Upphaf byggðar í Hveragerði má rekja til ársins 1902, þegar ullarkembistöð var reist við Reykjafoss.
Hveragerði er byggt á jarðhitasvæði og þess vegna hefur garðyrkja og gróðurhúsarækt verið uppistaða atvinnulífs þar. Margar glæsilegar gróðrarstöðvar eru í bænum og eru ræktaðar þar hitabeltisjurtir og fjölbreytt úrval ávaxta. Eftirsóknarvert er að koma í Hveragerði og fá sér tómata, gúrkur og alls konar grænmeti. Af þessu leiðir að Hveragerði er mikill ferðamannastaður og vekur oft furðu erlendra, að bæjarbúar skuli þora að ganga daglega um með bullandi jarðhita undir fótum, enda hafa hverir átt það til að skjótast upp í híbýlum manna. Þjónusta við ferðamenn er upp á það allra bezta, hótel á heimsmælikvarða, gróðurhús með glæsilegum veitingastöðum og veiði í ám og vötnum í grenndinni.
Margir þjóðkunnir listamenn hafa setzt að í Hveragerði.
m.a.. Kristján frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundson, Jóhannes úr Kötlum.
Margar tækifærisvísur urðu til er skáldin mættust á förnum vegi í Hveragerði. Frægt var þegar Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum hittust á símstöðinni í Hveragerði og Jóhannes kastaði fram eftirfarandi vísu:
Lít ég einn sem list kann.
Löngum hafa þær kysst hann,
Kristmann.
Kristmann svaraði um hæl:
Einkum þó vér ötlum,
að þær fari úr pjötlum
— í Kötlum.
Eitt sinn átti Jóhannes í Kötlum leið um Skáldagötuna og sá þar að Kristján frá Djúpalæk var að aðstoða nágrannakonu sína Guðfinnu að nafni við garðyrkju. Kallaði þá Jóhannes til Kristjáns:
Finnfirðingur furðuslyngur
Finnu kringum dansar glatt
Mokar, stingur, másar, springur
með sinn skringilega hatt.
Kristján svaraði að bragði.
Meðan ég er að moka skít
meyja ást og virðing hlýt.
Skammir gegnum gluggann les
Goddastaða-Jóhannes.
Og fyrir utan að vera nefndur blómabærinn er gjarnan talað um staðinn sem listamannasetur. Allt í kringum Hveragerði er sannkölluð paradís fyrir útivistarfólk. Kaupstaðaréttindi fékk Hveragerði árið 1987.
Er ekki bara best að ferðast og fræðast um Ísland sem er í boði nat.is !!!
Eins og sjá hér að neðan, tengdar færslur er nat.is að reyna að halda jafnframt um gamlar og nýjar heimildir:
