Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Reykir Ölfusi

Fyrrum stórbýlið Reykir í Ölfusi er við rætur Reykjafjalls austan Varmár við bæjarmörk Hveragerðis. Þarna er mikið jarðhitasvæði, sem tengist Hengilssvæðinu. Nafnið Hveragerði náði yfir hverasvæðið, sem er enn þá í bænum en þó mikið breytt vegna nýtingar. Upp með Varmá og í dalskvompunum og hlíðunum er veruleg hveravirkni en jarskjálftar valda miklum breytingum af og til.

Reykir eru austan Varmár, sem var brúuð 1940 hjá Fagrahvammi. Fyrrum var hún farin á vöðum, Tíðavaði litlu ofar brúarinnar eða fossvaði skammt ofan Reykjafoss. Hveragerði nær ekki yfir byggðina austan árinnar, sem tilheyrir Ölfusi.

Sagt er, að Karli, þræll Ingólfs Arnarsonar, sem mælti hin fleygu orð: „Til ills forum vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.”, hafi flúið Reykjavík og setzt að á Reykjum með ambátt. Samkvæmt Landnámu lét Ingólfur gera skála á Skálafelli. Þaðan sáust reykir við Ölfusvatn, þar sem Karli fannst. Karli og ambáttin voru í kröggum, þegar þau eignuðust son, og skírðu hann Kröggólf (Kröggólfsstaðir).

Reykir voru fyrrum setur höfðingja, s.s. Gissurar jarls Þorvaldssonar á 13. öld og Odds Gottskálkssonar, lögmanns, á 16. öld. Skömmu eftir Apavatnsfund heimsótti Sturla Sighvatsson Gissur og knúði hann til hollustu við sig en hann rauf eiðinn, er hann vó Sturlu í Örlygsstaðabardaga um sumarið (1238). Oddur Gottskálksson vann að þýðingu Nýja testamentisins að Reykjum skömmu eftir 1540. Skömmu fyrir 1930 keypti ríkið jörðina og Hveragerði fór að byggjast. Þar var starfrækt hressingarhæli fyrir berklasjúklinga um tíma og Garðyrkjuskóli ríkisins var stofnaður 1939.

Reykir voru kirkjustaður um níu alda skeið til 1908, þegar kirkjan fauk af grunninum. Bærinn var einnig prestsetur til siðaskipta en síðan varð kirkjan útkirkja frá Arnarbæli. Kirkjugarðurinn er enn þá sýnilegur sunnan aðalbyggingar skólans. Ekki sést móa fyrir rústum bæjarhúsa eða kirkju.

Sundlaugin í Laugarskarði er í landi Reykja. Lárus Rist stóð í fararbroddi ungmennafélagsins við gerð hennar. Hún var tekin í notkun 1938 og var lengi vel eina 50 m Langa sundlaugin í landinu.

Myndasafn

Í grennd

Hveragerði
Upphaf byggðar í Hveragerði má rekja til ársins 1902, þegar ullarkembistöð var reist við Reykjafoss. Hveragerði er byggt á jarðhitasvæði og þess vegna…
Hverasvæðið í Hveragerði
Hveragerði er hluti af jarðhitasvæðis Hengilseldstöðvarinnar í rekbelti Mið-Atlantshafsins. Austar er   breitt gosbelti, sem teygist frá Heklu og Vest…
Ölfus
Austanverð mörk sveitarfélagsins Ölfus liggja austan Alviðru undir Ingólfsfjalli og um Ölfusá til sjávar. Vestasti bær er Hlíðarendi og sveitarfélagið…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )