Jöklar Íslands
Jöklar landsins þekja rúmlega 11% af heildarfleti þess. Hinir stærstu eru á sunnanverðu landinu eða í miðju þess. Helzta ástæðan er sú, að úrkoma er meiri sunnanlands en norðan. Jöklar voru litlir á landnámsöld en stækkuðu hratt, þegar kólnaði á síðmiðöldum og þeir uxu allt fram undir aldamótin 1900. Þá tóku þeir að hörfa en en upp úr 1988 stóðu þeir að mestu í stað í nokkur ár en fóru síðan að hopa á ný. Ferðalög yfir jöklana voru ekki tíð fyrrum en eru nú daglegt brauð, bæði sumar og vetur. Meðalhiti ársins, sem er nú 5°C, þyrfti ekki að lækka mikið til þess að jöklar færu að stækka. Íslenzkir jöklar eru þíðjöklar og eitt einkenni þeirra er aragrúi af skriðjöklum, sem eru á stöðugri hreyfingu. Stundum taka þeir kipp og skríða fram með látum en hopa síðan þar til sagan endurtekur sig. Miðað við núverandi virkjunastöðu á landinu eru Vatna- og Hofsjökull mikilvægustu vatnsforðabúr fyrir orkuver okkar. Fjórir meginjöklar landsins, Langjökull, Hofsjökull, Mýrdalsjökull og Vatnajökull eru á eldvirka beltinu og á sögulegum tíma hafa eldgos verið tíðust undir hinum síðastnefnda. Ýmiss konar jöklaferðir á Snæfellsjökul, Langjökul, Mýrdalsjökul og Vatnajökul eru í boði.