Þessi stóri og marggreindi fjörður er nefndur Djúpið í daglegu tali. Hann er um 20 km breiður milli Stigahlíðar og Grænuhlíðar, en er innar dregur, milli Óshlíðar og Vébjarnarnúps, um 11 km og heldur þeirri breidd inn um Ögurnes. Þar þrengist Djúpið en er þó um 7-9 km breitt inn um Vatnsfjarðarnes, þar sem það greinist í Mjóafjörð og Ísafjörð. Bein lína úr mynni Djúpsins og inn að Borgareyju í Vatnsfjarðarsveit, sem er hin þriðja eyja á Djúpinu en óbyggð, er fullir 53 km.
Við Ísafjarðardjúp er öll byggð í Norður-Ísafjarðarsýslu eftir að búseta lagðist niður í Hornbjargsvita, en Jökulfirðir, mikill fjarðaklasi, sem gengur norður og austur úr utanverðu Djúpinu, eru óbyggðir. Þar var síðast búið í Grunnavík en byggðin þar fór í eyði 1962. Norðan og innan Djúpsins eru tvö fámenn byggðarlög, Snæfjallaströnd og Langadalsströnd.
Er öll utanverð Snæfjallaströnd í eyði en á Langadalsströnd, í Nauteyrarhreppi, eru mörg eyðibýli. Við Álftafjörð er allstórt þorp í Súðavík (snjóflóð 1994). Þaðan er farið um fyrstu jarðgöng, sem gerð voru hér á landi, á Arnarnesi, til Ísafjarðarkaupstaðar, en þar og í Bolungarvík býr allur þorri fólks við Djúp.