Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Katla

Katla

Katla er eldstöð (1450m) í suðaustanverðum Mýrdalsjökli, venjulega hulin jökli. Hún hefur venjulega gosið á 40 – 80 ára fresti. Brýzt hún þá fram í ógurlegum hamförum undan jökli, bræðir hann á stóru svæði og veldur feikilegum hlaupum, sem flæmast með jaka- og sandburði suður allan mýrdalssand. Vatnsflaumurinn mun vera svipaður mesta fljóti veraldar, Amazon, þegar það er í mestum vexti. Katla er álitin vera syðsti hluti u.þ.b. 75 km langs sprungubeltis, sem gerði vart við sig í mesta gosi Íslandssögunnar og þar með heimsins á sögulegum tíma á árabilinu 930-940. Þá myndaðist u.þ.b. 800 km² hraun og magn gosefna var 19 km³. Þessa sprungubelti teygist nánast alla leið að vesturjaðri Vatnajökuls.

Rök eru færð fyrir gosi á árunum 894 – 934, því að þá er tímasett öskulag, sem fer ört þykknandi í átt að Kötlujökli. Næst er talað um gos árið 1000. Þá var Þangbrandur hérlendis og er sagður hafa misst hest sinn í jökulker á leiðinni milli Kirkjubæjar og Höfðabrekku. Þá er talið, að Völuspá hafi verið ort á Íslandi árið 1000 og höfundur hafi orðið vitni að eldgosi: „Sól tér sortna / sekkur fold í mar”. Sigurður Þórarinsson bendir á, að svo stórkostleg lýsing geti ekki átt við aðrar náttúruhamfarir en Kötlugos.

Höfðahlaup árið 1179 er fyrsta hlaupið, sem þekkt er með fullri vissu. Þá um haustið kom Þorlákur biskup helgi að Höfðabrekku til fundar við Jón Loftsson. Var ágreiningur milli þeirra um kirkjumál, en hlaupið hafði tekið af marga bæi, þá er þar lágu undir, og tvo er kirkjur voru á. Má af því ráða, að þá hafi mikið tjón orðið á gróðri og mannvirkjum. „Auk þesss bar eldurinn með sér í flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir, … og fjöllin bárust út í hafsauga… varð sjórinn að þurru landi”. Þá segir, að ennfremur „eyddist í þessum eldsbruna fræg borg og mannmörg, en þar var ágæt höfn við fjörð”. Hér mun vera átt við Kerlingarfjörð, þegar hann fylltist upp, þar sem nú er Kerlingardalur.

Fornir annálar geta um gos í Sólheimajökli árin 1245 og 1262. Hafi þau myndað Sólheimasand að mestu og þá fyrst hafi Jökulsá fengið fastan farveg.

Gosið 1311 er kallað Sturluhlaup. Þetta hlaup eyðilegði Lágeyjarhverfið á Mýrdalssandi, þar sem með öllu lögðust af Dýralækir, Holt, Lágey og Lambey. Árið 1973 var grafin upp bæjarrúst í Kúabót, skammt sunnan Hraunbæjar, undir stjórn Gísla Gestssonar. Þar hefur augljóslega verið stórbýli, sem talið er hafa lagzt af í þessu hlaupi.

Í gosum 1416 og 1490 er aðallega minnst á öskufall, sérstaklega í hinu síðara, en úr því er aðalgjóskulagið kringum Reykjavík.

Í hlaupi árið 1580 hljóp Mýrdalsjökull og fór það suður hjá Þykkvarbæjarklaustri, svo að bæir eyddust en ei sakaði fólk. Jarðir fóru þó allar aftir í byggð nema „Efri-Mýrar, sem byggðust ei framar”

Þorsteinn Magnússon, sýslumaður í Þykkvabæjarklaustri, lýsir í samtímaheimildum gosinu 1625 en það hófst 2. september. Öskufall varð gífurlegt, svo að alhaglaust varð allt austur í Skaftafell í Öræfum. Á öllu svæðinu þusti fénaður um bjargarlaus. Um Bólhraun í Álftaveri, sem var eina svæðið, þar sem öskufall varð lítið, er sagt: „að þangað hafi komið sauðfé, naut og hross hvaðanæfa, allt að tvær þingmannaleiðir”. Varð því einnig mikið tjón þar af völdum búfjár eða eins og Þorsteinn segir: „sá mikli kapla og nauta grúi, er þangað hljóp og þusti úr öllum sveitum, með það fysta, sem fyrri er um talað, hefði þar ekki allt upp urið og sviðið líka sem eldur hefði yfir gengið, hvað m0nnum þar útí stærstan skaða gjörði”. Um veturinn féll mikill fjöldi búpenings, en hross voru rekin vestur undir Eyjafjöll og í Mýrdal.

Samtímaheimild um gosið, sem byrjaði 3. nóv. 1660, er lýsing séra Jóns Salómonssonar í Kerlingardal. Hlaupið eyðilagði fjórar jarðir, Skálmabæ, Hraunbæ, Sauðhúsnes og Hraungerði í Álftaveri, sem komust þó aftur í byggð. Mestu stórmerki þessa hlaups voru, að þar fór yfir bæinn á Höfðabrekku og tók af útræði við Skiphelli og Víkurklett. Varð land þar sem áður var veidd stórlúða á 20 faðma dýpi. Þetta hlaup rann í gegnum skarðið milli Skálafjalls og Hafurseyjar, sem sýnir ægikraft þess.

Klausturhaldarar Kirkjubæjar- og Þykkvabæjarklaustra, Þórður Þorleifsson og Erlendur Gunnarsson, lýsa gosinu, sem hófst 11. maí 1721. Þetta hlaup var gríðarlegt og gerði strax Álftaverinu mikinn skaða. Flóðbylgjan braut skip í Vík, tók út hjall með lýsistunnum í Vestmannaeyjum og gekk á land í Þorlákshöfn. Þá tók af bæinn í Hjörleifshöfða, sem stóð vestan við höfðann. Jörðin var í eyði í 30 ár, en þá var bærinn reistur uppi á honum, þar sem byggð hélzt til 1936, er hún lagðist af vegna draugagangs. Þá tókst draugnum það, sem Kötlu hafði mistekizt í nærri 1100 ár.

Jón Sigurðsson, sýslumaður V.- Skaftfellinga, lýsir gosinu, sem hófst 17. oktober 1755. Þann dag var mannaferð mikil á Mýrdalssandi og sluppu margir naumlega frá hlaupinu. Öskufall var gífurlegt og veturinn eftir varð hinn harðast. Mestallt búfé féll í brunasveitunum, menn flosnuðu upp, fóru á vergang og margir dóu. Margar jarðir í Álftaveri fóru í eyði. Það bar til tíðinda í þessu gosi, að eldingu úr því lauzt niður í og drap Jón Þorvarðsson, hreppstjóra í Svínadal og vinnukonu hans. Þannig drápust einnig margir hestar.

Um gosið, sem hófst 26. júní 1823 eru til ítarlegar lýsingar eftir séra Jón Austmann á Mýrum í Álftaveri og Svein Pálsson, lækni í Vík. Gosið stóð í 28 daga og lagði öskumökkinn mest til vesturs. Sveinn segir, að ekki verði annað með sanni sagt, en það hafi gjört langminnstan skaða af sér, þeirra gosa, sem menn hafa sagnir af. Þó fyllti það alla farvegi á Mýrdalssandi endanlega. Þá eyðilagðist jörðin Bólhraun í Álftaveri og tók byggð af árið 1827.

Gosinu 1860 lýsir Markús Loftsson, bóni í Hjörleifshöfða, í bók sinni Rit um jarðelda á Íslandi. Hlaupið kom aðallega fram vestan Hafurseyjar og skar sundur hálsinn milli Selfjalls og Höfðabrekkuheiðar, þar sem Múakvísl og Sandvatnið renna nú. Múlakvísl var brúuð árið 1935 og lá þjóðvegurinn þar til ársins 1955. Hlaupið hófst 2. maí og stóð í 16 sólarhringa. Þann dag ætlaði ungur bóndasonur, Brynjólfur Eiríksson í Hraungerði, að koma heim af vetrarvertíð í Reynishverfi í Mýrdal með unga kærustu sína, Málfríði Ögmundsdóttur, fædda á Rofum en uppalda í Reynisholti í sömu sveit. Nú voru góð ráð dýr. Kötluhlaup nýafstaðið og Mýrdalssandur engum fær nema fuglinum fljúgandi, en unga fólkið átti að taka við búsforráðum í Hraungerði um fardaga. Þá brugðust nágrann hennar í Reynishverfi þannig við, að þeir mönnuðu áttæring, réru í vorblíðunni með kærustuparið austur í Álftaver og fóru sjálfir til baka sama sólarhringinn. Unga parið gekk átta km leið til bæjar með búslóðina undir hendinni.

Kötlugosið 1918 stóð frá 12. oktober til 4. nóvember. Eru til tvær samtímalýsingar um það eftir Gísla Sveinsson, sýslumann, og Guðgeir Jóhannsson, kennara í Vík. Hlaupið kom snögglega og öllum að óvörum. Fólk varð að flýja bæi sína, bæði í Álftaveri og Meðallandi. Það olli miklum skemmdum á jörðum þar og fluttu allmargir ábúendur í burtu, en tvær jarðir í Álftaveri, Skálmarbæjarhraun og Sauðhúsnes komust ekki aftur í byggð. Öskufall varð mest í Skaftártungu og farga varð miklum hluta búfénaðar á öllu svæðinu vegna fóðurskorts. Í hlaupinu myndaðist Kötlutangi, sem eftir miðjan vetur mældist 2000 – 3000 faðma frá gömlu ströndinni suður af Hjörleifshöfða og varð þá syðsti tangi landsins, en síðan hefur hann að mestu eyðzt.

Myndasafn

Í grennd

Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Jöklar
Jöklar Íslands Jöklar landsins þekja rúmlega 11% af heildarfleti þess. Hinir stærstu eru á sunnanverðu landinu eða í miðju þess. Helzta ástæðan er sú…
Vík í Mýrdal
Vík er syðsta þorp landins og hið eina á landinu sem, stendur við sjó en er án hafnar. Ströndin suður af Vík er rómuð fyrir náttúrufegurð og árið 1…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )