðju og orðið að mikilli öskju. Þessi askja er u.þ.b. 10 km í þvermál og þar getur gosið á ýmsum stöðum. Flóð, tengd gosum undir Mýrdalsjökli hafa fallið bæði austan og vestan Mýrdals, þannig að ekki hefur alltaf gosið á sama stað. Talsverð sprunguhætta er á jöklinum og þar hafa orðið alvarleg slys. Margir skriðjöklar teygja sig út frá jökulhvelinu, Sólheimajökull, Höfðabrekkujökull o.fl.
Talsvert vatn rennur frá honum, s.s. margar þverár Markarfljóts, Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Hólmsá. Vestan Mýrdalsjökuls er lægð í fjallgarðinum, þar sem heitir Fimmvörðuháls. Vestan hans er Eyjafjallajökull (1666m), u.þ.b. 50 km², enn eitt virkt eldfjall, sem gaus síðast 1821-22. Boðið er uppá snjósleða- og snjóbílaferðir á Mýrdalsjökul.
Gönguleiðir á jöklinum liggja í allar áttir. Þær byggjast á ferðaáætlunum viðkomandi göngumanna, sem eru vitaskuld búnir að skipuleggja þær í þaula áður en haldið er af stað. Auk nauðsynlegs útbúnaðar verður að kanna sprungusvæði á leiðunum með því að fá örugg hnit hjá kunnugum (4×4; Fjallaleiðsögumenn; JÖRFI o.fl.). Eldgosið á Eyjafjallajökli hefur breytt gönguleiðum töluvert.