Austustu bæir undir Eyjafjöllum eru Eystri- og Ytri-Skógar. Þar hóf héraðsskóli Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga starfsemi 1949. Þar er sundhöll og skólinn er nýttur sem sumarhótel. Sama ár var opnað byggðasafn sömu aðila að Skógum. Frumkvöðull þess og safnvörður síðan er Þórður Tómasson (f. 28. apríl 1921- d. 27. janúar 2022). Hann hefur byggt safnið upp frá grunni og hefur m.a. fært út kvíarnar með söfnun gamalla húsa, sem hafa verið endurreist á lóð safnsins. Kirkjan er nýsmíði en munir hennar eru gamlir. Þórður hefur ekki látið duga að bjarga gömlum gripum frá glötun, heldur skrifað margar bækur um þjóðleg fræði. Hann varð heiðursdoktor við H.Í. 1996. Safninu hefur vaxið fiskur um hrygg fyrir elju Þórðar og árið 1998 var skrifað undir samning um byggingu samgöngusafns að Skógum, sem var opnað 2002.
Enginn ætti að láta hjá líða að skoða Skógasafn. Skógasandur er geysimikið flæmi og nær alveg niður að sjó. Næst veginum við Skóga er mikil nýrækt á sandinum og niðri við sjó er oftast hægt að komast í návígi við selinn. Frá Skógum til Þórsmerkur er vinsæl gönguleið yfir Fimmvörðuháls. Kynnisferðir hf heldur uppi áætlun að Skógum á sumrin.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 150 km.