Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Skógasafn

Austustu bæir undir Eyjafjöllum eru Eystri- og Ytri-Skógar. Þar hóf héraðsskóli Rangæinga og Vestur- starfsemi 1949. Þar er sundhöll og skólinn var nýttur sem sumarhótel til 2003 en nú heilsárshótel. Sama ár var opnað byggðasafn sömu aðila að Skógum.

Hluti safnhússins var byggður 1954-55, en nýtt tveggja hæða safnhús var byggt við það eldra 1989-94. Húsin, sem eru u.þ.b. 600 m², eru tengd með glerbyggingu. Þar er afgreiðsla safnsins í björtum og nútímalegum forsal og jafnan margt um manninn á sumardögum, enda komu yfir 27000 gestir í safnið sumarið 1999. Höfundar nýbyggingarinnar eru arkitektarnir Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon. Árið 1998 var skrifað undir samning um byggingu samgöngusafns að Skógum. Frumkvöðull þess og safnvörður síðan er Þórður Tómasson (28/4 ’21). Hann hefur byggt safnið upp frá grunni og hefur m.a. fært út kvíarnar með söfnun gamalla húsa, sem hafa verið endurreist á lóð safnsins. Kirkjan er nýsmíði en munir hennar eru gamlir. Þórður hefur ekki látið nægja að bjarga gömlum gripum frá glötun, heldur skrifað margar bækur um landið og þjóðleg fræði. Hann var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands og sæmdur riddarakrossi.

Safnbærinn. Frá aðalsafninu liggur leiðin í átt að hlíðinni. Þar verður fyrst á vegi gestsins safnbærinn, sem Þórður nefnir svo; einstaklega fallegur, þriggja bursta torfbær og tengist fjórða húsinu austanvið, krossbyggðu fjósi frá Húsum í Holtum. Þar er drangsteinn yfir dyrum, svo sem algengt var fyrrum. Safnbær eins og nafnið bendir til, er ekki neinn tiltekinn bær, heldur hefur þórður að hætti góðra safnamanna fengið eitt hér og annað þar. Vestast í þessari röð er svartbikauð burst með þremur hvítmáluðum gluggum. Það er upprunalega gestastofa frá Norður-Götum í Mýrdal frá 1896. Í miðju er baðstofa frá Arnarhóli í Landeyjum frá 1895. Þarna er einn hvítmálaður gluggi á svartbikuðu þili, sem ekki er látið ná alla leið niður, heldur nær vegghleðslan upp að glugganum. Þess konar veggur var nefndur gluggadekk. Vert er að veita athygli, að út úr hleðslunni vex blóðrót, en það þótti gott að hafa þessa jurt, því hún verndaði hús gegn eldi. Þriðja húsið í þessari röð er skemma með amboðum og öðru, sem þar átti heima. Framan við þennan rómantízka bæ er brunnvinda frá bænum Hvoli í Mýrdal frá 1896.

Skálarbærinn. Ofar í túninu standa þrjú hús saman. Þar er næsti kapituli byggingarsögu sveitabæja á Suðurlandi. Burstirnar, háreistar og með ljósmálaðri járnklæðningu, benda til þess, að hér séu 20. aldar hús. Þarna eru bæjarhúsin frá Skál, vestasta bæ á Síðu. Þau eru merkileg fyrir fjósbaðstofuna með frambæ og í honum er stofa og eldhús. Bærinn var byggður 1919-1920 og búið í honum til 1970. Hann var fluttur að Skógasafni 1987 og endurbyggður þar næstu árin.

Gröf. Við hlið Skálarbæjarins stendur hús með svartbikaðri burst og hvítmáluðum gluggum. Þetta hús var upphaflega skemma í Gröf í Skaftártungu, byggð þar um 1840, og er óvenjuleg að þeirrar tíðar hætti, því framhlutinn er þiljaður og á loftinu er skarsúð; allt rekaviður, breið, heimaunnin borð. Í Gröf gegndi hún að nokkru leyti hlutverki gestastofu, því Þorlákur bóndi Jónsson, sem varð úti á Mælifellssandi 1868, bauð þarna inn til veitinga sínum beztu gestum. Þar veitt hann brennivín og niðursneitt hangikjöt. Skemman gegnir sínu gamla hlutverki í safninu sem geymsluhús. Þar eru kistur og kornbyrða, söðlar og reipi. Ekki er timburgólf í skemmunni, heldur fasttroðið moldargólf eins og tíðkaðist.

Sýslumannshúsið frá Holti. Efst í brekkunni stendur reisulegt hús með allt öðru svipmóti en torfbærinn og Skálarbærinn. Það er sýslumannshúsið frá Holti með svartbikaða veggi, hvítmálaða glugga, rauðmálað þak með kvisti, en við gaflana eru meira en mannhæðar háir, hlaðnir veggir, sem setja sérstakan svip á húsið. Árni Gíslason, sýslumaður þar og síðar í Krýsuvík, byggði húsið 1878. Hann sat á Kirkjubæjarklaustri, en átti Holt og rak búskap þar. Húsið byggði hann allt úr rekaviði. Þórður kallar þetta hús „þverhús”, byggt í hlaðinni tóft og var fyrsta timburhús í Vestur-Skaftafellssýslu. Allar þiljur voru heimaunnar úr rekaviði af Meðallandsfjöru, þar sem Holt átti reka. Húsið er aðeins 40 m², en sýnist mun stærra. Þarna hafðist við 18 manna fjölskylda í níu rúmum, þannig tveir voru um hvert. Uppi í risinu er skarsúðarbaðstofa og svefnherbergi hjóna. Niðri er eldhús, borðstofa og gestastofa. Að líkindum hefur verið mun kaldara að vetrarlagi í þessu húsi en torfbæjunum, því einangrunin er grámosi úr eldhrauninu og hey. Eina upphitunin var frá eldavél, sem kom þó ekki nærri strax.

Fram yfir aldamótin 1900 var notazt við útieldhús. Upphaflega var þakið hellulagt með blágrýtishellum, en nálægt aldamótunum var sett járnþak á húsið. Bezta hellutak á Síðu var þá í Hellutanga á Núpum í Fljótshverfi. Þar fengust stórar, þunnar hellur, sem voru nýttar á mörg hús undir Eyjafjöllum og allt austur á Hornafjörð. Það var búið í sýslumannshúsinu til 1974 og fimm árum síðar lét Þórður lima það sundur til að byggja það upp að nýju árið 1980 á Skógum. Frá fyrstu gerð hefur húsið tekið nokkrum breytingum. Björn hreppstjóri Runólfsson breytti framhlið þess og fjölgaði gluggum. Hann var faðir Siggeirs, sem lengi bjó í Holti og var líka hreppstjóri. Þegar húsið var rifið, var í því panelklæðning frá 1910 í stað gömlu klæðningarinnar. Við endurbygginguna í Skógum var panelklæðningin ekki notuð og gestastofan færð í upprunalegt form með þiljum úr gestastofu á Seljalandi í Fljótshverfi frá 1900. Þessar þiljur eru unnar úr möstrum franska spítalaskipsins St. Pauli, sem strandaði 1899 við Kúðafljótsósa.

Í Holti var kjallari undir húsinu, hlaðinn úr grjóti, en á Skógum er hann steyptur. Timburklæðningin, sem nú er á framhlið hússins, er af Kálfholtskirkju frá 1879, breið, tjörguð borð og listað. Í eldhúsinu er heimilistæki, sem vekur athygli nútíma fólks. Það er moðsuðukassi. Hann var þannig notaður, að grautarpottar voru settir í hann, þegar suðan hafði komið upp í þeim á eldavélinni og látið krauma áfram. Þetta var gert til að spara eldivið. Eldavélin er frá 1910, fengin frá Teigi í Fljótshlíð. Í borðstofunni er stofuborð séra Skúla Skúlasonar í Odda, en stofuborðið í gestastofunni er frá Skarðshlíð undir Eyjafjöllum, smíðað úr mahóní af Skógafjöru. Það gerði Hjörleifur Jónsson, snikkari í Skarðshlíð. Sófinn í gestastofunni er úr búi Halldórs Þorsteinssonar á Bergþórshvoli. Sófinn er líka gömul Landeyjarsmíði úr rekaviði.

Safnkirkja í hinum forna kirkjustíl. Lítið eitt austar í túninu og neðar en Holtshúsið er lítil og látlaus kirkja, sem er engu að síður skrautfjöður safnsins. Þetta er fallegt hús og garðurinn umhverfis hlaðinn af snilld. Allt í kirkjunni er úr gömlum kirkjum, en ytra er hún nýsmíði, byggð eftir teikningum Hjörleifs Stefánssonar arkitekts. Þær innréttingar, sem til voru réðu forminu, en kirkjan er af sömu stærð og síðasta kirkjan í Skógum, sem var rifin 1890. Safnkirkjan í Skógum er byggð í hinum forna kirkjustíl. Hún er dæmigerð fyrir aldalanga hefð sveitakirkna á Íslandi, með kórgrindum og kórdyrum. Kórgrindurnar eru smíðaðar eftir fyrirmynd úr síðustu torfkirkjunni á Kálfafelli í Fljótshverfi, en gotneski boginn í kórdyrunum er úr Stóra-Dalskirkju undir Eyjafjöllum.

Útsagað skraut í kórdyrum og ofan á kórbita á sér fyrirmyndir úr Eyvindarhólakirkju undir Eyjafjöllum, sem var rifin 1963, en að nokkru leyti er það upprunalegt. Himinn yfir predikunarstóli er einnig þaðan. Skrautmálunin er verk Guðlaugs Þórðarsonar, málarameistara, en hann er einn fárra, sem kann þetta gamla handverk. Liti sótti hann í umgjörð altaristöflu kirkjunnar. Kirkjubekkir eru úr Kálfholtskirkju frá 1879 og kirkjuþiljur sömuleiðis. Gluggar eru úr Grafarkirkju í Skaftártungu frá 1898, en grátur úr Stóra-Dalskirkju frá 1895.

Altarið er úr Sigluvíkurkirkju í Landeyjum frá miðri 19. öld og predikunarstóllinn úr Hábæjarkirkju í Þykkvabæ, áður í Háfskirkju í Holtum. Höfuðgersemi kirkjunnar er altaristaflan. Séra Sigurður Jónsson fékk hana til Holtskirkju undir Eyjafjöllum árið 1768. Hún er velvarðveitt dönsk vængjabrík og var í Holti til 1888 en síðar í Ásólfsskálakirkju. Arkitekt hinnar nýju Ásólfsskálakirkju, sem var vígð 1954, tók ekkert mið af gömlu altaristöflunni og henni var komið fyrir uppi í turni til geymslu. Tveir forkunnargóðir ljósahjálmar eru í kirkjunni, ljósahjálmur Steinakirkju undir Eyjafjöllum í kór, en í framkirkju er hangandi hjálmur Skógakirkju frá því um 1600. Í klukknaporti hanga tvær klukkur, önnur frá Ásum í Skaftártungu, talin frá 1742, hin frá því um 1600 úr Höfðabrekkukirkju í Mýrdal. Henni var bjargað undan Kötlugosi 1660.

Gamla skólahúsið var upprunalega byggt á Vatnsskarðshólum í Mýrdal 1901 og flutt að Litla-Hvammi árið 1903. Árið 1907 var það hækkað um 50 sm og gluggar stækkaðir til að veita meiri birtu inn á þeim tímum, sem berklar geisuðu í landinu. Sams konar skólahús stendur enn þá við Múlakot á Síðu (1907) og annað, frá Deildará í Mýrdal, var flutt upp á Höfðabrekkuafrétt og þjónar sem gangamannaskýli.

Smiðja Tómasar Þórðarsonar frá Vallnatúni í Selkoti endurreist eftir að hann koma að Skógum 1959 og mikið notuð við járnsmíðar. Lokið við húsið að utan 2002 og það er nú hluti af torfbæjarsamstæðunni, (Dánardagur Tómasar var 27. janúar 2022).

Skógasafn er opið daglega júní til ágúst 09:00 -19:00. Í maí og september er opið 10:00 – 17:00. Október til apríl er opið eftir samkomulagi.

Skógasandur er framburður hlaupa frá Sólheimajökli milli Skógaár og Jökulsár á Sólheimasandi. Stórt flæmi var grætt upp og nýtist mörgum bæjum til heyskapar. Þar er jafnframt flugbraut. Á sínum tíma var þetta tún eitthvert stærsta samfellda sandgræðsluverkefnið. Nokkuð velfær vegur liggur alla leið til sjávar um austanverðan sandinn. Selalátur er á sandinum og oftast sjást selir í brimgarðinum. Skógabændur hafa löngum nýtt sér þessi hlunnindi.

Bus to Skogar

Myndasafn

Í grennd

Skógá
Skógá er vaxandi laxveiðiá. Unnið hefur verið að því að bæta hylji með grjóti og búa til búsvæði sem strax eru farin að gera gagn. Fiskirækt er skýrin…
Skóga og Sólheimasandur
Skógasandur, er framburður hlaupa frá Sólheimajökli milli Skógaár og Jökulsár á Sólheimasandi, sem sýnir okkur glöggt að það er mögulegt að gera gráu…
Skógafoss
Skógafoss (60m) er talinn meðal fegurstu fossa landsins. Í Skógaá, ofan Skógafoss, eru a.m.k. 20 aðrir fossar, margir fallegir, og það er auðgengt með…
Skógar
Austustu bæir undir Eyjafjöllum eru Eystri- og Ytri-Skógar. Þar hóf héraðsskóli Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga starfsemi 1949. Þar er sundhöll og s…
Suðurland, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Hveragerði til Hafnar í Hornafirði. Suðurland er bæði fjöl- og strjálbýlt. Milli Hafnar og Markarfljóts er landrý…
Torfbæir og torfkirkjur
Nokkrir torfbæir á landinu Íslenski torfbærinn á sér sögu sem einstæð er í heiminum og er ekki rannsökuð til fulls. Torfbærinn er í raun þyrping húsa…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )