Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Grindavík Ferðast og Fræðast

Grindavík á Reykjanesi

Grindavík var öflugasti útgerðarstaður landsins fyrir gosið á Reykjanesi . Þar var mikil gróska í útgerð og fiskvinnslu sem veita íbúum og fjölda aðkomumanna atvinnu. Ferðaþjónusta var þar í örum vexti og verslun og léttari iðnaður þrífast vel. Í Grindavík er skrúðgarðurinn Sólarvé, rétt við sundlaugina, en hann er hlaðinn í fornum stíl og ber vitni horfinni menningu landsins.

Gamla kirkjan var reist árið 1909 (-1982), að mestu leyti úr efni kirkjunnar að Stað (1858). Hún var afhelguð 1982 og nýtt sem barnaheimili eftir 1988. Nálægt henni er Krosshús, þar sem Halldór Laxnes skrifaði Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns og Garðhús Einars G. Einarssonar, fyrsta kaupmanns Grindavíkur.

Strandhögg Tyrkja í Grindavík 1627 er vel þekkt meðal þjóðarinnar, en áður kom oft til ófriðsamlegara aðgerða, eins og þegar Íslendingar, Danir og Þjóðverjar sameinuðust gegn Englendingum árið 1532.

Hópsnes liggur innanvert milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur. Austurhlutinn heitir Þorkötlustaðanes. Vitinn þarna var reistur 1928.

Í Svartsengi við Grindavík er mikill jarðhiti og þar var reist öflugt orkuver, sem þjónar Suðurnesjum og er tengt landskerfinu. Affallsvatn frá orkuverinu myndar Bláa Lónið, sem var nýtt til baða áður en aðstaðan var færð í nútímahorf 1999.

Grindavík meira:

Bláa Lónið – heilsulind
Heilsulindin er vel þekkt víðsvegar um heiminn og hefur meðal annars fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Í lóni heilsulindarinnar eru 6 milljónir lítra af hreinum jarðsjó sem leiddur er í lögn frá uppsprettunni að lóni heilsulindarinnar. Jarðsjórinn í lóninu endurnýast á rúmum sólarhring. Auk þess að slaka á í hlýju lóninu hafa gestir aðgang að eimböðum og sauna auk þess sem þeir geta brugðið sér undir foss og upplifað hressandi herðanudd. Spa meðferðir og nudd sem fram fer í lóninu er einnig fáanlegt.

Veitingar eru fáanlegar í bistrói þar sem boðið er upp á létta hressingu og á veitingastað þar sem gestir geta notið matarins og einstaks umhverfis. BLUE LAGOON húðvörur innihalda jarðsjó og einstök virk hráefni hans: steinefni, kísil og þörunga. Gott úrval vara er fáanlegt í verslun í heilsulind. Þar er einnig fáanleg falleg gjafavara.

Bláa Lónið – lækningalind
Góð áhrif böðunar í jarðsjónum við húðsjókdómnum psoriasis er þekkt. Meðferðin hefur verið veitt um árabil. Í júní á þessu ári var tekin í notkun ný og glæsileg lækningalind. Auk lóns eingöngu ætlað meðferðargestum er innilaug og gisting fyrir allt að 30 gesti í lækningalind.

Margir dvelja á Northern Light Inn, sem er hótel rétt við Blá lónið og nota heilsulindina og læknalind, fara í gönguferðir, veiða í vötnum og fara í golf en á Reykjanesi eru fjórir golfvellir, einn 18 holu og þrír 9 holu. Það er því hægt að velja sér margs konar aðstæður og umhverfi í nágreni Grindavíkur og við Bláa lónið.

Gjáin í Eldborg
Sýning Hitaveitu Suðurnesja um jarðfræði, jarðhita og vinnslu orku úr iðrum jarðar við orkuverið í Svartsengi.
Leikir sem lærðir njóta sýningarinnar í Gjánni, sem leiðir gesti um almenna jarðfræði jarðarinnar, jarðfræði landsins, Reykjaness og Svartsengis og skýrir tengsl skyldra fræðigreina með forrannsóknum og eftirliti á háhitasvæðum. Jarðboranir á slíkum svæðum eru einnig skýrðar og farið í gegnum framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns í orkuverinu í Svartsengi.
Tæknibúnaður sýningarinnar er mjög fullkominn. Unnt er að sýna margar myndir í einu og tengja þær ýmsum hljóðum samtímis. Myndir er m.a. sýndar á 42” plasmaskjám og geymdar á stafrænum MPEG mynd- og hljóðgrunnum. Allar myndir eru með víðómi. Í enda Gjárinnar er stærra sýningartjald í hvelfingu. Það er tengt kvikmyndahljóðkerfi fyrir Dolby-umhverfishljóð, sem eru geymd á stafrænum hljóðkerfum, og ljósum, sem er stýrt í samræmi við viðburðina.
Ár hvert koma þúsundir gesta í Svartsengi til að kynna sér starfsemi Hitaveitu Suðurnesja. Þarna eru á ferðinni ferðamenn, skólafólk, fjölskyldur og sérfræðingar á ýmsum sviðum jarðvísinda. Hitaveitunni þótti tímabært að skapa aðstöðu til gestamóttöku og veita nokkra innsýn í undur íslenzkrar náttúru og aðferðirnar, sem er beitt við breytingu náttúruaflanna í birtu og yl fyrir byggðirnar á Suðurnesjum.
Eldborg, kynningar- og mötuneytishús Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og Gjáin, eru kjörin vettvangur fyrir þessa kynningu auk kynningar á sögu Hitaveitunnar, Bláa lónsins og samfélagsins á Suðurnesjum.
Gjáin er opin á auglýstum tímum hverju sinni en einnig er unnt að panta sérstaka skoðunartíma. Frá 15. maí til 31. ágúst er Gjáin opin frá 10.00 – 17.00 og frá 1. September til 14. maí frá 10.00 til 16.00

Festarfjall (190m) er skammt austan Grindavíkur og rís þverhnípt úr hafi en vestan þess er Hraunsandur eða Ægissandur í lítilli vík. Fjallið er úr móbergi en í því er grágrýtis- gangur, sem það dregur nafn af. Þessi gangur var gerður að silfurfesti tröllkerlingar í þjóðsögunni. Margir stanza við víkina til að huga að fugli, s.s. skarfi, fýl, ritu, æðar- fugli o.fl. Í Grindavík er félagsheimili, sem ber nafn fjallsins, Festi.

Á Selatöngum, miðleiðis milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, er gömul verstöð, sem enn þá sjást merki um og er þess virði að skoða. Þar var mikið útræði, sem lagðist niður í kringum 1880.

Krýsuvík er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar en byggð lagðist af á hinu forna höfuðbóli á 20. öldinni. Þar var talsverð gróðurhúsarækt og refabú í restina. Bærinn stóð fyrrum nokkuð vestar, upp af núverandi Hælisvík. Hann tók af, þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið af gróðurlendi jarðarinnar. Þar var samt stórbýli fram á 19. öld og heil kirkjusókn vegna fjölda hjáleigna. Kirkjan, sem stendur enn þá, var reist 1857.
Hún var endurbyggð og endurvígð 1964 og afhent þjóðminjaverði til varðveizlu. Á jarðhitasvæðinu var borað eftir gufu til virkjunar fyrir Hafnarfjörð, en ekkert hefur orðið úr framkvæmdum enn þá. Hverasvæðið er athyglisvert og mikið heimsótt. Á landareigninni milli Sveifluháls og Lönguhlíðar eru margar aðrar forvitnilegar jarðmyndarnir, s.s. sprengigígurinn Grænavatn (46 m djúpur) og Eldborg undir Geitahlíð, sem er einn margra hraungíga á svæðinu.
Heimavistarskóli var byggður árið 1967 handa börnum, sem bjuggu við félagslega erfiðar aðstæður. Framkvæmdir stöðvuðust eftir að fyrsta áfanga var lokið og ekkert var gert frekar í langan tíma. Um tíma var húsnæðið notað í leyfisleysi sem svínabú. Nú er þar endurhæfingarstöð fyrir fórnarlömb eiturlyfja.

Clint Eastwood gerði þar kvikmynd sína í Sandvík „Flag of our fathers„, sem fjallar um stríðsátökin á Iwo Ima í síðari heimsstyrjöldinni.

Krýsuvíkurberg er sunnan Krýsuvíkur. Svartfugl og rita verpa þar aðallega. Vegaslóði liggur niður á bjargbrún og margir sækja þangað til að skoða fuglalífið. Vitinn var reistur árið 1965.

Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og einnig var talsvert rætt um að reisa magnesíumverksmiðju. Árið 2003 var hafin bygging stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð.

Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum og þrisvar hafa orðið til eyjar, sem hurfu nokkurn veginn jafnskjótt og þær urðu til.

Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið gegnt Ísal og a.m.k. einn bær og önnur mannvirki grófust undir því.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells. Óbrennishólmi er norðvestan Húshólma. Þar sjást leifar grjóthleðslu, sem er að mestu undir hrauni, auk tveggja hruninna fjárborga. Selatangar, sem voru mikil útgerðarstöð eins og rústir mannabústaða og fiskbyrgja gefa til kynna, eru í vestanverðu Ögmundarhrauni.
Hraunið var erfitt yfirferðar fyrrum en núna liggur um það vegur milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, sem sumir halda að sé friðlýstur, því að honum er lítið sinnt, þótt fjölfarinn sé.

Eins og sjá hér að neðan, tengdar færslur er nat.is að reyna að halda jafnframt um gamlar og nýjar heimildir:

Myndasafn

Í grennd

Bláa Lónið
Afrennslisvatn frá orkuverinu í Svartsengi myndaði hið upphaflega Bláa lón. Það varð og er enn þá, í nýrri aðstöðu, fjölsóttasti ferðamannastaður land…
Brúin milli Heimsálfanna
Samkvæmt jarðfræðikenningum reka Norður-Ameríku og Evrasíuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi og annars staðar í rekbeltinu. Plötuskilin afmarkast a…
Einar í Garðhúsum
EINAR Í GARÐHÚSUM Garðhús „Einar G. Einarsson, bóndasonur frá Garðhúsum í Grindavík, var aðeins tuttugu og fjögurra ára er hann sótti um verslunarle…
Eldgos í Geldingadölum
Eldgos við Fagradalsfjall Að kveldi 19.mars 2021 um kl 20:45 hófst síðan eldgos rétt austan við Fagradalsfjall í Geldingardölum. Gosið var talið líti…
Eldgos við Sundhnúk Reykjanesi
Fjórða eldgosið á Reyjanesskaga á þessari öld var við Sundhnúk. Eftir mikla hrinu jarðskjálfta frá lokum október hófst eldgos með miklum látum milli …
Fagradalsfjall
Fagradalsfjall er vestast af lágu fjöllum Reykjanesskagans, 385 metra hátt fjall sem mótaðist á síðasta hluta ísaldar sem stóð í um 100.000 ár, líkleg…
Festarfjall – Selatangar
Festarfjall (190m) er skammt austan Grindavíkur og rís þverhnípt úr hafi en vestan þess er    eða   Ægissandur í lítilli vík. Fjallið er úr móbergi en…
Golfklúbbur Grindavíkur
Golfklúbbur Grindavíkur var stofnaður 14. maí 1981. Völlurinn er nú (2004) 13 holu völlur, fimm þeirra eru á bökkunum og átta eru norðan þjóðvegarins…
Gönguleiðir Reykjanes
Gönguleiðir um Reykjanes. Vogar-Njarðvík.  Ævagömul leið liggur um Reiðskarð yfir Vogastapa og Grímshól. Vogar-Grindavík. Þessi leið er kölluð Skó…
Kirkjur á Reykjanesi
Listi yfir flestar kirkjur landshlutans Grindavíkurkirkja Hvalsneskirkja Kálfatjarnarkirkja Kálfatjörn Keflavíkurkirkja …
Reykjanes, ferðast og fræðast
Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafe…
Sandvík
Stóra- og Litla-Sandvík eða Sandvíkur eru sunnan Hafnabergs á Reykjanesi. Þar er vinsæll áningarstaður   ferðafólks á leið um utanvert Reykjanes. Sum…
Sögustaðir Reykjanesi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Almenningur Reykjanes Básendar Brennisteinsfjöll Brúin Milli Heimsálfanna Eldborg…
Tjaldstæði Grindavík
Tjaldstæðið í Grindavík opnaði sumarið 2009. Mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn sem gista í tjöldum, fellihýsum, húsbílum og hjólhýsum. Tveir leikvellir…
Veiði Reykjanes
Stangveiði á Reykjanesi. Hér er listi yfir flestar silungsár og silungsvötn. Silungsveiði Reykjanesi …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )