Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hellisheiði

Hellisheiði

Hellisheiði er sunnan Henglafjalla. Austurmörk hennar eru um Hurðarás frá Núpafjalli, Hengladalaá. Í   norður nær hún til Litla- og Stóra-Skarðsmýrarfjalli. Í vestur nær hún að Reykjafelli og Lakahnúkum og í suður frá Hverahlíð að Hlíðarhorni og um Hurðarásvötn að Hurðarási. Þar sem hallar niður í Ölfus að austanverðu, heitir Kambar. Heiðin er víðast eldbrunnin og hraunin eru að mestu vaxin mosa og lyngi. Yngsta hraunið er talið hafa runnið frá 6 km langri sprungu árið 1000.

Þjóðvegurinn milli Reykjavíkur og Suðurlands hefur löngum legið um hana. Forna leiðin lá að austan upp Kamba, yfir Hurðarás og um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þaðan lá hún um Bolavelli vestur með Húsmúla og norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli. Þessi leið sker núverandi þjóðbraut við sækuhúsið og beggja vegna vegar sjást vörðurnar með reglulegu millibili. Norðan þjóðvegarins sést stór þúst milli varðanna. Þar er borghlaðið sæluhús, sem var byggt í kringum 1830 og er nefnt Hellukofi. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin 2 m. Það rúmaði 4-5 manns. Byggingarefni þess var sótt í svokallaða Biskupsvörðu, sem getið var í heimildum 1703. Hún var krosshlaðin til að hafa mætti skjól af henni í öllum áttum. Vesturhluti gömlu þjóðleiðarinnar liggur um hraunklappir, sem umferðin markaði allt að 20 sm djúpum förum um aldirnar. Núverandi vegur var opnaður árið 1972. Vegurinn upp Kamba var hlaðinn upp á árunum1879-80 nálægt hinni fornu leið. Vagnfær vegur yfir heiðan var lagður á árunum 1895-96 vestur fyrir Reykjafell.

Hveradalir eru sunnan og suðvestan í Reykjafelli í vesturdrögum Hellisheiðar, þar sem þjóðvegurinn liggur. Flengingarbrekka er í efsta dalnum, vestan Eldborgar. Stóridalur heitir hinn stærsti og skíðaskálinn er ofan við mynni hans. Hverirnir, sem dalirnir eru kenndir við, eru ofan hans í litlum hvammi. Hveradalaflöt, fyrrum áningarstaður ferðamanna, nær að Lakahnúkum. Skíðafélag Reykjavíkur byggði skíðaskálann árið 1934 og Reykjavíkurborg keypti hann 1971. Minnisvarðar eru ofan hans til minningar um Ludvig H. Müller (1879-1952) og Kristján Ó. Skagfjörð (1883-1957). Báðir voru kaupmenn og formenn Skíðafélags Reykjavíkur frá 1914, þegar það var stofnað. Hinni fyrri í 26 ár og hinn síðari í 11 ár. Á fjórða áratugi 20. aldar bjó um áratugs skeið danskur maður, A.C. Højer. Hann rak greiðasölu, bakaði hverabrauð og lægi mikið við, fengu ferðamenn þar gistingu. Hann bauð gufu- og leirböð. Hann kom upp vísi að gróðurhúsarækt og var líklega hinn fyrsti á því sviði.

Hengladalaá kemur úr Hengladölum og rennur fyrir Ásstaðafjall í Reykjadalsá norðaustan Kamba. Vegna mikils vatnsaga í Arnarbælisforum var gerð tilraun til að veita henni út á Hellisheiði og síðar á 19. öld vestur á bóginn og svo suður. Austarlega á heiðinni má sjá merki um eina þessara tilrauna frá þjóðveginum.

Sumarið 2003 hafði Orkuveita Reykjavíkur látið bora 7 tilraunaholur vegna fyrirhugaðrar virkjunar á Hellisheiði. Síðla árs 2008 var afl Hellisheiðarvirkjunar 213 MW.

Kristnitökuhraun kom upp úr 6,5 km langi gossprungu í nokkrum taumum austan Reykjafells, milli Stóra-Skarðsmýrarfjalls og Litla-Meitils. Helztu örnefni í hrauninu eru Orrustuhólshraun, Þurrárhraun og Eldborgarhraun (austan Litla-Meitils niður að Hjalla í Ölfusi). Hveradalahraun rann til vesturs og breiddist yfir Svínahraun austanvert. Í tengslum við Kristnitökuna árið 1000 er hægt að leiða líkum að því, að Eldborgarhraunið hafi ógnað bústað Þórodds goða að Hjalla. Jón Jónsson, jarðfræðingur heitinn, taldi þessi hraun eldri og nefndi þau Hveradalahraun. Hraunið vestan Lambafells, úr Eldborg, sagði hann geta verið frá árinu 1000 og kallaði það Lambafellshraun. Þorleifur Einarsson heitinn, jarðfræðingur, kallaði það Svínahraunsbruna yngri.

Lakahnúkar er hnúkaröð suður frá Reykjafelli, Efri-Hveradalabrekku, að Hálsum. Hæst ber þá 222 m.y.s. Dýpsta lægðin milli þeirra heitir Djúpilaki. Lakadalur er milli syðsta hluta þeirra og Stóra-Sandfells.

Meitlar, Stóri- og Litli- (521m og 477m) eru norðan Selvogs. Hinn stóri er beint sunnan Skíðaskálans í Hveradölum. Gígur hans er mjög stór. Vegurinn um Þrengslin liggur framhjá báðum Meitlunum. Vestan Litla-Meitils er standberg, sem vatn drýpur stöðugt af og er kallað Votaberg.

Myndasafn

Í grennd

Hellisheiðarvirkjun
Hellisheiðarvirkjun Orka náttúrunnar á og rekur þrjár virkjanir sem eru jarðhitavirkjanirnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjunin í And…
Hveragerði
Upphaf byggðar í Hveragerði má rekja til ársins 1902, þegar ullarkembistöð var reist við Reykjafoss. Hveragerði er byggt á jarðhitasvæði og þess vegna…
Kambar
Kambar nefnist hlíðin, sem ekin er niður af austanverðri Hellisheiði vestan Hveragerðis. Í fyrndinni runnu þar hraunflóð niður hana. Vegurinn niður Ka…
Kolviðarhóll
Kolviðarhóll undir Hellisskarði var vinsæll og nauðsynlegur gististaður þeirra mörgu, sem fóru um   Hellisheiði fyrrum. Aðalleiðin lá um Hellisskarð e…
Litla kaffistofan
Litla kaffistofan í Svínahrauni stendur á mörkum gömlu og nýju þjóðleiðarinnar yfir Hellisheiði.  Þar   njóta margir góðra veitinga allt árið og þakka…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )