Búðareyri er kauptún innst við norðanverðan Reyðarfjörð og nefnist nú einfaldlega Reyðarfjörður. Frá náttúrunnar hendi eru mjög góð hafnarskilyrði við Reyðarfjörð og er því útgerð og fiskvinnsla uppistaðan í atvinnulífi staðarins. Sunnan fjarðar er eyðibýlið Hrúteyri. Þar og á Holtastaðaeyri höfðu Norðmenn höfuðstöðvar sínar fyrir síldarútveg 1883-1890. Þá var fjörðurinn fullur af síld og verzlun á Hrúteyri. Hafnarskilyrðin ollu því, að Bretar hernámu Reyðarfjörð í síðari heimstyrjöld og höfðu þeir þar fjölmennt setulið og finnast stríðsminjar víða. Unnið er að kortlagningu minjanna og hefur þar nú verið opnað stríðsminjasafn.Við bæinn er lítil tjörn – Andapollurinn – og er eldislaxi sleppt þar í reglulega og fást keypt leyfi til að veiða laxinn.
Við Andapollinn eru og tjaldstæði Reyðfirðinga en hótel, gistiheimili, farfuglaheimili og veitingastaðir eru inni í sjálfum bænum. Tilkomumikið útsýni er frá Grænafelli en þar er mjög gróðursælt og liggur merkt gönguleið um kjarri vaxna hlíðina upp á fellið. Við fellið er góð aðstaða til íþrótta og útivistar. Vegalengdin frá Reykjavík er 677 km um suðurströndina.