Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hekla

Hekla
Hekla séð frá Rangárvöllum

Eldfjallið Hekla

Hekla stendur á u.þ.b. 40 km langri gossprungu með na og sv stefnu, en sjálft fjallið er nærri 5 km langt. Hæð þess losar 1500 m og er það talið 12 hæsta fjall Íslands. Talið er að eldfjallið sé 6000-7000 ára og telst það ungt að árum, því að jarðfræðingar álíta að megineldstöðvar verði allt að 100 þúsund ára. Líklega eru Heklugos orðin rúmlega 20 á sögulegum tíma og nálægt 25 sinnum hefur gosið í umhverfi þess. Fyrsta gos, sem getið er um, var árið 1104, þegar alla byggð tók af í Þjórsárdal og á Hrunamannaafrétti. Eitt stærsta gosið varð árið 1300, þegar fjallið rifnaði að endilöngu og gosdrunur heyrðust alla leið norður í land. Myrkur um miðjan dag náði alla leið norður, þannig að enginn þorði á sjó. Bæir féllu í jarðskjálftum og mannfall og harðindi fylgdu þessu gosi, sem stóð í heilt ár. Árið 1510 þeytti Hekla steinum svo langt, að einn slíkur varð mannsbani í 45 km fjarlægð. Í stórgosi árið 1693 sáust 14 gígar gjósa samtímis. Þá lögðust 50 bæir í eyði um tíma og einn endanlega, Sandártunga í Þjórsárdal.

Enn eitt stórgosið, sem stóð með hléum í tvö ár, varð 1766 og 18 eldstólpar sáust þá í einu. Gosið 1845 stóð í 7 mánuði. Árið 1947 gaus í þrettán mánuði óslitið. Gosmökkurinn mældist 30 km hár strax í byrjun gossins. Alls komu upp 1 km³ gosefna og hraun huldu 40 km² lands. Steinþór Sigurðsson, mag. scient., (1901l947) varð fyrir hraunhnullungi við hraunjaðar og lézt. Skjólkvíagosið hófst 1970 (5. maí – júlíbyrjun). Talsvert hraun rann og öskfall spillti afrétti verulega (bar á fluoreitrun). Smágos urðu árin 1980, 1981, 1991 og kl. 18:18 26. febrúar 2000 hófst síðasta gosið. Sjö km löng sprunga eftir fjallinu endilöngu opnaðist og hraunið flæddi til austurs. Hraunflóðin runnu í fyrstu niður austurhlíðarnar og náðu niður á láglendið umhverfis fjallið innan klukkustundar frá upphafi gossins. Þessu gosi lauk 8. marz 2000.

Veðurstofan gaf út viðvörun um yfirvofandi Heklugos kl. 17:40 byggða á jarðskjálftamælingum. Hinn 1. marz gaus í einum gíg í suðausturhlíðinni og talið var að hraunbreiðurnar væru orðnar 18 km². Öskufalls gætti fyrst fyrir norðan, allt út í Grímsey, og síðan lagði mökkinn yfir Mýrdalsjökul. Talið er, að gosmökkurinn hafi náð 13 km hæð. Opinber goslok voru tilkynnt 8. marz. Hekla er eitt af þekktustu eldfjöllum heims. Evrópubúar miðalda töldu hana annan tveggja hliða helvítis (hitt var Stromboli). Margar furðusögur gengu um fjallið og enginn treysti sér til að klífa það fyrr en Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gerðu það fyrstir manna 20. júní 1750. Þeir fundu ekkert yfirnáttúrulegt. Nú er Hekla klifin í tíma og ótíma. Auðveldust er hún uppgöngu að norðanverðu. Á góðum degi er útsýni hreint ótrúlegt af Heklutindi

Krakatindur (1025m; móberg) er norðaustan Heklu. Árið 1878 gaus vestan og norðan hans og Nýjahraun, sem nær norður undir Valahnúka, varð til. Þessi gos voru stutt, aðeins einn mánuður. Vegurinn liggur með jaðri þess.

Rauðöldur (481m) er skeifulaga eldhryggur úr rauðleitri gosmöl, gjalli og kleprum við suðvesturrætur Heklu. Inni í honum er stórmerkilegur eldgígur, sem opnast til suðvesturs. Tvö hraun hafa runnið frá þessum slóðum, Efrahvolshraun (minna) rann til vesturs og Selsundshraun hið nyrðra. Efsti hluti þess er kallaður Pæla. Þetta hraun rann út yfir allan dalinn milli Selsunds og Rauðaldna. Undir vesturjaðri þess er skógi vaxin lág, Oddagljúfur, sem var líklega skógarítak frá Odda. Hraunin eru ungleg, þótt þau séu allvel gróin, og gætu því frá sögulegum tíma.

Selsund undir Selsundsfjalli (682m) er í næsta nágrenni Heklu á Rangárvöllum. Hraun hafa runnið beggja vegna fjallsins og bæjarins (Norður- og Suðurhraun). Líklega er Skarð eystra undir Suðurhrauni. Hekla er sögð fegurst frá Selsundsvöllum, þaðan sem Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson lögðu af stað í Heklugönguna 20. júní 1750. Selsundslækur er vatnsmikil lindá, sem rennur um Svínhaga, þar sem eru 25°-30°C heitar laugar, hinar einu í næsta nágrenni eldfjallsins. Árið 1912 myndaðist mikið misgengi í jarðskjálfta (allt að 4 m).

Hekla 1947

Landsins gamla fanna frú,
fækkar siðir góðir,
annara þjóða ertu nú
orðin tengdamóðir.

Margan áttu fagran feld feld,
fjör í æðalínum.
Þú berð lítinn ástarfeld
undir brjóstum þínum.

Trúin á þig verður veik,
valt er stundargaman.
Þú hefur í lausaleik
lifað árum saman

SKRÁ YFIR HEKLUGOS

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur sendi frá sér skrá um Heklugos árið 1968 og samkvæmt henni er hægt að skipta allt að 7000 ára gossögu megineldstöðvarinnar í þrjú tímabil:

1. Virkni á sprungukerfum sunnan og suðaustan núverandi stöðu fjallsins.
2. Súra þeytigosvirkni, sem náði hámarki á tímabilinu 2000 fyrir Kristsburð og fram að fæðingu frelsarans.
3. Tímabil blandgosvirkni, sem myndaði ísúr hraun og blágrýti, þ.m.t. stórgosið 1104.

Hekla strain station
Mynd© Matthew J. Roberts Þenslumælir við Heklu.

„Af þeim þrjátíu eldstöðvum sem teljast virkar á Íslandi er Hekla ein sú virkasta og mögulega sú hættulegasta. Í þessari samantekt er gerð grein fyrir þeirri ógn sem kann að stafa af næsta Heklugosi og hvernig Veðurstofan vaktar Heklu og
nágrenni hennar.“

 

 


Glögt er gest auga!!
ÍSLANDSFERÐ 1973

JOACHIM DORENBECK
Frá Búrfellstöð að tindum Heklu.

Innskot Birgir Sumarliðason

Rútan stanzaði við mötuneyti Búrfellsstöðvar, þegar klukkan var farin að ganga tíu um kvöldið. Við vorum einu farþegarnir, sem eftir voru í bílnum. Við ætluðum að afla okkur upplýsinga um beztu uppgönguleiðina á fjallið hjá íbúum staðarins eins og vingjarnlega stúlkan á ferðaskrifstofunni hafði ráðlagt okkur.

Við skildum bakpokana okkar eftir uppi við vegginn á matsalnum og gengum í gegnum dyr, beint inn í eldhúsið. Í næstu tilraun fundum við anddyrið. Þar var fatahengi, nokkrar yfirhafnir og jafnmörg pör af skóm í snyrtilegri röð uppi við vegginn. Við hengdum upp flíkur okkar, fórum úr skónum og gengum inn í tandurhreinan matsalinn á sokkaleistunum.

Einu ráðin, sem við fengum, komu frá ungum manni, sem talaði með amerískum hreimi. Hann stakk upp á því, að við ræddum við starfsfélaga hans í ísturninum við Þjórsá. Þeir vissu allt um Heklu. Við gátum hvort sem er ekki séð fjallið héðan frá vinnubúðunum, þar sem Búrfell skyggir á. Hann benti okkur á veg, sem lá upp fjallshlíðina rétt norðan við búðirnar. Við mundum ekki missa af turninum, ef við færum þar upp.

Ég áræddi að spyrja, hve langt væri að ísturninum, hálftími eða svo? „Það er rétt”, svaraði hann að bragði, „u.þ.b. hálftími.”

Hálftíma síðar vorum við komnir upp á brún og sáum ekkert sem líktist turni. Við sáum ljósaröð í fjarska við ána. Í kíkinum sá ég flóðlýsta stíflu og turn lengra í burtu en við þorðum að gizka á. U.þ.b. hálftíma! Vinur okkar í matsalnum hlýtur að eiga sjömílnaskó!

Klukkan var langt gengin í tólf, þegar við komum að íbúðarhúsi okkar megin stíflunnar. Við kíktum í gegnum rifu á gluggatjöldunum og sáum að þetta var bæði skrifstofa og svefnskáli. Enginn kom til dyra þar fremur en í turninum. Það var enga sálu að sjá og einu hljóðin, sem við heyrðum, var vatnsniðurinn frá stíflunni. Í suðaustri þrumdi snævi þakið eldfjallið og bar við dökkan himininn. Engin merki sáust þar um eldvirknina fyrir nokkrum árum, þegar eldárnar streymdu frá gígunum. Það var næstum alskýjað og blankalogn. Eina fýsilega tjaldstæðið fyrir okkur var á grasbletti á milli íbúðarhúsins og skúrs úr steinsteypu.

Við vorum enn þá að bræða það með okkur, hvort við ættum að tjalda þar, þegar Jean varð var við tvær verur, sem komu gangandi í áttina að stíflunni handan árinnar. Vonir okkar um að hitta loksins starfsmennina í ísturninum brustu, þegar þær komu nær. Þetta var ungur maður í sandölum með Coca-Colahúfu og stúlkan hans, sem komu ýtandi reiðhjóli á undan sér. Þau ferðuðust létt og það litla, sem þau höfðu af farangri, var bundið á hjólið. Stúlkan spurði, hvort við vissum af verzlun í grenndinni. Við sögðum þeim, að það væri mötuneyti í 5 km fjarlægð, en það virtist ekki gleðja þau. Af málfarinu að dæma var hún ensk. Strákurinn sagði bara eitthvað, sem hljómaði eins og „merci”, þegar við buðum þeim vindlinga. Eftir nokkurt hik þáði stúlkan dós af næringardufti hjá Jean og þau hurfu með hjólið á bak við skúrinn.

Við vorum búnir að yfirvinna feimnina við að tjalda á grasinu, þegar stúlkan kom aftur að sækja vatn í kranann við húsið. „Þið ætlið þá að tjalda”, sagði hún og leit á tjöldin. Hvernig skyldu þau ætla að eyða nóttinni, hugsaði ég með mér. Við höfðum ekki hugmynd um það fremur en hvaðan þau komu eða hvert þau fóru. Blómabörnin bar ekki fyrir augu okkar aftur.

Morguninn eftir sáum við pallbíl fyrir utan húsið. Jean hafði heyrt hann renna í hlaðið um eittleytið eftir miðnætti. Það sást ekkert lífsmark bak við gluggatjöldin. Heklusérfræðingurinn okkar var greinilega sofandi enn þá.

Á meðan við undirbjuggum morgunverðinn kom maður út til að lesa af veðurathugunartækjunum. Ég fór til móts við hann til að biðjast afsökunar á tjöldunum okkar á grasbalanum.

„Góðan dag”, sagði ég og hikaði andartak.

Engin viðbrögð.

„Við biðjumst afsökunar á tjöldunum okkar á flötinni ykkar. Við fundum engan annan stað í gærkvöld og það var enginn heima til að biðja leyfis. Við verðum farnir eftir hálftíma.”

„Allt í lagi”, sagði maðurinn án þess að líta upp.

Þetta var greinilega ekki bezti tíminn til að fitja upp á samræðum um beztu leiðina á Heklu. Ég dró mig hljóðlega í hlé og hélt áfram að hræra í hafragrautnum mínum. Það hljóta að hafa verið alvarleg mistök að tjalda á flötinni.

Ég var í miðjum klíðum með morgunverðinn, þegar Jean kom askvaðandi frá vatnskrananum og bað um landakortið. „Gaurinn er u.þ.b. að fara aftur í bílnum”, sagði hann og hljóp til baka veifandi kortinu.

Stuttu síðar ók pallbíllinn brott í rykskýi. „Hann veit svosem ekki mikið um Heklu”, sagði Jean. „Hann kann heldur ekki að lesa á kort. Hann sá ekki einu sinni, að stíflan hérna er ekki á kortinu.”

Við sjálfir áttuðum okkur ekki á þessu fyrr en skömmu áður. Kortið, sem við vorum með, var það skásta, sem við fundum með mælikvarðann 1:50.000, gert af dönsku landmælingunum árið 1907 og endurskoðað af Landmælingum Íslands 1971. Efst í horninu til vinstri var Búrfell með 13 km löngum kafla af Þjórsá. Við höfðum ekki haft mikið fyrir því, að skoða kortið, þar sem við bjuggumst við aðstoð kunnugra á staðnum.

Nú vorum við aleinir með kort frá danska herforingjaráðinu og áætluðum, að við værum tveimur kílómetrum norðan við það og loftlína upp á hæsta tind Heklu væri nálægt 14 km. Hæðarmunurinn virtist vera u.þ.b. 1250 m. Við fórum að reikna. Okkur var óhætt að bæta við sömu vegalengd til baka að stíflunni plús þriðjungi af heildarvegalengdinni vegna króka plús 5 km að vinnubúðunum, þar sem rútan stanzaði. Vandinn við raunsæja útreikninga er sá, að þeir draga oftast kjarkinn úr fólki.

Við tókum niður tjöldin og reyndum að reisa bælt grasið upp aftur með höndunum. Klukkutíma síðar hefði Sherlock Holmes ekki getað fundið merki þess, að þar hefðu staðið tjöld.

Þá vorum við komnir langleiðina að hrauninu, sem rann 1970. Við fylltumst æ meiri lotningu fyrir náttúruöflunum eftir því, sem við nálguðumst það. Við hefðum sjálfsagt, án þess að vita betur, hreykt okkur af því að hafa séð og gengið um hraun af öllum gerðum, ef við hefðum ekki skoðað Hekluhraunin. Okkur hefði tæpast getað skjátlazt meira. Þetta hraun er svo gróft og ójafnt, að mig skortir orð til að lýsa því. Mér dettur einna helzt í hug alger óreiða og ég hafði á tilfinningunni, að orðið „óreiða“ fengi nýja og dýpri merkingu en ég hafði lagt í það áður. Liturinn var mjög dökkbrúnn og hver steinn í hrauninu var ekki minni en stór flygill. Þessum steinum var haugað upp í hæð á við tveggja hæða hús. Hrauntungan var u.þ.b. 7 km löng og breiðust 3 km. Við handlékum steinana varlega. Þeir voru grófari en grófasti sandpappír.

Að myndatöku lokinni gengum við meðfram vesturjaðri hraunsins og fórum yfir nokkrar hæðir í suðurátt. Þaðan sáum við greinilega eldkeilurnar á norðuröxlinni, upptök hraunsins. Þær voru misstórar og mislitar, rauðar, gular og jafnvel með grænum blæ. Tindurinn var enn þá í 8 km fjarlægð en hafði blasað við allan tímann, þrátt fyrir nafnið.

Okkur varð ljóst, að við hefðum líklega valið ranga leið upp á tindinn, því að leiðin austur með hrauninu upp á norðuröxlina virtist miklu greiðari og þægilegri en sú, sem við vorum á. Sennilega höfðum við tekið rangan pól í hæðina. Það var mjög erfitt að fara yfir nýja hraunið til að komast á hina leiðina, þótt það væri ekki nema 500 m breitt þarna. Það hefði bæði tekið langan tíma og slysahættan var mikil.

Því snérum við til hægri og gengum meðfram hæðunum, sem teygðust til suðvesturs, og virtust hafa virkað sem varnargarður gegn hraunstraumum og beint þeim í átt frá byggðu bóli. Þegar við komum að litlu dalverpi á vinstri hönd, gengum við niður á dökka vikrana í dalbotninum og yfir hæðina sunnan hans. Hlíðin hinum megin var hlíðin svo brött, að við renndum okkur fótskriður niður hana í lausum sandi og vikri. Þar tók við þröngt skarð, stráð stórum steinum, á milli hraunsins frá 1766/68 og hlíðarinnar. Hærra uppi vógu stór björg salt og virtust í þann mund að rúlla niður. Ég var feginn því, að Erica gat ekki séð framfæranda fjölskyldunnar á róli neðan þeirra. Jean var að hugsa eitthvað svipað og sagðist gruna mig um að hirta afkvæmi mín rækilega, ef ég sæi þau gera það, sem við vorum að gera.

Við gátum ekki snúið til suðurs í átt að Heklu fyrr en við komumst út fyrir hraunarminn. Þaðan voru u.þ.b. 6 km upp á tindinn en við höfðum lítið hækkað okkur til þessa. Undirhlíðarnar voru handan sléttunnar, sem við vorum að ganga út á. Yfirborðið var dökkur vikur, svolítið mjúkur undir fæti sums staðar og minnti okkur á Ódáðahraun. Sem betur fer þurfti ég ekki að draga neina kerru hérna og byrðar okkar voru mjög léttar þessu sinni. Himinninn var orðinn alskýjaður. Það hafði líka kólnað og við höfðum vindinn í fangið.

Stórt bjarg við rætur fjallsins veitti okkur skjól á meðan við settumst niður og mauluðum nokkrar stangir af Virareal áður en lagt yrði á brattann. Uppgangan yfir lagskipt hraun með smágróðri var ekki erfið en tók langan tíma. Brátt vorum við komnir í kapphlaup við tímann. Við fórum fram hjá smágígkeilu. Hún var múrsteinsrauð og náði okkur í hné. Hægt og bítandi nálguðumst við snjóskaflana, sem teygðust niður norðurhlíð fjallsins.

Klukkan var orðin hálfsjö, þegar við komum loks að snjónum. Þar settumst við niður í skjóli við stóran stein og fengum okkur heitt te. Toppgígurinn var ekki í sjónmáli, en var ekki nema í tveggja kílómetra fjarlægð. Því miður segja vegalengdir ekki alla söguna í fjallgöngu. Þótt tindurinn væri svona nærri, vorum enn þá 800 m neðan hans. Beina leiðin upp lá yfir svo bratta fönn, að fótabúnaður okkar dugði ekki til að glíma við hana. Fær leið virtist vera lengra til suðausturs. Hún lá upp á öxlina milli tindsins og Rauðukamba og þaðan í suðvestur alla leið upp. Okkur taldist til, að þetta væri u.þ.b. 6 km leið, sem við vorum allsendis ókunnir og lá að hluta til yfir snjó. Það gat tekið okkur 4 klst. að komast alla leið upp.

Við veltum þessu fyrir okkur í skjóli við steininn með tefantana í höndum. Það yrði allrökkvað, þegar við kæmum á tindinn. Það var áríðandi að við næðum rútunni kl. 09:00 morguninn eftir við Búrfellsstöð, því að við vorum búnir að mæla okkur mót í Reykjavík síðdegis. Þess vegna kom ekki til greina að tjalda á fjallinu. Það væri heldur ekkert tilhlökkunarefni að paufast niður fjallið í myrkri, jafnvel þótt veðrið héldist gott. Hætturnar samfara því voru ekki í neinu samræmi við hégómagirnd okkar. Það er kostur að velta hlutunum fyrir sér á raunsæjan hátt áður en ganað er út í ófærurnar, hvort sem þær eru áþreifanlegar eða ekki.

Strax og við höfðum tekið ákvörðun, leið okkur mun betur, þótt við værum langt í frá ánægðir með niðurstöðurnar. Við nutum samt dásamlegs útsýnisins til Langjökuls og Hofsjökuls, sem voru í 60 – 70 km fjarlægð inni á hálendinu. Við drápum í sígarettunum og lögðum af stað niður fjallið. Við vorum ábyggilega að gera rétt.

Innan tíðar var Jean kominn á fullt skrið. Hann skeiðaði fótviss eins og fjallageit yfir ójafnt landslagið en ég kom á eftir á jöfnu róli eins og alvanur fjallagarpur, sem er nýbúinn að glíma við brattar hlíðar og snjó. Jafni hraðinn gerði mér kleift að skoða nánasta umhverfi mitt betur og ég fann nokkra óvenjulega litaða steina, sem ég stakk í vasann til að taka með heim.

Þegar við fórum um skarðið aftur, var orðið of dimmt til að taka myndir nema að hafa þrífót undir myndavélinni. Í stað þess að skríða upp bratta hlíðina, sem við höfðum rennt okkur niður fyrr um daginn, héldum við áfram á milli hrauns og hlíðar þar til við vorum króaðir á milli þverhnípis og hraunsins. Beint framundan var landslagið eins og í grjótnámu. Jean tók af sér bakpokann og lét sig síga niður. Hann teygði sig eftir pokunum, þegar hann var kominn niður, en þeir voru næstum of stórir til að komast á milli steinanna. Ég hefði tæpast komizt á eftir Jean á milli steinanna, ef ég hefði ekki grennzt verulega í Ódáðahrauni. Niðurförin þessa leiðina var alls ekki svo erfið, þótt Jean brygði svolítið, þegar steinn, sem hann stóð á í brattri hlíðinni lét undan og rúllaði niður.

Með síðustu hæðina að baki komum við að Grænavatni, sem við höfðum haft allfjarri á hægri hönd um morguninn. Það er hér um bil kringlótt í lögun tveir km í þvermál og ekkert aðrennsli á yfirborðinu. Þegar ég sá það um morguninn, minnti það mig strax á gígvötnin í Eifelfjöllunum í Þýzkalandi. Grænavatn er ábyggilega eitt slíkt. Það hvíldi einhver unaðsleg ró yfir auðnarlegu umhverfinu við vatnið þetta kvöld. Suðvestanáttin ýtti bárunum hratt hverri af annarri upp á malarkambinn í fjörunni og þær teygðu sig ærslafullar í áttina að skónum okkar, þar sem við gengum á vatnsbakkanum.

Það var farið að dimma, þegar við komumst út fyrir hrauntunguna. Því fylgdum við veginum til vesturs að Þjórsá og sprettum úr spori. Við komum að vegamótunum og beygðum í áttina að stíflunni. Skömmu eftir miðnætti þrömmuðum við yfir stíflubrúna. Þar var ekki sálu að finna fremur en kvöldið áður, svo að við settumst niður fyrir framan dyrnar á svefnskálanum og hvíldum okkur. Ekki hefðum við haft á móti bílferð niður að virkjuninni, en það var enga bíla að sjá og engin vélarhljóð heyrðust yfirgnæfa vatnsniðinn við stífluna.

Við gengum fram á bíl, sem kom á móti okkur, þegar við vorum miðleiðis að virkjuninni. Hann hægði á sér, þegar við komum inn í bílljósin, en jók síðan hraðann aftur. Við þekktum aftur pallbílinn og manninn frá ísturninum.

Það var orðið svo dimmt, að við sáum ekki hvert við vorum að fara. Jean fann aftur til sársauka í hnjánum. Ég heyrði hann bölva í hvert skipti, sem hann hrasaði við. Við héldum áfram alla leið niður að svefnskálum starfsmannanna, þar sem öll ljós höfðu verið slökkt og kyrrð ríkti yfir öllu. Við komum að matsalnum lokuðum okkur til vonbrigða, þótt við hefðum svosem búizt við því. Klukkan var næstum orðin tvö eftir miðnætti. Við höfðum gengið a.m.k. 40 km síðan morguninn áður og vorum orðnir of þreyttir til að hungrið bagaði okkur.

Það kom úðarigning. Það voru nokkur hundruð manns sofandi hérna undir þaki. Var hvergi pláss fyrir okkur á þurru gólfi? Það var hvergi ljós nema í sjálfri virkjuninni.

Aðalhurðin var læst. Jean hringdi dyrabjöllunni og fór að tala við einhvern í dyrasímanum. Röddin vissi ekki um nokkurn stað, sem við gætum fengið að sofa á undir þaki og ekki kom það til greina í sjálfri virkjuninni.

Glerskýlið framan við aðalinnganginn veitti gott skjól fyrir vindi og regni og það voru tvær þykkar mottur fyrir framan dyrnar. Þær virtust vera nokkuð hreinar og við vorum komnir á það stig, að vera ekki að setja smámuni fyrir okkur. Við lögðumst fyrir, notuðum dýnurnar okkar sem kodda og leið eins og umrenningunum í sögum Jack London. Ég hugsaði til unglinganna, sem við höfðum hitt fyrir sólarhring, og mundi eftir undrun okkar á ferðamáta þeirra. Sem ég var að sofna velti ég fyrir mér, hvort ég hefði nokkurn tíma hugrekki til að segja börnum mínum, að pabbi hefði sofið heila nótt á dyramottu.

Þetta var óþægileg nótt. Við vorum þakklátir fyrir að geta staðið upp til að rétta úr stífum limum, þegar fyrstu starfsmennirnir fóru að læðast á tánum í kringum okkur. Við gengum stirðir og stífir inn í mötuneytið í þeirri von að fá bolla af sjóðheitu kaffi. Eins og venjulega varð íslenzki kaffibollinn að heilli máltíð, fullkomnum morgunverði. Við fengum soðin egg, kalda steik, sultu, köku og skyr og svo gátum við þvegið okkur upp úr heitu vatni fyrir átið. Ég er ekki viss um að þátttaka okkar í veizlunni hafi verið samkvæmt ströngustu reglum staðarins. Hvað sem því leið vorum við eins og nýslegnir túskildingar, þegar við stóðum upp frá morgunverðarborðinu. Ég man ekki, hve mikið við borguðum stúlkunni bak við afgreiðsluborðið, en það var mjög lág upphæð. Við eignuðumst eina verðmæta minningu í viðbót um gott viðmót og gott fólk með hennar hjálp. Helzt hefði ég viljað faðma hana í þakklætisskyni en það hefði vafalaust líka verið brot á reglunum og ég vildi ekki byrja daginn á enn þá einum mistökunum.

Það var aðeins einn farþegi í rútunni, þegar hún lagði af stað. Hann leit á okkur með hálfgerðri vanþóknun. Ég gat ekki láð honum það, þegar Jean sagði mér, að hann hefði orðið að tipla a.m.k. tvisvar yfir flækingana við anddyri virkjunarinnar. Ég reyndi að forðast augnaráð hans og horfði út um gluggann á regnbarið landslagið.

Hekla hvarf smám saman sjónum. Tindurinn var hulinn þykkum skýjum.

Myndasafn

Í grend

Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Fjallabak nyðra Landmannaleið
Skaftfellingar nefna þessa leið Fjallabaksveg og telja það eldra og réttara. Hún liggur á milli Landsveitar og Skaftártungu norðan Heklu og Torfajökul…
Hellar í Landssveit
Hellar eru bær og hellar í Landssveit. Hellarnir eru þrír og hafa verið notaðir sem geymslur, hlaða, fjárhús o.fl. Þessir hellar eru manngerðir, höggn…
Leirubakki
Leirubakki á Landi er gömul jörð og höfuðból að fornu og nýju. Staðarins getur víða í fornum sögum, svo   sem Byskupasögum og Sturlungu og á bænum var…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )