Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hekla

Hekla
Hekla séð frá Rangárvöllum

Eldfjallið Hekla

Hekla stendur á u.þ.b. 40 km langri gossprungu með na og sv stefnu, en sjálft fjallið er nærri 5 km langt. Hæð þess losar 1500 m og er það talið 12 hæsta fjall Íslands. Talið er að eldfjallið sé 6000-7000 ára og telst það ungt að árum, því að jarðfræðingar álíta að megineldstöðvar verði allt að 100 þúsund ára. Líklega eru Heklugos orðin rúmlega 20 á sögulegum tíma og nálægt 25 sinnum hefur gosið í umhverfi þess. Fyrsta gos, sem getið er um, var árið 1104, þegar alla byggð tók af í Þjórsárdal og á Hrunamannaafrétti. Eitt stærsta gosið varð árið 1300, þegar fjallið rifnaði að endilöngu og gosdrunur heyrðust alla leið norður í land. Myrkur um miðjan dag náði alla leið norður, þannig að enginn þorði á sjó. Bæir féllu í jarðskjálftum og mannfall og harðindi fylgdu þessu gosi, sem stóð í heilt ár. Árið 1510 þeytti Hekla steinum svo langt, að einn slíkur varð mannsbani í 45 km fjarlægð. Í stórgosi árið 1693 sáust 14 gígar gjósa samtímis. Þá lögðust 50 bæir í eyði um tíma og einn endanlega, Sandártunga í Þjórsárdal.

Enn eitt stórgosið, sem stóð með hléum í tvö ár, varð 1766 og 18 eldstólpar sáust þá í einu. Gosið 1845 stóð í 7 mánuði. Árið 1947 gaus í þrettán mánuði óslitið. Gosmökkurinn mældist 30 km hár strax í byrjun gossins. Alls komu upp 1 km³ gosefna og hraun huldu 40 km² lands. Steinþór Sigurðsson, mag. scient., (1901l947) varð fyrir hraunhnullungi við hraunjaðar og lézt. Skjólkvíagosið hófst 1970 (5. maí – júlíbyrjun). Talsvert hraun rann og öskfall spillti afrétti verulega (bar á fluoreitrun). Smágos urðu árin 1980, 1981, 1991 og kl. 18:18 26. febrúar 2000 hófst síðasta gosið. Sjö km löng sprunga eftir fjallinu endilöngu opnaðist og hraunið flæddi til austurs. Hraunflóðin runnu í fyrstu niður austurhlíðarnar og náðu niður á láglendið umhverfis fjallið innan klukkustundar frá upphafi gossins. Þessu gosi lauk 8. marz 2000.

Veðurstofan gaf út viðvörun um yfirvofandi Heklugos kl. 17:40 byggða á jarðskjálftamælingum. Hinn 1. marz gaus í einum gíg í suðausturhlíðinni og talið var að hraunbreiðurnar væru orðnar 18 km². Öskufalls gætti fyrst fyrir norðan, allt út í Grímsey, og síðan lagði mökkinn yfir Mýrdalsjökul. Talið er, að gosmökkurinn hafi náð 13 km hæð. Opinber goslok voru tilkynnt 8. marz. Hekla er eitt af þekktustu eldfjöllum heims. Evrópubúar miðalda töldu hana annan tveggja hliða helvítis (hitt var Stromboli). Margar furðusögur gengu um fjallið og enginn treysti sér til að klífa það fyrr en Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gerðu það fyrstir manna 20. júní 1750. Þeir fundu ekkert yfirnáttúrulegt. Nú er Hekla klifin í tíma og ótíma. Auðveldust er hún uppgöngu að norðanverðu. Á góðum degi er útsýni hreint ótrúlegt af Heklutindi

Krakatindur (1025m; móberg) er norðaustan Heklu. Árið 1878 gaus vestan og norðan hans og Nýjahraun, sem nær norður undir Valahnúka, varð til. Þessi gos voru stutt, aðeins einn mánuður. Vegurinn liggur með jaðri þess.

Rauðöldur (481m) er skeifulaga eldhryggur úr rauðleitri gosmöl, gjalli og kleprum við suðvesturrætur Heklu. Inni í honum er stórmerkilegur eldgígur, sem opnast til suðvesturs. Tvö hraun hafa runnið frá þessum slóðum, Efrahvolshraun (minna) rann til vesturs og Selsundshraun hið nyrðra. Efsti hluti þess er kallaður Pæla. Þetta hraun rann út yfir allan dalinn milli Selsunds og Rauðaldna. Undir vesturjaðri þess er skógi vaxin lág, Oddagljúfur, sem var líklega skógarítak frá Odda. Hraunin eru ungleg, þótt þau séu allvel gróin, og gætu því frá sögulegum tíma.

Selsund undir Selsundsfjalli (682m) er í næsta nágrenni Heklu á Rangárvöllum. Hraun hafa runnið beggja vegna fjallsins og bæjarins (Norður- og Suðurhraun). Líklega er Skarð eystra undir Suðurhrauni. Hekla er sögð fegurst frá Selsundsvöllum, þaðan sem Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson lögðu af stað í Heklugönguna 20. júní 1750. Selsundslækur er vatnsmikil lindá, sem rennur um Svínhaga, þar sem eru 25°-30°C heitar laugar, hinar einu í næsta nágrenni eldfjallsins. Árið 1912 myndaðist mikið misgengi í jarðskjálfta (allt að 4 m).

Hekla 1947

Landsins gamla fanna frú,
fækkar siðir góðir,
annara þjóða ertu nú
orðin tengdamóðir.

Margan áttu fagran feld feld,
fjör í æðalínum.
Þú berð lítinn ástarfeld
undir brjóstum þínum.

Trúin á þig verður veik,
valt er stundargaman.
Þú hefur í lausaleik
lifað árum saman

SKRÁ YFIR HEKLUGOS

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur sendi frá sér skrá um Heklugos árið 1968 og samkvæmt henni er hægt að skipta allt að 7000 ára gossögu megineldstöðvarinnar í þrjú tímabil:

1. Virkni á sprungukerfum sunnan og suðaustan núverandi stöðu fjallsins.
2. Súra þeytigosvirkni, sem náði hámarki á tímabilinu 2000 fyrir Kristsburð og fram að fæðingu frelsarans.
3. Tímabil blandgosvirkni, sem myndaði ísúr hraun og blágrýti, þ.m.t. stórgosið 1104.

Hekla strain station
Mynd© Matthew J. Roberts Þenslumælir við Heklu.

„Af þeim þrjátíu eldstöðvum sem teljast virkar á Íslandi er Hekla ein sú virkasta og mögulega sú hættulegasta. Í þessari samantekt er gerð grein fyrir þeirri ógn sem kann að stafa af næsta Heklugosi og hvernig Veðurstofan vaktar Heklu og
nágrenni hennar.“

 

Myndasafn

Í grennd

Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Fjallabak nyðra Landmannaleið
Skaftfellingar nefna þessa leið Fjallabaksveg og telja það eldra og réttara. Hún liggur á milli Landsveitar og Skaftártungu norðan Heklu og Torfajökul…
Leirubakki
Leirubakki á Landi er gömul jörð og höfuðból að fornu og nýju. Staðarins getur víða í fornum sögum, svo   sem Byskupasögum og Sturlungu og á bænum var…
Mesta eldgos Jarðar
Mesta eldgos, sem sögur fara af á jörðinni, varð á eyjunni Sumabawa, þegar eldfjallið Tambora sprakk í loft upp. Aska og brennisteinsgas þeyttist upp …
Þjórsárdalur
Sagt er að Þjórsárdalur hafi verið í byggð frá landnámi til stórgoss Heklu árið 1104, þegar byggðin eyddist næstum alveg í dalnum. Þjóðveldisbærinn v…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )