Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hverasvæðið í Hveragerði

Hveragerði er hluti af jarðhitasvæðis Hengilseldstöðvarinnar í rekbelti Mið-Atlantshafsins. Austar er   breitt gosbelti, sem teygist frá Heklu og Vestmannaeyjum inn undir Vatnajökul, um Kverkfjöll og Dyngjufjöll norður til Öxarfjarðar. Þar byggist gosvirknin að langmestu á svokölluðum heitum reit, en ekki á plötureki eins og í rekbeltinu. Jarðhitasvæðin myndast á brotasvæðum jarðskorpunnar og gropnum móbergslögum fyrir tilstilli flekahreyfinga og jarðskjálfta, sem geta haldið þeim við eða gert þau óvirk. Þau skiptast í u.þ.b. 30 há- og 300 lághitasvæði. Háhitasvæðin eru innan beggja gosbeltanna. Þau eru mun öflugri en lághitasvæðin og séu þau sýnilega á yfirborðinu ber mest á gufuaugum, brennisteini og bullandi leirhverum. Sé hitinn á 1000 m dýpi hærri en 200°C teljast þau háhitasvæði. Lághitasvæðin eru að langmestu leyti utan gosbeltanna og hitinn á sama dýpi er innan við 150°C. Þau eru ólík háhitasvæðunum, því þar ber lítið eða ekki á brennisteinsgufum og þar eru bullandi vatnshverir, goshverir eða laugar.

Háhitasvæði Hengilsvæðisins eru hundruð þúsunda ára gömul og elzti hlutarnir eru í og við Hveragerði. Forfeður okkar höfðu ímigust á hverasvæðum. Þau voru hættulegur farartálmi og lítt nýtileg, en ferðamönnum þótti og þykir gaman að sjá goshveri. Litli-Geysir á hverasvæðinu var einn slíkur en hann er horfinn. Nýting jarðhitans í Hveragerði hófst í kringum 1930 fyrir Mjólkurbú Ölfusinga úr öflugum gufuhver, Bakkahver, og tíu árum síðar var fyrsta holan boruð niður á 54 m dýpi og gufan var nýtt í gróðurhúsinu í Fagrahvammi, þar sem ylrækt hófst. Holan er löngu horfin en hún réði úrslitum um framtíð Hveragerðis sem ylræktarþorps. Bakkahver er enn þá þarna með pýramídalöguðu þaki. Manndrápshver fékk nafn sitt af banaslysi 1906, sem varð til þess að farið var að huga að götulýsingu í bænum, hinni fyrstu á landinu. Litur vatnsins í Bláhver gaf honum nafn. Hvergerðingar hentu miklu rusli í hver, sem fékk nafið Ruslahver (Önnuhver). Hann spjó því öllu í jarðskjálftunum 1947. Leirhverinn Dynkur, sem hefur stækkað mikið, var lítið gufuauga 1991.

Hitaveita Hveragerðis nýtir borholurnar HS-02 (311m) og HS-08 (254m), sem voru boraðar 1950 og 1988. Hitaþolnar örveirur í hverunum eru nýttar til framleiðslu hvata (ensíma). Fjöldi þessara örveirna er mikill og sumar sjást með berum augum, s.s. hin blágræna Masigolcladus Laminosus (grænt slim) og hin græna Chloroflexus, sem er í rauninni með glóaldinlit. Umhverfis og í súrum leirhverum þrífast Archaea-fornbakteríur, sem eru loftháðar og mynda eins konar brák ofan á leiðjunni. Cyanidium-grænþörungurinn þolir mikla sýru og er víða í hverahrúðri og kringum gufuop. Hvítgráir flekkir eru brennisteinsoxandi bakteríur. Rannsóknir hafa leitt til uppgötvunar fleiri tegunda og stöðugt er unnið að því, að fá gleggri mynd af örveiruflórunni með það fyrir augum að framleiða verðmæta hvata.

Móttökuskáli fyrir gesti með upplýsingum um jarðhita, örveirufræði, jarðfræði og eldvirkni var reistur við austanvert svæðið og leiðsögn um svæðið er í boði.

Í Hveragerði liggja göngustígar um miðbæjartorgið, skrúðgarðinn á Fossflötinni, Sandskeiðið, sunnan undir Hamrinum, Fagrahvammstúnið, Heilsustofnun NLFÍ og meðfram Varmá inn í Ölfusdal. Þessi svæði tengjast jafnframt neti göngustíga í landi Garðyrkjuskóla ríkisins, undir Reykjafjalli og í Ölfusborgum. Þá er tilvalið að labba upp á Hamar en þaðan sést yfir Hveragerði, Suðurlandsundirlendið og Ölfusdalinn í norðri. Vel má merkja jökulrákir frá síðasta jökulskeiði í Hamrinum. Velja má lengri og skemmri gönguleiðir allt eftir þörfum hvers og eins. Allir ættu því að finna gönguleiðir við hæfi.

VÖLLURINN – ÁRHÓLMAR

Sléttlenda dalverpið, sem blasir við úr Kömbum norðan Hveragerðis og Hamarsins, er í rauninni ónefnt. Árið 1703 talar Hálfdán á Reykjum um Völlinn eða Árhólma, þótt eldri nafngift finnist ekki. Vorsabæjarvellir eru fremri hluti dalsins allt að Hengilsá eins og hún rann áður neðar í honum norðan núverandi hesthúsa. Norður að núverandi farvegi heitir Árhólmar. Líklega flutti áin sig snemma á 20. öld. Hengladalsá rennur um Svartagljúfur norðan Kamba og Svartagljúfursfoss nokkra metra frá veginum nyrzt í Kömbum. Fyrrum féll hún um Nóngil tvö, litlu norðar.

Norðan undir Hamrinum er upphlaðinn hver, Grýla, sem gaus reglulega á 1½ klst. fresti en hefur látið af slíkri reglusemi. Annar frískari goshver er nú sunnan ár nær Menntaskólaseli. Fyrrum voru sel frá Reykjabæjartorfu og Vorsabæ í dalnum og síðar var stofnað til nýbýla þar (Friðarstaðir, Gufudalur). Reykjakot var þar frá fornu fari og nýbýlið Reykjakot II var reist þar skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina. Menntaskólaselið stendur milli Reykjakotanna. Það var byggt 1938 og tekið í notkun í janúar 1939 sem orlofsheimili fyrir kennara og nemendur Menntaskólans í Reykjavík. Milli þess og Fossmóa var boruð hola 1940. Þar kom upp gufa af 21 m dýpi og fyrsta rafstöð landsins, sem gekk fyrir gufuafli var reist þar.

Upp frá þessu ónefnda dalverpi ganga þrír samsíða dalir um 4 km til norðurs, Reykjadalur (vestast), Grændalur (í miðju) og ónefndur dalur (austast), sem Sauðá rennur um. Gönguferðir um þá eru öllum ógleymanlegar vegna staðhátta, jarðhita (baðmöguleikar) og grózku.

 

Myndasafn

Í grennd

Hveragerði
Upphaf byggðar í Hveragerði má rekja til ársins 1902, þegar ullarkembistöð var reist við Reykjafoss. Hveragerði er byggt á jarðhitasvæði og þess vegna…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )