Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Keldur

Keldur eru stórbýli og kirkjustaður á Rangárvöllum. Þær voru í Keldnaþingum, sem voru aflögð 1880 og  samtímis var sóknin færð að Odda. Katólskar kirkjur voru helgaðar Páli postula. Járnvarin timburkirkja, sem nú stendur þar, var byggð 1875. Frumkvöðull byggingar hennar var Guðmundur Brynjólfsson, bóndi á Keldum, og yfirsmiður var Halldór Björnsson frá Felli í Mýrdal. Kirkjan er fremur lítil, enda er söfnuðurinn lítill. Gert var við kirkjuna á árunum 1956-57. Þá var steyptur grunnur undir hana og henni lyft og settir voru steindir gluggar í hana. Gréta og Jón Björnsson skreyttu og máluðu kirkjuna. Hjörtur Oddsson, snikkari og bóndi í Eystri-Kirkjubæ, smíðaði prédikunarstólinn, altarið og ljósaarma og ártalið 1875, þegar kirkjan var byggð.

Eldri altaristafla (Kvöldmáltíðin; Ámundi Jónsson, snikkari í Syðra-Langholti), frá 1792 er þar líka, auk nýrrar (eftir danskan málara), sem ber heitið Eitt er nauðsynlegt. Á hliðarveggjum eru 15 vegglampar úr birki, sem Elías Tómasson á Uppsölum í Hvolhreppi smíðaði. Báðum megin altaristöflunnar hanga tvö líkneski úr katólskri tíð. Þau tákna Maríu guðsmóður með Jesúbarnið og Pál postula. Tvíarma koparstjaki úr kopar er kominn úr Leirubakkakirkju í Landssveit, sem var lögð niður 1765. Oblátuöskurnar úr tré eru gamlar, svo og kaleikurinn, patínan og eirskírnarfatið. Klukkurnar þrjár eru frá árunum 1523, 1583 og 1602.

Þar sem gamli bærinn stendur undir hraunbrúninni, koma upp miklar uppsprettur, sem staðurinn dregur nafn af. Þessi merking orðsins kelda – keldur er horfin úr málinu, en kemur fram í nokkrum örnefnum. Svæðið norðan og innan Keldna er allt auðnin ein, sandorpnir hraunflákar, þar sem var fyrrum blómleg byggð. Keldnaland er u.þ.b. 20 km langt frá na til sv og allt að 8 km breitt.

Þetta land tilheyrði áður 3-4 jörðum með mörgum hjábýlum. Allt fram undir 1880 voru þarna velgrónar heiðaspildur. Allt að 18 bæjarrústir hafa verið taldar í Keldnalandi. Þær segja sína sögu, þótt nöfn bæjanna séu týnd að hluta. Nokkur örnefnanna bera með sér sögulandkosta, s.s. Eldiviðarhraun, Skógshraun, Kolviðarhraun og Laufflatahraun. Fróðlegar upplýsingar er að finna í mörgum ritgerðum um Keldur og bók um staðinn var gefin út árið 1949 (Vigfús Guðmundsson). Allt frá aldamótunum 1900 og fram á 20. öldina tókst Skúla Guðmundssyni (1862-1946) ásamt sonum sínum að verja jörðina fyrir sandfokinu. Sandfoksvarnirnar eru mikil mannvirki og hafa vakið aðdáun og athygli. Hvergi á landinu hefur verið barizt við náttúruöflin með slíkum árangri.

Samkvæmt Njálu var Keldnabóndi Ingjaldur Höskuldsson, sem brást Flosa í aðförinni að Bergþórhvoli. Oddaverjar áttu þar síðar eitt höfuðbóla sinna og Jón Loftsson bjó þar síðustu æviárin og þar mun hann grafinn. Hann stofnaði klaustur á Keldum, en það varð skammlíft. Steinvör Sighvatsdóttir, Sturlusonar, var þar húsfreyja á 13. öld. Hún var vel virt og átti meira undir sér en títt var um konur á þeim tímum.

Skálinn á Keldum er mjög forn, elzta bygging sinnar gerðar á landinu. Keldnabærinn er til sýnis og þar er minjasafn og jarðgöng, sem talin eru vera frá söguöld. Síðustu árin fyrir aldamótin 2000 var unnið að endurbótum á gamla bænum og fornleifafræðingar komust að nýjum sannindum um framangreind gong. Það er vel þess virði að leggja lykkju á leið sína til að komast aftur til fortíðar í sérstakri stemmningu Keldna.

RANGÁRKUML
Fornmannakumlanna, 2½ km austan Keldna á Rangárvöllum, var fyrst getið í upphafi 19. aldar. Þau eru báðum megin núverandi leiðar um Miðveg. Margir menn voru greinilega grafnir á öðrum staðnum, þar sem fundust m.a. bronskringla, hringamél, hóffjöður, skeifa og þrjú spjót. Í hinu kumlinu, sem er í Árholtsbrún, fundust engin verðmæti önnur en útskorinn beinhólkur með myndum af tveimur hjartardýrum að bíta trjálauf. Kristján Eldjárn gerði því skóna í bókinni „Gengið á reka”, að þarna væri e.t.v. kominn sönnun fyrir bardaganum við Knafahóla, sem Gunnar og Kolskeggur lentu í samkvæmt Njálssögu. Síðar dró Kristján í land með þessa kenningu í doktorsritgerð sinni.

Fjallabak syðri hefst við Keldur á Rangárvöllum, sé ekið til austurs.

Myndasafn

Í grennd

Fjallabak Syðra Miðvegur
Þessi leið tengir Rangárvelli og Skaftártungu. Hún hefst við Keldur á Rangárvöllum, sé ekið til austurs. Þaðan er haldið upp með Eystri-Rangá um Laufa…
Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Hvolsvöllur
Hvolsvöllur á Suðurlandi Hvolsvöllur er kauptún í austanverðri Rangárvallasýslu, sem fór að byggjast á fjórða áratugi 20. aldar, þegar brýr voru komn…
Keldnakirkja
Keldnakirkja er í Oddaprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi. Keldur voru í Keldnaþingum, sem voru  1880 og samtímis var sóknin færð að Odda. Katólska…
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Suðurland, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Hveragerði til Hafnar í Hornafirði. Suðurland er bæði fjöl- og strjálbýlt. Milli Hafnar og Markarfljóts er landrý…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )