Ísafjörður, sem stendur við Skutulsfjörð, hét að fornu Eyrarhreppur, en var einnig áður nefndur Eyri. Ísafjörður er gjarnan sagður vera höfuðstaður menningar og verzlunar á Vestfjörðum. Menning er þar fjölskrúðug og Ísfirðingar eru þekktir af fjölbreyttu tónlistarlífi. Verzlun hefur verið stunduð á Ísafirði frá tímum einokunarinnar og er enn rekin þar með myndarskap. Bærinn hefur lengi verið ein helzta verstöð landsins og hefur sjósókn Ísfirðinga, og annarra Vestfirðinga, verið annáluð um aldir. Merkt byggðasafn er á Ísafirði og þar er elsta hús á Íslandi, Tjöruhúsið, reist 1734. Það er í Neðstakaupstað, en þar er elzta húsaþyrping á landinu frá 1757-1875.
Skíðaíþróttin hefur lengi verið stunduð á Ísafirði. Fólk kemur víða að af landinu til að stunda þessa hollu íþrótt, enda er aðstaða með því bezta, sem gerist. Það er líflegt í bænum um páskana á árlegri skíðaviku. Margir beztu skíðamenn landsins eru frá Ísafirði og nágrannabyggðum. Fjölbreytt afþreying fyrir ferðamenn stendur til boða allt árið, hvort sem er til sjós eða lands.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 490 km.