Hella á Njáluslóð
Hella á Rangárvöllum er kauptún á bökkum Ytri-Rangár. Þorpið byggðist upp á þjónustu við landbúnaðinn og þar er nú verzlun, iðnaður og góð ferðaþjónusta. Aðstaða er þar til fyrirmyndar fyrir hestamenn á Gaddstaðaflötum og þykir mikil upplifun að vera þar á hestamannamóti. Þar er haldin mikil fjölskylduhátíð „Töðugjöld” í júlí ár hvert. Hella er á „Njáluslóð”, mikið um merka sögustaði úr Njálu í grenndinni og boðið er upp á ferðir á Njáluslóðir með góðri leiðsögn frá Njálusetrinu á Hvolsvelli. Dagana 17. og 21. júní árið 2000 riðu yfir jarðskjálftar, sem áttu upptök rétt norður af Hellu,norðantil í Landsveit og rétt við vegamót Skeiða og þjóðvegar #1. Nokkrar skemmdir urðu á mannvirkjum, u.þ.b. 40 hús gjöreyðilögðust en ekkert manntjón varð. Skjálftarnir mældust 6.5 stig á Richter. Rangárnar eru með fengsælustu laxveiðiám landsins og eru leyfi til veiða í þeim seld við verði sem flestir ráða við.
Góður flugvöllur er við Hellu og halda svifflugmenn gjarnan landsmót sín þar enda aðstaða til svifflugs afar góð. Hótel- og gistiaðstaða er góð á Hellu og fjölbreyttar veitingar í boði.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 90 km.