Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Leirubakki

Leirubakki á Landi er gömul jörð og höfuðból að fornu og nýju. Staðarins getur víða í fornum sögum, svo   sem Byskupasögum og Sturlungu og á bænum var kirkja í sex aldir. Leirubakki er landstór jörð, eða hartnær þúsund hektarar og áður fyrr heyrðu undir jörðina hjáleigurnar Leirubakkahóll, Leirubakkahjáleiga, Réttarnes og Vatnagarður.

Fyrsta ritaða heimild sem fundist hefur um Leirubakka er kirknaskrá Páls Skálholtsbiskups frá því um 1200. Kirkja hefur verið á Leirubakka að minnsta kosti frá því um 1180, en þá kemur bærinn við sögu í deilum Jóns Loftssonar í Odda og Þorláks helga Skálholtsbiskups svo sem sagt er frá í Oddaverjaþætti Byskupasagna. Þá gerði Jón Loftsson Þorláki meðal annars fyrirsát er hann fór frá Leirubakka eftir að hafa verið þar “um nóttina í góðum fagnaði” eins og segir í Þorlákssögu.

Kirkja var á Leirubakka allt til ársins 1766 og framan af var þar prestur heimilisfastur. Í kaþólskum sið var kirkjan helguð Pétri postula. Kirkjugarðurinn er enn til og munir úr Leirubakkakirkju hafa varðveist.

Fyrsti þekkti eigandi Leirubakka er Kolskeggur hinn auðgi Dalverjagoði, sem lést 1223. Næst er vitað að Snorri Sturluson sagnaritari átti jörðina, en Hallveig kona hans var systurdóttir Kolskeggs. Á 14. og 15. öld voru margir þekktir eigendur og bændur á Leirubakka, svo sem Árni Ólafsson og síðar Björn Þorleifsson hirðstjóri og að honum látnum ekkja hans, Ólöf ríka. Á 17. öld voru eigendur staðarins Bjarni Sigurðsson, einn auðugasti maður landsins og síðar sonur hans Magnús Bjarnason sýslumaður sem bjó á Leirubakka 1634 til 1657. Í föðurætt var Magnús afkomandi Torfa hirðstjóra Jónssonar og einnig var hann fjórði maður frá Jóni Arasyni Hólabiskupi.

Leirubakka er víða getið í fornum skjölum, sögum og þjóðsögum. Til dæmis er til fleiri en ein skrá yfir allar eigur Leirubakkakirkju. Þá má nefna að Álfatún og Álfaþúfa eru örnefni heima við bæinn og er athyglisverða frásögn tengda þeim meðal annars að finna í Sagnaþáttum Guðna Jónssonar. Þá var Leirubakkadraugurinn svonefndi víða kunnur og alræmdur allt fram á 20. öld, en frá ýmsum uppátækjum hans eru til margar skráðar frásagnir.

Ferðaþjónusta hefur verið rekin á Leirubakka frá því um 1980, og þar er einnig stundaður búskapur; hrossarækt og sauðfjárrækt. Fé er rekið á fjall á Landmannaafrétt frá Leirubakka eins og gert hefur verið um aldir.

Um miðja 19. öld var nágrenni Leirubakka mjög þétt byggt en breytingar á högum bænda gerði það að verkum að bæirnir urðu færri og færri og jörðin hrjóstugri. En Leirubakki komst af og stendur en á sama stað. Hefðbundinn búskabur var stundaður á Leirubakka allt til ársins 1990, en þá tóku nýir eigendur við og hófust handa við að skipuleggja staðinn eins og við sjáum hann í dag.

Að Leirubakka í Landsveit er að finna stórbrotna náttúru sem einkennist af nálægð við stærsta eldfjall landsins. Hekla hefur gosið nokkrum sinnum á seinustu árum og núna seinast í febrúar árið 2000. Heklumiðstöð var opnuð að Leirubakka í júní 2002.

Leirubakki í Landsveit er paradís útivistarfólks, sumar sem vetur. Þar eru óþrjótandi möguleikar til útivistar fyrir hestamenn, vélsleðamenn, veiðimenn, göngugarpa og aðra.

Á staðnum er gistihús með aðstöðu fyrir rúmlega 50 matargesti í uppbúnum rúmum eða svefnpokaplássi. Í veitingasal má fá mat og kaffi eftir óskum. Grillaðstaða og farfuglaeldhús á staðnum.

Ráðstefnu og fundaaðstaða fyrir minni hópa í gistihúsinu og veisluskáli fyrir 100 manns (Söngskálinn) hentar vel fyrir stærri fagnaði. Heitir pottar og notaleg víkingalaug.

Á Leirubakka á Landi er rekin fjölþætt ferðaþjónusta. Þar er hótel og veitingarekstur allt árið. Á bænum er einnig tjaldstæði, bensínstöð og lítil verslun og áætlunarbílar á leið til Landmannalauga og um Fjallabaksleið koma við tvisvar á dag á sumrin.

Þá er á Leirubakka rekið hrossaræktarbú, tamningastöð og hestaleiga og mjög góð aðstaða er fyrir hestamenn sem ýmist koma ríðandi á eigin hestum og dvelja á staðnum í skemmri eða lengri tíma, eða þá sem kjósa að leigja hesta eða fara í
skipulagðar hestaferðir.

Enn má nefna Heklusetur á Leirubakka, en þar er sýning um eldfjallið, sögu þess og sambúð við þjóðina í meira en þúsund ár. Auk sýningarinnar mun Heklusetrið hýsa veitinga- og minjagripasölu,upplýsingaþjónustu við ferðamenn og funda- og ráðstefnuaðstöðu. Í framtíðinni er stefnt að því að þar verði haldnir tónleikar,
myndlistarsýningar og fleiri listviðburðir.

Leirubakki í Landsveit er í þjóðbraut allra þeirra sem fara inn á hálendi Íslands og í næsta nágrenni er fjöldi eftirtektarverðra og vinsælla staða, sem draga til sín innlenda og erlenda ferðamenn allt árið. Þar má til dæmis nefna Landmannalaugar, Hrafntinnusker, Landmannahelli, Veiðivötn, Sprengisand og sjálfa fjalladrottninguna Heklu.

Enn nær er skógurinn í Skarfanesi, Rangárbotnar, Þjófafossar, Tröllkonuhlaup, Búrfell, Réttarnes, hið fagra og fengsæla vatnsfall Ytri-Rangá og margir aðrir staðir.

Leirubakki er landstór jörð, eða hartnær 1000 hektarar og enn stærri ef taldar eru fyrrum hjáleigur heimajarðarinnar; Réttarnes, Vatnagarður, Leirubakkahóll og Leirubakkahjáleiga. Leirubakki hefur löngum verið stórbýli og um skeið var jörðin í eigu Snorra Sturlusonar og síðar Ólafar ríku, svo aðeins tveir kunnir eigendur frá fyrri öldum séu nefndir og staðarins getur bæði í Sturlungu og Byskupasögum.
Sagnfræðingurinn og sagnaþulurinn Guðni Jónsson ólst upp á Leirubakka og er minnisvarði um hann við bæinn.

Á Leirubakka var kirkja frá því fyrir 1180 og allt til 1766 og fyrr á öldum var prestur búsettur á bænum. Í kaþólskum sið var Leirubakkakirkja helguð Pétri postula. Kirkjugarðurinn á Leirubakka er enn til og munir úr kirkjunni hafa varðveitzt.

Leirubakka getur víða í fornum sögum og margar þjóðsögur tengjast bænum einnig.Á Leirubakka er staðviðrasamt og mikil veðursæld bæði að sumri og vetri og hefur það ráðið miklu um vinsældir staðarins meðal ferðamanna, sem koma þangað þúsundum saman árlega, akandi, ríðandi og gangandi

Myndasafn

Í grennd

Hekla
Eldfjallið Hekla Hekla stendur á u.þ.b. 40 km langri gossprungu með na og sv stefnu, en sjálft fjallið er nærri 5 km langt. Hæð þess losar 1500 m og …
Hella
Hella á Njáluslóð Hella á Rangárvöllum er kauptún á bökkum Ytri-Rangár. Þorpið byggðist upp á þjónustu við landbúnaðinn og þar er nú verzlun, iðnaður…
Hellismannaleið
Gönguleiðin Hellismannaleið Gönguvegalengdin er samtals um 55 km. Hér er henni skipt í þrjá þægilega áfanga. Hún hefst í Landmannalaugum og endar á R…
Landmannahellir
Landmannahellir er í móbergsfellinu Hellisfjalli sunnan Löðmunds og vestan Löðmundarvatns. Hann er 4 m hár, 8 m breiður og 14 m langur. Ferðamenn og g…
Landmannalaugar
Landmannalaugar eru í kvos á milli brattra fjalla við háa og dökka brún Laugahrauns. Undan hrauninu spretta margar heitar og kaldar lindir, sem samein…
Rjúpnavellir
Ferðaþjónustan á Rjúpnavöllum býður gestum sínum upp á rólegt og fallegt umhverfi þar sem Hekla gnæfir yfir og Ytri- Rangá rennur rétt við túnfótinn. …
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )